Embættismenn dönsku Skattstofunnar (SKAT) og starfsmenn danska skattaráðuneytisins þekkja líkast til ekki texta og lag Bubba Morthens "Lög og reglu". Setninguna "ekki benda á mig" hafa þeir þó tileinkað sér, eins og varðstjórinn í texta Bubba. Enginn telur sig bera ábyrgð á stærsta skattsvikamáli í sögu Danmerkur en erlend fyrirtæki eru grunuð um að hafa svikið 6.2 milljarða króna (rúma 120 milljarða íslenska) út úr danska skattinum. Danskir skattasérfræðingar telja hugsanlegt að upphæðin sé mun hærri.
Ábending frá útlöndum
Danska Skattstofan, SKAT, fékk fyrir tveimur mánuðum ábendingu frá erlendum skattayfirvöldum. Þar var vakin athygli á að líklegt væri að erlend fyrirtæki hefðu fengið háar fjárhæðir greiddar frá dönsku skattstofunni. Erlend fyrirtæki sem eiga hlutabréf í fyrirtækjum í Danmörku eiga að halda eftir 27% af hugsanlegum arðgreiðslum og greiða dönskum skattayfirvöldum.
Vegna tvísköttunarsamninga eiga erlendir hluthafar að greiða skatt af arðinum í heimalandinu og eiga jafnframt rétt á að fá skattinn sem borgaður var í Danmörku endurgreiddan. Staðreyndin var hinsvegar sú að þau "fyrirtæki" sem fengu endurgreiðslurnar frá Danmörku áttu ekki hlutabréf í dönskum fyrirtækjum og áttu þess vegna ekki rétt á neinum endurgreiðslum frá SKAT.
Þau fyrirtæki, með erlent heimilisfesti, sem sóttust eftir endurgreiðslu og fengu, áttu sum hver engin hlutabréf í dönskum fyrirtækjum og áttu því ekki rétt á endurgreiðslunni.
Uppi varð fótur og fit
Ekki er ofmælt að allt hafi farið í háaloft í Danmörku þegar fréttirnar um endurgreiðslurnar komust í danska fjölmiðla fyrir viku síðan. Stjórnmálamennirnir kepptust við að lýsa hneykslan sinni og kröfðust skýringa frá SKAT, skattaráðherranum og skattaráðuneytinu.
Allir voru sammála um að það væri með hreinum ólíkindum, og auðvitað óþolandi, að milljarðar gætu streymt út úr ríkiskassanum án þess að nokkur lifandi sála fylgdist með hvort allt væri með felldu. Athyglin og spurningarnar beindust fyrst og fremst að starfsfólki SKAT. Næstu daga fjölluðu dönsku fjölmiðlarnir ítarlega um "skandalen" eins og þau kölluðu málið. Þar kom ýmislegt fram í dagsljósið.
Starfsfólkið hafði margsinnis vakið athygli á vandanum
Fjölmiðlarnir hafa rætt við fjöldann allan af fyrrverandi og núverandi starfsfólki SKAT. Nær engir vilja koma fram undir nafni, þótt fjölmiðlarnir viti nöfn allra viðmælenda. Núverandi starfsmenn óttast um stöðu sína, "það er ekki til vinsælda fallið að gagnrýna yfirmennina" sagði einn starfsmaður hjá SKAT og mælti þar fyrir munn margra.
Meðal þess sem komið hefur fram er að margir starfsmenn höfðu margsinnis vakið athygli yfirmanna sinna á að miklar brotalamir væru í eftirliti skattsins á mörgum sviðum, þar á meðal vegna endurgreiðslna. Í skýrslu sem innra eftirlit SKAT gerði árið 2000, og dagblaðið Berlingske komst yfir, komu fram alvarlegar athugasemdir varðandi eftirlitið og svipaðar athugasemdir er að að finna í minnisblaði frá 2005.
Peter Loft, sem var ráðuneytisstjóri í Skattaráðuneytinu frá 1993-2012 sagðist ekki muna sérlega mikið eftir þessu máli þegar eitt dönsku blaðanna spurði hann um það.
Peter Loft, sem var ráðuneytisstjóri í Skattaráðuneytinu frá 1993-2012 (var rekinn í tengslum við mikið og tilhæfulaust moldviðri í kringum skattamál Helle Thorning-Schmidt), sagðist ekki muna sérlega mikið eftir þessu máli þegar eitt dönsku blaðanna spurði hann um það. Fjölmiðlarnir gefa lítið fyrir þessi svör, kalla þau aumlegt yfirklór. Starfsmenn SKAT, sem fjölmiðlar hafa rætt við síðustu daga segja að þeim hafi virst sem ekki væri sérstakur vilji hjá skattayfirvöldum til að aðhafast neitt þótt athygli þeirra væri vakin á fjölmörgum málum þar sem vafi lék á hvort lögum væri fylgt.
Hver ber ábyrgðina?
Viðbrögð stjórnmálamanna og háttsettra embættismanna minna um margt á söguna um litlu gulu hænuna, nema það að í þessari sögu vantar þá litlu gulu. Fyrrverandi skattaráðherrar segja að þeir hafi ekki haft minnstu hugmynd um að einhver maðkur væri í þessari endurgreiðslumysu. Embættismennirnir benda svo hver á annan. Sumir þeirra bera við gleymsku þegar spurt hefur verið hvort þeir hafi heyrt ávæning af því að pottur væri brotinn í endurgreiðslukerfinu.
Fjölmiðlamenn og skattasérfræðingar eru sammála því að ráðherra hvorki megi né geti verið með nefið niðri í einstökum málum. Þeir beri hinsvegar ábyrgð á því að á undanförnum árum hefur verið þrengt mjög að starfsemi skattsins. Í dag eru starfsmennirnir um það bil sex þúsund og tvö hundruð en fyrir tíu árum voru þeir um tíu þúsund. Röksemdir sumra stjórnmálamanna hafa verið þau að nú sé orðin svo mikil sjálfvirkni í öllu kerfinu að hægt sé að komast af með mun færra fólk. Aðrir segja að allt of langt hafi verið gengið í niðurskurðinum. Kannanir fjölmiðla sýna að almenningur er mjög ósáttur við að skera svo mikið niður hjá einni mikilvægustu stofnun ríkisins. Alls kyns mistökum hjá skattinum hefur fjölgað mjög síðustu ár, hverju þar er um að kenna er ekki gott að segja.
Ráðuneytið og yfirstjórn SKAT bera ábyrgðina
Þótt ráðuneytisstjóri Skattaráðuneytisins (og líka sá fyrrverandi) segi fullum fetum að ábyrgðin liggi fyrst og fremst hjá yfirstjórn SKAT taka ekki allir þær skýringar gildar. Yfirstjórn SKAT telur ráðuneytið ekki geta fríað sig ábyrgð, SKAT sé stofnun sem heyri undir ráðuneytið og þar liggi höfuðábyrgðin í þessu máli sem öðrum. Innra eftirlit SKAT hefur frá árinu 2012 margoft sent ráðuneytisstjóra Skattaráðuneytisins skýrslur og minnisblöð þar sem vakin er athygli á brotalömum í endurgreiðslukerfinu.
Danskir fjölmiðlar fullyrða að skýrslurnar og minnisblöðin hafi endað í skúffu ráðuneytisstjórans og aldrei náð lengra. Sérfræðingar sem blöðin hafa rætt við segja engan vafa leika á að Skattaráðuneyti beri höfuðábyrgðina á öllu því er varðar skattamál, en yfirstjórn SKAT beri þó einnig mikla ábyrgð. Um næstu mánaðamót á nefnd sem núverandi skattaráðherra skipaði að skila skýrslu en sú skýrsla fjallar fyrst og fremst um framkvæmd endurgreiðslnanna. Á næstu dögum tekur önnur nefnd til starfa, sú verður á vegum Ríkisendurskoðunarinnar og á að rannsaka samskipti ráðuneytisins og SKAT. Skýrsla nefndarinnar á að liggja fyrir um mitt næsta ár.