Glenn Kim, sem er formaður framkvæmdahóps íslenskra stjórnvalda um losun fjármagnshafta, og aðrir erlendir ráðgjafar íslenskra stjórnvalda hafa undanfarið fundað nokkrum sinnum með helstu fulltrúum stærstu kröfuhafa slitabúa föllnu bankanna. Frá þessu var greint í DV í dag.
Samkvæmt heimildum Kjarnans er ekki um að ræða beina fundi með kröfuhöfunum heldur með helstu ráðgjöfum þeirra, meðal annars Barry Russell (lögmaður hjá Akin Gump) og Matt Hinds (frá ráðgjafafyrirtækinu Talbot Hughes&McKillop), sem starfað hafa fyrir stærstu kröfuhafa hérlendis árum saman. Um var að ræða upplýsingafundi, ekki samningafundi. Ráðgjafarnir voru þó ekki upplýstir að neinu leyti um áætlanir stjórnvalda um losun hafta, sem kynntar verða á næstu vikum og mun meðal annars innihalda útfærslu á svokölluðum stöðugleikaskatti sem mun hið minnsta leggjast á eignir slitabúa gömlu bankanna og snjóhengjuna svokölluðu.
Og, eins sérkennilega og það kann að hljóma, þá mega ráðgjafarnir ekki upplýsa atvinnurekendur sína, kröfuhafa föllnu bankanna, um það sem fram fór á viðkomandi fundum. Kröfur á föllnu bankanna ganga nefnilega kaupum og sölum á skipulegum markaði. Verð á þeim sveiflast til og frá og upplýsingar á borð við þær sem gætu komið fram á fundum með íslenska framkvæmdarhópnum gætu talist verðmyndandi.
Órói á kröfumarkaði
Undanfarin misseri hefur ekki verið mikil hreyfing á markaði með kröfur á íslensku bankanna. Beðið hefur verið eftir útspili íslenskra stjórnvalda um skref í átt að losun hafta. Heimildir Kjarnans herma hins vegar að órói hafi skapast á meðal eigenda sumra krafna eftir ræðu Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar forsætisráðherra á flokksþingi Framsóknarflokksins á föstudag þar sem í fyrsta sinn var minnst á stöðugleikaskatt.
Hann hafi síðan lægt eftir að Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, steig fram á þriðjudag og greindi frá því að umræddur skattur er í fullu samræmi við þær leiðir sem hann boðaði í greinargerð sinni til Alþingis þann 18. mars síðastliðinn.
Ræða sem vakti mikla athygli
Það vakti athygli víðar en á Íslandi þegar Sigmundur Davíð sagði í ræðu sinni fyrir viku að stöðugleikaskattur ætti að skila hundruðum milljarða króna. Margir túlkuðu þau ummæli á þann veg að forsætisráðherrann væri að boða mikið innflæði fjármags í ríkissjóð. Það er í andstöðu við það sem Lee Buccheit, ráðgjafi stjórnvalda, og Glenn Kim sögðu á fundi með samráðsnefnd stjórnmálaflokkanna í byrjun desember síðastliðnum, þegar þeir kynnt fyrir henni hugmyndir um útgönguskatt og löng skuldabréf fyrir eigendur snjóhengjunnar. Þar kom skýrt fram að markmið tillaganna væri ekki að afla tekna fyrir íslenska ríkið, heldur að afnema fjármagnshöft.
Már Guðmundsson seðlabankastjóri hefur talað á sömu nótum og það hefur Bjarni Benediktsson líka gert. Hann sagði við fjölmiðla í vikunni, þegar hann tjáði sig við þá í fyrsta sinn eftir ræðu Sigmundar, að efnahagslegum stöðugleika yrði ekki ógnað við losun hafta.
Mikilvæg yfirlýsing
Sigmundur sagði síðan í viðtali við Morgunblaðið á mánudag að áætlun um losun hafta snúist að öllu leyti um að verja efnahagslegan stöðugleika og gengi krónunnar. Fjármagn sem kæmi út úr áætluninni, sem felur meðal annars í sér álagningu svokallaðs stöðuleikaskatts sem hefur ekki verið útskýrður að fullu, yrði ekki hugsað til þess að ráðstafa í framkvæmdir eða verða hluti útgjalda ríkissjóðs.
Þessi yfirlýsing Sigmundar er talin mikilvæg. Nauðsynlegt sé að öll opinber ummæli þeirra sem komi að áætlun um losun hafta séu þannig að álagning stöðugleikaskatts snúist einvörðungu um að hægt verði að stíga skref við losun fjármagnshafta án þess að greiðslujöfnuði þjóðarbúsins verði ógnað. Ef aðrar ástæður eru gefnar fyrir álagningu skattsins, að hann sé til dæmis settur á til tekjuöflunar fyrir ríkissjóð, þá er það talið styrkja rök kröfuhafa fyrir því að í honum felist eignarupptaka.