Er Ísland marxískt, spillt og stéttaskipt eða er allt sem ríkisstjórnin hefur gert frábært?
Eldhúsdagsumræður fóru fram í gær. Þar lýstu stjórnmálamenn stöðu mála í íslensku samfélagi á afar mismunandi hátt. Raunar svo mismunandi að það var á stundum eins og þeir væru ekki að lýsa gangi mála í sama landinu. Kjarninn rýndi í ræður þeirra sem töluðu fyrst fyrir alla flokkanna átta sem eiga sæti á Alþingi.
Síðustu almennu stjórnmálaumræður – svokallaðar eldhúsdagsumræður – kjörtímabilsins fóru fram í gærkvöldi. Þessi vettvangur er oftast nær notaður af stjórnarþingmönnum til að mæra eigin verk, og með miklum upptalningum á gæðum mála sem þeir hafa komið í verk.
Stjórnarandstaðan notar umræðurnar á hinn bóginn til að finna verkum ríkisstjórnarinnar allt til foráttu.
Nú ber svo við að kosningar fara fram í haust og flestir stjórnmálaflokkar sem eiga þegar fulltrúa á þingi eru langt komnir með að velja fólk á framboðslista sína. Eldhúsdagsumræðurnar gáfu fulltrúum þessara sömu flokka tækifæri til að setja fram helstu áherslur sínar fyrir kosningarnar úr ræðupúlti Alþingis.
Það gekk misjafnlega í gær.
Miðflokkurinn: Fullveldi, umbúðir og innihald
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins, hóf leika, sýnilega kvefaður. „Síðustu 15 mánuðir hafa verið tíðindalitlir í pólitíkinni, allt hefur snúist um faraldurinn. Sem betur fer höfum við Íslendingar náð góðum árangri í baráttunni við veiruna, þökk sé frábæru fagfólki og samstöðu landsmanna. En nú er tímabært að hefja aftur alvörustjórnmálaumræðu. Mörg stór mál hafa beðið óleyst árum saman. Til að geta tekið sem bestar ákvarðanir um framtíðina þurfum við að líta til þess hvað reynst hefur vel og hvað ekki.“
Ræða hans var mjög í takt við þær áherslur sem hann hefur haft í ræðu og riti undanfarið. Að ríkisstjórnin sé hagsmunabandalag sem stundi pólitík byggða á umbúðum ekki innihaldi. Sigmundur Davíð sagði að heilbrigðiskerfið væri nú orðið miðstýrt og marxískt og að ef ekki væri fyrir andstöðu Miðflokksins þá hefði frumvarp um hálendisþjóðgarð þegar verið afgreitt. Hann sagði að samgöngumálum í landinu væri að mestu stjórnað af borgarstjórnarmeirihlutanum í Reykjavík með samþykkt borgarlínuverkefnisins „sem ríkisstjórnin ákvað af óskiljanlegum ástæðum að fjármagna fyrir Samfylkinguna í Reykjavík.“
Megininntakið í ræðu Sigmundar Davíðs, og þeirri pólitík sem Miðflokkurinn ætlar sér að standa fyrir í aðdraganda kosninga, er þó það sem hann kallar að verja fullveldið. Í því samhengi varaði hann við orkupökkum Evrópusambandsins, en andstaða Miðflokksins við innleiðingu þriðja orkupakkans reyndist honum gjöful í fylgismælingum til skamms tíma fyrr á kjörtímabilinu. Í ræðu Sigmundar Davíðs sagði: „Við þurfum að fara yfir með hvaða hætti við nálgumst og nýtum EES-samninginn og Schengen-samstarfið nú þegar jafnvel Evrópusambandslönd eru farin að taka að sér meiri sjálfsákvörðunarrétt varðandi stjórn sinna landamæra og innri mála. Nú lætur Evrópusambandið sér ekki nægja að mæla fyrir um hvað fólk megi borða morgunmat heldur ætlar það að fara að stýra sjónvarpsdagskránni og jafnvel umræðu á samfélagsmiðlum. Alþingi verður að hafna nýju ritskoðunarfrumvarpi ríkisstjórnarinnar og ESB.“
Að endingu verða komu fram fullyrðingar um að „báknið“, hinn opinberi rekstur, væri orðið of stórt og þyrfti að skera niður, að Miðflokkurinn myndi setja byggðamál og landbúnaðarmál á oddinn og draga þyrfti úr kvöðum á lítil fyrirtæki. „Með róttækri heildarstefnu Miðflokksins getur greinin sótt fram á öllum vígstöðvum. Eftir 15 mánuði án stjórnmála þurfum við að taka afstöðu til þess hvernig við byggjum upp samfélagið til framtíðar. Í því efni er Miðflokkurinn með lausnirnar.“
Sjálfstæðisflokkurinn: Stefnan skýr, ekki hefta og letja
Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra hafði þegar flutt eftirminnilegustu ræðu sem hann mun flytja um sinn á kosningavöku sinni eftir nauman sigur í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík aðfaranótt sunnudags. Þar endaði hann ræðuna, eftir að hafa sagt að innanflokksfólk sem hefði unnið gegn honum hefði tapað, á eftirfarandi orðum: „Núna ætlum við að taka kvöldið og nóttina í það að skemmta okkur almennilega, fagna þessum sigri og ég ætla að opna þessa kampavínsflösku.“
Guðlaugur Þór var enn rámur eftir gleði helgarinnar þegar hann steig í pontu í gær og flutti ræðu sem lyktaði af því að þar færi stjórnmálamaður með formannsdrauma í sínum flokki.
Utanríkisráðherrann hrósaði samstöðu og samheldni þjóðarinnar í baráttunni við faraldurinn en varaði við því að það væri ekki hægt að ætlast til þess að „allt verði gott á nýjan leik að sjálfu sér.“
Mikilvægt væru að efla verðmætasköpun í landinu og hann varaði við því að auka skuldsetningu ríkissjóðs með hefðbundnum frösum á borð við að skuldir þurfi að greiða á endanum og að „við sem hér erum höfum engan rétt á því að senda reikninginn til komandi kynslóða.“ Um þetta myndu næstu kosningar snúast. „Stefna Sjálfstæðisflokksins er og verður skýr í þessum efnum: Við viljum greiða leið fólks og fyrirtækja, ekki hefta og letja.“
Ekki væri heldur í boði að skattleggja landið út úr þeim vanda sem stæði fyrir dyrum heldur þyrfti þvert á móti að lækka skatta og auka sókn á erlenda markaði með útflutningsvörur. Guðlaugur Þór hældi svo nýlega gerðum fríverslunarsamningi sem Ísland, í samfloti við Noreg og Liechtenstein, gerðu við Bretland og hann skrifaði undir fyrir hönd þjóðarinnar.
Viðspyrna í efnahagsmálum væri mikilvæg en það þyrfti líka það sem utanríkisráðherrann kallaði viðspyrnu þegar kemur að því að aflétta hömlum af daglegu lífi fólks. „Einstaklingurinn á alltaf að vera í öndvegi. Þá farnast okkur öllum best. Ef hvert og eitt okkar fær notið frelsis, ef hvert og eitt okkar finnur kröftum sínum viðnám nýtur samfélagið í heild sinni góðs af því. Gleymum því heldur ekki að frelsi og ábyrgð eru ekki andstæður heldur tvær hliðar á sama peningi. Ábyrgð hvers og eins okkar á eigin málum, ábyrgð okkar gagnvart samfélaginu, ábyrgð okkar gagnvart umhverfinu og ábyrgð okkar gagnvart framtíðinni verður ekki skilin frá því frelsi sem hvert og eitt okkar nýtur.“
Samfylkingin: Bilið milli almennings og fárra auðjöfra eykst
Logi Einarsson hélt ræðu á flokksstjórnarfundi Samfylkingarinnar um liðna helgi þar sem hann sagði að kannanir bentu til þess að hægt yrði að mynda stjórn eftir hinu svokallaða Reykjavíkurmódeli eða R-lista fyrirbærinu eftir næstu kosningar. Slík stjórn myndi innihalda fjóra af eftirfarandi fimm flokkum: Samfylkingu, Vinstri græn, Framsóknarflokk, Viðreisn eða Pírata. Áður hafði Logi þegar útilokað stjórnarsamstarf við Miðflokkinn og Sjálfstæðisflokkinn.
Í ræðu sinni í eldhúsdagsumræðum benti Logi á að faraldurinn hefði lagt misþungt á fólk, jafnt heilsufarslega sem efnahagslega. „Nú þegar heildarmyndin af efnahagsaðgerðum ríkisstjórnarinnar síðasta árið er farin að teiknast upp stefnir í það sem hagfræðingar kalla K-laga kreppu, þ.e. sumir verða efnaðri á meðan aðrir hafa minna milli handanna en áður. Það var einfaldlega ekki gripið til nógu markvissra aðgerða til þess að beina fjármagninu þangað sem þurfti. Það fólk hefur neyðst til að eyða sparnaði sínum eða jafnvel skuldsetja sig til að komast í gegnum hryllilegar aðstæður. “
Þótt tekjujöfnuður mælist mikill hér á landi fari eignaójöfnuðurinn hratt vaxandi og opinberar tölur sýni að lítill hópur einstaklinga raki til sín meginþorranum af öllum nýjum auð í landinu. „Bilið milli almennings og fárra auðjöfra eykst og þessir auðjöfrar sölsa undir sig fleiri og fleiri staði samfélagsins. Þess vegna vill Samfylkingin berjast gegn ójöfnuði hvar sem hann er að finna.“
Logi gagnrýndi líka önnur verk sitjandi ríkisstjórnar, sem hann kallaði ríkisstjórn málamiðlana og kyrrstöðu, á kjörtímabilinu og velti fyrir sér hversu vel núverandi stjórnarmynstur væri líklegt til að geta mætt flóknum áskorunum framtíðar. Það hefði mistekist að fjármagna íslenskt heilbrigðiskerfi með fullnægjandi hætti og framfaramál hefðu strandað á ríkisstjórnarborðinu þrátt fyrir líklegan meiri hluta í þingsal.Þar nefndi Logi afglæpavæðingu, rammaáætlun, hálendisþjóðgarð og það sem hann kallaði „almennilegt auðlindaákvæði“ í stjórnarskrá. „Það getur hins vegar vel verið að þetta óvenjulega stjórnarmynstur íhaldsflokkanna hafi hentað til að kæla stöðuna eftir skandala síðustu stjórna en þessir flokkar munu ekki finna þann samhljóm sem þarf til að ráðast við risastórar áskoranir framtíðar.[...]Það er þess vegna, kæru landsmenn, nauðsynlegt að greiða veginn fyrir nýja ríkisstjórn að loknum kosningum sem er sammála um veginn og verkefnin fram undan, ríkisstjórn sem er óhrædd við nýja framtíð og er nógu opin til að nýta skapandi lausnir til að ráðast gegn ójöfnuði, loftslagsógninni og breytingum á vinnumarkaði, ríkisstjórn sem er tilbúin til að byggja upp, ekki skera niður eins og ríkisstjórnin boðar í fimm ára fjármálaáætlun. Það er beinlínis hrollvekjandi, herra forseti, að í stað þess að ætla að bæta almannaþjónustuna og fjárfesta í fólki ætli ríkisstjórnin að hefja niðurskurðarhnífinn á loft.“
Samfylkingin yrði tilbúin að fara í slíka ríkisstjórn um framfarir, aukinn jöfnuð, almannahagsmuni og sókn út úr kreppunni.
Vinstri græn: Telur Katrínu bera höfuð og herðar yfir aðra
Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, þingflokksformaður Vinstri grænna, flutti fyrstu ræðu þess flokks í gærkvöldi. Þar mærði hún verk sitjandi ríkisstjórnar og þá ákvörðun flokksins að setjast í óhefðbunda ríkisstjórn með skilgreindum höfuðandstæðingi hans í stjórnmálum, Sjálfstæðisflokknum. Hún talaði hins vegar lítið sem ekkert um það sem Vinstri græn ætluðu að gera í framtíðinni að öðru leyti en að hún teldi Katrínu Jakobsdóttur bera höfuð og herðar yfir aðra stjórnmálaleiðtoga og ætti að leiða samfélagið áfram. „Við á vinstri vængnum höfum lengi haft það orð á okkur að vera óstjórntæk. Að við kunnum bara að vera fúl á móti. En ég tel að þetta kjörtímabil hafi sannað að Vinstrihreyfingin – grænt framboð er afl sem þorir. Það þarf kjark til að stíga inn og leiða umdeilt ríkisstjórnarsamstarf með pólitískum andstæðingum. Og það þarf kjark til að af slíku samstarfi náist eins mikill málefnalegur árangur og reynst hefur á þessu kjörtímabili. Það er ánægjulegt að tilheyra stjórnmálaafli sem lætur verkin tala og kemur stefnu sinni til framkvæmda.“
Bjarkey taldi þrepaskipt skattkerfi, styttingu vinnuvikunnar, lengt fæðingarorlof og hlutdeildarlán upp sem mál sem ríkisstjórnin hefði staðið fyrir. Þá hefðu réttindi trans, kynsegin og intersex fólks verið tryggð, ný jafnréttislög, vernd uppljóstrara tryggð, varnir gegn hagsmunaárekstrum og skráning raunverulega eigenda verið samþykkt. „Svo gæti ég lengi talað um aðgerðir ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur í átt að jöfnuði og réttlátara samfélagi, svo ekki sé minnst á þrotlausa vinnu hæstv. forsætisráðherra til að gera mikilvægar breytingar á stjórnarskrá okkar Íslendinga. Nú höfum við sem hér eigum sæti í þessum sal tækifæri til að stíga skrefið og gera breytingar á því mikilvæga grunnplaggi okkar sem stjórnarskráin er.“
Bjarkey skipti svo um gír og hóf að mæra Svandísi Svavarsdóttur næst. Hún sagði að undir hennar stjórn hefði heilsugæsla verið efld, kostnaðarþátttaka sjúklinga lækkuð, nýr Landsspítali væri að rísa og stórsókn hefði orðið í geðheilbrigðismálum. Bjarkey tiltók einnig ný lög um þungunarrof sem samþykkt voru 2019 þvert á stjórnarlínur, en hluti þingmanna Sjálfstæðisflokksins greiddi atkvæði gegn því frumvarpi. „Þá er ótalin sú trausta forysta sem hæstv. heilbrigðisráðherra Svandís Svavarsdóttir hefur sýnt í baráttunni við heimsfaraldurinn. Nú eru tæp 64% fullorðinna bólusett. Það sér fyrir endann á þessu öllu saman. Margar voru vafaraddirnar hér fyrir ekki svo löngu. Takk, Svandís, takk, þríeyki, og takk, þið öll sem hafi staðið ykkur svo frábærlega vel í gegnum þennan faraldur.,“ sagði Bjarkey.
Þá var einn ráðherra Vinstri grænna eftir til að mæra, Guðmundur Ingi Guðbrandsson umhverfisráðherra fyrir að banna markaðssetningu einnota plasts og fyrir að fá samþykkta fullfjármagnaða aðgerðaáætlun í loftslagsmálum í fyrsta sinn. Hún sagðist einnig hafa trú á því að hálendisþjóðgarður yrði að veruleika, en nokkuð ljóst liggur fyrir að hvorki Framsóknarflokkurinn né Sjálfstæðisflokkurinn ætla sér að samþykkja það mál óbreytt fyrir lok kjörtímabilsins þrátt fyrir að það hafi verið bundið í stjórnarsáttmála.
Píratar: „Á Íslandi eru stórir og valdamiklir hagsmunahópar sem svífast einskis“
Þórhildur Sunna Ævarsdóttir talaði fyrst fyrir Pírata. Það varð strax ljóst að hún ætlaði að draga skýra línu milli Pírata sem lausnar og þeirra sem þeir telja að séu vandamálið í samfélaginu.
Þórhildur Sunna hrósaði Ásgeiri Jónssyni seðlabankastjóra fyrir nýlegt viðtal við Stundina og fyrir að rjúfa þar „æpandi þögn æðstu ráðamanna þjóðarinnar um yfirgengilega ósvífni ákveðinna hagsmunahópa. Loksins hafði háttsettur embættismaður kjark til að segja það sem almenningur veit mætavel; að á Íslandi eru stórir og valdamiklir hagsmunahópar sem svífast einskis, sem reka fólk fyrir að gagnrýna þá og ofsækja þau sem veita þeim aðhald.“
Hún sagði Ásgeir hafa opnað á mikilvægt samtal með fordæmingu sinni á kæru Samherja gegn starfsmönnum Seðlabankans, opinberum eftirlitsstarfsmönnum sem voru kærðir persónulega af þeim sem eftirlitið beindist að. Leiðtogar ríkisstjórnarinnar hefðu heldur ekki haft áhuga á þessu samtali. „Þegar fjármálaráðherra var inntur eftir viðbrögðum sagði hann að embættismenn með mikil völd yrðu auðvitað að vita það að væri þeim misbeitt gæti það haft afleiðingar. Þá vitum við það. Fjármálaráðherra, sem aldrei hefur sætt afleiðingum fyrir að misbeita valdi sínu, sama hversu gróflega hann gerir það, vill að starfsfólk eftirlitsstofnana óttist afleiðingar eftirlitsstarfa sinna, rétt eins og fjölmiðlamenn eiga að óttast afleiðingar afhjúpana sinna, eða eins og skáld og fræðimenn eiga óttast afleiðingar gagnrýni sinnar, og jafnvel ráðherrar sem hagsmunahóparnir hafa ekki í vasanum eiga að óttast afleiðingar orða sinna í þessum ræðustól.“
Á meðan reki hagsmunaaðilar sem svífist einskis skæruliðadeildir sem njósni um og rægi fólk sem þeim mislíkar, sem beiti sér í kosningum og prófkjörum og plotti um að hræða fólk til hlýðni. „Er þetta það samfélag sem við viljum, samfélag meðvirkni, afkomuótta og samtryggingar, samfélag þar sem verra er að benda á brotin en að fremja þau?“
Varaformaður þingflokks Pírata sagði að þessi gerendameðvirkni og þöggunartaktík sem birtist væri um margt lík þeirri sömu meðvirkni og konur hafi nú sagt stríð á hendur.
Í kosningunum framundan væru markmið Pírata skýr: að eftirlitsstofnanir hafi bolmagn til að sinna skyldum sínum í þágu almennings og að starfsmenn þeirra njóti verndar gegn persónulegum ofsóknum hagsmunahópa. Þeir vilja tryggja fjölmiðlafrelsi með betri réttarvernd blaðamanna og með mótvægisaðgerðum gegn afskiptum sérhagsmunaafla af ritstjórnarstefnu fjölmiðla. Þeir vilja allan afla á markað, alvöruhömlur á eignarhald fiskveiðikvóta og alvörugjald fyrir nýtingarrétt á öllum sameiginlegum auðlindum þjóðarinnar. „Og við viljum lögfestingu nýju stjórnarskrárinnar sem setur valdhöfum mörk og endurheimtir fiskinn úr sjónum úr klóm sægreifanna sem hafa fengið að vaða hér yfir allt á skítugum skónum allt of lengi[...] Við skulum hætta að rækta þessa skúrka, hætta að leyfa þeim að ráða hér öllu. Það gerum við með því að kjósa flokka sem eru ekki meðvirkir þegar skúrkarnir brjóta af sér og láta ekki undan öllum þeirra kröfum, flokka sem setja þeim stólinn fyrir dyrnar, sem leiða ekki varðhunda hagsmunahópanna til valda þvert ofan í fögur fyrirheit um annað, flokka sem láta hagsmuni almennings sannarlega ganga fyrir hagsmunum örfárra auðmanna og stórfyrirtækja, flokka eins og Pírata.“
Framsóknarflokkurinn: Efnahagslegt varnarskipulag
Willum Þór Þórsson, formaður fjárlaganefndar, var fyrsti ræðumaður Framsóknarflokksins. Hann byrjaði á því að vitna í pólskt ljóð um hvað taki við að loknu stríði. Síðan hófst dásömun á aðgerðum ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur sem settar hafa verið fram til að takast á við efnahagslegar afleiðingar kórónuveirufaraldursins.
Hann greip til knattspyrnulíkinga og sagði að hið efnahagslega varnarskipulag hafi falist í fjölmörgum leiðum til þess að verja efnahag fyrirtækja og heimila, m.a. í því að viðhalda ráðningarsambandi við launþega. Hlutabótaleiðin var samþykkt í fyrsta aðgerðapakka ríkisstjórnarinnar í mars á síðasta ári. „Allan tímann hefur ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur staðið við fyrri áform um uppbyggingu. Kröftug viðbrögð og efnahagslegar aðgerðir til viðbótar kalla vissulega á hallarekstur ríkissjóðs og lántöku, en er alls ekki tapað fé heldur fjármunir sem styðja við efnahag heimila og fyrirtækja. Það dregur úr efnahagslegum samdrætti, eflir okkur og styrkir sem samfélag og leggur grunn að öflugri viðspyrnu.“
Willum sagði að Íslendingur hafi, með auknu samspili ríkisfjármála og peningamálastefnu, lærst og farnast betur að jafna sveiflur og mynda efnahagslegan stöðugleika. Auðnast að hlúa að ríkissjóði þannig að hann geti virkað og sinnt hlutverki sínu hverju sinni, í þágu allra landsmanna, staðið undir velferðarþjónustu, jafnað kjörin og mætt hagsveiflum.
Hann mærði svo heilbrigðiskerfið fyrir viðnámsþrótt þess á veirutímum og sagði að seiglu og samvinnu hefði þjóðin sameinast um „öll erum við almannavarnir og öll erum við ríkissjóður.“
Nú hafi Ísland snúið vörn í sókn. „Sóknaraukningin byggir á traustum grunni, grunni auðlinda, á grunni stöðugleika, efnahagslegum og pólitískum, og á grunni þeirra samfélagslegu innviða sem við höfum náð að treysta verulega á kjörtímabilinu. En sóknarmöguleikinn nú byggir ekki síst á grunni þeirrar þrautseigju og samvinnu sem býr með þjóðinni og við höfum sýnt og staðið saman nú sem fyrr þegar verulega reynir á.“
Willum sagði Framsókn vera stolt af ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur. „Stærsta áskorunin næstu misserin verður að skapa atvinnu, fjárfesta í fólki, skapa verðmæti og vaxa til aukinnar velsældar. Sóknin þarf að vera markviss og samstillt, græn, stafræn og félagsleg sókn.“
Viðreisn: Faðmlag íhaldsflokkanna þriggja hefur verið „svo nærandi“
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar, lagði áherslu á það sem ríkisstjórnin vildi ekki ræða í almennum stjórnmálaumræðum, að hún skildi eftir 50 milljarða króna gat í nýrri fjármálaáætlun og segði ekki hvort því verði lokað með nýjum sköttum eða stórfelldum niðurskurði. „Hún vill ekki ræða að það dregur úr krafti atvinnulífsins að ríkisstjórnin hefur tekið, þvert á yfirlýsingar, erlend lán á hærri vöxtum og með gengisáhættu til að fjármagna halla ríkissjóðs. Hún vill ekki ræða að það dregur úr krafti atvinnulífsins þegar verðbólgan og vextir eru miklu meiri og hærri hér en í samkeppnislöndunum. Hún vill ekki ræða að það dregur úr krafti atvinnulífsins þegar gjaldeyrishöft eru tekin fram yfir frelsi í viðskiptum.“ Svar Viðreisnar við þessari stöðu er að tengja krónuna við evru líkt og Danir gera.
Hún sagði að í aðdraganda kosninga í haust dugi ekki hefðbundin loforðapólitík um stóraukin ríkisútgjöld. „Okkur dugar heldur ekki að ná aftur verðmætasköpuninni frá 2019. Við þurfum að ná mun meiri hagvexti, strax. Til hvers? Til þess að standa vörð um velferðarkerfið. Öll þessi atriði sem ríkisstjórnin vill ekki ræða koma í veg fyrir að atvinnulífið geti hlaupið jafn hratt og við þurfum á að halda. Lausnarorð ríkisstjórnar er gjaldeyrishöft. Þau draga úr hagvexti, auka líkur á sköttum og niðurskurði og vinna gegn nýsköpun.“
Í ræðu Þorgerðar Katrínar var hvöss gagnrýni á stjórnarflokkana. Hún sagði faðmlag íhaldsflokkanna þriggja hafa verið svo nærandi „að hægri deild stjórnarsamstarfsins hefur ekki gert neinar athugasemdir við það þegar vinstri deild stjórnarsamstarfsins sýnir sitt rétta andlit.“ Flokkur einkaframtaksins, Sjálfstæðisflokkur, sitji hljóður hjá þegar Domus Medica loki, þegar biðlistar lengjast hjá talmeinafræðingum, sjúkraþjálfurum, sálfræðingum, þegar þrengt sé að rekstri sérfræðilækna og sjúklingar sendir í dýrar aðgerðir til útlanda í stað þess að semja við innlendar stofur eða spítala. „Afleiðingin er verri þjónusta fyrir sjúklinga og hærra verð fyrir ríkið, einhæfara starfsumhverfi og færri tækifæri fyrir heilbrigðisstarfsfólk.“
Þá hafi ekki síður sorglegt að fylgjast með viðbrögðum ríkisstjórnar við Samherjamálinu. „Oddvitar ríkisstjórnarflokkanna hafa sett upp silkihanskana í gagnrýni sinni og muldrað sakleysisleg orð um að þetta sé óviðeigandi og óeðlilegt. Þannig gengisfella þeir alvöruna í málinu því samsæri stórfyrirtækis gegn blaðamönnum er ekki bara óviðeigandi heldur einnig árás á lýðræðislega umræðu. Orð skipta nefnilega máli. En það þarf hins vegar engum að koma á óvart að formenn ríkisstjórnarflokkanna nota bara inniröddina þegar kemur að sérhagsmunum stórútgerðarfyrirtækja. Það er í fullu samræmi við algerlega tannlaust auðlindaákvæði sem forsætisráðherra hefur lagt fyrir þingið og mun ekki breyta nokkrum sköpuðum hlut, verði það samþykkt. Það ákvæði er friðþæging fyrir útgerðina meðan hlutur þjóðar er skilinn eftir.“
Hún sagi að ríkisstjórnarflokkarnir þrír vilji vinna áfram saman eftir komandi kosningar. Atkvæði til þessara flokka sé atkvæði greitt áframhaldandi kyrrstöðustjórn. Viðreisn vilji á hinn bóginn breyta samfélaginu og lofta út. „Það er skýr stefna Viðreisnar að öll kerfi samfélagsins[...] þurfa og verða að þjóna almenningi.[...]Þau eiga ekki að þjóna kreddum stjórnmálamanna eða vera stjórnað af hagsmunaöflum. Þau eiga ekki að vera kjörlendi fyrir bitlinga eða skjól fyrir flokksgæðinga.“
Flokkur fólksins: Tvær þjóðir í landinu
„Virðulegi forseti. Kæra þjóð. Það búa tvær þjóðir í landinu. Það er risagjá á milli þeirra. Á öðrum bakkanum standa þeir sem allt eiga og græðgi og auðmagn og sjálftaka hefur skapað þeirra tilveru og þeirra líf. Á hinum bakkanum eru svo hinir sem ekkert eiga og þurfa að biðja um ölmusuna.“
Þetta sagði Inga Sæland, formaður Flokks fólksins, í síðustu eldhúsdagsumræðum kjörtímabilsins. Tóninn og áherslan er kunnug, enda Inga fyrir löngu búin að skilgreina sig sem stjórnmálamann og rödd fátæka fólksins á Íslandi.
Í ræðu sinni sagðist Inga að flokkur hennar vildi byggja brú yfir þessa gjá. Þingflokkurinn, sem taldi upphaflega fjóra en telur nú tvo, hefði mælt fyrir hátt í 40 þingmannamálum á kjörtímabilinu. Ekkert þeirra hafi fengið brautargengi.
Inga sagði að það væri með ólíkindum að hlusta á söng annarra þingmanna sem fengið hafði að hljóma úr ræðupúlti Alþingis þetta mánudagskvöld. „Nánast allir þeir talsmenn sem hér hafa komið upp hafa sjálfir eða sjálfar verið í ríkisstjórn og hafa haft aðstöðu og aðstæður til að hafa hlutina svolítið öðruvísi: Við viljum þetta og við viljum hitt. – En af hverju hefur það þá ekki verið gert? En eitt er alveg víst að þessi ríkisstjórn hefur ekki rétt okkur marga steina til að reyna að byggja þessa brú á milli þeirra sem allt eiga og hinna sem eiga ekkert.“
Hún spurði svo hvað þjóðin vildi í kosningunum í haust, og sérstaklega hvort hún vildi virkilega óbreytt ástand, þar sem sérhagsmunir og græðgisvæðing ráði ríkjum? Inga talaði í kjölfarið um mannauðinn sem fengi aldrei að blómstra. „Mannauðinn sem býr líka í öryrkjum, öldruðum og fötluðum einstaklingum, gríðarstór mannauður sem ekki er nýttur og aldrei fær að blómstra.[...]Það er með hreinum og klárum ólíkindum þegar við komum hér með fjárauka eftir fjárauka, fjármálaáætlun til fimm ára, við komum hér með fjárlög og samt er enn þá skilinn eftir risastór hópur úti í samfélaginu sem ekki er tekið utan um.“
Hún rifjaði svo upp orð Katrínar Jakobsdóttur, núverandi forsætisráðherra, í umræðum um stefnuræðu þáverandi forsætisráðherra, Bjarna Benediktssonar, sem flutt var í september 2017, skömmu áður en ríkisstjórn hans sprakk. Þar hafi Katrín sagt að það að láta fátækt fólk bíða eftir réttlætinu væri það sama og að neita því um réttlæti. „Samt er það svo núna undir forystu Vinstri grænna og hæstv. forsætisráðherra, sem mælti þessi orð á þeim tíma, að biðraðir lengjast í hjálparstofnanir þar sem fátækt fólk er að biðja um mat.“
Inga sagði að Flokkur fólksins hafi mælt fyrir 350 þúsund króna lágmarksframfærslu skatta- og skerðingalaust, en að því hafi ekki bara verið algerlega hafnað og sópað út af borðinu, heldur hafi ekki einu sinni verið hlustað á það hvernig flokkurinn vildi fjármagna þetta.
Hún lauk ræðu sinni á eftirfarandi hátt: „Ég ætla að vona að þið getið öll, kæru landar mínir, átt sem ánægjulegast sumar. Því að ég veit að það eru mjög margir sem fá ekkert sumarfrí og geta ekki gert sér neinn dagamun af því að þeir hafa ekki efni á því.“
Lestu meira:
-
11. janúar 2023Er íslenska velferðarkerfið ekki lengur griðarstaður þeirra sem minnst hafa?
-
10. janúar 2023Útvarp Saga telur fjölmiðlastyrki skapa tortryggni og bjóða upp á frændhygli
-
10. janúar 2023Fánabann og refsiaðgerðir í Palestínu í kjölfar niðurstöðu Sameinuðu þjóðanna
-
8. janúar 2023Lífeyrissjóðir hafa ekki lánað meira verðtryggt á einum mánuði frá því fyrir faraldur
-
8. janúar 2023Sögulegur en dýrkeyptur kosningasigur þingforsetans
-
7. janúar 2023BDSM-félagið fagnar því að loksins eigi að afnema klámbann
-
7. janúar 2023Litlu fjölmiðlarnir með eldspýturnar
-
7. janúar 2023Með hverjum stendur þú?
-
6. janúar 2023Tíu stærstu útgerðirnar halda á 56 prósent af öllum kvóta
-
6. janúar 2023Guðrún Hafsteinsdóttir segist taka við dómsmálaráðuneytinu í mars