Bára Huld Beck Gallery Port
Bára Huld Beck

„Pörupiltarnir“ í gróðurhúsi íslenskrar myndlistar

Árni Már Erlingsson og Skarphéðinn Bergþóruson hafa rekið Gallery Port frá því um mitt ár 2016 og halda nú jólasýningu í fyrsta sinn á nýjum stað að Laugavegi 32 en galleríið var áður til húsa nokkrum metrum neðar við götuna. Þeir eru þó engir nýgræðingar í jólavertíðinni en þetta er þeirra sjötti jólabasar. Þeir líkja jólamörkuðunum sem nú spretta upp kollinum hér og hvar við piparhúðað sælgæti: „Það var pipar á einhverju einu sælgæti og svo var allt í einu pipar á öllu sælgæti.“

Gall­er­í­ist­arnir Árni Már Erlings­son og Skarp­héð­inn Berg­þóru­son í Gall­ery Port færðu nýlega út kví­arnar þegar þeir fluttu sig um set á nýjan stað við Lauga­veg 32, stein­snar frá gömlu húsa­kynn­unum við Lauga­veg 23 með port­inu góða sem gall­er­íið er kennt við. Gestir Lauga­veg­ar­ins geta því nú í fyrsta sinn horft inn um glugga til þess að skoða verkin sem hanga í Port­inu hverju sinni auk þess sem þeir Árni og Skarpi hafa úr meira rými að moða fyrir sýn­ing­ar­hald eftir flutn­ing­ana.

Það er þó tvennt ólíkt að skoða sýn­ingar í gegnum rúðu­gler og inni í sjálfum sýn­ing­ar­saln­um. Kjarn­inn staldr­aði við í kaffi hjá þeim félögum til að ræða um nýtt sýn­ing­ar­rými, um íslenskan list­markað og áhuga almenn­ings á list – en ekki síst um jóla­basara. Þeir Árni og Skarpi eru orðnir ansi sjó­aðir í jóla­mark­aðs­leikn­um, enda eru þeir að halda sína sjöttu jóla­sýn­ingu, í þetta sinn undir yfir­skrift­inni Jóla­gestir Gall­ery Port.

Um 200 verk á sýn­ing­unni í ár

Strák­arnir í Port­inu hafa uppi stórar hug­mynd­ir, líkt og Árni bendir á á einum stað í við­tal­inu sem hér fer á eftir þegar hann seg­ir: „Annað hvort erum við á leið­inni í eitt­hvað stærra geim eða í gjald­þrot,“ en ummælin eru til marks um þann húmor sem ein­kennir þá Árna og Skarpa. Á þeim tíma sem bandið í upp­töku­tæk­inu fékk að rúlla og á meðan kaffið var sötrað, létu þeir gamm­inn geisa og spyrill varð á stundum að áhorf­anda mitt í snakki þeirra félag­anna. En við hefjum yfir­ferð­ina á því að spyrja út í umfang mark­að­ar­ins í ár, líkt og í fyrri við­tölum við stað­ar­hald­ara sem halda úti jóla­mörk­uð­um.

Skarpi: „Þetta eru rúm­lega 60 lista­menn og við höfum enga hug­mynd um fjölda lista­verka, þetta er frá einu og upp í fimm verk á mann.“

Árni: „Svo eru þeir sem eru ofvirk­astir sem koma með lag­er.“

Skarpi: „Síðan við byrj­uðum hafa þetta verið eitt­hvað um 200 verk að minnsta kosti. Svo eru prent­verk og alls konar verk.“

Þeir segja að nokkur róter­ing hafi verið á verkum vegna ágætrar sölu en Árni bendir á að salan auk­ist alltaf eftir því sem nær dregur jól­um. Af þeim sökum tapst heild­ar­yf­ir­bragð jóla­sýn­ing­ar­innar heldur fljótt, segir Skarpi, þó það sé ekki endi­lega mark­miðið að ná slíkri heild­ar­sýn:

„Síðan er bara tekið af veggj­unum eins og er á svona mörk­uð­um, fólk tekur með sér verk. Þá reynum við að stoppa í götin með verkum frá þeim sama eða öðrum eða eitt­hvað sem passar í gat­ið. Þetta er sjötti jóla­mark­að­ur­inn og við byrjum alltaf á að reyna að raða þessu upp eins og þetta sé sýn­ing, finna hvað passar saman og svona. Svo er þetta allt á hreyf­ingu þannig að þetta skiptir ekki svo miklu máli á end­an­um. Það er gaman að sjá þetta korteri fyrir opnun og svo hverfa myndir af veggj­un­um.“

„Stela aðeins“ af jóla­launum rit­höf­und­anna

Þú segir að þetta sé sjötta jóla­sýn­ing­in. Svo þið hafið verið komnir frekar snemma á vagn­inn, jafn­vel verið með þeim fyrstu til að setja upp svona jóla­sýn­ingu?

Árni: „Ef ég man rétt þá var Kunstschla­ger sem var starf­andi lista­manna­rekið gall­erí á Rauð­ar­ár­stíg að gera þetta á sínum tíma, sem er tals­vert fyrir okkar tíð.“

Skarpi: „En var ekki smá gat í þessu?“

Árni: „Ég held að það hafi komið eitt­hvað gat þarna á milli og svo verður þetta meira áber­andi. Við byrjum að gera þetta og svo Ásmund­ar­salur og svo kemur Ljósa­basar Nýlista­safns­ins og svo núna er List­val kom­ið. Svo er Mutt með pop-up sýn­ingu og Þula er með jóla­sýn­ingu með verkum frá Kína. Þannig að þetta er orðið svo­lítið mik­ið.“

Skarpi: „Það var svo­lítið gat í þrjú, fjögur ár af svona mörk­uðum eins og við vorum með fyrst, með fólki af yngra tag­in­u.“

Árni: „Við erum bara að reyna að troða okkur með rit­höf­und­un­um, stela aðeins af jóla­laun­unum þeirra. Þetta er bæði ótrú­lega skemmti­legt því að við fáum báðir mikið af heim­sóknum frá fjöl­skyldu og vinum sem koma kannski ekki oft en koma í bæinn af því að það eru að koma jól og svo er mikið af fólki sem kemur hingað inn því það eru að koma jól þannig að þetta verður hálf­gerð árs­há­tíð. Mikið af lista­mönnum sem eru tengd gall­er­í­inu koma á þessu tíma­bili og mikil gleði í bland við langa opn­un­ar­tíma og mikið stuð.“

Jóla­mark­aðir orðnir eins og pip­ar­húðað nammi

Hafið þið ein­hverja skýr­ingu á því hvers vegna jóla­mark­að­irnir eru orðnir svona margir?

Árni: „Er það ekki bara eins og allt sem verður vin­sælt og skemmti­legt á Íslandi? Eins og saltið á sínum tíma, það var sjáv­ar­salt í öllu og svo þró­ast þetta bara áfram. Það var pipar á ein­hverju einu sæl­gæti og svo var allt í einu pipar á öllu sæl­gæti, er þetta ekki bara íslenskt þema?“

Skarpi: „Líka bara lista­menn­irnir fara að bjóða sig fram, þeir sjá að þetta virk­ar. Þeir eru lang, lang­flestir að taka þátt. Það eru ekki margir sem eru að gera svona list, sölu­væn­lega list, sem taka ekki þátt að neinu leyti. Margir eru á fjórum eða fimm mörk­uð­u­m.“

Rúmlega 60 listamenn eiga um 200 verk á jólasýningunni Jólagestir Gallery Port.
Bára Huld Beck

Nú eruð þið báðir að fást við mynd­list og það eru verk eftir ykkur hérna og líka ann­ars stað­ar. Þið eruð báðir í Ásmund­ar­sal og ert þú ekki líka með verk hjá List­val, Árni?

„Ég er algjört sell-out þessi jól­in, það er klárt mál,“ segir Árni og hlær.

Svo það má kannski segja að íslenskur list­mark­aður sé ekki mjög stór, þið sýnið til dæmis víða. Höndlar íslenskur list­mark­aður svona marga basara á sama tíma ár eftir ár?

Árni: „Það er fyndið að þú skulir minn­ast á þetta. Ég var einmitt að eiga þetta sam­tal við einn gest hérna um dag­inn um að mig lang­ar, og við þurfum að útfæra það á næsta ári, mig langar að setja upp „edition“ markað eins og við vorum með fyrir nokkrum árum, til að reyna að hafa ein­hverja sér­stöð­u.“

Skarpi: „Það var lagt upp með það fyrst að vera með lít­il, sölu­væn­leg edition verk. Svo er þetta búið að stækk­a.“

Árni: „Ég held að List­val, við og Ásmund­ar­salur séum öll að koma vel út úr þessu. Fyrir við­skipta­vin­inn er þetta næs, því hann getur farið út um allt, það er rosa mikið fram­boð. Það eru allir list­mark­að­irnir auð­vitað með sína sér­stöðu en svo eru „the usual sup­sects“ yfir­leitt á flestum stöð­um. Jújú, það er eitt­hvað sam­bæri­legt á sumum stöðum en svo hafa List­val og Ásmund­ar­salur ein­hverjar myndir sem eru ekki ann­ars stað­ar.“

Skarpi: „Ás­mund­ar­salur bað um ný verk gerð fyrir sig. Þannig að þetta eru ekki sömu verk­in.“

Prakk­ara­skapur lista­manna

Er það rétt að hér í Porti sé alúð lögð við að sinna gras­rót­inni?

Skarpi: „Við erum með nýtt slag­orð fyrir Portið núna, „Gróð­ur­hús í íslenskri mynd­list“. Það var fyrst „Gróð­ur­hús gras­rót­ar­innar í íslenskri mynd­list“. En ég held að sé bara „Gall­ery Port: Gróð­ur­hús í íslenskri mynd­list“.“

Árni: „Það laum­ast alltaf einn og einn inn, einn og einn svona eldri frændi eða frænka með okk­ur.

Þrívíð verk verða æ algengari á jólamörkuðunum.
Bára Huld Beck

Um þessa eldri frændur og frænkur segir Skarpi að þau eigi það þó sam­eig­in­legt að beita smá prakk­ara­skap í list­sköpun sinni og nefnir hann sem dæmi verkið Ekki þitt besta verk eftir Krist­ínu Gunn­laugs­dótt­ur. Verkið er ein­falt að gerð, Kristín hefur saumað út á striga orðin „Ekki þitt besta verk“ með rauðum ull­ar­þræði. Árni nefnir í sömu andrá verkið Leið­ar­ljós eftir Pétur Magn­ús­son sem er gang­stétt­ar­hella með tyggjó­klessu. Árni heldur áfram og segir gras­rót­ina engu að síður fá gott pláss í Porti:

„Ég held í sjálfu sér að þetta eld­ist með því sem við eld­umst en við erum með eins og til dæmis Einar Lúð­vík sem við spáum góðu gengi á næstu árum. Hann er bara til­tölu­lega nýút­skrif­að­ur, svo erum við með Evu Schram, ljós­mynd­ara. Það eru tvö ár síðan hún útskrif­að­ist. Hjör­dís Eyþórs sömu­leiðis og Ýmir Grön­vold. Við erum með þessa gras­rót en mig grunar að það fari að þró­ast í þetta milli­stig á milli þess að vera gras­rót og vera kannski komin út í „commerci­al“ gall­erí eða erlend­is.“

Líta ekki á sig sem sýn­ing­ar­stjóra

Spurðir að því hvort líta megi á Gall­ery Port sem ein­hvers konar stökk­pall fyrir unga lista­menn segja þeir að svo megi vera. Að mati Árna eru þeir til dæmis „ágætis tól til að kenna lista­mönnum mik­il­vægi þess að starfa með gall­er­íum,“ og Skarpi segir að það geti verið skref upp á við fyrir ein­hverja að sýna í Porti. Hann bætir því kank­vís við að þeir séu eins konar „na­sa­þefur af „the big time“,“ þó þeir tveir geti ekki beint kallað sig sýn­ing­ar­stjóra.

Árni: „Hvernig þá?“

Skarpi: „Við vinnum með fólki þegar það kemur inn. En við erum ekki sýn­inga­stjór­ar, „curator­ar“, inni í ein­hverju ferli í marga mán­uði, þannig, þó að ein­hver komi og segi „mig langar að vera með svona sýn­ing­u,“ þá getum við ekki sett það á CV-ið okkar að við höfum „curatað“ þeirri sýn­ing­u.“

Árni: „Við erum búnir að vera að þessu í sex ár og sem betur fer verðum við aðeins betri í þessu með tím­an­um. Við erum fluttir í þetta fína hús­næði hérna þar sem við erum með stórar hug­mynd­ir. Annað hvort erum við á leið­inni í eitt­hvað stærra geim eða í gjald­þrot.“

Hversu langur er und­ir­bún­ing­ur­inn að svona sýn­ingu?

Árni: „Það byrjar bara í lok sum­ar­s.“

Skarpi: „Þá förum við að snerta á þessu, nefna þetta við fólk og fólk nefnir þetta jafn­vel við okkur að fyrra bragði um það leyti. Við kannski lærðum það fyrir ein­hverjum árum að vera snemma í því.“

Árni: „Af ein­hverjum öðrum seina­gangi af ein­hverjum öðrum jóla­mark­að­i.“

Hvað eruð þið svo lengi að henda þessu upp?

Árni: „Það er eig­in­lega minnsti tím­inn. Mesti tím­inn fer eig­in­lega í að stað­festa, bóka, taka ljós­myndir og sam­skipti við lista­menn.“

Skarpi: „Og að vor­kenna okkur yfir því að þurfa að setja þetta allt upp. Horfa á þetta og spá í þessu. En nei, við vorum ekk­ert lengi að þessu. Við höfðum heldur ekki mik­inn tíma og það hefur alltaf verið þannig á sýn­ingum hérna. Við erum alltaf með tvær sýn­ingar í mán­uð­i.“

Árni: „Í þetta skiptið höfðum við ein­hverja þrjá eða fjóra daga.“

Og ein­hverjar fleiri hendur til þess að negla þetta allt upp?

Skarpi: „Nei í raun og veru ekki, ekki í þetta sinn.“

„Mér líst vel á þennan biss­ness!“

Það er eitt sem mér finnst dálítið skemmti­legt og verð að nefna. Sýn­ing­ar­staðir leggja mis­mikið upp úr því að vera með sýn­ing­ar­skrá eða „ka­talóg“ á þessum jóla­sýn­ing­um. Þið farið þá leið að nota gömlu góðu verð­mið­ana, hvaða „sta­tem­ent“ er það?

Árni: „Það held ég að skrif­ist bara á hauga­skap.“

Skarpi segir í kjöl­farið frá leið­angri þeirra Árna í leit að verð­miða­byss­unni sem hefur reynst þeim nauð­syn­legt tól, því „menn eru mis­góðir í að geyma verðin í hug­an­um“. Þeir lögðu leið sína í verslun sem selur ýmsan varn­ing, stimpla, verð­miða­byssur og annað í þeim dúr og þar hafi þeir fundið tvær slíkar byssur til sölu. Mun­ur­inn var sá, líkt og kona sem starf­aði í búð­inni útskýrði fyrir þeim, að önnur gat gert miða með fimm tölu­stöfum en hin með sex! Árni var fljótur að velja sex stafa byss­una og þá segir konan í búð­inni: „Mér líst vel á þennan biss­ness!“

Öll verkin á sýningunni eru verðmerkt með gamaldags verðmiða.
Bára Huld Beck

Árni: „Þetta er alls ekk­ert hauga­skapur hjá okk­ur. Það er rosa erfitt að fá allar þessar ljós­myndir sem við báðum um. Svo eru það gæði ljós­mynd­anna, þetta er stundum bara tekið á síma. Í fyrra þá vorum við með Óskar Hall­gríms­son, vin okk­ar, sem er ljós­mynd­ari og mynd­list­ar­maður með okkur í liði. Þetta voru örugg­lega tveir sól­ar­hringar komp­lett í ljós­mynd­un, eft­ir­vinnslu og að búa til bæk­ling og svo var bæk­ling­ur­inn svo stór og mik­ill að við vorum bæði með hann í digi­tal formi, við vorum með QR kóða fyrir við­skipta­vini og bæk­ling­inn á staðn­um.“

Skarpi: „Svo verður hann útrunn­inn.“

Árni: „Það er svo mikil hreyf­ing á verkum og svo átti fólk stundum í stök­ustu vand­ræðum með að finna til­tekin verk, þannig að fólk kom alltaf til mín. Við vorum að pæla í því núna í gær hvort við ættum að prenta út og setja miða með nöfnum á alla. Sem yrði þá í stíl, yrði þá í sama lit og úr verð­miða­byss­unni. En klár­lega fyrir næstu jól, þá þurfum við að finna ein­hverja lausn á þessu.“

Skarpi: „En það er líka gaman að láta fólk meta verk­in, ekki út frá nafni heldur bara út frá verði. Það væri auð­vitað best ef það væri ekki verð. En það er fyndið að sjá fólk bera hlut­ina saman út frá verð­i.“

Árni: „En ann­ars er þetta eitt­hvað sem er strang­lega bannað held ég, í svona gall­er­ís­regl­un­um.“

Ég ætla að leyfa mér að segja að ég fíla þetta, það er mikil „Ports áferð“ á þessum verð­mið­um, er ekki eitt­hvað til í því?

Árni: „Við erum alltaf, kannski er það ekki rétt hjá mér, en mér finnst við alltaf vera smá pöru­pilt­ar.“

S: „Þetta er líka mik­ill búð­ar­leik­ur. Að vera hérna á Lauga­vegi, það kemur hérna fullt af venju­legu fólki og það er að meta verðin og þetta. Maður þarf stundum að svara fyrir eitt­hvað, eða reyna það.“

Gaman að fá fólk „óvart“ inn um dyrnar

Hvernig er það að reka gall­erí við Lauga­veg?

Árni: „Það er eitt sem flækir örlítið fyrir okkur mál­in. Við höfum vissu­lega mátt njóta góðs af ýmiss konar styrkjum frá Reykja­vík­ur­borg, en okkar styrk­leiki liggur ekki í að liggja yfir umsóknum og sækja um styrki. Það hefur alltaf flækt fyrir okkur að við þurfum að reka gall­er­íið með sölu á verk­um. Vissu­lega væri draum­ur, og það er eitt­hvað sem við munum von­andi geta gert, að leyfa okkur meira að vera með ein­hverja sam­tíma­list sem kannski er erf­ið­ara að koma í verð.“

Að ein­blína þá meira á sýn­ingar frekar en sölu?

Árni: „Að leyfa því að vera bæði. Við erum báðir ótrú­lega tví- og þrí­víðir í fúnk­sjón sem lista­menn. Ég held að þetta eigi við sama hvar við hefðum verið stað­settir að það væri alveg gaman að geta haft minni áhyggjur af rekstri og meiri áhyggjur af því að leika sér.“

Skarpi: „En að vera við Lauga­veg­inn, það hefur ekk­ert komið mikil reynsla á þessa nýju stað­setn­ingu. Við vorum nátt­úr­lega í ein­hver sex ár þarna í Port­inu. Að vera við Lauga­veg­inn og fá, eins og sér­stak­lega í kringum jólin og á þor­láks­messu, að fá straum­inn af venju­legu fólki inn. Og jafn­vel svona „óvart“ inn. Að vera svona í fram­lín­unni gagn­vart almenn­ingi er erfitt en gam­an. Svo kemur túrist­inn lík­a.“

Árni: „Við eigum eftir að kom­ast að því hvernig þetta verður hérna í þessu sýni­lega plássi á Lauga­veg­inum en við höfum haft mjög gaman af því að vera á Lauga­veg­in­um.“

Galleríistarnir reyna að raða saman verkum sem eiga vel saman. „Það er gaman að sjá þetta korteri fyrir opnun og svo hverfa myndir af veggjunum.“
Bára Huld Beck

Þið hafið verið hérna við Lauga­veg í öll þessi ár, þar sem lokað er fyrir bíla­um­ferð. Hafið þið ein­hverja skoðun á því máli?

Árni: „Þetta er heitt „topic“. Ég held að einn bar­áttu­maður fyrir því að Lauga­veg­ur­inn ætti að vera lok­aður fyrir bíla­um­ferð, fyrrum leigu­sali okkar Hörður Ágústs­son í Macland, hafi orðað þetta ágæt­lega: Það hefði bara átt að loka þessu strax. Þá hefðum við van­ist þessu. Þá hefðum við búið til ein­hverjar aðferðir til þess að láta þetta virka. Vöru­af­hend­ing getur farið fram á morgn­anna eins og það er í dag og þá værum við ekki alltaf í þessu fíaskói. Eins og einn dag­inn mættum við Skarpi bara í vinn­una og þá var fólk að keyra upp Lauga­veg­inn, við spurðum okkur hrein­lega: „Hvað er í gangi hérna?“ Þá var öfug umferð á milli Klapp­ar­stígs og Frakka­stígs.“

Skarpi: „Það var bók­staf­lega hættu­leg­t.“

Árni: „Það voru mörg mynd­bönd sem fóru á sam­fé­lags­miðla af bílum að keyra í sitt­hvora átt­ina og fólkið fór úr bíl­unum og kall­aði: „Hvað ertu að fokk­ing ger­a?“ Ég held að það eigi bara að loka fyrir bíla­um­ferð til fram­búðar frá Frakka­stíg eða Klapp­ar­stíg og svo kom­ast þeir sem eiga í erf­ið­leikum í bláu stæðin og vöru­af­hend­ing á morgn­anna.“

„Ótrú­leg­ustu týp­ur“ hafa áhuga á mynd­list

Í ljósi þess að þið fáið marga gesti og kannski vegna þessa að þið eruð á þessum stað, hvernig metið þið mynd­list­ar­á­huga almenn­ings í dag?

Skarpi: „Hann er mjög mik­ill. Bara venju­legt fólk spáir mikið til dæmis í íslenskri mynd­list á Instagram heima hjá sér og talar um það í sauma­klúbbum og svo­leið­is. Og það þekkir ótrú­leg­asta mynd­list­ar­fólk. Fólk þekkir Ými Grön­vold og Loja Hösk­ulds og Helgu Pál­eyju og Ásgeir Skúla­son, það þekkir þessi nöfn. Fólk sem maður myndi kannski halda að væri ekki inni í þessu, hefur mik­inn áhuga.“

Árni: „Mér finnst líka bara mik­ill áhugi hjá ungu fólki. Ungt fólk áttar sig á mik­il­vægi þess að virða fyrir sér og eign­ast mynd­list og fræð­ast um þetta. Auð­vitað eru alltaf ein­hverjir sem vilja tikka í ein­hver box, „mig langar að eiga þennan og þennan af því að þetta er geggjað og ótrú­lega vin­sælt akkúrat nún­a,“ en það eru rosa margir sem hafa mik­inn áhuga á þessu. Oft og tíðum alveg ótrú­leg­ustu týp­ur, sem maður átti kannski enga von á. Oft sér maður fyrir sér að þetta sé fólk sem klæðir sig í arty föt en svo er það ekki þannig.“

Skarpi: „Þarna er Árni að tala um fólk sem er að kaupa. En það er líka fólk sem kemur ekki endi­lega á opn­an­ir, það er að vísu einn hópur sem kemur á opn­anir og fær sér rauð­vín sem við sjáum alltaf, ein­hvers konar mynd­list­ar­á­huga­menn. En svo er líka fólk sem býr hérna í grennd­inni og hefur mik­inn áhuga á að skoða hvað er nýtt. Fólk sem getur gengið að því vísu að við séum alltaf með eitt­hvað nýtt á tveggja vikna frest­i.“

Hafið þið fylgst með áhug­anum þró­ast á ein­hvern hátt, hefur hann aukist?

Skarpi: „Myndum við ekki segja að hann hafi auk­ist núna í COVID til dæm­is, áhug­inn á því að spá í ein­hverju svona? Fólk var líka miklu meira heima hjá sér.“

Árni: „Svo held ég að það hafi bara verið leik­ara­stétt­inn sem fékk smá und­an­þágu í COVID til að starfa í hinu og þessu, í til dæmis þáttum fyrir sjón­varp. Allir almennt í kringum okkur í leik­húsi, sviðs­listum og tón­list og öllum þessum skap­andi greinum voru bara í hakki en við í mynd­list­inni komum ágæt­lega út úr þessu.

Mik­ill húmor í íslenskri mynd­list í dag

Hvað ein­kennir list­sköpun starf­andi lista­manna í dag?

Skarpi: „Það er eig­in­lega bara það hvað það er fjöl­breytt. Við erum búin að vera með eitt­hvað í kringum 120 sýn­ingar frá því við byrj­uðum og það er svo vítt svið. Bæði í efni og hug­mynd­um.“

Árni: „Sindri Leifs­son sýndi til dæmis hjá okkur verk sem eru unnin úr trjám, tré sem er tekið og skorið í tvennt, slípað og lakkað og svo sýnt sem skúlp­túr. Svo höfum við líka verið með ein­hver alveg ramm­klass­ísk mál­verk eftir Rögn­vald Skúla Árna­son eða Þránd Þór­ar­ins­son. Við höfum verið með ótrú­lega marg­breyti­legar sýn­ing­ar, eitt­hvað sem lítur út eins og mynd eftir David Lynch á slæmum nið­ur­túr og allt þar á milli.“

Rýmið er nýtt til hins ýtrasta á jólasýningunni í Porti.
Bára Huld Beck

Skarpi: „Við munum aldrei ná því hvað ein­kennir þetta og þetta er ekki í fyrsta skipti sem við fáum þessa spurn­ingu. Eitt sem mér dettur í hug er að það er mik­ill húmor í íslenskri mynd­list núna. Ekki eitt­hvað svona skens eða glens, heldur húmor, eitt­hvað bros­leg­t.“

Árni: „Eftir að ég flutti frá Þýska­landi þá tók ég eftir að ég varð meira var við hákarlastemn­ingu erlend­is. Maður var að heyra af krökkum sem voru í lista­há­skól­un­um, þar væri fólk bara að stela hvert af öðru og stíga á tærnar hvert á öðru til að kom­ast fram fyrir því það er svo erfitt að kom­ast að. Mér fannst frekar krútt­leg hippastemn­ing hérna á Íslandi, fólk er meira til í að hjálp­ast að og svona. Kannski veit ég ekki betur en mér finnst þetta alltaf pínu ein­kenn­andi fyrir íslensku sen­una. En svo þekk­ist það alveg líka þessi hákarlastemn­ing hérna á íslandi, það er alveg til líka. En það var svona „væ­bið“ sem ég fékk þegar maður kom heim. Portið hefði til dæmis aldrei orðið að því sem það hefur orðið nema fyrir þennan hóp af lista­mönnum sem hefur annað hvort komið og hjálpað okkur að mála á milli sýn­inga eða komið og tekið þátt á einn eða annan hátt að öðru leyti en að koma með verk eða setja upp sýn­ingu. Við hefðum ekk­ert náð að gera það sem við höfum náð að gera bara við tveir.

Hafa stórar hug­myndir um fram­tíð­ina

Eru öll dýrin í þessum litla skógi sem íslensk mynd­list­ar­sena er góðir vin­ir?

Árni: „Auð­vitað ekki og kannski eðli­lega. Við Skarpi erum til dæmis ekki með einka­sýn­ingu hérna með ein­hverjum sem er á mála hjá i8, Berg eða Hverf­is­gall­er­íi. Það til dæmis kom hingað lista­maður í gær eða fyrra­dag sem við höfum aðeins unnið með sem er að fara að vera með einka­sýn­ingu í sept­em­ber hjá vinum okkar í Lista­mönnum á Skúla­götu og þá reynum við ekki að bóka hann hérna í mars. Auð­vitað eru ein­hver prinsipp. Ein­hvern tím­ann var sagt við mig að öll dýrin eru vinir þangað til málið fer að snú­ast um pen­inga en það var í sam­hengi við eitt­hvað ann­að. Að ein­hverju leyti eru samt allir vin­ir.“

Já, „að ein­hverju leyti eru samt allir vin­ir,“ gætu verið prýði­leg loka­orð, nú þegar kaffi­fantar okkar Árna og Skarpa eru orðnir tóm­ir. En það er ekki hægt að kveðja gall­er­í­istana án þess að spyrja hvað fram­tíðin beri í skauti sér fyrir Gall­ery Port. Árni segir hróð­ugur frá her­bergi aft­ast í gall­er­í­inu sem nú er orðið að sér­stöku upp­lags­plássi, eins konar gall­eríi inni í gall­eríi sem til­einkað er verkum í upp­lagi, „hvort sem það er prent eða skúlp­túr í núm­er­uðu upp­lag­i“.

Spurður að því hvort þeir hafi stórar hug­myndir um fram­tíð­ina á þessum nýja stað svarar Árni ját­andi, „alla­vega í bil­i“. Skarpi beitir hins vegar kald­hæðn­inni fyrir sér: „Ekki nema lokun Lauga­vegar setji strik í reikn­ing­inn og eng­inn kom­ist hing­að.“

Við þurfum á þínu framlagi að halda

Þú getur tekið beinan þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Við sem vinnum á ritstjórn Kjarnans viljum hvetja þig til að vera með okkur í liði og leggja okkar góða fjölmiðli til mánaðarlegt framlag svo við getum haldið áfram að vinna fyrir lesendur, fyrir fólkið í landinu.

Kjarninn varð níu ára í sumar. Þegar hann hóf að taka við frjálsum framlögum þá varð slagorðið „Frjáls fjölmiðill fyrir andvirði kaffibolla“ til og lesendur voru hvattir til að leggja fram í það minnsta upphæð eins kaffibolla á mánuði.

Mikið vatn hefur runnið til sjávar á þeim níu árum sem Kjarninn hefur lifað. Í huga okkar á Kjarnanum hefur þörfin fyrir fjölmiðla sem veita raunverulegt aðhald og taka hlutverk sitt alvarlega aukist til muna.

Við trúum því að Kjarninn skipti máli fyrir samfélagið.

Við trúum því að sjálfstæð og vönduð blaðamennska skipti máli.

Ef þú trúir því sama þá endilega hugsaðu hvort Kjarninn er ekki allavega nokkurra kaffibolla virði á mánuði.

Vertu með okkur í liði. Þitt framlag skiptir máli.

Ritstjórn Kjarnans: Sunna Ósk Logadóttir, Þórður Snær Júlíusson, Erla María Markúsdóttir, Arnar Þór Ingólfsson, Eyrún Magnúsdóttir og Grétar Þór Sigurðsson.


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Efnisflokkar:
Meira eftir höfundinnGrétar Þór Sigurðsson
Meira úr sama flokkiViðtal