Sigurvegarar og taparar í vel heppnuðu prófkjöri Sjálfstæðisflokks í Reykjavík

Konur verða í stórum hlutverkum hjá Sjálfstæðisflokknum í Reykjavík í komandi kosningum. Frjálslyndari frambjóðendum gekk betur en íhaldsamari og ef eitt er öruggt í lífinu þá er það að Birgir Ármannsson lendir í sjötta sæti.

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra og Guðlaugur Þór Þórðarson eru oddvitar Sjálfstæðisflokks í Reykjavík.
Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra og Guðlaugur Þór Þórðarson eru oddvitar Sjálfstæðisflokks í Reykjavík.
Auglýsing

Prófkjör Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík um helgina skilaði mörgum eftirtektarverðum niðurstöðum. Þátttaka í prófkjörinu var til að mynda mun betri en hún var árið 2016, þegar síðast var ráðist í prófkjör hjá flokknum í Reykjavík. Nú greiddu 7.493 manns atkvæði en þeir voru einungis 3.430 árið 2016. Þátttakan í ár var nánast sú sama og í prófkjöri flokksins í Reykjavík í aðdraganda þingkosninganna 2013. 

Tveir stjórnmálamenn sem sækjast eftir því að verða framtíðarleiðtogar innan Sjálfstæðisflokksins tókust á og komust báðir vel frá prófkjörinu. Þá röðuðu konur sér í þrjú af þeim fjórum sætum sem telja má sem örugg þingsæti. Ekki bara konur, heldur ungar konur, en elsta konan sem var á meðal efstu átta í prófkjörinu er fædd 1978 á meðan að yngsti karlinn á meðal efstu átta er fæddur 1970.  

Þeim frambjóðendum sem hafa staðið fyrir nýfrjálshyggjuáherslum í efnahagsmálum, stjórnarandstöðu í sóttvarnarmálum og tekið þátt virkan þátt í menningarstríði við ætlaðan aukinn rétttrúnað í samfélaginu var hafnað í prófkjörinu. 

Nú er fjórum af sex prófkjörum Sjálfstæðisflokksins lokið og niðurstaðan úr þeim er heilt yfir allt önnur en 2016, þegar prófkjör fór fram síðast. Þá var konum, sérstaklega reynslumiklum konum sem höfðu verið á þingi og jafnvel ráðherrar, hafnað í unnvörpum. Einungis tvær konur á lista flokksins í kosningunum 2016 voru í sætum á lista sem öruggt var að skila myndi þeim inn á þing. Í þeim fjórum kjördæmum þar sem prófkjörum er lokið eru að minnsta kosti fjórar konur, mögulega fimm, nokkuð öruggar inn. Þeim mun væntanlega fjölga um að minnsta kosti tvær þegar Suðversturkjördæmi og Norðvesturkjördæmi skila sínum prófkjörsniðurstöðum. 

Sjálfstæðisflokkurinn er að ganga í gegnum umtalsverða endurnýjun.

Sigurvegararnir

Sá frambjóðandi sem kom líkast til mest á óvart í prófkjörinu í Reykjavík var Hildur Sverrisdóttir. Hún tók líka þátt í prófkjöri 2016 og lenti þá í sjöunda sæti. Nú sóttist Hildur eftir þriðja til fjórða sætinu.

Auglýsing
Fáir sáu það fyrir að hún myndi ná þannig árangri í prófkjörinu að hún myndi klifra yfir þrjá sitjandi þingmenn og tryggja sér öruggt þingsæti. En það gerði hún nokkuð örugglega og verður í öðru sæti á lista Sjálfstæðisflokks, líklega í Reykjavíkurkjördæmi suður á eftir Áslaugu Örnu Sigurbjörnsdóttur. Þær tilheyrðu sömu fylkingu í prófkjörinu. 

Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra sigraði í prófkjörinu þótt það hafi einungis verið með 182 atkvæðum. Hann sóttist eftir því að verða leiðtogi Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík og náði því markmiði. 

Guðlaugur Þór sigraði Björn Bjarnason í eftirminnilegri baráttu um annað sætið í prófkjöri flokksins árið 2006 og leiddi lista flokksins í REykjavíkurkjördæmi norður í þingkosningum árið eftir. Í kosningunum 2009 var hann oddviti Sjálfstæðisflokks í REykjavíkurkjördæmi suðurs en vegna útstrikanna á honum féll hann niður um eitt sæti á listanum og varð annar þingmaður flokksins í kjördæminu. Ástæðan var aðallega rakin til styrkjahneykslisins svokallaða. Guðlaugur Þór náði sér þó á strik og varð aftur í öðru sæti á eftir Ólöfu Nordal í prófkjöri 2016, sem var það síðasta sem flokkurinn hefur haldið. Guðlaugur Þór er talinn hafa metnað til að verða næsti formaður Sjálfstæðisflokksins og niðurstaðan um helgina styrkir hann í þeirri vegferð, þar sem sýnilegustu mótherjarnir eru Áslaug Arna og Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, varaformaður flokksins. Bjarni Benediktsson hefur verið formaður í meira en ellefu ár og leitt flokkinn í gegnum fjórar af fimm verstu kosningar hans í sögunni. Fari illa í haust, og Sjálfstæðisflokkurinn nær ekki inn í ríkisstjórn, búast margir við því að formannsskipti gætu orðið í kjölfarið. 

Diljá Mist Einarsdóttir.

Diljá Mist Einarsdóttir, aðstoðarmaður Guðlaugs Þórs í utanríkisráðuneytinu, vann líka mikinn sigur. Hún er nýliði í prófkjöri og náði þriðja sætinu með afgerandi hætti, sem þýðir að óbreyttu öruggt þingsæti fyrir hana. Diljá rak afar umfangsmikla prófkjörsbaráttu sem hófst með opnuauglýsingum í dagblöðum og var fylgt eftir með miklum úthringingum, í samstarfi við Guðlaug Þór. 

Þá er ótalinn Kjartan Magnússon. Hann var borgarfulltrúi í tæp 19 ár en var hafnað með afgerandi hætti í leiðtogakjöri fyrir síðustu sveitarstjórnarkosningar, þar sem hann fékk einungis 480 atkvæði, eða rúm ellefu prósent. Kjörnefnd hafnaði því svo að setja hann á lista. 

Kjartan bauð sig fram í prófkjörinu og fæstir áttu von á miklum árangri hans. Kjartan fékk hins vegar alls 3.777 atkvæði sem skilaði honum í sjöunda sætið. Í ljósi þess að Brynjar Níelsson ætlar ekki að þiggja sitt sæti að óbreyttu má ætla að Kjartan færist þar með upp í sjötta sætið, sem er baráttusæti. Kjartani Magnússyni gæti því skolað inn á þing.

Þau sem töpuðu

Sá sem tapaði verst var Sigríður Á. Andersen, fyrrverandi dómsmálaráðherra og oddviti Sjálfstæðisflokksins í Reykjavíkurkjördæmi suður í síðustu kosningum. Hún hóf kjörtímabilið sem ráðherra en þurfti að segja af sér vegna Landsréttarmálsins vorið 2019. Sigríður rak svo harða andstöðu við sóttvarnaraðgerðir stjórnvalda síðustu mánuði. Þessar tvær breytur, Landsréttarmálið og framganga Sigríðar í umræðunni um sóttvarnaráherslur stjórnvalda, eru taldar hafa ráðið úrslitum um slakt gengi hennar, en hún var ekki á meðal níu efstu í prófkjörinu.

Brynjar Níelsson sóttist eftir því að verða oddviti Sjálfstæðismanna í öðru hvoru Reykjavíkurkjördæminu. Hann hefði getað verið slíkur í kosningunum árið 2017, eftir fráfall Ólafar Nordal, en ákvað að skipta um sæti við Sigríði Andersen og verða í öðru sæti á listanum. Brynjar er afar umdeildur þingmaður og herskár. Hann hefur náð meiri lagni á því að nýta samfélagsmiðla til að tala við stuðningsmenn sína, og espa upp andstæðinga, en flestir aðrir og hefur ekki vílað fyrir sér að gagnrýna menn persónulega með afgerandi hætti. Hann var ásamt Sigríði í forgrunni í því að gagnrýna ýmsar sóttvarnarráðstafanir og undanfarin misseri hefur Brynjar komið útgerðarfyrirtækinu Samherja, sem er til rannsóknar vegna meintra mútugreiðslna, skattasniðgöngu og peningaþvættis, til varnar með ýmsum hætti. Í maí sagði hann til að mynda að hann sæi ekkert athugavert við aðgerðir svokallaðrar „skæruliðadeildar“ Samherja sem Kjarninn og Stundin höfðu greint frá nokkrum dögum áður, og sagði fréttaflutningin ekki eiga neitt erindi til almennings.  

Brynjar Níelsson endaði í fimmta sæti í prófkjörinu og hefði setið í baráttusæti á lista flokksins í öðru Reykjavíkurkjördæminu hefði hann þegið sæti á lista. Það ætlar hann ekki að gera og í stöðuuppfærslu á Facebook á sunnudag sagði Brynjar að úrslitin væru „talsverð vonbrigði fyrir mig en skilaboðin eru skýr. Ég trúi því að Sjálftæðisflokknum muni vegna vel í komandi kosningum. Ég kveð því stjórnmálin sáttur.”

Brynjar Níelsson er búinn að tilkynna að hann ætli ekki að þiggja sæti á lista. Mynd: Bára Huld Beck.

Þá er ljóst að Ingi­björg H. Sverr­is­dótt­ir, formaður Fé­lags eldri borg­ara í Reykja­vík og ná­grenni (FEB), var óralangt frá því að ná þeim árangri sem hún stefndi að, sem var fjórða til fimmta sæti, en hún ætlaði sér að verða rödd eldri borgara á framboðslistanum. Ingibjörg varð ekki á meðal tíu efstu hið minnsta. 

Þótt sjálfstæðismenn hafi ekki viljað veita Sigríði og Brynjari það brautargengi sem þau sóttust eftir þá sjá margir utan flokks eftir þeim úr stjórnmálunum. Einn þeirra er Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins. Hann birti stöðuuppfærslu á Facebook í gær þar sem stóð: „Það verður mikill sjónarsviptir að Sigríði Andersen og Brynjari Níelssyni á Alþingi.

Maður þurfti ekki að vera sammála þeim um allt til að sjá að þau væru alvöru prinsippfólk. Samfylkingarvæðing allra stjórnmálaflokka, nema eins, heldur áfram.“

Þau sem geta vel við unað

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra getur verið sátt með árangurinn í prófkjörinu. Hún er þrítug og hefur tekið stór skref á sínum stjórnmálaferli á þessu kjörtímabili, þegar hún stýrði fyrst utanríkismálanefnd og tók svo við ráðuneyti þegar Sigríður sagði af sér. Nú er hún orðin oddviti Sjálfstæðisflokksins í Reykjavíkurkjördæmi suður. 

Þrátt fyrir að Áslaug Arna hafi ekki náð markmiði sínu um að verða leiðtogi Sjálfstæðismanna í Reykjavík þá fékk hún mikinn stuðning og tapaði fyrir Guðlaugi Þór, sem er með vel smurða kosningavél í Reykjavík sem hefur verið í uppbyggingu og viðhaldi áratugum saman, með einungis 182 atkvæðum. Áslaug Arna er því í mjög góðri stöðu til að gera áframhaldandi tilkall til ráðherraembættis komist Sjálfstæðisflokkurinn í ríkisstjórn og til að blanda sér í næsta formannsslag í flokknum, hvenær sem hann á endanum verður. Þrátt fyrir tap í prófkjörinu styrkti hún stöðu sína sem stjórnmálaleiðtogi.

Birgir Ármannsson, þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins, getur líka vel við unað, þótt hann hafi sóst eftir öðru eða þriðja sæti. Fyrir lá að sú krafa var aldrei raunhæf. 

Birgir Ármannsson er ólseigur stjórnmálamaður. Mynd: Bára Huld Beck.

Hann hefur gert sjötta sætið að sínu – Birgir lenti í því sæti í prófkjörum 2013 og 2016 líka – sem þýðir að Birgir verður, enn og aftur, í baráttusæti á lista Sjálfstæðismanna í öðru hvoru Reykjavíkurkjördæminu í komandi kosningum. Það er kunnugleg staða. Í fjórða sinn í fjórum kosningum mun Birgir Ármannsson fara inn í kosningar með þann möguleika hangandi yfir sér að hann verði inn og út alla kosninganóttina.

Þá getur Friðjón R. Friðjónsson almannatengil verið ágætlega sáttur. Hann lenti í áttunda sæti í prófkjörinu en mun færast upp eftir að Brynjar Níelsson ákvað að taka ekki sæti á lista. Friðjón verður því að óbreyttu fyrsti eða annar varaþingmaður Sjálfstæðismanna í öðru hvoru Reykjavíkurkjördæminu.

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Þorkell Helgason
Kominn er tími á umbætur á kosningakerfinu
Kjarninn 3. ágúst 2021
Minnsti álútflutningur í átta ár
Þrátt fyrir hækkandi álverð á heimsvísu hefur magn útflutts áls minnkað á síðustu mánuðum. Heildarútflutningur á síðasta árshelmingi hefur ekki verið minni síðan árið 2013.
Kjarninn 3. ágúst 2021
Katrín Baldursdóttir og Símon Vestarr
Katrín Baldursdóttir og Símon Vestarr efst hjá Sósíalistaflokknum í Reykjavík suður
Listi Sósíalistaflokksins í Reykjavíkurkjördæmi suður hefur verið kynntur. „Þetta er fjölbreyttur listi og kraftmikill. Fólk sem vill breyta samfélaginu þannig að allir hafi tækifæri til blómstra, hafi öruggt og gott húsnæði og góð laun,“ segir oddvitinn.
Kjarninn 3. ágúst 2021
Sigmundur Ernir ráðinn ritstjóri Fréttablaðsins
Jón Þórisson, sem hefur ritstýrt blaðinu frá því haustið 2019 ætlar að snúa sér að öðrum störfum. Sigmundur Ernir verður einnig aðalritstjóri Torgs.
Kjarninn 3. ágúst 2021
Bólusetningin hafi ekki skapað það hjarðónæmi sem vonast var til
Flest smit að undanförnu má rekja til hópatburða en delta afbrigði veirunnar hefur breiðst út á ótrúlegum hraða að sögn sóttvarnalæknis. Til stendur að bjóða þeim sem fengu Janssen bóluefni upp á aðra bólusetningu sem og að bólusetja 12 til 15 ára börn.
Kjarninn 3. ágúst 2021
Sigþrúður Stella Jóhannsdóttir
Náttúruspjöll í Vatnajökulsþjóðgarði
Kjarninn 3. ágúst 2021
Eggert Þór Kristófersson forstjóri Festis segir félagið ekki ætla að reyna fyrir sér í byggingargeiranum.
30 þúsund fermetra uppbygging í stað bensínstöðva
Samkvæmt samkomulagi Festis við Reykjavíkurborg á Festi byggingarrétt á lóðum þar sem til stendur að loka bensínstöðvum N1. Félagið hyggst selja byggingarréttinn í stað þess að byggja. „Það er ekki okkar bissness, það eru aðrir í því,“ segir forstjórinn.
Kjarninn 3. ágúst 2021
Raddir margbreytileikans
Raddir margbreytileikans
Raddir margbreytileikans – 5. þáttur: „Vits er þörf þeim er víða ratar“
Kjarninn 3. ágúst 2021
Meira eftir höfundinnÞórður Snær Júlíusson
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar