Félagsstofnun Stúdenta hagnaðist um 4,8 milljarða króna á starfsárinu 2020 til 2021. Þar af var matsbreyting fjárfestingaeigna, sem er hækkun á fasteignamati þeirra fasteigna sem stofnunin á milli ára, rúmlega 4,1 milljarður króna að frátöldum viðhaldskostnaði, sem var 441 milljón króna á rekstrarárinu.
Virði fjárfestingaeigna Félagsstofnunar Stúdenta, sem eru stúdentagarðar, var 41,6 milljarðar króna í lok maí síðastliðins, en rekstrarár stofnunarinnar er frá 1. júní á hverju ári og út maí. Til samanburðar var virði fjárfestingaeigna í eigu hennar 30,1 milljarðar króna í lok maí 2018. Taka verður tillit til þess að leigueiningum stofnunarinnar hefur fjölgað á þessu tímabili. Stærsti stúdentagarður á Íslandi og jafnframt fjölmennasta íbúðarhús á landinu á einu húsnúmeri, Mýrargarður sem rúmar nálægt 300 manns, var til að mynda tekinn í notkun í febrúar í fyrra. Í dag eru leigueiningar í eigu Félagsstofnunar stúdenta 1.495 talsins. Því er stofnunin risastór leikandi á íslenskum leigumarkaði.
Í upphafi árs var að fólk sem er ekki í námi gæti sótt um herbergi til leigu hjá Félagsstofnun stúdenta. Vegna áhrifa COVID-19 voru biðlistar eftir herbergjum með sameiginlegum eldhúsum og dvalarrýmum sem hún býður til leigu í nokkrum af sínum stúdentagörðum styttri en venjulega og því var gripið til þeirra aðgerða.
Velta stofnunarinnar var rúmlega 3,2 milljarðar króna og jókst um 6,5 prósent milli rekstrarára. Þar af vöru sölu og leigutekjur um 98 prósent tekna en það sem upp á vantar voru skráningargjöld.
Að meðaltali störfuðu um 122 starfsmenn hjá stofnuninni á tímabilinu júní 2020- maí 2021 miðað við heilsdagsstöðugildi. Laun og launatengd gjöld voru rúmlega einn milljarður króna sem er fjögur prósent kostnaðaraukning frá rekstrarárinu á undan.
Þetta kemur fram í ársreikningum Félagsstofnunar Stúdenta sem Kjarninn hefur fengið afhenta hjá skrifstofu stofnunarinnar, en þeim er ekki skilað inn til ársreikningaskrár.
Rekið um það bil á núlli
Félagsstofnun Stúdenta er óhagnaðardrifið félag sem lætur allan hagnað renna til bættrar þjónustu og búsetuskilyrða fyrir stúdenta við Háskóla Íslands. Í dag rekur hún Bóksölu stúdenta, Leikskóla stúdenta, Stúdentagarða, Stúdentakjallarann, Hámu, Hámu Salatbar, Bókakaffi stúdenta og Kaupfélag stúdenta.
Í svari við fyrirspurn Kjarnans segir Guðrún Björnsdóttir, framkvæmdastjóri stofnunarinnar að hagnaður hvers árs þurfi að standa undir afborgunum lána og að rétt framlag til viðhalds skili sér.
Þegar horft sé á sjóðstreymi Félagsstofnunar stúdenda hafi reksturinn skilað rúmlega einum milljarði króna til stofnunarinnar á síðasta rekstrarári. Þegar búið sé að draga frá greiðslur vegna viðhalds á árinu, afborgun á langtímalánum og rétt upphæð tekin til hliðar í framtíðarviðhaldssjóð og öðrum áhöldum ársins sé reksturinn um það bil á núlli.
Hagnaður hvers árs þarf að standa undir afborgunum lána og að rétt framlag til viðhalds skili sér. Allar eignir eru metnar á fasteignamati og matsbreytingin er því hækkun á fasteignamati hvers árs.
Sé horft á reksturinn út frá hagnaði, sem var tæplega 4,8 milljarðar króna, þurfi fyrst að draga matsbreytingar og viðhaldskostnað frá. Þá standi eftir hagnaður upp á 184 milljónir króna auk verðbóta upp á 662 milljónir króna. Samanlagt geri það 846 milljónir króna. Guðrún segir að frá því þurfi að dragast frá afborganir lána upp á 227 milljónir króna og matsbreyting verðbréfa upp á 225 milljónir króna. „Þá standa eftir 394 milljónir og framlag í viðhaldssjóðinn þetta rekstrarár á að vera 391 milljón.“
Um fjórðungi lægra borið saman við sambærilegar íbúðir
Í nýlegri leigumarkaðskönnun Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar (HMS) kom fram að meðalfermetraverð leiguíbúða á stúdentagörðum væri hærra en á nokkrum öðrum leigumarkaði hérlendis. Meðalfermetraverð þeirra var 2.545 krónur í september.
Þrátt fyrir hátt fermetraverð greiða leigjendur á stúdentagörðum lægstu upphæðina í leigu, sökum þess hversu litlar íbúðir þeirra eru. Meðalstærð íbúða á stúdentagörðunum er 48 fermetrar, á meðan stærð íbúða á öðrum leigumörkuðum er vanalega í kringum 80 fermetra.
Í kjölfar þess að niðurstöður könnunarinnar voru birtar kallaði Félagsstofnun stúdenta eftir upplýsingum frá HMS um meðalleiguverð á íbúðum í sambærilegri stærð og þær sem í boði eru á stúdentagörðum.
Í svari stofnunarinnar kemur fram að hún hafi fundið til tölur um þinglýsta leigusamninga á íbúðum af slíkri stærð (á bilinu 40 til 55 fermetrar) í póstnúmerum 101, 102, 103 og 105. Þar sé meðalleiguverð per fermetra 3.496 krónur.
Því er meðalfermetraverð leiguíbúða á stúdentagörðum rúmlega fjórðungi lægra en það er á almenna markaðnum í þeim póstnúmerum sem stúdentagarða er að finna.