Meirihluti efnahags- og viðskiptanefndar, sem samanstendur af nefndarmönnum stjórnarflokkanna þriggja, hefur ákveðið að fresta aukinni gjaldtöku á fiskeldi í sjókvíum um ótilgreindan tíma. Gjaldið, eftir hækkunina, átti að skila ríkissjóði 1,5 milljarði króna í tekjur á næsta ári, sem er um 450 milljónum krónum meira en sjóeldisfyrirtækin hefðu annars greitt í ríkissjóð 2021. Tekjuauki ríkissjóðs átti að verða 650 milljónir króna á árinu 2024 og 760 milljónir króna árið 2025. Þegar aðlögun fyrirtækjanna að gjaldtökunni átti að vera lokið árið 2026 átti fiskeldisgjaldið að verða um 800 milljónum krónum hærra en ef gjaldhlutfallið hefði ekki verið hækkað og viðmiðunartímabilinu ekki verið breytt.
Nú er ljóst að hækkun á gjaldinu verður hið minnsta ekki innheimt að óbreyttu á næsta ári, sem sparar þá sjóeldisfyrirtækjum 450 milljónir króna á því ári frá því sem áður stóð til að innheimta.
Í nefndaráliti meirihlutans um breytingar á tekjubandormi sem fylgir fjárlagafrumvarpi næsta árs er þessi ákvörðun rökstudd með því að þegar Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, mælti fyrir hækkun af gjaldtöku af fiskeldi í september síðastliðnum hefði verið gert ráð fyrir því að stefnumótun um fiskeldi yrði lengra á veg komin. „Gert var ráð fyrir að skýrsla Boston Consulting Group um framtíðarmöguleika í lagareldi og skýrsla Ríkisendurskoðunar um framkvæmd lagasetningar og framkvæmd laga um fiskeldi myndu liggja fyrir áður en frumvarpið yrði afgreitt. Í skýrslugerð Boston Consulting Group var viðhaft víðtækt samráð við greinina og aðra haghafa. Þar sem þessar skýrslur hafa ekki borist telur meiri hlutinn réttara að fresta þeirri breytingu á gjaldtökunni sem er lögð til. Þannig fæst gleggri mynd af gjaldtöku hérlendis og í samanburðarlöndum. Þannig gefist einnig frekara ráðrúm til að ákvarða réttlátt gjald fyrir afnot af sameiginlegri auðlind.“
Í samræmi við aðfinnslur SFS
Röksemdir meirihlutans eru í takti við aðfinnslur Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi (SFS), sem gæta hagsmuna fiskeldisfyrirtækja, sem settar voru fram í umsögn þess um bandorminn.
Þau gerðu einnig athugasemd við að ekkert samráð hafi verið haft við SFS við undirbúning skattahækkunarinnar. „Til þess að sátt geti ríkt um gjaldtöku af fiskeldi er mikilvægt að samráð sé haft við hagaðila í viðkomandi atvinnugrein áður en áform af þessu tagi eru kynnt opinberlega.“
Nefndin breytti líka síðast án útskýringar
Gjaldahækkunin átti sér nokkurra ára aðdraganda. Kjarninn greindi frá því í september að þegar frumvarp til laga um töku gjalds vegna fiskeldis í sjó og fiskeldissjóðs var lagt fram í mars 2019 af Kristjáni Þór Júlíussyni, þáverandi sjávarútvegsráðherra, var skrifað að fjárhæð gjaldsins ætti að vera 3,5 prósent af nýjasta 12 mánaða meðaltali alþjóðlegs markaðsverðs á Atlantshafslaxi fyrir ákvörðunardag.
Þegar meirihluti atvinnuveganefndar skilaði nefndaráliti sínu um frumvarpið lagði hann til breytingartillögu sem í fólst að viðmiðunartími gjaldsins ætti ekki lengur að vera nýjustu 12 mánaða meðaltal alþjóðlegs markaðsverð, heldur að hann ætti að vera „frá ágúst til október“.
Í nefndarálitinu er þessi breyting ekkert útskýrð, en heimsmarkaðsverð á eldisfiski er að jafnaði lágt á því tímabili sem notast var við til að ákvarða gjaldið sem greiða átti í ríkissjóð. Breytingin sem atvinnuveganefnd lagði til lækkaði því greiðslur þeirra fyrirtækja sem stunda sjókvíaeldi í ríkissjóð.
Meirihlutann í nefndinni mynduðu þingmenn stjórnarflokkanna þriggja ásamt þingmönnum Miðflokksins.
Dugaði ekki fyrir útgjöldum
SFS lögðust líka hart gegn samþykkt frumvarpsins árið 2019. Í umsögn þeirra sagði meðal annars að hugmyndir um skattlagningu væru ótímabærar og að ætla mætti „að markmið stjórnvalda um auknar tekjur af laxeldi náist fyrst og fremst með því að gæta að svigrúmi greinarinnar til fjárfestingar svo hún geti haldið áfram að vaxa og verði arðbær. Það er eina réttláta og skynsamlega leiðin að settu marki. Vanhugsuð lagasetning sem hér er boðuð getur haft mjög neikvæðar afleiðingar í för með sér - sér í lagi þegar um er að ræða atvinnugrein á viðkvæmu stigi uppbyggingar.“
Frumvarpið var samt sem áður samþykkt og álagningin lagðist á frá 1. janúar 2020. Samkvæmt fjárlagafrumvarpi þess árs var reiknað með að gjaldið myndi skila 134 milljónum króna í ríkissjóð á árinu 2020. Þar kom einnig fram að til stæði að leggja 175 milljónir króna í að bæta stjórnsýslu, eftirlit og heilbrigðiskröfur í fiskeldi á því ári, eða 41 milljónum króna minna en lögfest gjaldtaka vegna fiskeldis átti að skila í ríkiskassann.
Tvenns konar breytingar sem átti að innleiða
Gjaldið sem um ræðir leggst á þá rekstraraðila sem stunda sjókvíaeldi. Aðrir sem stunda fiskeldi, t.d. á landi, eru undanþegnir gjaldinu. Þegar lögin um gjaldtökuna voru sett var samþykkt að veita þessum aðilum aðlögun að því að greiða fullt gjald. Á næsta ári munu sjóeldisfyrirtækin greiða 4/7 af því hlutfalli reiknistofnsins sem þeim mun frá árinu 2026 vera gert að greiða að fullu.
Nú hefur meirihluti efnahags- og viðskiptanefndar fallið frá þessum breytingum.
Kostar mikið í Noregi en er frítt á Íslandi
Á Íslandi er enginn auðlindaskattur lagður á eldi. Hér á landi kosta framleiðsluleyfi og laxeldiskvóti sem framleiðendur fá frá íslenska ríkinu ekkert. Í nýlegri umfjöllun Stundarinnar er rifjað upp að árið norsk laxeldisfyrirtæki, sem hafa framleiðsluleyfi fyrir 65 þúsund tonnum hér á landi, hefðu þurft að greiða 169 milljarða króna fyrir þau leyfi í Noregi.
Ríkisstjórn Noregs tilkynnti 28. september síðastliðinn að hún ætli að leggja auðlindaskatt á eldisfisk. Samkvæmt tillögum á hann að vera 40 prósent af tekjum að frádregnum útgjöldum við að afla teknanna, sem er til að mynda fjárfestingakostnaður. Búist er við að skatttekjur vegna þessa verði um 50 milljarðar íslenskra króna á næsta ári en um er að ræða viðbótartekjur fyrir norska ríkissjóðinn, þar sem um nýjan skattstofn er að ræða.
Í annarri frétt Stundarinnar sem birt var nýverið var haft eftir Kjartan Ólafssoni, stjórnarformanni Arnarlax, að afleiðingar skattheimtu á eldislaxi í Noregi minntu á upphaf Íslandsbyggðar. Þar átti hann við að norsk laxeldisfyrirtæki séu að flýja skattheimtuna þar í landi og komi til Íslands í leit að hagstæðara skattaumhverfi fyri iðnaðinn.