Svæðið kringum Kirkenes í Norður-Noregi er kannski ekki það sem flestum kemur fyrst í hug þegar minnst er á reiðhjól og hjólreiðafólk. Við landamærastöðina Storskog, skammt frá Kirkenes, hefur hjólreiðafólki fjölgað mjög að undanförnu. Það fólk er ekki í skemmtiferð, þótt ferðalagið sé vissulega óvissuferð, í bókstaflegri merkingu.
Storskog stöðin er á landamærum Noregs og Rússlands og er nyrsta landamærastöð Schengen svæðisins. Skammt frá, Rússlandsmegin, er landamærastöð Rússa. Árlega fara um 140 þúsund manns um stöðvarnar en leiðin um þær er sú eina til að ferðast löglega landleiðina milli landanna tveggja en landamærin spanna 196 kílómetra. Umferð um landamærin jókst til muna eftir fall Sovétríkjanna en ferðir hjólreiðafólks hafa þó verið fátíðar. Nú ber hins vegar svo við að daglega fjölgar þeim sem hjóla yfir landamærin, til Noregs.
Ný flóttaleið
Fólkið sem fer um landamærin er meðal þeirra milljóna sem flúið hafa heimaland sitt, Sýrland, síðan borgarastyrjöldin braust út fyrir rúmum fjórum árum. Miðað við allan þann þann fjölda sem daglega flýr átökin eru þeir fáir sem fara þessa óvenjulegu, en kannski tiltölulega auðveldu leið. Að minnsta kosti miðað við þá leið sem flestir hafa til þessa valið: að sigla yfir Miðjarðarhafið. Núna hjóla um það bil eitt hundrað Sýrlendingar daglega frá Rússlandi til Noregs og fer fjölgandi.
Danskur blaðamaður dvaldi nýverið um skeið í Kirkenes og fór daglega til Storskog landamærastöðvarinnar til að fylgjast með því sem þar gerðist. Hann hitti fjölmarga Sýrlendinga sem að hans sögn voru ánægðir með að vera komnir til Noregs þótt flestir hefðu þeir jafnframt sagt að þeir hefðu óskað þess að þurfa ekki að yfirgefa föðurlandið.
Búið er að setja upp tímabundna móttökustöð í þessu tjaldi. MYND/EPA
Auðvelt ferðalag
Danski blaðamaðurinn sagði að það hefði komið sér talsvert á óvart þegar fólkið sagði honum hve auðvelt það væri að ferðast frá Sýrlandi. Ferðin til Noregs hefði einungis tekið þrjá til fjóra daga. Allir þeir sem blaðamaðurinn náði tali af höfðu sömu sögu að segja, höfðu flogið frá hafnarborginni Tartus (þar sem Rússar hafa litla flotastöð) til Murmansk og þaðan áfram með strætó eða leigubíl til Niekel (Nikel) sem er skammt frá landamærum Rússlands og Noregs. Þar keypti fólkið reiðhjól en hélt síðan áfram með bíl með föggur sínar og reiðhjólin. Þegar ófarnir voru hundrað metrar eða svo að landamærunum stigu Sýrlendingarnir á bak reiðhjólunum með allt sitt hafurtask og hjóluðu yfir landamærin. Þar skildi það reiðskjótana eftir enda flest algjör skrapatól sem uppfylla ekki norskar kröfur um slíka fararskjóta, að sögn danska blaðamannsins. Hjólunum, um það bil eitt hundrað á hverjum degi safnar lögreglan saman og flytur á haugana.
Af hverju á reiðhjóli yfir landamærin?
Mörgum kemur það einkennilega fyrir sjónir að sýrlenskir flóttamenn, komnir að landamærum Noregs, skuli verða sér úti um reiðhjól til að hjóla rúma eitt hundrað metra, yfir landamærin. En fyrir þessu er ástæða. Hún er sú að það er ekki leyfilegt að fara fótgangandi yfir landamærin frá Rússlandi. Lögin segja einfaldlega: með farartæki. Allir vita að þetta með reiðhjólin er algjör sýndarmennska en það skiptir ekki máli, lög eru lög. Þegar yfir landamærin er komið er fólkið skráð en síðan flutt með bílum tíu kílómetra leið til Kirkines þar sem það fær inni í íþróttahúsi sem hefur verið breytt í eins konar gistiheimili. Veðráttan í Kirkenes er talsvert öðruvísi en Sýrlendingar eiga að venjast og sala á vetrar-og útivistarfatnaði hefur margfaldast að undanförnu.
Ferðakostnaðurinn
Danski blaðamaðurinn var, eins og áður sagði, undrandi á því hve auðvelt og fljótlegt það reyndist Sýrlendingunum að komast með þessum hætti til Noregs. Ekki varð hann minna undrandi þegar hann komst að því að kostnaðurinn við þennan ferðamáta var mun lægri en fólk borgar „flóttafólkssmyglurunum“ fyrir hið áhættusama ferðalag um Miðjarðarhafið, ferðalag sem endar ekki alltaf eins og til er stofnað.
Áhyggjur Norðmanna
Norsk yfirvöld fylgjast grannt með því sem gerist við landamæri Rússlands og Noregs. Þau telja nær öruggt að þeim Sýrlendingum sem notfæra sér þessa leið til að komast til Noregs, og hugsanlega annarra landa, muni fjölga á næstunni. Yfirmaður landamærastöðvarinnar við Storskog sagði í viðtali að það fámenna lið sem þar starfaði gæti ekki með nokkru móti annað þessari auknu umferð. Smábærinn Kirkenes, með sína fjögur þúsund íbúa ræður heldur ekki við allan þennan sístækkandi hóp og nú hafa norsk yfirvöld skipulagt flutning flóttafólks til annarra staða í landinu.
Glæpamenn notfæra sér aðstæðurnar
Ellen Katrine Hætta lögreglustjóri á Austur- Finnmörku sagði fyrir nokkrum dögum, í viðtali við norska sjónvarpsstöð, að því miður ætti það við varðandi flóttafólkið að þar væri misjafn sauður í mörgu fé. Nokkuð hefði borið á því að afbrotamenn, einkum Rússar, hefðu reynt að notfæra sér aðstæðurnar og komast til Noregs. „Þegar yfir landamærin kemur maður sem segist vera Sýrlendingur en talar reiprennandi rússnesku vakna hjá okkur vissar grunsemdir“ sagði lögreglustjórinn. Í allnokkrum tilfellum hefði komið í ljós að um væri að ræða rússneska afbrotamenn sem væru að reyna að flýja land. Þeim hefur verið snúið til baka.
Þúsundir hafa látið sig hverfa
Flóttamannastraumurinn undanfarið hefur komið stjórnvöldum víðast hvar á óvart. Sænsk lögregluyfirvöld segja að fjöldinn sé mun meiri en „kerfið“ ráði við og sömu sögu er að segja frá Danmörku. Meðan fólk bíður eftir að úrskurðað verði í málum þess varðandi landvistarleyfi láta margir sig hverfa og ef úrskurðurinn er svo á þann veg að synjað er um landvistarleyfi er umsækjandinn horfinn eins og jörðin hafi gleypt hann. Það sem af er þessu ári hefur sænska útlendingastofnunin óskað eftir að níu þúsund manns verði vísað úr landi. Af þeim hópi hefur lögreglan náð sambandi við tæpan þriðjung, hvar hinir sex þúsund og fjögur hundruð eru niðurkomnir hefur lögreglan ekki hugmynd um. Í Danmörku hefur nítján hundruð verið vísað úr landi á þessu ári, lögreglan veit ekki hvar tæplega þrettán hundruð manns úr þessum hópi eru niðurkomnir.