Rúmlega eitt prósent íslensku þjóðarinnar, á milli þrjú og fjögur þúsund manns, er mætt til Amsterdam til að sitja í vondum sætum á Amsterdam Arena og fylgjast með íslenska karlalandsliðinu í knattspyrnu í því sem kallað hefur verið mikilvægasti knattspyrnuleikur Íslandssögunnar. Ísland er sem stendur í efsta sæti síns riðils í undankeppni Evrópumótsins (EM) í knattspyrnu með 15 stig og markatöluna 14-3 þegar fjórir leikir eru eftir af riðlakeppninni. Takist liðinu að sigra Hollendinga í kvöld þarf liðið einungis þrjú stig úr þremur síðustu leikjum sínum til að gulltryggja farseðilinn til Parísar næsta sumar. Því er ekki loku fyrir það skotið að íslenskir knattspyrnuáhugamenn, og annað þjóðræknisfólk, geti farið að bóka miða til Frakklands næsta sumar strax á sunnudag, eftir að leik Íslands og Kasakstan er lokið.
Hollendingar eru vitanlega ein mesta knattspyrnuþjóð í heimi. Þeir urðu Evrópumeistarar árið 1988 og spiluðu til undanúrslita á síðasta heimsmeistaramóti, sumarið 2014. En síðast þegar þeir mættu litla Íslandi þá flengdi örríkið þá 3-0 í mögnuðum leik þann 13. október 2014. Sá sigur vakti verðskuldaða athygli út um allan heim, líkt og Kjarninn tók saman að leik loknum.
Íslenska karlalandsliðið í knattspyrnu.
Síðan þá hefur íslenska liðið haldið áfram á fullu stími, síðast með stórkostlegum sigri á Tékkum á troðfullum Laugardalsvelli í júní. Með þeim sigri tók liðið risaskref í átt að lokakeppni EM.
Margir erlendir fjölmiðlar vildu meina að Ísland væri komið með aðra löppina á lokamótið eftir þann sigur.
Ætla að slátra Íslandi
Í aðdraganda leiksins í dag hafa leikmenn hollenska liðsins verið kokhraustir, þótt liðið sé með fimm stigum færri en Ísland þegar fjórir leikir eru eftir af undankeppninni. Arjen Robben, nýr fyrirliði hollenska liðsins, sagði til að mynda í samtali við hollenska miðilinn Onsoranje að lið hans ætlaði sér „að slátra Íslandi“.
Árangur íslenska liðsins undanfarnar tvær undankeppnir er þó þess eðlis að Hollendingar munu alls ekki geta leyft sér að vanmeta andstæðinga sína. Ísland er í 23. sæti á nýjum heimslista FIFA sem var birtur í morgun og fer upp um eitt sæti á milli mánaða. Hollendingar eru í tólfta sæti.
Íslenska liðið hefur aldrei verið ofar á listanum en er þó ekki lengur besta lið Norðurlanda, þar sem Danir skjótast upp fyrir íslenska liðið í 22. sætið. Íslendingar geta þó huggað sig við að karlalandslið þjóðarinnar er sem stendur ofar á heimslistanum en fyrrum heims- og Evrópumeistarar Frakka. Það hefur aldrei gerst áður.
Ástæður þess að íslensk knattspyrna er komin þangað sem hún er komin voru raktar ítarlega í fréttaskýringu í Kjarnanum sem birtist í september 2014. Í aðdraganda leiks liðsins við Tékkland í júní síðastliðnum var svo farið yfir þá þróun á landsliðinu sem átt hefur sér stað undanfarna áratugi á ekki síður ítarlegri hátt.
Icehot1 mættur til Hollands
Hallgrímur Oddsson, blaðamaður Kjarnans, er mættur til Amsterdam og mun fjalla um leikinn þaðan síðar í kvöld. Það sem af er degi hefur hann drukkið í sig stemmninguna í borginni og sérstaklega á Dam-torginu, sem er stappað af íslenskum stuðningsmönnum að undirbúa sig fyrir leikinn í kvöld með söng og þorstasvölun.
Svona var staðan þar um hádegisbilið í dag:
https://vimeo.com/138213810
Og greinilegt er að harðir stuðningsmenn hafa ekki látið hversdagsþrasið heima á Íslandi framhjá sér fara.