Í vikunni barst slitastjórn Kaupþings ný stefna. Hún var frá Robert Tchenguiz, sem var stærsti einstaki skuldari íslenska bankakerfisins þegar það hrundi haustið 2008. Tchenguiz vill fá skaðabætur frá Kaupþingi, og einum slitastjórnarmanni, vegna þess að breska efnahagsbrotadeildin Special Fraud Office (SFO), rannsakaði hann. Tchenguiz telur að Kaupþing hafi haft frumkvæði að og tekið þátt í umræddri rannsókn, sem síðar var fallið frá, og að hann hafi orðið fyrir gríðarlegu fjárhagstjóni vegna hennar.
Þetta hljómar allt kunnuglega, enda Robert ekki fyrsti Tchenguiz-bróðirinn sem fer fram með svona mál gegn Kaupþingi. Vincent Tchenguiz höfðaði mál gegn slitabúi Kaupþings, og slitastjórnarmanninum Jóhannesi Rúnari Jóhannssyni, og fleirum í nóvember í fyrra og krafðist 2,2 milljarða punda í bætur, um 460 milljarða króna.
Mjög skiptar skoðanir eru um hversu líklegt sé að þessar málshöfðanir skili einhverju. Ráðgjafar Tchenguiz-bræðranna, sem Kjarninn hefur rætt við, eru sannfærðir um að málin fái efnislega meðferð og muni skila skaðabótagreiðslu. Innan slitabús Kaupþings, og reyndar víðar, er uppi sú tilgáta að aðfarir bræðranna séu fyrst og síðast til þess gerðar að eyðileggja fyrir gerð nauðasamningi búsins og slitum þess.
Og það virtist vera að raunveruleg hætta væri á því að það væri að takast. Máli Vincent Tchenguiz gegn Kaupþingi var vísað frá í júní á grundvelli þess að enskir dómstólar hefðu ekki lögsögu yfir slitabúi Kaupþings, enda geri íslensk gjaldþrotalög ráð fyrir því að íslenskir dómstólar hafi einir lögsögu yfir þeim.
Í lok júlí sótti Vincent Tchenguiz hins vegar um heimild til að áfrýja þessari niðurstöðu. Ef dómari myndi samþykkja að leyfa honum að áfrýja gæti það hafa sett nauðasamning Kaupþings, sem þarf að klárast fyrir áramót svo ekki leggist 39 prósent stöðugleikaskattur á búið, í algjört uppnám.
Þ.e. ef Vincent Tchenguiz hefði munað eftir að lýsa kröfunni í búið.
Vincent Tchenguiz vill fá 460 milljarða króna í bætur.
Kröfuhafar vilja forðast stöðugleikaskatt
Bókfært virði eigna Kaupþings í lok árs 2014 var 799,9 milljarðar króna. Því er ljóst að ef krafa Vincent Tchenguiz yrði samþykkt, og henni rétt lýst í búið, að þorri eigna þess myndi renna til hans. Ef bróðir hans Robert, sem skuldaði íslensku bankakerfi 2,1 milljarð evra, um 309 milljarðar króna á núvirði, myndi vinna sitt mál færi líkast til stór hluti af því sem eftir stæði til hans.
Í byrjun júní síðastliðnum lögðu íslensk stjórnvöld fram áætlun sína um losun hafta. Samdægurs var upplýst að stærstu kröfuhafar Kaupþings, Glitnis og Landsbankans hefðu samþykkt að mæta svokölluðum stöðugleikaskilyrðum til að komast hjá því að 39 prósent stöðugleikaskattur myndi leggjast á eignir þeirra. Samkvæmt útreikningum Kjarnans, sem sérfræðingar hafa farið yfir, fela þeir samningar í sér að Kaupþing greiði íslenska ríkinu ríflega 100 milljarða króna í stöðugleikaframlag, miðað við að söluandvirði Arion banka sé 80 prósent af bókfærðu virði eigin fjár hans í dag.
Ef 39 prósent stöðugleikaskattur yrði lagður á þær allar þá myndi hann skila íslenska ríkinu yfir 300 milljörðum króna.
Hefðu ekki getað klárað nauðasamning
Það er því kappsmál fyrir kröfuhafa Kaupþings að stöðugleikaskatturinn leggist ekki á. Eitt af þeim skilyrðum sem þeir þurfa að mæta er að klára nauðasamning fyrir áramót. Miðað við stærð kröfu Vincent Tchenguiz, sem yrði svokölluð búskrafa og myndi þar með njóta forgangs yfir aðrar kröfur, var ljóst að hún gæti sett gerð nauðasamning í algjört uppnám. Það væri ekki hægt að borga út eignir Kaupþings ef möguleiki væri á að tæplega 60 prósent þeirra yrðu að endurgreiðast Vincent Tchenguiz ef hann ynni málið. Búist er við að málareksturinn gæti tekið allt að tvö ár.
Samhliða framlagningu áætlunar um losun hafta þurftu íslensk stjórnvöld að ráðast í ýmis konar lagabreytingar. Ein slík var á lögum um fjármálafyrirtæki og var hún samþykkt á Alþingi 3. júní síðastliðinn. Samkvæmt þeirri breytingu varð kröfuhafi að lýsa síðbúinni kröfu í búið í síðasta lagi 15. ágúst 2015. Að öðru leyti er ekki hægt að taka hana til greina við slit búsins.
Innan slitabús Kaupþings var fastlega búist við því að Vincent Tchenguiz myndi lýsa síðbúinni kröfu fyrir þann tíma. Raunar var gengið út frá því. Það kom því mjög á óvart þegar það gerðist ekki.
Vegna þessa þá lítur slitastjórn Kaupþings svo á að hún þurfi ekki að halda aftur eignum til að mæta mögulega greiðslu á slíkri kröfu og því sé hægt að ljúka nauðasamningi án þess að taka tillit til Tchenguiz-bræðranna, en stefna Roberts Tchenguiz barst eftir að fresturinn var útrunninn og því var kröfu hans heldur ekki lýst í búið.
Samskiptum við Tchenguiz-bræður ekki lokið
Samskiptum Kaupþings og bræðranna er þó fjarri því lokið. Mál Vincent Tchenguiz gegn Jóhannesi Rúnari Jóhannssyni, Grant Thornton í Bretlandi og tveimur starfsmönnum þess er enn lifandi. Enskur undirdómstóll hafnaði málatilbúnaði Jóhannesar Rúnars í lok júní um að þarlendir dómstólar hefðu ekki lögsögu í málinu gegn honum. Jóhannes Rúnar vildi að málið yrði tekið fyrir á Íslandi þar sem einungis íslenskir dómstólar hefðu lögsögu yfir uppgjöri slitabús Kaupþings, en af því verður ekki.
Jóhannes Rúnar Jóhannsson situr í slitastjórn Kaupþings.
Þá hefur Robert Tchenguiz, líkt og áður sagði, stefnt bæði Kaupþingi og Jóhannesi Rúnari vegna sambærilegra atvika og bróðir hans. Bræðurnir vilja báðir meina að þessir aðilar hafi lagt á ráðin um, haft frumkvæði að og tekið þátt í, rannsókn SFO, á þeim og fyrirtækjum í þeirra eigu. Þetta hafi leitt til þess að bræðurnir voru handteknir í mars 2011 og leitað var á skrifstofu þeirra og í fyrirtækjum í þeirra eigu.
Tilgangurinn,samkvæmt stefnu Vincent Tchenguiz, var sá að nota rannsókn SFO á meintum glæpum hans til að knýja hann til að semja um málefni sinna félaga gagnvart Kaupþingi, afla gagna frá SFO, sem embættið gerði upptækt í húsleit hjá Vincent, sem Kaupþing hefði ella ekki getað aflað og síðan misnota þau gögn í samskiptum sínum við Vincent Tchenguiz. Hann telur að með þessu hafi Kaupþing viljað komast yfir eignir hans og fyrirtæki sem honum tengdust. Þetta átti að skila Kaupþingi auknum eignum og Grant Thornton í Bretlandi auknum greiðslum, þar sem starfsmenn fyrirtækisins myndu sjá um skipti á þeim eignum sem teknar yrðu yfir.
Líkt og áður sagði er málatilbúnaður Robert Tchenguiz, samkvæmt upplýsingum Kjarnans, sambærilegur.