Aukin hnattvæðing reynir á fullveldi ríkja en hún skapar um leið ákveðið regluverk sem ríkin vilja gjarnan virða og laga sig að. Það áhugaverða er síðan hvernig fólk getur nýtt sér hnattvæðinguna til að skapa sér nýjan grundvöll félags- og borgaralegra réttinda sem ekki eru bundin við þjóðríkið sjálft heldur eiga sér óstaðbundna uppsprettu. Þessar breyttu forsendur gætu hugsanlega átt sinn þátt í að breyta stjórnmálunum varanlega.
Ekki er víst að fólk átti sig alveg á hvað verið er að tala um með hnattvæðingu enda hugtakið gríðarlega margbrotið og teygjanlegt – og hlutir eins og óheft heimsviðskipti og útbreiðsla internetsins segja ekki nema hálfa söguna. Í einfölduðu máli má segja að hnattvæðing sé það þegar ákveðið fyrirkomulag breiðist um heim allan og fer að stjórna því hvernig ég og þú högum okkar málum — hvort sem okkur líkar það betur eða verr — með beinum hætti eða í gegnum það þjóðríki sem við tilheyrum.
Áhrif hnattvæðingar
Alþjóðalög um grundvallar mannréttindi, sem hin fullvalda ríki hafa allflest samþykkt og innleitt, verða að teljast gott dæmi um jákvæðar hliðar hnattvæðingar. Þar hafa einstaklingar öðlast æ meiri alþjóðlegan lögformlegan rétt. M.a. eru nú til yfirþjóðlegir dómstólar eins og Mannréttindadómstóll Evrópu þar sem venjulegt fólk getur leitað réttar síns gagnvart sínu heimaríki telji það á sér brotið. Að sama skapi er grannt fylgst með því að ríki uppfylli þá mannréttindasáttmála sem þau hafa gerst aðilar að.
Jafnframt geta ríki blandað sér í innanríkismál annars ríkis og ber jafnvel að gera svo ef gróflega er farið gegn þeim skyldum að vernda borgarana, t.a.m. með þjóðarmorðum og stríðsglæpum. Í slíkum tilfellum dugar fullveldið ekki sem vörn gegn utanaðkomandi afskiptum enda er það í raun ekki einhliða og ber einnig í sér tilteknar skyldur.
Eðli hnattvæðingar er þó þannig að hún finnur sér gjarnan leið inn í samfélagið utan formlegra leiða, án þess að fram hafi farið mikil umræða um það. Stundum er það vegna ríkra viðskiptahagsmuna en einnig ýmiss konar þrýstings og áhrifa frá alþjóðlegri starfsemi á öllum sviðum mannlífsins. Má nefna alþjóðlega staðla um háskólamenntun, samstarf dómara á heimsvísu sem hefur áhrif á dómstóla eða viðmið um aðbúnað starfsfólks alþjóðlegra fyrirtækja.
Ákveðnar hliðar hnattvæðingar verða að teljast neikvæðar því fjölþjóðafyrirtæki, auðhringir og fjármálaveldi steypa gjarnan hlutina í sama mótið í krafti auðmagns. Staðbundin atvinnustarfsemi stenst ekki flóð ódýrrar framleiðslu og gamalgróin þjóðleg einkenni þurrkast út.
Jafnframt er ljóst að þarna er sótt að hinu fullvalda ríki sem sér sig knúið til að gefa eftir fullveldið til að geta tekið þátt í hinu alþjóðlega kerfi—stundum með þeim afleiðingum að einstaklingar glata grundvallar mannréttindum og lýðræðið fer veg allrar veraldar. Dæmi um þetta er ríki sem sér í gegnum fingur sér með brot á lögum um aðbúnað og kjör verkafólks, til að tryggja starfsemi alþjóðlegs stórfyrirtækis í landinu.
Mynd: Flickr.com
Aftenging ríkisins – ný uppspretta lýðræðis og mannréttinda?
Alþjóðakerfið hefur lengst af miðast við hið fullvalda ríki og samskipti þeirra á milli – og réttindi og skyldur fólks hafa þá að mestu verið bundin við það þjóðríki sem það tilheyrir. Þar er víða pottur brotinn eins og gengur, lýðræðið jafnvel fótum troðið. En ekki fer hver sem er með mál fyrir Mannréttindadómstólinn og Bandaríkin ráðast ekki inn í landið þitt, til að koma spilltum stjórnvöldum frá, nema það þjóni brýnum hagsmunum þeirra.
Þá komum við aftur að hnattvæðingunni því hún hefur einnig fært einstaklingum (og hópum) ýmsar aðrar leiðir til að tryggja lýðræðis- og borgaralegan rétt sinn og tilveru, með því aðskilja pólitíska aðild sína frá hinu fullvalda ríki sem það ætti að tilheyra samkvæmt öllum kokkabókum.
Þannig má segja að þegar fólk metur það svo að ríkið fullnægi ekki þeim kröfum sem gera má til þess, geti það nú orðið einhvers konar nútímaheimsborgarar með aðild að ýmiss konar félagsskap á heimsvísu án nokkurrar miðlægrar stjórnunar. Sótt jákvæð áhrif og haft áhrif, þvert á landamæri, aðsetur og ríkisborgararétt út um allan heim.
Alter Globalisation Movement, er ekki nein ákveðin hreyfing heldur samnefnari fyrir fjölda ólíkra hreyfinga þar sem grunntónninn gæti þó verið andstaða við hina efnahagslegu hnattvæðingu. Þar kemur meðal annars fram hugtakið translocal citizenship sem gengur út á íbúalýðræði á heimsvísu, framhjá hinu fullvalda ríki, því það er talið vera undirokað af hinu alþjóðlega auðmagni—sem valdi því að lýðræði sé í raun bara að nafninu til.
Hugsanlega má skoða síðustu atburði á Grikklandi í þessu ljósi því sumir hafa jafnvel gefið í skyn að Íslendingar hafi gefið Grikkjum tóninn eftir fjármálahrunið hér árið 2008. Þá er gjarnan vísað til þess að gríska þjóðin geri eins og Íslendingar, sem buðu hinu alþjóðlega bankavaldi birginn, þjóðin hafi neitað að borga skuldir bankanna, keyrt þá í þrot og fangelsað „banksterana“ og jafnvel stjórnmálamennina.
Mikilvægt er þó að þarna skiptir engu máli hvað er satt og rétt, orðrómurinn eða mýtan lifir góðu lífi sem nægir fólki alveg til að blása því andann í brjóst.
Mynd: Flickr.com
Þjóðríkið varið - en hvers virði er það ef lýðræði þrífst þar ekki?
Af hverju skiptir þetta máli? – Jú, trú fólks á virkni hefðbundinna stjórnmála hefur farið minnkandi samfara því að traust til stjórnmálamanna og alþingis hefur dalað verulega. Þó vissulega hafi fylgi flokka sveiflast í gegnum tíðina og ný framboð skotið upp kollinum, sem sópað hafa til sín tímabundnu fylgi, má fullyrða að breyting sé að verða á.
Undanfarið hefur orðið mikil fylgissveifla til Pírata – og án þess að hér sé verið að spyrða þá við einhverja sérstaka alheimshreyfingu má segja að þeir séu einhverju leyti fultrúar þessarar alþjóðlegu þróunar sem nefnd hefur verið. Þetta er hreyfing sem kallar eftir opinni og gegnsærri stjórnsýslu, með virkri þátttöku fólks, en ekki einhverju „punt-lýðræði“ á fjögurra ára fresti.
Þær (byltingarkenndu) hugmyndir sem hér hafa verið nefndar geta auðvitað verið ógnandi gagnvart þjóðríkinu. Má því búast við andstöðu sem upphefur þjóðleg einkenni, trú eða hvað það er sem styrkir hin þjóðlegu gildi og þá hugsanlega þjóðríkið um leið. Gjarnan er vísað til valdamikilla óvina og óþekktra afla og fólk leitast þannig við að byggja upp sína eigin sálar- menningar- og sögulegu sjálfsmynd, samfélag þar sem samstaða ríkir um hvað sé gott líf.
Í því samhengi er áhugavert að skoða viðbrögð Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar forsætisráðherra sem hefur gjarnan vísað til mikilvægis almennrar sáttar í samfélaginu. Það eru að einhverju leyti skiljanleg viðbrögð og vissulega er það ekkert góð tilhugsun fyrir marga að þjóðin missi á einhvern hátt þá eiginleika sem halda henni saman.
Samheldni þjóðarinnar er þarna stillt upp sem vörn gagnvart hættulegum hugmyndum Pírata – sem taldar eru ógna góðum gildum sem fólk á að hafa sammælst um, jafnvel lýðræðinu er ógnað. Þarna vakna ótal spurningar, hver eru þessi gildi, hvers vegna eru breytingar eða byltingar slæmar, hvers vegna ættu þær að ógna lýðræðinu?
Þarna er tekist á um grundvallaratriði því hvers virði er þjóðríki þar sem lýðræði þrífst ekki? Hér getur verið erfitt að átta sig – sem er kannski einmitt lykilatriðið – að hnattvæðingin geri okkur erfiðara með að draga pólitískar átakalínur en áður og hún riðli því valdaskipulagi sem hefur viðgengist.
Þannig getur hin hugmyndalega hnattvæðing einmitt gefið fólki hugmyndir, rödd og farveg til að hrinda þeim í framkvæmd en jafnframt veitt þeirri viðskiptalegu hnattvæðingu sem sækir að þjóðríkinu – og lýðræðinu – aðhald.
Gott er að muna að lýðræði er ekki einhver fasti, nafn á einhverju hátíðlegu fyrirbæri, heldur eitthvað sem þarf að ástunda. Að lýðræði má ekki bara vera skrautfjöður í hatt hins ríkjandi kerfis heldur ætti það að vera lifandi farvegur fyrir nýjar hugmyndir.