Nýleg könnun Maskínu á fylgi stjórnmálaflokka á landsvísu leiddi í ljós litlar sveiflur á fylgi flokka á milli mánaða. Þó bættu Vinstri græn, Sjálfstæðisflokkur og Samfylking nokkuð við sig frá fyrri könnun, en Píratar döluðu.
Könnunin, sem framkvæmd var dagana 28. janúar til 16. febrúar, endurspeglar afstöðu alls 3.039 svarenda um allt land og niðurstöðurnar eru svo vigtaðar við mannfjöldatölur Hagstofunnar til þess að tryggja að úrtakið til að endurspegli þjóðina eins vel og hægt er.
Niðurstöðu könnunarinnar frá Maskínu fylgdi ítarlegt niðurbrot á fylgi við flokkanna eftir hefðbundnum bakgrunnsbreytum, eins og kyni, aldri, búsetu, menntunarstigi, heimilistekjum og hjúskaparstöðu.
Kjarninn rýndi ögn í þessar niðurstöður og þar með í það til hvaða hópa í samfélaginu flokkarnir eru líklegastir til að sækja fylgi sitt á þessari stundu.
Sjálfstæðisflokkurinn: Nágrannasveitarfélög Reykjavíkur - 27,3 prósent
Sjálfstæðisflokkurinn er stærsti flokkur landsins og mælist með 21,9 prósent fylgi í þessari nýjustu könnun. Í engum hópi mælist flokkurinn þó með meira fylgi en á meðal kjósenda í nágrannasveitarfélögum Reykjavíkurborgar, en þar tekur flokkurinn til sín 27,3 prósent fylgiskökunnar í könnun Maskínu.
Sjálfstæðisflokkurinn mælist svo einnig með 25,5 prósent fylgi hjá íbúum á Suðurlandi og Reykjanesi. Flokkurinn sækir fylgi sitt frekar til eldra fólks en þeirra sem yngri eru og frekar til karla en kvenna, en 24,9 prósent karla segjast að þeir myndu kjósa Sjálfstæðisflokkinn í dag en 19,2 prósent kvenna.
Hvað menntun varðar sækir flokkurinn fylgi sitt jafnt á hópa, en þó er fylgi hans á meðal háskólamenntaðra innan við 20 prósent, á meðan að það er 24,8 prósent hjá þeim sem hafa lokið framhaldsskóla eða iðnmenntun og 22,4 prósent hjá þeim sem eru með grunnskólapróf.
Tekjuháir eru líklegri til þess að kjósa Sjálfstæðisflokk en þeir sem hafa lægri tekjur. Skörp skil verða við 800 þúsund króna heimilistekjumarkið. Um 16 prósent í tekjuhópunum sem eru undir því marki segjast ætla að kjósa Sjálfstæðisflokkinn en rúm 20 prósent í tekjuhópunum þar fyrir ofan.
Framsókn: Norðurland - 28,6 prósent
Samkvæmt könnun Maskínu er Framsókn með 16,9 prósent fylgi á landsvísu. Í könnuninni mælast skörp skil á fylgi flokksins á milli landshluta, en sá hópur sem ljáir Framsóknarflokknum mestan stuðning þegar horft er á allar breytur eru Norðlendingar. Þar mælist flokkurinn 28,6 prósent fylgi, sem reyndar er einungis einu prósentustigi meira en á Austurlandi. Fylgið í Reykjavík og í Kraganum mælist á móti um 12-13 prósent.
Flokkurinn höfðar síðan nokkuð jafnt til aldurshópa, þó síst til þeirra yngstu og elstu á kjörskránni, en í þeim hópum er fylgið um 15 prósent, en um eða yfir 18 prósentum í aldurshópum þar á milli. Framsókn höfðar fremur til karla en kvenna, 18,2 prósent karla og 15,6 prósent kvenna segja að þau myndu kjósa flokkinn.
Framsókn höfðar svo einnig nokkuð jafnt til tekjuhópa, að því undanskildu að þeir sem segjast með heimilistekjur undir 400 þúsund krónum eru ólíklegri en aðrir til að kjósa flokkinn. Hjá þeim hópi er flokkurinn með 13,2 prósent fylgi í könnun Maskínu, en á bilinu 17,6-19,4 prósent í öðrum tekjuhópum.
Eini hópurinn í samfélaginu þar sem Framsókn mælist með minna en tíu prósent fylgi er hjá þeim sem eru fráskildir, en þar er flokkurinn með 9,3 prósent fylgi.
Samfylkingin: 18 til 29 ára – 19,2 prósent
Samfylkingin er þriðji stærsti flokkur landsins samkvæmt nýjustu könnun Maskínu og er með 13,4 prósenta fylgi á landsvísu. Flokkurinn virðist ná best til ungra kjósenda, Reykvíkinga og þeirra sem eru með framhaldsmenntun úr háskóla.
Fylgi flokksins rís hæst ef horft er til aldurshópsins 18-29 ára, en þar mælist það 19,2 prósent, sem er rúmum fimm prósentustigum hærra en í nokkrum öðrum aldurshópi. 14,1 prósent þeirra sem eru yfir sextugu segjast ætla að kjósa flokkinn, en á bilinu 11,2-12,3 prósent í aldurshópunum þarna á milli.
Skörp skil eru á stuðningi við flokkinn þegar horft er til menntunar. Einungis 7,4 prósent þeirra sem hafa lokið grunnskólaprófi segjast ætla að kjósa Samfylkinguna og 10,6 prósent þeirra sem hafa lokið framhaldsskólaprófi eða iðnnámi. 15,3 prósent þeirra sem hafa lokið grunnámi í háskóla styðja flokkinn en svo er flokkurinn með 18,5 prósent fylgi á meðal þeirra sem lokið hafa framhaldsnámi á háskólastigi.
Er horft er til heimilistekna skorar Samfylkingin nokkuð jafnt í öllum hópum og einnig þegar horft er til hjúskaparstöðu. Flokkurinn höfðar ögn meira til kvenna en karla.
Flokkurinn er sá næst stærsti á meðal Reykvíkinga á eftir Sjálfstæðisflokki, samkvæmt könnun Maskínu, en vert er að árétta að hér var spurt um kosningaætlan í alþingiskosningum, en ekki til borgarstjórnar. Þar mældist Samfylkingin stærst í Reykjavík, í könnun frá sama fyrirtæki sem birt var fyrr í mánuðinum.
Átján prósent Reykvíkinga segja að þeir myndu kjósa Samfylkinguna til þings í þessari könnun, en utan borgarinnar mælist flokkurinn með á bilinu 8,8 til 13,7 prósent sneið af fylginu, minnst á Suðurlandi og Reykjanesi.
Vinstri græn: Háskólagengnir með framhaldsmenntun – 17,8 prósent
Vinstri græn mældust í þessari könnun Maskínu yfir kjörfylgi í fyrsta sinn frá því að ný ríkisstjórn var kynnt til sögunnar í lok nóvembermánaðar. Fylgið á landsvísu stendur í 12,9 prósentum samkvæmt könnuninni.
Sá einstaki hópur sem líklegastur er til þess að kjósa VG eru þeir sem segjast vera með framhaldsmenntun úr háskóla, en í þeim hópi sögðust 17,8 prósent ætla sér að kjósa flokk forsætisráðherra ef kosið væri í dag. Fylgið fer svo lækkandi niður menntunarstigann, 13,9 prósent þeirra sem hafa lokið grunnámi í háskóla segjast ætla að kjósa flokkinn en einungis rúm 9 eða tæp 10 prósent þeirra sem eru með grunnskólapróf eða framhaldsskólapróf eða iðnmenntun.
Ef horft er til tekjuhópa kemur í ljós að fylgi VG er mest hjá þeim sem hafa mest á milli handanna, en hjá þeim sem eru með heimilistekjur yfir 1,2 milljónum á mánuði mælist fylgi við flokkinn 17,2 prósent. Fylgið fer svo lækkandi eftir því sem heimilistekjurnar eru lægri og þegar komið er undir 549 þúsund króna heimilistekjur er fylgi við VG innan við 9 prósent.
Áhugaverðasta breytan í fylgisdreifingu Vinstri grænna er þó ef til vill hversu mjög flokkurinn höfðar til kvenna umfram karla. 17,4 prósent kvenna ljá VG fylgi sitt samkvæmt könnun Maskínu, en einungis 7,9 prósent karla.
Píratar: 30 til 39 ára – 17,5 prósent
Píratar dala eins og áður sagði nokkuð á milli mánaða í þessari könnun Maskínu og mælast fimmti stærsti flokkur landsins með 10,3 prósent fylgi á landsvísu. Flokkurinn sækir mest fylgi sitt til ungs fólks.
Stærstir mælast Píratar ef einungis er horft til aldurshópsins 30 til 39 ára, en þar er flokkurinn með 17,5 prósent fylgi, ögn meira en í aldurshópnum þar fyrir neðan þar sem fylgið mældist 15,6 prósent. Þegar farið er upp á við í aldri minnkar fylgið við Pírata og hjá þeim sem eru yfir sextugu er fylgið einungis 6,2 prósent.
Svipað hlutfall karla og kvenna kýs flokkinn og þegar horft er til menntunar sjást ekki stórkostlega skörp skil eins og hjá Samfylgunni og Vinstri grænum, þó háskólamenntaðir séu líklegri til þess að kjósa flokkinn en þeir sem hafa styttri skólagöngu eða iðnnám að baki.
Fimmtán prósent þeirra sem eru einhleyp segja að þau myndu kjósa Pírata, en innan við tíu prósent þeirra sem eru gift eða í sambúð. Ef horft er til heimilistekna má sjá að Píratar höfða síst til þeirra sem hæstar hafa tekjurnar, en einungis 6,7 prósent þeirra með heimilistekjur myndu kjósa flokkinn. Það er næstum helmingi lægra fylgi en mælist við Pírata hjá þeim sem tekjurnar hafa minnstar.
Viðreisn: Háskólagengnir með framhaldsmenntun – 14,1 prósent
Viðreisn mælist yfir kjörfylgi sínu í þessari nýlegu könnun Maskínu, og með 9,7 prósent fylgi á landsvísu. Fylgi Viðreisnar dreifist nær jafnt á milli kynja og er nokkuð stöðugt eftir aldri einnig, en þegar horft er til búsetu, menntunarstigs og tekna eru skilin skarpari.
Mest fylgi við Viðreisn mælist í hópi þeirra sem eru með framhaldsmenntun á háskólastigi, eða 14,1 prósent. Það fer svo stiglækkandi eftir menntunarstigi og hjá þeim sem eru með grunnskólapróf er fylgið við Viðreisn 4,9 prósent.
Viðreisn sækir fylgi sitt svo helst til þeirra sem hæstar tekjur hafa. Hjá þeim sem segjast vera með heimilistekjur yfir 1,2 milljónum mælist Viðreisn með 13,4 prósent fylgi og 9,9 prósent sem segjast vera með á bilinu milljón til 1,19 milljónir í tekjur segjast ætla sér að kjósa Viðreisn.
Í tekjuhópunum fyrir neðan milljónina er fylgi við Viðreisn á bilinu 7,1-8,3 prósent.
Þegar búsetan er skoðuð sést að einungis í nágrannasveitarfélögum Reykjavíkur nær fylgi við Viðreisn tveggja stafa tölu, en þar er það 13,4 prósent. Fylgið er svo 9,8 prósent á meðal Reykvíkinga og 9,5 prósent á Suðurlandi og Reykjanesi en í hinum landsbyggðunum finnast harla fáir kjósendur Viðreisnar, samkvæmt könnun Maskínu. Fylgið á Austurlandi mælist 2,1 prósent – og byggir það á þremur svörum.
Flokkur fólksins: Heimilistekjur undir 400 þúsund krónum – 18 prósent
Flokkur fólksins mældist með 7,6 prósent fylgi í könnun Maskínu. Hjá ákveðnum hópum samfélagsins mælist flokkurinn þó mun með mun meira fylgi – og jafnvel meira fylgi en nokkur annar flokkur.
Það á við um lægsta tekjuhópinn, eða þá sem segjast með heimilistekjur undir 400 þúsund krónum. Hjá þeim hópi er fylgið við Flokk fólksins 18 prósent, meira en hjá nokkrum öðrum flokki. Í tekjuhópnum þar fyrir ofan, sem tekur til heimilistekna að 549 þúsund krónum, er fylgi við Flokk fólksins svo 15,7 prósent og einungis meira hjá Framsókn og Sjálfstæðisflokki, en það fer svo hratt dvínandi eftir því sem heimilistekjur aukast. Hjá tekjuhæsta hópnum, þeim sem eru með yfir 1,2 milljóna heimilistekjur, mælist fylgi við Flokk fólksins 3,1 prósent.
Flokkur fólksins er líka með mikið fylgi í hópi þeirra sem hafa lokið grunnskólaprófi, eða 17,6 prósent. Fylgi flokksins er líka nokkuð í hópi þeirra sem lokið hafa framhaldsskóla eða iðnmenntun, en mun minna í hópi háskólamanna. Samkvæmt könnun Maskínu myndi einungis 1,6 prósent þeirra sem lokið hafa framhaldsnámi á háskólastigi kjósa flokkinn.
Fylgi flokks fólksins á meðal karla og kvenna er afar áþekkt. Þegar horft er til aldurs sést að flokkurinn sækir fremur fylgi sitt til þeirra sem eldri eru, en á meðal þeirra sem eru yfir sextugu mælist Flokkurinn með 11,8 prósenta fylgi. Það lækkar svo í næstu aldurshópum fyrir neðan og mælist að endingu 4,3 prósent hjá fólki á aldrinum 18-29 ára.
Samkvæmt könnun Maskínu er sterkasta vígi Flokks fólksins á Suðurlandi og Reykjanesi, en 12,6 prósent svarenda sem sögðust þaðan hafa í hyggju að kjósa Flokk fólksins. Á meðal svarenda á Vesturlandi og Vestfjörðum mælist fylgi flokksins 9,6 prósent, en á öðrum landsvæðum er það á bilinu 5,1-7,4 prósent.
Miðflokkur og Sósíalistaflokkur
Minnstu tveir flokkarnir samkvæmt könnun Maskínu eru Miðflokkurinn og Sósíalistaflokkurinn. Öfugt við alla hina flokkana er hvorugur þessara flokka með yfir tíu prósenta fylgi innan einhverra ákveðinna hópa, samkvæmt könnun Maskínu. Það er því erfitt að tala um þá sem sérstaklega sterka á meðal einhverra ákveðinna hópa kjósenda.
Það eru þó nokkrir hlutir sem hægt er að týna til sem gefa vísbendingar um hvert flokkarnir sækja fylgi sitt, en fylgið er hjá báðum flokkum innan við fjögur prósent á landsvísu, Miðflokkur mælist með 3,9 prósent og Sósíalistaflokkur 3,5 prósent.
Karlar virðast líklegri til að kjósa Miðflokkinn en konur, en flokkurinn nýtur 5,4 prósenta stuðnings meðal karla en einungis 2,5 prósenta fylgis meðal kvenna. Þá er Miðflokkurinn samkvæmt könnuninni sterkastur á Austurlandi, með 7,8 prósenta fylgi, en vert er að taka fram að þær fylgistölur byggja einungis á tíu svörum Austlendinga. Flokkurinn sækir síður fylgi sitt til höfuðborgarsvæðisins. Miðflokkurinn nýtur svo meiri stuðnings þeirra sem eru yfir sextugu en annarra aldurshópa.
Sósíalistaflokkurinn mælist með mest fylgi í hópi þeirra tekjulægstu, en 7 prósent þeirra sem sögðust vera með undir 400 þúsund króna heimilistekjur sögðust ætla að kjósa Sósíalista, en einungis 1,8 prósent þeirra sem eru með yfir 1,2 milljónir í heimilistekjur. Þá mælist stuðningur við Sósíalista meiri hjá þeim sem eru lítið menntaðir en hjá þeim sem eru langskólagengnir.
Flokkurinn sækir nokkuð jafnt á eftir aldri og kyni, en þegar búseta er skoðuð kemur upp úr krafsinu að fylgi mælist mest austanlands og norðanlands. Þar byggja niðurstöður Maskínu þó á fremur fáum svörum.
Lestu meira
-
11. janúar 2023Er íslenska velferðarkerfið ekki lengur griðarstaður þeirra sem minnst hafa?
-
10. janúar 2023Útvarp Saga telur fjölmiðlastyrki skapa tortryggni og bjóða upp á frændhygli
-
10. janúar 2023Fánabann og refsiaðgerðir í Palestínu í kjölfar niðurstöðu Sameinuðu þjóðanna
-
8. janúar 2023Lífeyrissjóðir hafa ekki lánað meira verðtryggt á einum mánuði frá því fyrir faraldur
-
8. janúar 2023Sögulegur en dýrkeyptur kosningasigur þingforsetans
-
7. janúar 2023BDSM-félagið fagnar því að loksins eigi að afnema klámbann
-
7. janúar 2023Litlu fjölmiðlarnir með eldspýturnar
-
7. janúar 2023Með hverjum stendur þú?
-
6. janúar 2023Tíu stærstu útgerðirnar halda á 56 prósent af öllum kvóta
-
6. janúar 2023Guðrún Hafsteinsdóttir segist taka við dómsmálaráðuneytinu í mars