Eftirlaun ráðherra og þingmanna kostuðu ríkissjóð 876 milljónir króna í fyrra
Umdeild eftirlaunalög ráðamanna frá árinu 2003 voru felld úr gildi 2009. Fjöldi ráðamanna fær þó enn greitt á grundvelli laganna, eða alls 257 fyrrverandi þingmenn og 46 fyrrverandi ráðherrar. Einn fyrrverandi forsætisráðherra fær til að mynda 1,9 milljónir króna í eftirlaun á mánuði þrátt fyrir að vera enn starfandi á vinnumarkaði.
Á árinu 2021 fengu alls 257 fyrrverandi þingmenn eða varaþingmenn greidd eftirlaun upp á samtals 694,4 milljónir króna í samræmi við umdeild eftirlaunalög sem sett voru árið 2003, en afnumin vorið 2009. Þeim sem fá greitt með þessum hætti hefur fjölgað um 64 á síðustu tveimur árum.
Auk þess fengu 46 fyrrverandi ráðherrar greitt samkvæmt lögunum, en greiðslur til þeirra námu samtals 181,5 milljónum króna. Það eru sex fleiri en fengu greitt á árinu 2019. Samtals námu því lífeyrisgreiðslur til þess hóps fyrrverandi ráðamanna 875,9 milljónum króna, sem er 205,3 milljónum krónum meira en greitt var til þeirra á grundvelli eftirlaunalaganna árið 2019. Greiðslurnar hafa því aukist um 44 prósent á tveimur árum.
Þetta kemur fram í upplýsingum sem Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins (LSR) tók saman fyrir Kjarnann. Í svari sjóðsins er lögð áhersla á að greiðslur vegna þessara réttinda koma úr ríkissjóði en ekki frá LSR og felst aðkoma sjóðsins að mestu leyti í utanumhaldi og afgreiðslu.
Þar kemur einnig fram að enginn fyrrverandi þingmaður né ráðherra greiði lengur iðgjald til sjóðsins af föstu starfi á vegum ríkisins eða stofnana þess.
Fyrrverandi forsætisráðherra með 1,9 milljón á mánuði
Hægt er að þiggja eftirlaunin þótt viðkomandi starfi áfram. Þannig háttar til að mynda með Davíð Oddsson, ritstjóra Morgunblaðsins og fyrrverandi forsætisráðherra. Davíð varð 74 ára síðastliðinn mánudag. Davíð hefur getað þegið eftirlaunin frá 65 ára aldri, eða í níu ár.
Í tekjublaði Frjálsrar verslunar sem kom út í fyrra kom fram að Davíð hafi verið að meðaltali með tæpar 5,5 milljónir króna í tekjur á árinu 2020. Þorri þeirrar upphæðar kemur til vegna launa sem ritstjóri Morgunblaðsins.
Þegar hann bauð sig fram til forseta sumarið 2016 greindi Davíð hins vegar frá því að hann hefði 80 prósent af launum forsætisráðherra í eftirlaun auk þess sem hann á þeim tíma fékk um 70 þúsund krónur eftir skatt í eftirlaun vegna starfa sinna sem seðlabankastjóri eftir að hann hætti á þingi. Samtals eru laun Katrínar Jakobsdóttur forsætisráðherra nú 2.360.053 krónur á mánuði. Samkvæmt því er Davíð með tæplega 1,9 milljónir króna í eftirlaun á mánuði vegna ráðherrasetu hans.
Davíð er eini fyrrverandi ráðherrann sem fær 80 prósent af launum eftirmanns síns, en aðrir slíkir fá 70 prósent þeirra. Ástæðan er sú að sérstakt ákvæði var sett í lögin sem tryggði forsætisráðherra sem hefði setið lengur en tvö kjörtímabil 80 prósent af launum starfandi forsætisráðherra. Þegar lögin voru samþykkt var Davíð að hefja sitt fjórða kjörtímabil sem forsætisráðherra. Hann færði sig skömmu síðar yfir í utanríkisráðuneytið og hætti í stjórnmálum árið 2005, þá tæplega 58 ára gamall. Sama ár var hann gerður að seðlabankastjóra og starfaði sem slíkur til 2009. Nokkrum mánuðum eftir að Davíð var gert að hætta sem seðlabankastjóri tók hann við ritstjórn Morgunblaðsins og hefur setið í þeim stól alla tíð síðan.
Umdeild lög sem afnumin voru eftir bankahrun
Greiðslurnar sem raktar eru hér að ofan eru, líkt og áður sagði, samkvæmt réttindum sem áunnin voru vegna laga sem samþykkt voru árið 2003 um eftirlaun forseta Íslands, ráðherra, alþingismanna og hæstaréttardómara eða eldri laga um lífeyrissjóði alþingismanna og ráðherra.
Lögin, sem voru afar umdeild og juku eftirlaunaréttindi þingmanna og ráðherra stórkostlega, voru afnumin með lögum 25. apríl 2009. Því er starfandi þingmaður eða ráðherra ekki lengur að vinna sér inn réttindi samkvæmt gömlu og umdeildu eftirlaunalögunum.
Í dag greiða þingmenn og ráðherrar einfaldlega í A-deild LSR og ávinna sér þar samskonar réttindi og allir aðrir sjóðsfélagar.
Þeir sem höfðu áunnið sér rétt til töku lífeyris áður en eftirlaunalögin voru afnumin halda þó sínum áunnu réttindum. Það á við um alla þingmenn og ráðherra sem greiddu iðgjöld samkvæmt lögunum frá því að þau tóku gildi 2003 og þangað til að þau voru afnumin skömmu eftir bankahrunið.
Fjöldi þeirra fyrrum þingmanna eða varaþingmanna sem þiggja eftirlaun samkvæmt lögunum frá 2003 fjölgaði töluvert ár frá ári eftir að lögin voru samþykkt. Árið 2007 voru þeir 129 talsins og voru orðnir 218 árið 2013.
Árið 2019 voru þeir 193 og 257 í fyrra. Þeim fjölgaði því um þriðjung á tveimur árum.
Ráðherrar sem fengu greidd eftirlaun samkvæmt lögunum voru 35 árið 2007 og voru orðnir 49 árið 2013. Árið 2019 voru þeir hins vegar 40 talsins og 46 í fyrra.
Rýmri eftirlaunaréttur vegna þess að það var erfitt að fá vinnu
Frumvarpið umdeilda varð að lögum í desember 2003. Fyrir utan að það fæli í sér mun rýmri eftirlaunaréttindi fyrir forseta Íslands, ráðherra, þingmenn og hæstaréttardómara en tíðkaðist almennt þá var einnig kveðið á um það að fyrrverandi ráðherrar sem höfðu setið lengi gætu farið á eftirlaun við 55 ára aldur.
Flutningsmenn frumvarpsins voru upphaflega úr öllum stjórnmálaflokkum sem þá sátu á Alþingi. Eftir að innihald þess komst í umræðuna snerist hluti flutningsmanna gegn því. Halldór Blöndal mælti fyrir frumvarpinu, en hann hafði lengi verið þingmaður og ráðherra Sjálfstæðisflokksins.
Í greinargerð frumvarpsins sagði að skýring þess að umræddur hópur ráðamanna ætti að fá rýmri eftirlaunarétt en aðrir væri sú að þetta væru æðstu opinberu embætti og störf í þjóðfélaginu og vandasöm eftir því. „Forseti Íslands og alþingismenn þiggja umboð sitt til starfa beint frá þjóðinni í almennum kosningum og sækja endurnýjun þess á a.m.k. fjögurra ára fresti. Sama gildir í raun og veru um ráðherra. Það er því lýðræðisleg nauðsyn að svo sé búið að þessum embættum og störfum að það hvetji til þátttöku í stjórnmálum og að þeir sem verja meginhluta starfsævi sinnar til stjórnmálastarfa á opinberum vettvangi og gegna þar trúnaðar- og forustustörfum geti dregið sig í hlé og vikið fyrir yngra fólki án þess að hætta fjárhagslegri afkomu sinni.“
Styrktu Kjarnann hér:
Þá sagði einnig að það væri mikilsvert í lýðræðisþjóðfélagi að ungt efnisfólk gæfi kost á sér til stjórnmálastarfa og þyrfti ekki að tefla hag sínum í tvísýnu með því þótt um tíma byðust betur launuð störf á vinnumarkaði. „Svo virðist sem starfstími manna í stjórnmálum sé að styttast eftir því sem samfélagið verður opnara og margþættara og fjölmiðlun meiri og skarpari. Við því er eðlilegt að bregðast, m.a. með því gera þeim sem lengi hafa verið í forustustörfum í stjórnmálum kleift að hverfa af vettvangi með sæmilega örugga afkomu og án þess að þeir þurfi að leita nýrra starfa seint á starfsævinni.“
Stjórnarþingmenn auk eins annars tryggðu málinu framgang
Allir þingmenn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks, sem mynduðu ríkisstjórn þess tíma, greiddu atkvæði með frumvarpinu. Aðrir greiddu ýmist atkvæði á móti eða sátu hjá, nema Guðmundur Árni Stefánsson, þá þingmaður Samfylkingarinnar, en hann var einn flutningsmanna frumvarpsins. Guðmundur Árni greiddi atkvæði með því að frumvarpið yrði að lögum.
Í desember 2008, fimm árum og einum degi eftir að eftirlaunalögin voru samþykkt, breytti Alþingi þeim og hækkaði meðal annars lágmarksaldur við eftirlaunatöku úr 55 árum í 60.
Áunnin réttindi stóðu hins vegar eftir óskert og því ljóst að margir fyrrum forvígismenn stjórnmálanna hafi náð að safna töluverðum réttindum á meðan að lögin voru í gildi. Lögin umdeildu voru loks afnumin vorið 2009 hvað varðar þingmenn og ráðherra þó kaflarnir um hæstaréttardómara og forseta hafi verið látnir halda sér. Málið var á meðal þeirra sem rötuðu í verkefnaskrá minnihlutastjórnar Samfylkingar og Vinstri grænna, sem var varin af Framsóknarflokknum, og sat frá byrjun febrúar 2009 og fram að kosningum í apríl sama ár.
Lestu meira:
-
11. janúar 2023Er íslenska velferðarkerfið ekki lengur griðarstaður þeirra sem minnst hafa?
-
10. janúar 2023Útvarp Saga telur fjölmiðlastyrki skapa tortryggni og bjóða upp á frændhygli
-
10. janúar 2023Fánabann og refsiaðgerðir í Palestínu í kjölfar niðurstöðu Sameinuðu þjóðanna
-
8. janúar 2023Lífeyrissjóðir hafa ekki lánað meira verðtryggt á einum mánuði frá því fyrir faraldur
-
8. janúar 2023Sögulegur en dýrkeyptur kosningasigur þingforsetans
-
7. janúar 2023BDSM-félagið fagnar því að loksins eigi að afnema klámbann
-
7. janúar 2023Litlu fjölmiðlarnir með eldspýturnar
-
7. janúar 2023Með hverjum stendur þú?
-
6. janúar 2023Tíu stærstu útgerðirnar halda á 56 prósent af öllum kvóta
-
6. janúar 2023Guðrún Hafsteinsdóttir segist taka við dómsmálaráðuneytinu í mars