Afkoma ríkissjóðs var mun betri en áætlanir gerðu ráð fyrir á fyrstu níu mánuðum ársins 2021. Reiknað hafði verið með halla upp á 189 milljarða króna en hann reyndist vera 138 milljarðar króna, eða 51 milljarði króna betri en áætlanir gerðu ráð fyrir.
Ástæðan er fyrst og fremst sú að tekjur ríkissjóðs voru tíu prósent hærri en reiknað hafði verið með í áætlunum. Frá byrjun árs og til loka september skilaði 621 milljarður króna sér sem tekjur í ríkiskassann, en ríkisfjármálaáætlun hafði gert ráð fyrir því að tekjurnar yrðu 565 milljarðar króna á tímabilinu. Tekjurnar voru því 56 milljörðum krónum meiri en búist hafði verið við.
Útgjöldin voru aðeins hærri en áætlanir höfðu gert ráð fyrir, alls tæplega fimm milljörðum króna, og fjármunatekjur voru rúmlega níu milljörðum krónum lægri en stefnt hafði verið að.
Þetta kemur fram í uppgjöri ríkissjóðs fyrir fyrstu níu mánuði ársins 2021 sem gert var opinbert í gær.
Virðisaukaskattur langt yfir áætlun
Auknar tekjur eru fyrst og síðast vegna þess að ríkissjóður innheimti 45,5 milljarða króna meira í skatttekjur en til stóð. Auk þess voru fjárfestingahreyfingar jákvæðar og nam hreint innstreymi þeirra á tímabilinu 12,9 milljörðum króna, aðallega vegna sölu á 35 prósent hlut í Íslandsbanka í sumar. Búast má við því að virði 65 prósent eignarhlutar ríkisins í Íslandsbanka muni hækka umtalsvert um komandi áramót þegar hann verður í fyrsta sinn metinn á markaðsvirði, en bankinn var skráður á markað í júní. Markaðsvirði hlutarins er sem stendur 162,5 milljarðar króna.
Hagnaður bankanna skilaði auknum skatttekjum
Nokkrir smærri skattstofnar skiluðu mun hærri fjárhæðum en búist var við í ríkissjóð.
Þar má til að mynda nefna sérstaka skatta sem leggjast á fjármálafyrirtæki. Áætlanir gerðu ráð fyrir að þeir myndu skila 2,7 milljörðum króna í ríkiskassann frá byrjun árs og til loka september en raunin varð sú að tekjur vegna þeirra voru 7,3 milljarðar króna, eða 170 prósent hærri en reiknað var með.
Þar munar mestu um það sem í daglegu tali er kallað bankaskattur. Hann leggst á þá banka sem skulda meira en 50 milljarða króna. Alls borga fimm fjármálafyrirtæki skattinn en þorra hans greiða stóru bankarnir þrír: Landsbankinn, Íslandsbanki og Arion banki. Þessir þrír bankar hafa skilað miklum hagnaði það sem af er ári, en á fyrstu níu mánuðum ársins nam samanlagður hagnaður þeirra um 60 milljörðum króna. Það er meiri hagnaður en þeir hafa sýnt innan árs síðan árið 2015.
Bankaskatturinn var lækkaður í fyrra úr 0,376 í 0,145 prósent. Fyrir vikið lækkaði álagður bankaskattur sem ríkissjóður lagði á bankana um 6,1 milljarð króna vegna ársins 2020 og var 4,8 milljarðar króna. Það er lækkun upp á 56,2 prósent. Þótt álagður bankaskattur hafi hækkað mikið milli ára vegna gríðarlegrar hagnaðaraukningar hjá stærstu bönkum landsins er ljóst að ef bankaskatturinn hefði ekki verið lækkaður þá hefðu tekjur ríkissjóðs af honum verið miklu hærri en raun ber vitni.
Til viðbótar við bankaskattinn greiða Fjármálafyrirtæki, verðbréfafyrirtæki og tryggingafélög fjársýsluskatt og sérstakan fjársýsluskatt. Stofn fjársýsluskatts eru allar tegundir skattskyldra launa og þóknana og er hann 5,5 prósent. Sérstaki fjársýsluskatturinn er svo 6,0 prósent viðbótar tekjuskattur á tekjustofn umfram einn milljarð króna.
Dauðinn og drykkjan tekjuberandi
Tekjur af erfðafjárskatti, áfengisgjaldi og stimpilgjöldum voru líka umtalsvert meiri en áætlanir gerðu ráð fyrir.
Erfðafjárskattur er tíu prósent af heildarverðmæti allra fjárhagslegra verðmæta og eigna sem liggja fyrir við andlát arfleifanda að frádregnum skuldum og útfararkostnaði.
Skattleysismörk erfðafjárskatts hækkuðu úr 1,5 í fimm milljónir króna um síðustu áramót en þau eiga þó ekki við þegar um fyrirframgreiddan arf er að ræða.
Áætlanir gerðu ráð fyrir að erfðafjárskattur myndi skila 2,6 milljörðum króna í ríkiskassann á fyrstu níu mánuðum ársins en raunin varð sú að tekjur vegna hans voru 5,4 milljarðar króna, eða rúmlega tvisvar sinnum hærri en reiknað var með.
Stimpilgjöld, sem greiðast aðallega þegar fasteignaviðskipti eiga sér stað, skiluðu 1,2 milljarða króna meiri tekjum en gert var ráð fyrir, eða 30 prósent umfram áætlun.
Þá innheimtust 2,1 milljarður króna meira í áfengisgjöld en reiknað var með eða alls 17,2 milljarðar króna. Það eru 14 prósent meiri tekjur vegna áfengiskaupa en áætlað var.