Á dögunum bárust fregnir þess efnis að Kínverjar myndu líklega reyna að læra af innrás Rússlands í Úkraínu, þar eð læra af mistökum Rússa í þeim efnum, í tengslum við hugsanlega árás landsins á það sem þeir álíta sjálfsstjórnarhéraðið Taívan. Í Taívan starfar hins vegar lýðræðislega kjörin ríkisstjórn og líta flestir landsmenn á Taívan sem sjálfstætt ríki.
Sögu sambands Kína og Taívan má rekja allt aftur til sautjándu aldar þegar Qing-keisaradæmið tók yfir stjórn Taívan. Stjórn eyjunnar var svo afhent Japönum árið 1895 eftir að Japanir töpuðu fyrsta stríðinu milli landanna tveggja. Kína tók svo aftur við stjórn Taívan árið 1945 þegar Japanir höfðu tapað Seinni heimsstyrjöldinni, en skömmu síðar hófst borgarstyrjöld í Kína, þar sem kommúnistar háðu stríð við þjóðernissinnastjórnina. Borgarastyrjöldinni lauk með sigri Kommúnistaflokks Maós og flúðu Chiang Kai-shek og aðrir þjóðernissinnar sem lifað höfðu stríðið af til Taívan.
Þjóðernisflokkur Chiang Kai-shek nefndist Kuomintang – og var flokkur hans við stjórn í Taívan næstu áratugi, og hefur æ síðan einn stærsti stjórnmálaflokkur ríkisins, sem lítur á sig sem sjálfstætt.
Kína vísar hins vegar til þessarar sögu til sönnunar þess að Taívan hafi alltaf verið hluti af Kína, en Taívan bendir á að ríkið hafi aldrei verið raunverulegur hluti af Kína eins og það þekkist í dag, hvorki eftir byltinguna árið 1911 né eftir að Maó kom á kommúnistastjórn í landinu árið 1949.
Fáir sem viðurkenna sjálfstæði Taívan
Aðeins þrettán ríki, auk Vatíkansins, viðurkenna sjálfstæði Taívan, en Kína beytir flestar þjóðir miklum diplómatískum þrýstingi til þess að gera það ekki. Kínversk stjórnvöld hafa talað við friðsamlegri innlimun Taívan í sameinað Kína, en jafnframt sagst ekki myndu útiloka að beita afli til að ná eyjunni aftur undir sína stjórn.
Afar ólíklegt er að Taívan gæti með nokkru móti varið sig gegn gífurlegum herafla Kína, sem eyðir næstmest allra í hernaðarmál á eftir Bandaríkjunum. Taívan gæti í mesta falli reynt að hægja á innrásinni með því hindra landgöngu og með aðferðum á borð við guerilla-hernað á meðan beðið væri eftir utanaðkomandi aðstoð. Það er hins vegar óljóst hvort og þá hvaðan hún myndi berast, en þó að fjölmörg ríki haldi góðum tengslum við Taívan hika þau við að lýsa yfir hvers kyns opinberum stuðningi þvert á vilja Kína og eru, eins og áður segir, sárafá sem viðurkenna sjálfstæði þess.
Meðal þeirra ríkja sem hefur viljandi haldið stefnu sinni gagnvart Taívan tvíræðri eru Bandaríkin, sem eiga í mikilvægu viðskiptasambandi við Kína en hafa þó ávallt haldið góðum tengslum við Taívan. Bandaríkin selja til að mynda vopn til Taívan, en hafa þó alltaf skautað framhjá hvers kyns spurningum um það hvort þau myndu koma ríkinu til varnar kæmi til innrásar frá Kína. Það breyttist þó í heimsókn Joes Biden Bandaríkjaforseta til Japans í maí síðastliðnum, þegar hann svaraði spurningu blaðamanns tæpitungulaust: Já. Þá nefndi hann innrás Rússlands í Úkraínu og líkti hugsanlegri árás Kína á Taívan við það sem nú er að eiga sér stað í Evrópu.
Skömmu eftir að Biden lét ummælin falla dró Hvíta húsið þó í land og vildi ekki meina að stefna Bandaríkjanna í þessum efnum hefði breyst. Nú hafa fregnir af heimsókn Nancy Pelosi, forseta fulltrúadeildar bandaríska þingsins, til Taívan svo valdið talsverðu fjaðrafoki og er heimsóknin talin einhvers konar stuðningsyfirlýsing. Kínverjar eru síður en svo ánægðir með áætlanir Pelosi og hafa hótað hörðum viðbrögðum. Í Taívan hafa viðbrögð við loftárásum verið æfð í undirbúningi vegna heimsóknarinnar.
Þurfi fyrst að læra af seinagangi Rússa
Ljóst er að spennan á milli Kína og Taívan fer vaxandi, en Kína hefur verulega aukið fjölda flugferða inn í sjálfskipaða lofthelgi Taívan undanfarið ár og varnarmálaráðherra Taívan segir samband ríkjanna ekki hafa verið eins slæmt í 40 ár. Yfirmaður CIA í Bandaríkjunum segir Kína þó ekki hugsa sér gott til glóðarinnar í ljósi innrásar Rússlands í Úkraínu, heldur þurfi þvert á móti að íhuga stöðu sína í ljósi þess hve illa Rússum hefur gengið. Ekkert bendir til þess að Kína aðstoði eða hafi aðstoðað Rússland með beinum hætti við valdaránstilraunina þó þeir hafi ekki fordæmt hana. Þeim skuli hins vegar vera ljóst að það duga engin vettlingatök við slíkar aðgerðir, auk þess sem alþjóðasamfélagið hefur staðið þétt við bakið á Úkraínu. Alls er þó óljóst hversu mikið það myndi grípa inn í kæmi til þess að Kína gerði atlögu að Taívan, í ljósi þess að svo fáar þjóðir viðurkenna sjálfstæði Taívan.
Nái Kína yfirráðum yfir Taívan myndi það þó breyta heimsmyndinni talsvert, ekki síst í viðskiptafræðilega og í tengslum við tækniframfarir, en Taívan er langstærsti framleiðandi tölvukubba í heiminum, og knýja því meirihluta allra raftækja heimsins.