Meirihluti fjárlaganefndar leggur til að fjárheimild til endurgreiðslna rannsóknar- og þróunarkostnaðar verði aukin um 1.259 milljónir króna frá því sem áður var ætlað að láta renna til málaflokksins úr ríkissjóði á árinu 2022. Þetta kemur fram í nefndaráliti meirihlutans, sem samanstendur af þingmönnum stjórnarflokkanna þriggja.
Í álitinu segir að þetta sé gert í þar sem kostnaðaráætlun Rannís geri ráð fyrir að heildarendurgreiðslur verði 11,7 milljarðar króna á árinu 2022. „Hækkun milli umræðna skýrist af því að áætlun Rannís var ekki tilbúin þegar 1. umræða fór fram. Nú hefur Rannís unnið áætlun um heildarendurgreiðslur á árinu 2022 sem unnin er út frá umsóknum sem borist hafa á árinu 2021. Umfang tillagna er meira en á síðasta ári og einnig er um fleiri fyrirtæki að ræða. Rannís notast við reikniformúlur þar sem áætluð er líkleg endurgreiðsla og hefur líkanið skilað góðu samræmi milli áætlana og álagningar hjá Skattinum.“
Ákveðið var að hækka þakið á endurgreiðslum vegna rannsókna og þróunar í fyrra og í stjórnarsáttmála nýrrar ríkisstjórna Vinstri grænna, Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks var tilkynnt að sú tímabundna hækkun yrði gerð varanleg.
Endurgreiðsluhlutfallið er 35 prósent í tilviki lítilla og meðalstórra fyrirtækja, en 25 prósent í tilviki stórra fyrirtækja. Hámark skattafrádráttar er 385 milljónir króna hjá litlum og meðalstórum fyrirtækjum og 275 milljónir króna hjá stórum fyrirtækjum.
264 fyrirtæki fengu endurgreiðslur í ár
Endurgreiðslur ríkissjóðs vegna rannsókna- og þróunarkostnaðar voru alls 10.431 milljónir króna í ár vegna þessarar hækkunar. Það er rúmlega tvöfalt meira en endurgreiðslurnar í fyrra, sem námu samtals 5.186 milljónum króna. Endurgreiðslurnar voru um 2,1 milljarður króna árið 2016 og 1,3 milljarður króna 2015.
Í ár skiptu alls 264 fyrirtæki endurgreiðslunum á milli sín og þeim fjölgaði um 63 milli ára.
Að CCP undanskildu fékk upplýsingatæknifyrirtækið Origo mesta skattafrádráttinn í ár, en hann nam alls 372 milljónum króna, ef talinn var með 44,5 prósenta eignarhlutur þess í fyrirtækinu Tempo. LS Retail var svo með þriðja mesta skattafrádráttinn í ár, en hann nam alls 317 milljónum króna. Þar á eftir komu Össur og Alvotech, sem hvort um sig fékk 275 milljónir króna í skattaafslátt vegna nýsköpunar.
Sögðu ýmsa telja fram rekstrarkostnað sem nýsköpun
Í vor var frumvarp um að gera endurgreiðslurnar varanlegar til umfjöllunar á þingi. Á meðal þeirra sem skiluðu umsögn um það var Skatturinn. Hann hafði ýmislegt við áformin að athuga. Í umsögninni sagði að framkvæmd sú sem snerti nýsköpunarstyrki væri afar flókin þar sem erfitt geti verið að skilja á milli venjubundins rekstrarkostnaðar og kostnaðar vegna nýsköpunarverkefna. Á stundum þurfi sérhæfða þekkingu til að skilja þar á milli.
Reynslan af úthlutun nýsköpunarstyrkja úr ríkissjóði hafi sýnt „að ekki er vanþörf á eftirliti með þessum málaflokki þar sem nokkur brögð hafa verið að því að við skattskil hafi almennur rekstrarkostnaður og kostnaður sem telja verður að tilheyri frekar eðlilegum endurbótum á fyrirliggjandi afurð sem viðkomandi fyrirtæki hefur tekjur af verið færður undir kostnað vegna staðfestra nýsköpunarverkefna.“
Skatturinn benti á að ekki hafi verið sett með lögum ákvæði um beitingu álags eða annarra refsiviðurlaga til að bregðast við eða skapa varnaðaráhrif vegna „háttsemi sem samrýmist ekki lögum þessum [...] Ekki ætti að þurfa að árétta að misnotkun á þessum stuðningi með óréttmætum kostnaðarfærslum getur leitt til verulegra útgjalda af hálfu hins opinbera, í formi óréttmætra endurgreiðslna, auk þess að raska samkeppni á markaði.“
Í ljósi alls þessa taldi Skatturinn „óvarlegt að gera ráðstafanir sem ljóst þykir að muni leiða til aukins umfangs málaflokksins til frambúðar, og aukinna endurgreiðslna úr ríkissjóði, án þess að hugað sé að því hvernig styrkja megi viðeigandi regluverk í því skyni að einfalda og styrkja umrædda framkvæmd. Slíkar breytingar væru jafnframt til þess fallnar að auka gagnsæi og fyrirsjáanleika gagnvart skattaðilum.“
Fyrirvari: Hjálmar Gíslason, stofnandi og framkvæmdastjóri GRID, er hluthafi og stjórnarmaður í Kjarnanum.