Þegar Hafnarháskóli tók til starfa árið 1479 var guðfræðideildin ein fjögurra deilda skólans, hinar voru lögfræði, læknisfræði og heimspeki. Háskólinn var karlaskóli og það var ekki fyrr en 396 árum síðar (1875) að konur fengu leyfi til að stunda þar nám. Það var sama ár og konur fengu leyfi til að taka stúdentspróf í Danmörku. Tveimur árum síðar, 1877, hóf fyrsta konan nám við skólann, nánar tiltekið við læknadeildina. Hún hét Nielsine Nielsen og var 27 ára. Náminu lauk hún árið 1885 og var fyrsta konan til að ljúka háskólanámi í Danmörku. Hún opnaði eigin stofu í Kaupmannahöfn árið 1889. Nielsine Nielsen lést árið 1916.
Máttu læra guðfræði en ekki fá embættispróf
Þótt konur hafi árið 1875 fengið leyfi til að stunda nám í guðfræði við Hafnarháskóla var gamalgróið karlaveldið samt við sig. Konur gátu ekki fengið leyfi til að starfa sem prestar þótt þær lykju náminu. Þetta hafði í för með sér að konur sóttust ekki eftir að leggja stund á guðfræði.
Fleiri ljón í veginum
Eins og áður sagði fengu konur árið 1916 starfsleyfi að loknu embættisprófi í guðfræði. Sá hængur var þó á að konur gátu ekki, lögum samkvæmt, gegnt prestsembættum innan dönsku þjóðkirkjunnar. Lögum um jöfn réttindi kynjanna til að gegna opinberum embættum var breytt árið 1919, en þar voru prestsembætti undanskilin. Meginástæðan var andstaða dönsku prestastéttarinnar og meðal annars bent á að Jesús hafi verið karlmaður, og lærisveinarnir karlar. Ef að því kæmi að kona sæktist eftir að gegna prestsembætti innan dönsku þjóðkirkjunnar yrði að taka afstöðu til þess sagði í bréfi presta til ráðuneytis kirkjumála. Árin liðu og þær konur sem luku prófi í guðfræði sinntu ýmsum störfum öðrum en prestsembættum.
Lagabreytingar
Árið 1947 var lögum breytt og þar með var heimilt að ráða konur til prestsstarfa við dönsku þjóðkirkjuna. Í stað þess að í lögunum stæði að karlar gætu gegnt prestsembættum stóð nú manneskja, person. Það var þó einungis heimild, sóknarnefndir gátu ákveðið að ganga framhjá kvenkyns umsækjendum. Ári síðar, 1948, voru þrjár konur vígðar til prests í Óðinsvéum, þær fyrstu í landinu. Þá voru liðin 983 ár frá því að Haraldur blátönn kristnaði Dani. Hundruð presta mótmæltu vígslu kvennanna þriggja.
Árið 1978 var jafnréttislögum enn breytt en áfram var í gildi undanþáguheimild varðandi embætti presta, sú heimild er enn í gildi.
Meira en annar hver prestur í dag er kona
Frá því að konurnar þrjár fengu prestsvígslu árið 1948 hefur margt breyst. Í dag eru prestar dönsku þjóðkirkjunnar um það bil 2400, af þessum fjölda er meira en helmingur konur. Nánar tiltekið 58 prósent.
Biblían mikilvægari en dönsk lög á Borgundarhólmi
Þrátt fyrir að rúmur helmingur allra presta í Danmörku séu konur eru ekki allir á þeirri skoðun að þær séu hæfar til slíkra starfa. Filip Ambrosen safnaðarnefndarformaður í smábænum Hasle á Borgundarhólmi segist algjörlega mótfallinn kvenprestum. Ef til þess kæmi að kona yrði skipuð prestur myndi hann umsvifalaust segja af sér og flytja sig í aðra sókn. Filip Ambrosen segir að í Biblíunni sé afdráttarlaust kveðið á um að konur geti ekki verið prestar. Hann segist ekki vera á móti konum, síður en svo, en fólki sé ætlað mismunandi hlutverk, að vera prestur sé karlmannsstarf. Safnaðarnefndin í þorpinu Rutsker á Borgundarhólmi er sömu skoðunar.
Auk þessara tveggja safnaða eru örfáir söfnuðir annars staðar í Danmörku þar sem andstaða er við kvenpresta og þeir ekki valdir til starfa.
Slæmur mórall og niðurlægjandi framkoma
Fyrir tveim vikum greindi danska útvarpið, DR, frá nýrri könnun meðal starfsmanna dönsku þjóðkirkjunnar. Um er að ræða organista, fastráðna söngvara, grafara, kirkjuverði og umsjónarmenn, sem sé annað starfsfólk en presta. Samtals eru starfsmennirnir um það bil tólf þúsund og þrjú þúsund svöruðu könnuninni. Niðurstöðurnar hafa vakið athygli en þar kom í ljós að einn af hverjum þremur taldi sig hafa orðið fyrir niðurlægjandi framkomu í starfi sínu, langoftast frá safnaðarnefndarfólki. Safnaðarnefndirnar eru um það bil sextán hundruð, þær eru skipaðar leikmönnum og eru kosnar fjórða hvert ár. Í könnun danska útvarpsins kom fram að margir þeirra sem sitja í safnaðarnefndunum hafi enga, eða litla, reynslu af slíkum störfum og ímyndi sér að þeir geti beitt einskonar tilskipunarstjórnun og tali niður til starfsmanna.
Prestar draga upp dökka mynd
Fyrir um það bil ári birti sjónvarpsstöðin TV2 Lorry langt viðtal við Katrine Blinkenberg sóknarprest á Sjálandi. Hún hafði rætt við 49 starfandi presta, af báðum kynjum, í Kaupmannahöfn. Í viðtölunum kom fram að prestarnir, einkum konurnar, höfðu upplifað neikvæða og niðrandi framkomu í sinn garð og þekktu sömuleiðis allir dæmi um presta sem höfðu hrökklast úr starfi vegna þessa. Í framhaldi af viðtölunum höfðu prestarnir sem rætt var við undirritað yfirlýsingu sem birtist í „Prestinum“ tímariti presta. Umfjöllun TV2 Lorry vakti mikla athygli og var rædd í þinginu. Ane Halsboe- Jørgensen kirkjumálaráðherra ákvað í framhaldinu að koma á laggirnar ráðgjafartilboði, eins og hún komst að orði, fyrir starfsfólk þjóðkirkjunnar. Ýmsir úr hópi þingmanna sögðu ráðgjafartilboðið ekki duga, meira þyrfti til að ef takast ætti að uppræta vandann.
Fyrir nokkrum dögum birti danska útvarpið viðtal við Meghan Welch Jakobsen fyrrverandi prest í smábænum Gudhjem á Borgundarhólmi. Hún lauk embættisprófi í guðfræði árið 2017, 49 ára að aldri, og réðst þá til starfa í Gudhjem. Hún kvaðst strax hafa fundið að hún væri ekki velkomin, fólk hefði veist að henni og sagt að það kærði sig ekki um kvenprest og myndi ekki sækja kirkju hjá henni. Á endanum sagði Meghan Welch Jakobsen upp, hún er nú starfandi prestur í Holbæk á Sjálandi og kveðst mjög ánægð.
Ráðherra skoðar lagabreytingar
Í viðtali fyrir nokkrum dögum sagði Ane Halsboe- Jørgensen kirkjumálaráðherra að niðurstaða áðurnefndrar könnunar danska útvarpsins væri vonbrigði þótt hún hefði ekki komið á óvart. Hún kvaðst vona að hægt yrði að ráða bót á ástandinu, í sátt og samlyndi. Jafnframt sagðist hún tilbúin að skoða lagabreytingar varðandi skipan presta og nefndi sérstaklega vilja mikils meirihluta biskupa landsins til breytinga.
„En ég vil ekki ana að neinu“ sagði ráðherrann „kirkjan er mikilvæg stofnun í samfélaginu og um hana þarf að ríkja sátt“.