Bankarnir stunda umfangsmikinn rekstur sem er óskyldur skilgreindri bankastarfsemi í grunninn, á grundvelli undanþága frá Fjármálaeftirlitinu (FME). Frestir sem FME hefur veitt bönkunum tengjast flestir endurskipulagningarferli félaga og fyrirtækja sem bankarnir hafa eignast hlut í. Undanþágurnar, sem enn er verið að veita rúmlega sex árum eftir að bankarnir voru endurreistir á grunni föllnu bankanna þriggja, heimila bönkunum að eiga tímabundið eignarhluti í fyrirtækjum, með það fyrir augum að hámarka endurheimtur lána sem hinir föllnu bankar veittu í flestum tilvikum.
„Góður árangur“
Í samantekt FME á þessum málum, sem hefur verið birt á vef FME, kemur fram að bankar, sparisjóðir og lánafyrirtæki hafi náð „góðum árangri“ í að fækka eignarhlutum í fyrirtækjum með starfsemi sem fellur ekki undir almennar starfsheimildir þeirra og sem þeim er einungis heimilt að stunda tímabundið. Frá miðju ári 2011 hefur starfsemi af þessu tagi verið lokið í 185 málum, að því er segir í skýrslu FME.
FME veitir fresti
Í júní 2010 kom inn í lög ákvæði sem gerði það að verkum að fjármálafyrirtæki mættu ekki stundan óskyldan rekstur í tímabundinni starfsemi, t.d. með yfirtöku á eignarhlut í fyrirtæki, lengur en tólf mánuði. FME getur framlengt tímafrest í grundvelli umsóknar um slíkt, og hefur FME verið óspart á það að veita fresti sem þessa. Um það eru mörg dæmi, og má þar nefna eignarhald Arion banka á sjávarútvegsfyrirtækinu HB Granda, en Arion banki eignaðist um þriðjungs hlut í félaginu sem áður var í eigu Ólafs Ólafssonar, og átti hlutinn í á þriðja ár, þar til félagið var skráð á aðalmarkað Kauphallar Íslands. Bankinn á nú 6,16 prósent hlut í sjávarútvegsfyrirtækinu.
Miðað við stöðuna 1. mars síðastliðinn, eiga fjármálafyrirtæki hluti í 41 félagi í tímabundinni starfsemi. Félög sem fjármálafyrirtæki eiga minna en tíu prósent eignarhlut í eru ekki meðtalin í samantekt FME, en þau eru þónokkur. „Þá er vert að geta þess að mörg félög, sem eru að fullu í eigu fjármálafyrirtækja, eru aðeins eignarhald utanum minni eignarhluti í öðrum félögum, bæði innlendum sem og erlendum. Af umræddum fjölda félaga eru 21 félag í yfir fjörutíu prósent eignarhaldi fjármálafyrirtækis, í fimmtán félögum er eignarhaldið á bilinu tuttugu til fjörutíu prósent og í fimm félögum er eignarhaldið tíu til tuttugu prósent,“ segir í samantekt FME.
Viðkvæmt samkeppnismál
Umsvif endurreistu bankanna í rekstri sem er í grunninn óskyldur bankarekstri, og háður undanþágu frá FME, er viðkvæmt samkeppnismál, enda erfitt að keppa við fyrirtæki sem hafa djúpa vasa bankanna á bak við sig eða meiri slaka að hálfu bankanna en eðlilegt getur talist. Samkeppniseftirlitið hefur staðfest að fjölmargar kvartanir hafi borist eftirlitinu vegna þessa inngripa bankanna í samkeppnisrekstur sem er alls óskyldur bankastarfsemi, en reynt hefur verið að leysa úr þeirri stöðu með því að þrýsta á um að bankarnir hraði endurskipulagningu eins og kostur er, og selji eignarhluti sína.