Keleti lestarstöðin í Búdapest hefur að undanförnu verið í sviðsljósinu eftir að flóttamenn frá átakasvæðum víðs vegar um Miðausturlönd, einkum þó frá Sýrlandi, tóku að streyma þangað frá Serbíu eftir að þarlend stjórnvöld opnuðu landamæri sín að Ungverjalandi. Förinni er heitið til fyrirheitna landsins Þýskalands sem hefur opnað landamæri sín fyrir stríðshrjáðum flóttamönnum, aðallega frá Sýrlandi en einnig frá öðrum átakasvæðum í kringum Miðjarðarhafið. Á meðal flóttamanna frá Sýrlandi er hópur sem ekki hefur fengið mikla athygli fjölmiðlanna: samkynhneigðir karlmenn, en staða þeirra hefur versnað til muna eftir að átökin hófust í Sýrlandi fyrir um fjórum árum. Þeir hafa undanfarin ár flúið land og sest aðallega að í Tyrklandi og Líbanon. Einhverjir hafa þó náð að komast til Evrópu, þar á meðal Þýskalands. Í þessari fyrstu grein um stöðu hinsegin fólks í löndum sem við köllum vanalega Miðausturlönd verður sjónarhorninu beint að Sýrlandi og stöðu hinsegin fólks þar.
Ég hitti Ahmed* á litlu kaffihúsi nálægt Taksimtorgi í Istanbúl síðastliðinn ágúst. Hann er fæddur og uppalinn í Sýrlandi, nánar tiltekið í Damaskus og hafði nýlega náð tvítugsaldri. Ahmed hefur fínlega andlitsdrætti, er grannvaxinn og með grænblá augu. Hann er snyrtilegur til fara og talar nær lýtalausa ensku. Talið barst fljótt að stöðu mála í Sýrlandi og bað ég hann að segja mér sögu sína. Hann sagðist hafa átt góða daga í Damaskus fyrir stríð og var fjölskylda hans nokkuð þekkt í Sýrlandi og vel efnuð. Hverfið sem hann bjó í áður en hann flúði tilheyrði efri lögum samfélagins og hefur eftir að stríðið skall á ávallt verið á áhrifasvæði stjórnarhersins.
Fyrsta áfallið kom svo þegar foreldrar hans skildu. Þá var hann fjórtán ára gamall. Móðir hans flutti þá úr landi og tók saman við annan mann. Hún keypti handa Ahmed og bróður hans lítið hús í sama hverfi í Damaskus og sendi þeim peninga reglulega. Faðir hann fluttist til Egyptalands. Þeir bræður voru því sjálfala. Ahmed komst fljótlega yfir þetta áfall og fór að vinna fyrir sér við tölvuviðgerðir. Hann náði mjög fljótt góðri færni í þeim efnum og varð nokkuð vinsæll í tölvubransanum í Damaskus. Fór hann heim til fólks og gerði við tölvur. Dag einn fór hann heim til viðskiptavinar. Sá hét Hussein, 23 ára gamall og að sögn Ahmeds frekar myndarlegur. Gerði hann við tölvuna hans en að sama skapi felldu þeir hugi saman og varð Hussein fyrsta ástin í lífi Ahmeds. Reyndar hafði Ahmed nokkuð snemma áttað sig á kynhneigð sinni og var til dæmis í ástarsambandi við besta vin sinn þegar hann var 12 ára gamall. Ahmed og Hussein áttu sína góðu daga í Damaskus og eyddu miklum tíma saman. Þeir voru nær óaðskiljanlegir og fannst eins og þeir ættu framtíðina fyrir sér. En svo braust stríðið út. Hussein flúði þá til Líbýu enda hafði hann fengið starf þar. Ahmed var því einn eftir í Sýrlandi ásamt bróður sínum.
Daglegt líf í Damaskus.
Þegar talið barst að stöðu samkynhneigðra í Sýrlandi fyrir stríð sagði Ahmed: „Það var ekkert mál að vera hommi í Sýrlandi. Maður var allavega ekki ofsóttur og drepinn, eins og í öðrum löndum á þessu svæði. Meira segja frændi Bashars er hommi og allir vita það!“ Þessu til viðbótar sagði Ahemd að hann gat verið með sínum kærasta án þess að eiga á hættu að vera ofsóttur. Reyndar mátti hann ekki flagga samkynhneigð sinni og hann sagði engum frá því að hann væri hommi. Hins vegar eru samskipti karlmanna í Miðausturlöndum oft á tíðum á öðrum nótum heldur en gerist og gengur á Vesturlöndum. Þannig var það ekki litð hornauga ef Ahmed og kærastinn leiddust á götum úti. Þykir slíkt ekki tiltökumál víða í Miðausturlöndum enda ávallt talið að um nána vináttu sé að ræða. Hins vegar hafa flestir sýrlenskir hommar miklar áhyggjur af því að fjölskyldan muni komast að hinu sanna. „Arabískt samfélag skilur alls ekki hvað samkynhneigð er og telja margir að þetta sé eitthvað ónáttúrulegt,“ sagði Múhameð mér, sýrlenskur flóttamaður í Istanbúl. Að mörgu leyti má yfirfæra viðhorfskönnun sem gerð var í Jórdaníu af hálfu Pew Research Centre yfir á sýrlenskt samfélag en þar kom fram að einungis 3% aðspurðra töldu að hægt væri að réttlæta samkynhneigð á einhvern hátt. Fordómar í garð hinsegin fólks eru því miklir í Sýrlandi og víða annars í Miðausturlöndum og hafa þeir aukist til muna og staða þessa hóps versnað eftir að stríðið skall á. „Það er svo auðvelt að misnota okkur hommana, við verðum alls staðar fyrir aðkasti og allir virðast koma illa fram við okkur“ sagði Múhameð þegar hann var inntur eftir þessu.
En svo braust borgarastríðið út í Sýrlandi árið 2011. Ahmed fór að finna fyrir auknum þrýstingi af hálfu stjórnvalda eins og svo margir aðrir sýrlenskir hommar, eitthvað sem að hans sögn þekktist varla fyrir stríð. Einnig óttaðist hann liðsmenn íslamska ríkisins en hann hafði heyrt sögur af hrottalegri meðferð þeirra á þeim sem taldir voru samkynhneigðir. Má í þessu samhengi nefna Ibrahim sem var rænt af liðsmönnum íslamska ríkisins. Þeir fóru með hann í afskekkt hús í úthverfi Damaskus. Þar hitti Ibrahim fyrir tvo samkynhneigða vini sína sem hafði einnig verið rænt. Þeir höfðu verið pyntaðir og þeim nauðgað með einhvers konar aðskotahlut. Voru þeir í miklum kvölum og blæddi úr þeim. Ibrahim var hins vegar heppinn og áður en kvalarar hans lögðu hendur á hann náði hann að flýja. Hann komst að lokum heim til sín og ákvað eftir það að fara til Beirút, höfuðborgar Líbanons. Þar býr hann í dag og veit í raun ekki hvað varð um vini sína en telur að þeir hafi að lokum verið teknir af lífi.
Hámark morða í september
Að sögn Mannréttindaskrifstofu alþjóðasamtaka homma og lesbía (International Gay and Lesbian Human Rights Commission) hafa liðsmenn íslamska ríkisins á tímabilinu júní 2014 til mars 2015 tekið af lífi a.m.k. 17 karlmenn sem höfðu það eitt sér til saka unnið að teljast vera samkynhneigðir. Í september náðu svo morðin hámarki. Samkvæmt óháðu samtökunum, Mannréttindaskrifstofa Sýrlands (Syrian Observatory for Human Rights – SOHR), voru 10 samkynhneigðir karlmenn teknir af lífi dagana 20. og 21. september síðastliðinn. Einn hinna myrtu hafði nýlega náð 16 ára aldri. Margir samkynhneigðir karlmenn hafa því flúið land síðan stríðið hófst. Beirút hefur verið fyrsti áningarstaður landflótta sýrlenskra homma en talið er að í Líbanon séu í dag um 1.5 milljón sýrlenskra flóttamanna.
Keleti-lestarstöðin í Búdapest.
Staða sýrlenskra homma í Beirút er oft á tíðum mun verri heldur en annarra flóttamanna frá Sýrlandi. Patricia el-Khoury starfar sem sálfræðingur í Beirút og hefur veitt fjölmörgum samkynhneigðum flóttamönnum frá Sýrlandi ráðgjöf. Hún segir að það hversu einangraðir þeir eru, hafandi misst jafnvel öll tengsl við fjölskylduna sína og vini, geri þennan hóp sérstaklega viðkvæman og þurfa þeir oft að glíma við þunglyndi og mikla kvíðaröskun. „Þeir eru einnig þjakaðir af sektarkennd og telja að það hafi verið þeirra sök að þeir misstu öll tengsl við fjölskylduna sína þegar þeir komu út“ bætir Patricia við. En það eru ekki bara andlegir erfiðleikar sem sýrlenskir hommar þurfa að glíma við þegar þeir koma sem flóttamenn til Beirút eða Ístanbúl. Að sögn líbanska aðgerðasinnans Bertho Makso sem vinnur fyrir samtök homma og lesbía í Beirút þá er efnahagsleg staða þeirra mjög svo slæm. „Þeir búa oft á tíðum á ódýrum gistiheimilum ef þeir eru heppnir og hafa einhvern pening. Annars þurfa að sofa undir berum himni. Í raun er það helsta viðfangsefni samtakanna okkar að bregðast við húsnæðisvanda flóttamanna sem koma hingað á grundvelli kynhneigðar. En það kostar pening og við erum lítil samtök og höfum því ekki ráð á því. En við reynum okkar besta til að hjálpa bræðrum okkar og systrum frá Sýrlandi.“
Í Istanbúl er staða sýrlenskra homma ekkert betri og hafa sumir piltar leiðst út í vændi til að láta enda ná saman. Hassan, 17 ára piltur frá Aleppo í Sýrlandi hefur verið búsettur í Istanbúl í eina fimm mánuði. Hann hefur síðan hann kom til Istanbúl þurft að glíma við ýmiss konar vandamál. Hann segir að lítill stuðningur sé við sýrlenska homma í Tyrklandi enda eru stjórnvöld þar í landi ekkert skárri heldur en þau sem hann flúði frá í Sýrlandi þegar kemur að málefnum hinsegin fólks. „Ég bý þó ekki á stríðssvæði lengur og þarf ekki að óttast reglulega um líf mitt“ segir Hassan. En þrátt fyrir frið frá stríði og átökum þarf Hassan að berjast fyrir tilveru sinni á hverjum degi enda hefur fjölskyldan afneitað honum og þarf hann því að sjá fyrir sér sjálfur í stórborginni Ístanbúl. Hann býr í hrörlegu gistiheimili rétt hjá Taksimtorgi. Þegar talið berst frekar að peningum segir Hassan: „Til að hafa í mig og á vinn ég sem fylgdarsveinn. Tyrkneskir karlmenn, gagnkynhneigðir, samkynhneigðir, tvíkynhneigðir og jafnvel kvæntir menn, hringja í mig eða ná sambandi við mig í gegnum stefnumótasnjallforritið Hornet. Við finnum okkur stað. Fæ ég greidda að bilinu 20 til 50 dollara, allt eftir því hvaða þjónustu ég þarf að inna af hendi.“ Segja má að veruleiki Hassans endurspegli raunir margra annarra sýrlenskra homma í Ístanbúl en að Beirút undanskilinni búa hvað flestir sýrlenskir flóttamenn sem flúið hafa heimkynni sín vegna kynhneigðar þar í borg.
Aftur að Ahmed
En víkur nú sögunni aftur að Ahmed. Þegar talið snýr að Bashar og stríðinu koma fram blendnar tilfinningar hjá Ahmed: „Í fyrstu hataði ég Bashar en í dag er ég hræddur og hata þá sem eru að berjast gegn Bashar. Þetta eru þröngsýnir íslamistar sem vilja einstaklinga eins og mig dauðan. Einnig vilja þeir skerða réttindi kvenna og láta allar konur bera „hijab“ (slæða). Í dag, allavega þar sem Bashar ræður, þurfa konur ekki að vera með „hijab“. Mamma þurfti það aldrei og vinkona mín sem vinnur hjá sýrlenska sjónvarpinu þarf þess ekki heldur. Ég er sjálfur sunníti, hluti af þeim hópi sem er á móti Bashar, en ég er það ekki sjálfur.“ Að mati Ahmeds er því ríkisstjórn Bashar Assads mun skárri kostur heldur en guðsræði þeirra hópa sem eru að berjast gegn honum. Hafa hér í huga að Ahmed er sunníti og tilheyrir því ekki hópi alavíta sem teljast vera helstu stuðningsmenn Bashar Assads. Hann telur sér þó betur borgið undir hans stjórn og segist munu fara aftur til Sýrlands þegar Bashar hefur náð að sigra. Hins vegar má geta þess að stjórnarherinn hefur líka staðið fyrir ofsóknum á hendur samkynhneigðum karlmönnum.
Yusef, vinsælum plötusnúði í Damaskus, hefur til dæmis verið rænt nokkrum sinnum af liðsmönnum Bashar vegna kynhneigðar sinnar. „Þeir hafa alltaf sleppt mér eftir að ég hef greitt þeim það sem þeir krefjast. En ég er ekki lengur öruggur í Damaskus og vil fara úr landi.“ Segir hann að ofbeldi í garð samkynhneigðra karlmanna hafi færst í vöxt eftir að átökin hófust. Fyrir stríð gat Yusef lifað nokkuð eðlilegu lífi sem samkynhneigður karlmaður í Damaskus þó svo að hann hafi haldið öllu leyndu fyrir fjölskyldu sinni. Hann var vinsæll meðal elítunnar í Damaskus og þeytti skífur í veislum hjá herforingjum og öðrum nánum fjölskyldumeðlimum Bashar Assads. En stríðið breytti öllu og hefur dregið fram það versta í fari fólks.
En síðan kom kallið frá kærastanum og Ahmed ákvað að fara úr landi enda eins og fyrr segir orðið nokkuð hættulegt fyrir hann og þá sem falla ekki að „norminu“ að búa áfram í Sýrlandi. Tók við þriggja daga rútuferðalag frá Damaskus til Líbýu. Þar bjó hann með kærastanum í einhvern tíma en hægt og sígandi slitnaði upp úr sambandinu. Kærastinn var honum ótrúr og fór að beita hann bæði líkamlegu og andlegu ofbeldi. Að lokum gafst Ahmed upp og fór aftur til Sýrlands, þrátt fyrir slæmt ástand þar í landi. Hann var þó ekki lengi í Sýrlandi heldur flúði stuttu síðar til Líbanons en það land hefur fram að þessu tekið við miklum fjölda flóttamanna. Var þetta í raun bara klukkutíma leigubílsferð frá Damaskus til Beirut þannig að það ferðalag var miklu auðveldara en hið fyrra. Hann hafði á sér um 180 dollara og varð að lifa á því næstu daga. Það gekk illa þannig að hann hafði samband við konu sem vann með flóttamönnum í Tyrklandi og bað hana um að aðstoða sig við að komast frá Líbanon til Tyrklands. Að lokum tókst honum að verða sér út um flugmiða og komst að lokum til Istanbúl. Þar hefur hann verið undanfarna fimm mánuði, unnið einhver íhlaupastörf en fengið einnig senda peninga frá móður sinni.
„Ég hef heyrt að það sé gott að búa á Íslandi“
Að mörgu leyti er staða Ahmeds betri en annarra flóttamanna, bæði í Tyrklandi og í Líbanon. Flestir flóttamenn, samkynhneigðir og aðrir, búa þar við slæm kjör og hafa oft á tíðum enga möguleika á að afla sér tekna. Verða þeir oft á tíðum að láta sér nægja um 30 dollara á mánuði. Þegar talið barst að flóttamönnum þá vildi Ahmed alls ekki skilgreina sem flóttamann. Fannst honum vera kominn neikvæður „stimpill“ á það orð og vildi hann alls ekki sækja um stöðu flóttamanns. Hann er líka mjög sjálfstæður, úrræðagóður og eldklár. Virðist eiga auðvelt með að laga sig að breyttum aðstæðum og horfir jákvæðum augum til framtíðarinnar. Hann hefur í hyggju að gera eitthvað við líf sitt, læra eitthvað. Hann umgengst ekki aðra Sýrlendinga á hans aldri, bæði vegna þess að hans sögn, hugsa þeir bara um fótbolta og hvernig eigi að lifa daginn af. Honum finnst hann eiga ekkert sameiginlegt með þeim enda hefur hann plön fyrir framtíðina. Ahmed er líka gagnrýninn á stjórnvöld í Tyrklandi, Egyptalandi og sumra Persaflóaríkja sem styðja uppreisnarmenn. Ahmed er líka gagnrýninn á Bandaríkjastjórn og segir að ekki eigi að fara með hernað á hendur Sýrlandi. „Hverfið mitt er á áhrifasvæði Bashars og yrði því í skotlínu, húsið mitt og vinir í Damaskus.“ Ahmed segir að Tyrkir séu margir hverjir þreyttir á sýrlenskum flóttamönnum og reyni oft á tíðum að svindla á þeim, misnota þá. Hann hafi til dæmis unnið fyrir tyrkneskan klæðskera, saumað tölur og blúndur á föt. Sá hinn sami hafi hins aldrei greitt fyrir vinnuna og því hætti hann fljótlega. Í búðum reyna kaupmenn stundum að svindla á honum þegar þeir heyra að hann er ekki Tyrki.
Bænaköll frá hinum fjölmörgu moskum Istanbúls renna saman við raftónlist kaffihússins. Það er kominn tími til að kveðja Ahmed. Við föðmumst og áður en hann smeygir sér út um dyrnar segir hann: „Ég hef heyrt að það sé gott að búa á Íslandi og þar hefur fólk eins og ég einhver réttindi. Ég vona að ég geti einhvern tímann upplifað slíkt.“ Ég brosi innilega til hans og segi: „Það vona ég líka.“ Hann hverfur svo fljótt inn í mannmergðina í Istiklal-götu, helstu göngugötuna, rétt við Taksim.
Greinin er fyrsta grein af þremur um veruleika og stöðu hinsegin fólks í Miðausturlöndum. Jón Ingvar Kjaran er nýdoktor og aðjúnkt við menntavísindasvið Háskóla Íslands.
*Öllum nöfnum í greininni hefur verið breytt.