Næstum helmingur, þeirra sem kusu Framsóknarflokkinn í síðustu þingkosningum, eða 47 prósent, kusu Miðflokkinn, sem er leiddur af fyrrverandi formanni Framsóknar, Sjálfstæðisflokkinn eða Vinstri græna fjórum árum áður. Þegar við bætist að 41 prósent kjósenda flokksins setti X við B í báðum kosningunum liggur fyrir að næstum níu af hverjum tíu kjósendum Framsóknar haustið 2021, þegar flokkurinn vann mikinn kosningasigur, kusu einhvern stjórnarflokkanna eða Miðflokkinn í þingkosningunum 2017.
Þetta kemur fram í greininni „Kjósendur eftir kreppu: Breytingar, flökt og stöðugleiki í Alþingiskosningunum 2021“ eftir Agnar Frey Helgason, dósent við Stjórnmálafræðideild Háskóla Íslands, Ólaf Þ. Harðarsonar, prófessor emeritus við sömu deild, Jón Gunnar Ólafsson, nýdoktor við deildina, Evu H. Önnudóttur, prófessor við stjórnmálafræðideild og Huldu Þórisdóttur, sem er dósent við sömu deild. Greinin birtist í tímaritinu Stjórnmál & stjórnsýsla í liðinni viku. Þar greina höfundar síðustu þingkosningar út frá nokkrum lykilvísum fengnum úr kjósendakönnun Íslensku kosningarannsóknarinnar (ÍSKOS).
Sigur Framsóknar á kostnað hinna stjórnarflokkanna
Alls 45 prósent kjósenda kusu annan flokk árið 2021 en þeir gerðu árið 2017. Þótt það sé lægra hlutfall en var í hinum óvenjulegu kosningum 2016 og 2017 þá er það samt sem áður hátt í íslensku sögulegu samhengi.
Það skilaði sér í því að ríkisstjórnin bætti við sig fylgi og þingmönnum í kosningunum í september 2021. Því fylgi var þó misskipt. Bæði Vinstri græn og Sjálfstæðisflokkur töpuðu fylgi og þingmönnum en Framsókn bætti verulega við sig.
Í greininni segir að það hafi hinn 105 ára gamli flokkur gert með því að ná til sín kjósendum frá hinum tveimur stjórnarflokkunum og klofningsflokknum Miðflokki. Alls kusu 19 prósent þeirra sem settu X við B í fyrra Miðflokkinn fjórum árum áður, 16 prósent kusu Sjálfstæðisflokkinn og tólf prósent kusu Vinstri græn. Einungis 41 prósent kjósenda Framsóknarflokksins kusu flokkinn líka 2017.
Hinir stjórnarflokkarnir byggðu í mun meira mæli á kjarnafylgi sínu. Alls 79 prósent kjósenda Sjálfstæðisflokksins í fyrra kusu flokkinn líka í kosningunum á undan. Hann náði í lítið hlutfall af kjósendum frá Framsókn og Miðflokki, eða sex prósent frá hvorum, flokki, en höfðaði ekki til fyrr kjósenda neinna annarra flokka sem neinu nam.
Vinstri græn nutu stuðnings 59 prósent þeirra sem kusu flokkinn 2017. Flokkur forsætisráðherra náði í 26 prósent kjósenda stjórnarandstöðuflokkanna Samfylkingar, Viðreisnar og Pírata en einungis ellefu prósent fyrri kjósenda hinna stjórnarflokkanna tveggja.
Sósíalistaflokkurinn hafði neikvæð áhrif á fylgi andstöðuflokka
Þrír stjórnarandstöðuflokkar bættu við sig fylgi í síðustu kosningum. Um helmingur þeirra sem kusu Viðreisn 2017 gerðu það aftur í fyrra, en flokknum gekk ágætlega að lokka fyrrum kjósendur Samfylkingar, Vinstri grænna og Pírata til sín. Alls 37 prósent þeirra sem kusu Viðreisn í september kusu þessa þrjá flokka fjórum árum áður. Einungis átta prósent kjósenda Viðreisnar í fyrra kusu Sjálfstæðisflokkinn, þann flokk sem stendur Viðreisn næst á hefðbundnum vinstri-hægri skala og sem fjölmargir forsvígismenn Viðreisnar tilheyrðu árum saman , árið 2017.
Flokki fólksins tókst að ná í ný atkvæði víða. Einungis 42 prósent kjósenda hans kusu flokkinn 2017 en 30 prósent þeirra kusu áður Vinstri græn, Samfylkingu eða Pírata. Þá kusu 17 prósent kjósenda flokks Ingu Sæland Miðflokkinn árið 2017 og tólf prósent Sjálfstæðisflokkinn.
Þriðji flokkurinn sem bætti við sig var að bjóða fram í fyrsta sinn, en það er Sósíalistaflokkur Íslands sem náði á endanum ekki nægjanlegum fjölda atkvæða til að ná inn á þing. Framboð hans hafði þó sýnilega neikvæð áhrif á gengi Vinstri grænna (þriðjungur kjósenda Sósíalistaflokksins kaus þann flokk 2017), Pírata (25 prósent), Flokk fólksins og Samfylkinguna (17 prósent hjá báðum flokkum).
Þeir stjórnarandstöðuflokkar sem töpuðu atkvæðum voru Samfylking, Píratar og auðvitað Miðflokkurinn, sem féll næstum því út af þingi. Samfylkingunni tókst að klóra nokkurn fjölda kjósenda af Vinstri grænum, en 22 prósent kjósenda flokksins kusu flokk forsætisráðherra 2017. Þá kaus tíund kjósenda Samfylkingarinnar Pírata fjórum árum áður. Uppistaðan í fylginu, 60 prósent, var þó fyrri kjósendur.
Meira flakk var á kjósendum Pírata. Um helmingur þeirra kaus líka flokkinn árið 2017, um 22 prósent kusu áður Vinstri græn og 15 prósent Samfylkinguna. Samkvæmt þessu komu 90 prósent atkvæða Pírata í síðustu kosningum frá fólki sem kaus þessa þrjá flokka fjórum árum áður.
Breytt pólitískt landslag á þessu kjörtímabili
Ef tekið er mið af skoðanakönnunum þá hefur hið pólitíska landslag breyst umtalsvert á þeim mánuðum sem liðnir eru af þessu kjörtímabili. Eftir að kórónuveirufaraldurinn, og viðbrögð við honum, viku úr efsta sætinu í íslenskum stjórnmálum hafa önnur og hugmyndafræðilega flóknari mál tekið yfir. Má þar nefna bankasölu, efnahagslegt rót með umtalsverðri verðbólgu og skörpum hækkunum á framfærslukostnaði heimila og samþykkt rammaáætlunar.
Ríkisstjórnin siglir ekki lengur lygnan sjó með umtalsverðum meirihlutastuðningi. Þvert á móti mældist stuðningur við hana í síðustu könnun Gallup einungis 44,3 prósent. Það er minnst stuðningur sem nokkru sinni hefur mælst við ríkisstjórn Vinstri grænna, Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks.
Sjálfstæðisflokkurinn fór í fyrsta sinn í sögu sinni undir 20 prósent fylgi í könnun Gallup í síðasta mánuði, þegar fylgið mældist 19,8 prósent. Fylgi hans í byrjun júni var á nánast sama stað og breytingar vel innan skekkjumarka, en 20,1 prósent sögðust þá styðja flokkinn. Hann hefur tapað 4,3 prósentustigum frá síðustu kosningum.
Tveir flokkar anda í hálsmál Sjálfstæðisflokks
Í enn nýlegri könnun, sem Prósent vann og Fréttablaðið birti um miðjan júní, mældist fylgi Sjálfstæðisflokksins einungis 18,5 prósent og fylgi Vinstri grænna níu prósent. Píratar mældust þar næst stærsti flokkurinn með 17,5 prósent og Framsókn mældist með 17,3 prósent. Samkvæmt því eru tveir flokkar mjög nálægt því að mælast stærri en Sjálfstæðisflokkurinn. Það er afar sjaldgæft að sá flokkur, sem hefur stýrt Íslandi í fleiri ár en nokkur annar, mælist ekki stærstur.
Það gerðist í nokkrum könnunum Gallup vorið 2013, þegar Framsókn undir forystu Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar naut mikils stuðnings, um nokkurra mánaða skeið á árunum 2015 til 2016 þegar Píratar fóru með himinskautunum í könnunum og mældust mest með 36,1 prósent fylgi og í eitt skipti í aðdraganda kosninganna 2017, þegar Vinstri græn mældust með 25,4 prósent fylgi. Allt síðasta kjörtímabil, og það sem af er þessu, hefur Sjálfstæðisflokkurinn hins vegar mælst stærstur.