Fjárlagafrumvarpið á mannamáli
Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, kynnti fjárlagafrumvarp vegna ársins 2023 í gær. Það segir til um hvernig þjóðarheimilið er rekið. Í hvað erum við að eyða, hverjir borga mest fyrir það og þau nýju verkefni sem verið er að ráðast í. Í þeim er að finna rammann utan um samfélagið sem við lifum í.
Hver er stóra myndin?
Heildartekjur ríkissjóðs verða um 1.117 milljarðar króna á næsta ári. Það er tekjuaukning upp á 103 milljarða króna milli ára, miðað við fyrirliggjandi áætlun ársins 2022. Tekjur yfirstandandi árs hafa verið endurmetnar frá því sem sett var fram í fjárlögum og eru nú áætlaðar 79 milljörðum krónum meiri. Ástæður þess eru tvær, annars vegar vegna bættra efnahagsforsenda og hins vegar vegna aukinnar verðbólgu.
Áætlaður halli á árinu 2023 er 89 milljarðar króna en í fjármálaáætlun sem lögð var fram í vor var hann áætlaður 82,5 milljarðar króna. Áætlaður halli hefur því aukist um 6,5 milljarða króna frá því í vor. Halli ríkissjóðs vegna ársins 2022 var áætlaður 187 milljarðar króna en er nú talin verða 142 milljarðar króna.
Útgjöld munu aukast nokkuð milli ára, eða um 6,4 prósent, og verða 1.296 milljarðar króna.
Hverjir fá mest?
Framlög til heilbrigðismála verða aukin um 12,2 milljarða króna á árinu 2023 og verða um 327 milljarðar króna á föstu verðlagi.
Það þýðir að um fjórðungur af öllum útgjöldum ríkissjóðs fari í rekstur heilbrigðismála (25 prósent). Svipað fer í félags-, húsnæðis- og tryggingamál og um 133 milljarðar króna fara í mennta- og menningarmál.
Framlög til nýsköpunar, rannsóknar og þekkingar, sem fela aðallega í sér endurgreiðslur á kostnaði fyrirtækja munu halda áfram að hækka lítillega milli ára og framlög til umhverifsmála aukst um tæpa þrjá milljarða króna og verða 27,9 milljarðar króna.
Hvað er nýtt?
Það sem hefur helst vakið athygli er að ríkissjóður ætlar að auka tekjur um 700 milljónir króna á næsta ári með því að draga úr afslætti í tollfrjálsum verslunum þannig að áfengisgsgjaldið í þeim fari úr tíu í 25 prósent og tóbaksgjaldið úr 40 í 50 prósent. Þetta mun fyrst og síðast hafa áhrif á fríhöfnina í Leifsstöð þar sem ferðamenn hafa hingað til getað keypt ódýrara áfengi og tóbak en annarsstaðar á landinu.
Þá er gert ráð fyrir að breytt vörugjald á ökutæki muni skila 2,7 milljörðum nýjum krónum í ríkissjóðs og breytingar á bifreiðagjaldi, aðallega vegna vegna þess að gjaldtaka á rafmagns- og tvinnbílum verður aukin, muni skila auknum tekjum upp á 2,2 milljarða króna.
Athygli vekur að fjárlagafrumvarpið gerir ráð fyrir að eftirstandandi 42,5 prósent hlutur ríkisins í Íslandsbanka verði seldur fyrir 75,8 milljarða króna. Það er gert þrátt fyrir að salan hafi verið sett á ís í vor á meðan að Ríkisendurskoðun og fjármálaeftirlit Seðlabanka Íslands rannsökuðu hluta síðasta skrefs sem stigið var í söluferlinu. Hvorki Ríkisendurskoðun né fjármálaeftirlitið hefur birt neins konar niðurstöðu úr rannsóknum sínum.
Hvar á að spara?
Fjárfestingar dragast verulega saman á næsta ári, eða um 16,6 prósent. Það er annað árið í röð sem það gerist en fjárfestingar ríkissjóðs drógust saman um 17,3 prósent í ár. Búist er við því að útgjöld til fjárfestingar verði aukin aftur á næsta ári.
Heilt yfir er því aðallega sparað með því að fresta fjárfestingaverkefnum og með því að ráðast ekki í ný útgjöld. Sú fjárfesting sem frestað er, og skilar mestum sparnaði á næsta ári, er framlag vegna viðbyggingar við Stjórnarráðshúsið, sem lækkar um 850 milljónir króna frá því sem áður var áætlað.
Þá hefur verið tilkynnt um að framlög til stjórnmálaflokka verði lækkuð til að sýna aðhald í verki. Framlagið var lækkað úr 728,2 í 692,2 milljónir króna á ári, eða um 36 milljónir króna.
Er tekið á stöðunni á húsnæðismarkaði?
Í kynningu fjárlagafrumvarpsins segir að ríkissjóði yrði beitt til að stemma stigu við verðbólgu og þenslu í efnahagslífinu, en verðbólga mælist nú 9,7 prósent. Sá einstaki þáttur sem hefur ráðið mestu um vöxt verðbólgunnar er gríðarleg hækkun á húsnæðisverði, sem hefur hækkað um 48 prósent á höfuðborgarsvæðinu frá byrjun því í mars 2020.
Helsta ástæða þessarar þróunar er að eftirspurn eftir íbúðum hefur verið langt umfram framboð, og í febrúar á þessu ári voru einungis 437 íbúðir auglýstar til sölu á höfuðborgarsvæðinu, sem er sögulegt lágmark.
Til að stemma stigu við þessu hefur Seðlabanki Íslands þrengt að lánaskilyrðum og hækkað stýrivexti úr 0,75 í 5,75 prósent frá því í maí í fyrra.
Engar sérstakar nýjar aðgerðir til að auka á framboð á íbúðamarkaði eru kynntar til leiks í fjárlagafrumvarpinu en tillögur þess efnis boðaðar síðar. Þvert á móti eru stofnframlög til uppbyggingar í almenna íbúðakerfinu lækkuð um tvo milljarða króna.
Sömu sögu er að segja um aukinn húsnæðisstuðning, en greiðslubyrði húsnæðiskostnaðar hefur stórhækkað samhliða aukinni verðbólgu. Í mörgum tilfellum hefur greiðslubyrði lána hækkað um meira en 100 þúsund krónur á mánuði. frá byrjun árs. Sú hækkun sem er á húsnæðisstuðningi milli ára er tilkomin annars vegar vegna þegar tilkynntra mótvægisaðgerða við verðbólgu og hins vegar vegna fjölgunar fólks á leigumarkaði. Í frumvarpinu stendur: „Starfshópur um húsnæðisstuðning er nú að störfum með það hlutverk að endurskoða beinan húsnæðisstuðning til einstaklinga. Á grundvelli þeirrar vinnu verður horft til breytinga og hækkunar á húsnæðisstuðningi ríkisins frá því sem gert er í frumvarpi þessu. Þar sem hópurinn er enn að störfum er horft til annarrar umræðu fjárlaga í því samhengi.“
Í kynningu fjárlagafrumvarpsins var hins vegar sérstaklega vikið að aðgerðum sem samþykktar voru fyrr á þessu ári, og eru þensluvaldandi. Þ.e. þær auka á eftirspurnina sem Seðlabankinn er að reyna að slá á. Aðgerðirnar fela í sér að kaupendur geta frá næstu áramótum notað svokallaða tilgreinda séreign til að safna fyrir fyrstu íbúð, auk þess að fá helmings afslátt af stimpilgjöldum. Þá verður þeim sem ekki hafa átt íbúð í fimm ár eða lengur gert kleift að nýta úrræði fyrstu kaupenda.
Hver borgar fyrir tekjur ríkissjóðs?
Einstaklingar og fyrirtæki
Skatttekjur verða alls 877,2 milljarðar króna á næsta ári gangi forsendur frumvarpsins eftir. Áætlað er að þær verði 793,4 milljarðar króna í ár og því munu skatttekjurnar hækka um 83,8 milljarða króna milli ára. Einstaklingar munu greiða 241,4 milljarða króna í tekjuskatt og skattgreiðslu sem er tæplega ellefu prósent meira en í ár. Til viðbótar borgum við auðvitað virðisaukaskatt af flestu. Á næsta ári er búist við að virðisaukaskattstekjurnar verði 338,4 milljarðar króna (tólf prósent aukning) og að við fáum að greiða 7,6 milljarða króna í viðbót í stimpilgjöld.
Tekjuskattur sem leggst á lögaðila, fyrirtæki og félög landsins, er nú áætlaður 97 milljarðar króna á næsta ári og tekjur vegna hans aukast um 20 milljarða króna, eða 26 prósent, milli ára.
Þá munu tekjur ríkissjóðs vegna tryggingagjalds aukast og verða 122,3 milljarðar króna á næsta ári. Það er rúmum átta milljörðum krónum hærri tekjur en reiknað er með að skattstofnin skili ríkissjóði í ár.
Sérstakt gjald á banka
Bankar landsins borga líka sinn skerf til ríkisins til viðbótar við hefðbundnar skattgreiðslur, þótt það framlag fari lækkandi. Þar skiptir mestu að á bankaskatturinn var lækkaður niður í 0,145 prósent skulda árið 2020 sem hluti af efnahagsaðgerðum ríkisstjórnarinnar til að takast á við kórónuveirufaraldurinn. Fyrir vikið lækkaði álagður bankaskattur sem ríkissjóður lagði á bankana um 6,1 milljarð króna vegna ársins 2020 og var 4,8 milljarðar króna. Það var lækkun upp á 56,2 prósent. Áætlað er að hann hafi verið um 5,4 milljarðar króna í ár og að hann verði 5,9 milljarðar króna á næsta ári.
Veiðigjöld
Svo eru það auðvitað útgerðarfyrirtækin. Þau borga ríkissjóði sérstök veiðigjöld umfram aðra skatta fyrir afnot af fiskveiðiauðlindinni.
Ný lög um veiðigjald tóku gildi í byrjun árs 2019 þar sem meðal annars var settur nýr reiknistofn sem byggist á afkomu við veiðar hvers nytjastofns. Samkvæmt þeim er veiðigjaldið nú ákveðið fyrir almanaksár í stað fiskveiðiárs. Útgerðirnar greiddu 4,8 milljarða króna í veiðigjöld árið 2020, 7,7 milljarða króna árið 2021 og áætlað er að veiðigjaldið skili 7,4 milljarða króna í ríkissjóð á árinu 2022. Á næsta ári er búist við að veiðigjöldin skili rúmlega 9,8 milljörðum króna, en af þeirri upphæð fellur 1,5 milljarður króna til vegna gjalds á fiskeldi sem var innleitt 2020. Tvær breytingar eru gerðar á verðmætagjaldi vegna sjókvíaeldis. Annars vegar er gjaldhlutfallið hækkað úr 3,5 í fimm prósent og hins vegar er viðmiðunartímabil gjaldsins fært nær í tíma. Útgerðirnar greiða því 8,3 milljarða króna í veiðigjald.
Til samanburðar voru veiðigjöld útgerða 11,3 milljarðar króna árið 2018, á verðlagi þess árs.
Þeir sem eiga mikið af peningum
Ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur hækkaði fjármagnstekjuskatt í byrjun árs 2018, úr 20 í 22 prósent. Forsætisráðherra sagði við það tilefni að þessi hækkun væri liður í því að gera skattkerfið réttlátara.
Kjarninn greindi frá því í júlí að í greiningu á álagningu opinberra gjalda einstaklinga eftir tekjutíundum sem Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, kynnti á ríkisstjórnarfundi 22. júní síðastliðinn, hafi komið fram að þau tíu prósent landsmanna sem höfðu mestar fjármagnstekjur á síðasta ári hafi tekið til sín 81 prósent allra fjármagnstekna einstaklinga á árinu 2021. Alls höfðu einstaklingar 181 milljarð króna í fjármagnstekjur í fyrra og því liggur fyrir að efsta tíundin, sem telur nokkur þúsund fjölskyldur, var með tæplega 147 milljarða króna í fjármagnstekjur á síðasta ári. Heildarfjármagnstekjur einstaklinga hækkuðu um 57 prósent milli ára, eða alls um 65 milljarða króna. Mest hækkaði söluhagnaður hlutabréfa sem var 69,5 milljarðar króna á árinu 2021.
Þessi gríðarlega aukning á fjármagnstekjum, sem var að stóru leyti tilkomin vegna aðgerða sem ríkisstjórnin og Seðlabanki Íslands gripu til og dældu fé inn á eignamarkaði, gerði það að verkum að fjármagnstekjuskatturinn skilaði 16 milljörðum krónum meira í tekjur í ár en áætlað var í fjárlögum, eða 47,5 milljörðum króna. Umtalsverður samdráttur verður á tekjum vegna fjármagnstekjuskatts á næsta ári, en reiknað er með því að hann skili 41,9 milljörðum króna í ríkissjóð á árinu 2023.
Dauðinn
Gert er ráð fyrir að erfðafjárskattur skili ríkissjóði 8,6 milljörðum króna í tekjur árið 2023. Það minna en skatturinn skilaði í ár þegar landsmenn greiddu tíu milljarða króna í erfðafjárskatt.
Ráðandi breyta í því að innheimtur erfðafjárskattur var þriðjungi hærri í ár en áætlanir gerðu ráð fyrir voru gríðarlegar hækkanir á íbúðarverði.
Bifreiðareigendur
Alls eru áætlaðar tekjur ríkissjóðs vegna vörugjalda af ökutækjum aukist um 2,7 milljarða króna og verði 8,2 milljarðar króna á næsta ári.
Vörugjöld af bensíni aukast um 440 milljónir króna milli ára og verða 9,3 milljarðar króna, kolefnisgjöld aukast um 560 milljónir og verða 7,5 milljarðar króna og olíugjaldið eykst um tæpan milljarð króna og verður rúmlega 13,5 milljarðar króna.
Kílómetragjald mun skila rúmlega 1,6 milljarð króna í ríkissjóð og bifreiðagjöld 10,6 milljörðum króna.
Þeir sem drekka og reykja
Reykingarfólk og áfengisneytendur fá áfram sem áður að borga sinn skerf til samneyslunnar. Alls er lagt til að áfengis- og tóbaksgjaldið hækki um 7,7 prósent milli ára til viðbótar við þá miklu hækkun sem lögð verður á þessar vörur í fríhöfninni.
Allir sem flytja inn eða framleiða áfengi hér á landi til sölu eða vinnslu ber að greiða áfengisgjald. Einnig þeir sem flytja áfengi með sér eða fá það sent erlendis frá, til eigin nota. Áfengisgjald er greitt af neysluhæfu áfengi sem í er meira en 2.25 prósent af vínanda að rúmmáli. Þessu gjaldi er velt út í verðlag og því hækkar það útsöluverð til neytenda.
Tekjur vegna áfengisgjaldsins á næsta ári eru áætlaðar um 25,5 milljarðar króna sem er 1,7 hærra en áætlað er fyrir 2022. Tekjur ríkissjóðs af áfengisgjaldi hafa því hækkað 37 prósent frá 2018, eða í krónum talið eða um 6,9 milljarða króna.
Tóbaksgjaldið átti að skila tæplega 5,8 milljörðum króna í ríkiskassann í ár en skilaði á endanum um 200 milljónum krónum minna. Sennilegast er að hrun í notkun á íslensku neftóbaki, sem ÁTVR framleiðir og selur, skipti þar máli. Á næsta ári munu tekjurnar aukast á ný um 75 milljónir króna eftir hina miklu hækkun sem gripið verður til um áramót og verða rúmlega 5,8 milljarðar króna.
Óreglulegu tekjurnar
Ríkið hefur allskonar aðrar tekjur en skatta. Þar ber auðvitað hæst arðgreiðslur frá fyrirtækjum sem ríkið á, sérstaklega bönkunum og Landsvirkjun. Slíkar arðgreiðslur hríðféllu vegna kórónuveirufaraldursins, og fóru niður í 18,7 milljarða króna árið 2021, en tóku aftur við sér í ár. Þá voru arðgreiðslur ríkisins áætlaðar 45,9 milljarðar króna. Á næsta ári er áætlað að móttekinn arður verði 34,3 milljarðar króna, eða 11,6 milljörðum krónum lægri en í ár. Þar skiptir máli að ríkið hefur þegar selt stóran hluta af eign sinni í Íslandsbanka og fær ekki arð af þeim eignarhluta lengur.
Ríkið mun líka innheimta 17,5 milljarða króna í vaxtatekjur og 37,4 milljarða króna vegna sölu á vöru og þjónustu. Inni í þeirri sölu eru til að mynda innritunargjöld í háskóla og framhaldsskóla, sala á vegabréfum og ökuskírteinum og greidd gjöld vegna þinglýsinga, svo dæmi séu tekin. Þá fær ríkið um 4,9 milljarða króna vegna sekta og skaðabóta.
Ríkisstjórnin ætlar að selja eftirstandandi 42,5 prósent eignarhlut sinn í Íslandsbanka að fullu á næsta ári fyrir 75,8 milljarða króna.
Hvernig stendur rekstur ríkissjóðs?
Hallinn var yfir 600 milljarðar króna á þriggja ára tímabili (2020 til 2022) en skaplegri á næsta ári, eða 89 milljarðar króna. Uppsafnaður halli áranna 2020 og 2021 er áþekkur að stærð í hlutfalli af vergri landsframleiðslu og hallin árin 2009 og 2010 í kjölfar bankahrunsins. Um komandi áramót verða heildarskuldir ríkissjóðs 1.210 milljarðar króna og fjárlagafrumvarpið gerir ráð fyrir að þær fari upp í 1.276 milljarða króna í lok næsta árs.
Gangi áform um að selja restina af Íslandsbanka eftir munu skuldir ríkissjóðs ná að verða 33 prósent af vergri landsframleiðslu í lok næsta árs, en áætlanir gera ráð fyrir að það verði 33,4 prósent í lok árs 2022. Verði hluturinn ekki seldur mun þeir 75,8 milljarðar króna sem bankasalan á að skila í reksturinn á næsta ári verða teknir að láni og skuldahlutfallið hækka umtalsvert.
Lestu meira:
-
11. janúar 2023Vatn á myllu kölska
-
10. janúar 2023Vilja sjúga sand af hafsbotni í stórum stíl og flytja út
-
9. janúar 2023Fjármálaeftirlitið telur Íslandsbanka mögulega hafa brotið gegn lögum
-
8. janúar 2023Náttúra og umhverfi í forgang
-
8. janúar 2023Lífeyrissjóðir hafa ekki lánað meira verðtryggt á einum mánuði frá því fyrir faraldur
-
8. janúar 2023Sautján ár á milli ráðninga á konu í forstjórastóli hjá skráðu félagi
-
4. janúar 202314 félög lækkuðu í virði en fjöldi einstaklinga sem á hlutabréf þrefaldaðist á þremur árum
-
3. janúar 2023Vont vetrarveður en gæti verið (miklu) verra
-
2. janúar 2023Fréttablaðið hætt að koma inn um lúguna hjá fólki – Lestur hríðfallið og kostnaður aukist
-
2. janúar 2023Seðlabankinn gleymdi að telja séreignarsparnaðinn með í minnisblaði um greiðslubyrði