EPA

Fylgið við flokkana: Hverjir sækja hvert?

Maskína birti á dögunum nýja skoðanakönnun um fylgi flokka á landsvísu til Alþingis. Kjarninn rýndi í bakgrunnsbreytur könnunarinnar og tók saman hvert stjórnmálaflokkarnir sem keppast um stuðning almennings sækja fylgi sitt um þessar mundir. Flokkur fólksins mælist með mest fylgi allra flokka, á meðal þeirra sem segjast hafa heimilistekjur undir 400 þúsund krónum.

Nýleg könnun Mask­ínu á fylgi stjórn­mála­flokka á lands­vísu leiddi í ljós litlar sveiflur á fylgi flokka á milli mán­aða. Þó bættu Vinstri græn, Sjálf­stæð­is­flokkur og Sam­fylk­ing nokkuð við sig frá fyrri könn­un, en Píratar döl­uðu.

Könn­un­in, sem fram­kvæmd var dag­ana 28. jan­úar til 16. febr­ú­ar, end­ur­speglar afstöðu alls 3.039 svar­enda um allt land og nið­ur­stöð­urnar eru svo vigtaðar við mann­fjölda­tölur Hag­stof­unnar til þess að tryggja að úrtakið til að end­ur­spegli þjóð­ina eins vel og hægt er.

Nið­ur­stöðu könn­un­ar­innar frá Mask­ínu fylgdi ítar­legt nið­ur­brot á fylgi við flokk­anna eftir hefð­bundnum bak­grunns­breyt­um, eins og kyni, aldri, búsetu, mennt­un­ar­stigi, heim­il­is­tekjum og hjú­skap­ar­stöðu.

Kjarn­inn rýndi ögn í þessar nið­ur­stöður og þar með í það til hvaða hópa í sam­fé­lag­inu flokk­arnir eru lík­leg­astir til að sækja fylgi sitt á þess­ari stundu.

Sjálf­stæð­is­flokk­ur­inn: Nágranna­sveit­ar­fé­lög Reykja­víkur - 27,3 pró­sent

Sjálf­stæð­is­flokk­ur­inn er stærsti flokkur lands­ins og mælist með 21,9 pró­sent fylgi í þess­ari nýj­ustu könn­un. Í engum hópi mælist flokk­ur­inn þó með meira fylgi en á meðal kjós­enda í nágranna­sveit­ar­fé­lögum Reykja­vík­ur­borg­ar, en þar tekur flokk­ur­inn til sín 27,3 pró­sent fylgiskök­unnar í könnun Mask­ínu.

Bjarni Benediktsson formaður Sjálfstæðisflokks. Mynd: Bára Huld Beck.

Sjálf­stæð­is­flokk­ur­inn mælist svo einnig með 25,5 pró­sent fylgi hjá íbúum á Suð­ur­landi og Reykja­nesi. Flokk­ur­inn sækir fylgi sitt frekar til eldra fólks en þeirra sem yngri eru og frekar til karla en kvenna, en 24,9 pró­sent karla segj­ast að þeir myndu kjósa Sjálf­stæð­is­flokk­inn í dag en 19,2 pró­sent kvenna.

Hvað menntun varðar sækir flokk­ur­inn fylgi sitt jafnt á hópa, en þó er fylgi hans á meðal háskóla­mennt­aðra innan við 20 pró­sent, á meðan að það er 24,8 pró­sent hjá þeim sem hafa lokið fram­halds­skóla eða iðn­menntun og 22,4 pró­sent hjá þeim sem eru með grunn­skóla­próf.

Tekju­háir eru lík­legri til þess að kjósa Sjálf­stæð­is­flokk en þeir sem hafa lægri tekj­ur. Skörp skil verða við 800 þús­und króna heim­il­is­tekju­mark­ið. Um 16 pró­sent í tekju­hóp­unum sem eru undir því marki segj­ast ætla að kjósa Sjálf­stæð­is­flokk­inn en rúm 20 pró­sent í tekju­hóp­unum þar fyrir ofan.

Fram­sókn: Norð­ur­land - 28,6 pró­sent

Sigurður Ingi Jóhannsson formaður Framsóknarflokksins. Mynd: Bára Huld Beck.

Sam­kvæmt könnun Mask­ínu er Fram­sókn með 16,9 pró­sent fylgi á lands­vísu. Í könn­un­inni mæl­ast skörp skil á fylgi flokks­ins á milli lands­hluta, en sá hópur sem ljáir Fram­sókn­ar­flokknum mestan stuðn­ing þegar horft er á allar breytur eru Norð­lend­ing­ar. Þar mælist flokk­ur­inn 28,6 pró­sent fylgi, sem reyndar er ein­ungis einu pró­sentu­stigi meira en á Aust­ur­landi. Fylgið í Reykja­vík og í Krag­anum mælist á móti um 12-13 pró­sent.

Flokk­ur­inn höfðar síðan nokkuð jafnt til ald­urs­hópa, þó síst til þeirra yngstu og elstu á kjör­skránni, en í þeim hópum er fylgið um 15 pró­sent, en um eða yfir 18 pró­sentum í ald­urs­hópum þar á milli. Fram­sókn höfðar fremur til karla en kvenna, 18,2 pró­sent karla og 15,6 pró­sent kvenna segja að þau myndu kjósa flokk­inn.

Fram­sókn höfðar svo einnig nokkuð jafnt til tekju­hópa, að því und­an­skildu að þeir sem segj­ast með heim­il­is­tekjur undir 400 þús­und krónum eru ólík­legri en aðrir til að kjósa flokk­inn. Hjá þeim hópi er flokk­ur­inn með 13,2 pró­sent fylgi í könnun Mask­ínu, en á bil­inu 17,6-19,4 pró­sent í öðrum tekju­hóp­um.

Eini hóp­ur­inn í sam­fé­lag­inu þar sem Fram­sókn mælist með minna en tíu pró­sent fylgi er hjá þeim sem eru frá­skild­ir, en þar er flokk­ur­inn með 9,3 pró­sent fylgi.

Sam­fylk­ing­in: 18 til 29 ára – 19,2 pró­sent

Sam­fylk­ingin er þriðji stærsti flokkur lands­ins sam­kvæmt nýj­ustu könnun Mask­ínu og er með 13,4 pró­senta fylgi á lands­vísu. Flokk­ur­inn virð­ist ná best til ungra kjós­enda, Reyk­vík­inga og þeirra sem eru með fram­halds­menntun úr háskóla.

Logi Einarsson formaður Samfylkingarinnar. Mynd: Bára Huld Beck.

Fylgi flokks­ins rís hæst ef horft er til ald­urs­hóps­ins 18-29 ára, en þar mælist það 19,2 pró­sent, sem er rúmum fimm pró­sentu­stigum hærra en í nokkrum öðrum ald­urs­hópi. 14,1 pró­sent þeirra sem eru yfir sex­tugu segj­ast ætla að kjósa flokk­inn, en á bil­inu 11,2-12,3 pró­sent í ald­urs­hóp­unum þarna á milli.

Skörp skil eru á stuðn­ingi við flokk­inn þegar horft er til mennt­un­ar. Ein­ungis 7,4 pró­sent þeirra sem hafa lokið grunn­skóla­prófi segj­ast ætla að kjósa Sam­fylk­ing­una og 10,6 pró­sent þeirra sem hafa lokið fram­halds­skóla­prófi eða iðn­námi. 15,3 pró­sent þeirra sem hafa lokið grun­námi í háskóla styðja flokk­inn en svo er flokk­ur­inn með 18,5 pró­sent fylgi á meðal þeirra sem lokið hafa fram­halds­námi á háskóla­stigi.

Er horft er til heim­il­is­tekna skorar Sam­fylk­ingin nokkuð jafnt í öllum hópum og einnig þegar horft er til hjú­skap­ar­stöðu. Flokk­ur­inn höfðar ögn meira til kvenna en karla.

Flokk­ur­inn er sá næst stærsti á meðal Reyk­vík­inga á eftir Sjálf­stæð­is­flokki, sam­kvæmt könnun Mask­ínu, en vert er að árétta að hér var spurt um kosn­inga­ætlan í alþing­is­kosn­ing­um, en ekki til borg­ar­stjórn­ar. Þar mæld­ist Sam­fylk­ingin stærst í Reykja­vík, í könnun frá sama fyr­ir­tæki sem birt var fyrr í mán­uð­in­um.

Átján pró­sent Reyk­vík­inga segja að þeir myndu kjósa Sam­fylk­ing­una til þings í þess­ari könn­un, en utan borg­ar­innar mælist flokk­ur­inn með á bil­inu 8,8 til 13,7 pró­sent sneið af fylg­inu, minnst á Suð­ur­landi og Reykja­nesi.

Vinstri græn: Háskóla­gengnir með fram­halds­menntun – 17,8 pró­sent

Vinstri græn mæld­ust í þess­ari könnun Mask­ínu yfir kjör­fylgi í fyrsta sinn frá því að ný rík­is­stjórn var kynnt til sög­unnar í lok nóv­em­ber­mán­að­ar. Fylgið á lands­vísu stendur í 12,9 pró­sentum sam­kvæmt könn­un­inni.

Katrín Jakobsdóttir formaður Vinstri grænna. Mynd: Bára Huld Beck.

Sá ein­staki hópur sem lík­leg­astur er til þess að kjósa VG eru þeir sem segj­ast vera með fram­halds­menntun úr háskóla, en í þeim hópi sögð­ust 17,8 pró­sent ætla sér að kjósa flokk for­sæt­is­ráð­herra ef kosið væri í dag. Fylgið fer svo lækk­andi niður mennt­un­ar­stig­ann, 13,9 pró­sent þeirra sem hafa lokið grun­námi í háskóla segj­ast ætla að kjósa flokk­inn en ein­ungis rúm 9 eða tæp 10 pró­sent þeirra sem eru með grunn­skóla­próf eða fram­halds­skóla­próf eða iðn­mennt­un.

Ef horft er til tekju­hópa kemur í ljós að fylgi VG er mest hjá þeim sem hafa mest á milli hand­anna, en hjá þeim sem eru með heim­il­is­tekjur yfir 1,2 millj­ónum á mán­uði mælist fylgi við flokk­inn 17,2 pró­sent. Fylgið fer svo lækk­andi eftir því sem heim­il­is­tekj­urnar eru lægri og þegar komið er undir 549 þús­und króna heim­il­is­tekjur er fylgi við VG innan við 9 pró­sent.

Áhuga­verð­asta breytan í fylg­is­dreif­ingu Vinstri grænna er þó ef til vill hversu mjög flokk­ur­inn höfðar til kvenna umfram karla. 17,4 pró­sent kvenna ljá VG fylgi sitt sam­kvæmt könnun Mask­ínu, en ein­ungis 7,9 pró­sent karla.

Pírat­ar: 30 til 39 ára – 17,5 pró­sent

Píratar dala eins og áður sagði nokkuð á milli mán­aða í þess­ari könnun Mask­ínu og mæl­ast fimmti stærsti flokkur lands­ins með 10,3 pró­sent fylgi á lands­vísu. Flokk­ur­inn sækir mest fylgi sitt til ungs fólks.

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir þingmaður Pírata. Mynd: Bára Huld Beck.

Stærstir mæl­ast Píratar ef ein­ungis er horft til ald­urs­hóps­ins 30 til 39 ára, en þar er flokk­ur­inn með 17,5 pró­sent fylgi, ögn meira en í ald­urs­hópnum þar fyrir neðan þar sem fylgið mæld­ist 15,6 pró­sent. Þegar farið er upp á við í aldri minnkar fylgið við Pírata og hjá þeim sem eru yfir sex­tugu er fylgið ein­ungis 6,2 pró­sent.

Svipað hlut­fall karla og kvenna kýs flokk­inn og þegar horft er til mennt­unar sjást ekki stór­kost­lega skörp skil eins og hjá Sam­fylg­unni og Vinstri græn­um, þó háskóla­mennt­aðir séu lík­legri til þess að kjósa flokk­inn en þeir sem hafa styttri skóla­göngu eða iðn­nám að baki.

Fimmtán pró­sent þeirra sem eru ein­hleyp segja að þau myndu kjósa Pírata, en innan við tíu pró­sent þeirra sem eru gift eða í sam­búð. Ef horft er til heim­il­is­tekna má sjá að Píratar höfða síst til þeirra sem hæstar hafa tekj­urn­ar, en ein­ungis 6,7 pró­sent þeirra með heim­il­is­tekjur myndu kjósa flokk­inn. Það er næstum helm­ingi lægra fylgi en mælist við Pírata hjá þeim sem tekj­urnar hafa minnst­ar.

Við­reisn: Háskóla­gengnir með fram­halds­menntun – 14,1 pró­sent

Við­reisn mælist yfir kjör­fylgi sínu í þess­ari nýlegu könnun Mask­ínu, og með 9,7 pró­sent fylgi á lands­vísu. Fylgi Við­reisnar dreif­ist nær jafnt á milli kynja og er nokkuð stöðugt eftir aldri einnig, en þegar horft er til búsetu, mennt­un­ar­stigs og tekna eru skilin skarp­ari.

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir formaður Viðreisnar. Mynd: Bára Huld Beck.

Mest fylgi við Við­reisn mælist í hópi þeirra sem eru með fram­halds­menntun á háskóla­stigi, eða 14,1 pró­sent. Það fer svo stig­lækk­andi eftir mennt­un­ar­stigi og hjá þeim sem eru með grunn­skóla­próf er fylgið við Við­reisn 4,9 pró­sent.

Við­reisn sækir fylgi sitt svo helst til þeirra sem hæstar tekjur hafa. Hjá þeim sem segj­ast vera með heim­il­is­tekjur yfir 1,2 millj­ónum mælist Við­reisn með 13,4 pró­sent fylgi og 9,9 pró­sent sem segj­ast vera með á bil­inu milljón til 1,19 millj­ónir í tekjur segj­ast ætla sér að kjósa Við­reisn.

Í tekju­hóp­unum fyrir neðan millj­ón­ina er fylgi við Við­reisn á bil­inu 7,1-8,3 pró­sent.

Þegar búsetan er skoðuð sést að ein­ungis í nágranna­sveit­ar­fé­lögum Reykja­víkur nær fylgi við Við­reisn tveggja stafa tölu, en þar er það 13,4 pró­sent. Fylgið er svo 9,8 pró­sent á meðal Reyk­vík­inga og 9,5 pró­sent á Suð­ur­landi og Reykja­nesi en í hinum lands­byggð­unum finn­ast harla fáir kjós­endur Við­reisn­ar, sam­kvæmt könnun Mask­ínu. Fylgið á Aust­ur­landi mælist 2,1 pró­sent – og byggir það á þremur svör­um.

Flokkur fólks­ins: Heim­il­is­tekjur undir 400 þús­und krónum – 18 pró­sent

Flokkur fólks­ins mæld­ist með 7,6 pró­sent fylgi í könnun Mask­ínu. Hjá ákveðnum hópum sam­fé­lags­ins mælist flokk­ur­inn þó mun með mun meira fylgi – og jafn­vel meira fylgi en nokkur annar flokk­ur.

Inga Sæland formaður Flokks fólksins. Mynd: Bára Huld Beck.

Það á við um lægsta tekju­hóp­inn, eða þá sem segj­ast með heim­il­is­tekjur undir 400 þús­und krón­um. Hjá þeim hópi er fylgið við Flokk fólks­ins 18 pró­sent, meira en hjá nokkrum öðrum flokki. Í tekju­hópnum þar fyrir ofan, sem tekur til heim­il­is­tekna að 549 þús­und krón­um, er fylgi við Flokk fólks­ins svo 15,7 pró­sent og ein­ungis meira hjá Fram­sókn og Sjálf­stæð­is­flokki, en það fer svo hratt dvín­andi eftir því sem heim­il­is­tekjur aukast. Hjá tekju­hæsta hópn­um, þeim sem eru með yfir 1,2 millj­óna heim­il­is­tekj­ur, mælist fylgi við Flokk fólks­ins 3,1 pró­sent.

Flokkur fólks­ins er líka með mikið fylgi í hópi þeirra sem hafa lokið grunn­skóla­prófi, eða 17,6 pró­sent. Fylgi flokks­ins er líka nokkuð í hópi þeirra sem lokið hafa fram­halds­skóla eða iðn­mennt­un, en mun minna í hópi háskóla­manna. Sam­kvæmt könnun Mask­ínu myndi ein­ungis 1,6 pró­sent þeirra sem lokið hafa fram­halds­námi á háskóla­stigi kjósa flokk­inn.

Fylgi flokks fólks­ins á meðal karla og kvenna er afar áþekkt. Þegar horft er til ald­urs sést að flokk­ur­inn sækir fremur fylgi sitt til þeirra sem eldri eru, en á meðal þeirra sem eru yfir sex­tugu mælist Flokk­ur­inn með 11,8 pró­senta fylgi. Það lækkar svo í næstu ald­urs­hópum fyrir neðan og mælist að end­ingu 4,3 pró­sent hjá fólki á aldr­inum 18-29 ára.

Sam­kvæmt könnun Mask­ínu er sterkasta vígi Flokks fólks­ins á Suð­ur­landi og Reykja­nesi, en 12,6 pró­sent svar­enda sem sögð­ust þaðan hafa í hyggju að kjósa Flokk fólks­ins. Á meðal svar­enda á Vest­ur­landi og Vest­fjörðum mælist fylgi flokks­ins 9,6 pró­sent, en á öðrum land­svæðum er það á bil­inu 5,1-7,4 pró­sent.

Mið­flokkur og Sós­í­alista­flokkur

Minnstu tveir flokk­arnir sam­kvæmt könnun Mask­ínu eru Mið­flokk­ur­inn og Sós­í­alista­flokk­ur­inn. Öfugt við alla hina flokk­ana er hvor­ugur þess­ara flokka með yfir tíu pró­senta fylgi innan ein­hverra ákveð­inna hópa, sam­kvæmt könnun Mask­ínu. Það er því erfitt að tala um þá sem sér­stak­lega sterka á meðal ein­hverra ákveð­inna hópa kjós­enda.

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson formaður Miðflokksins. Mynd: Bára Huld Beck.

Það eru þó nokkrir hlutir sem hægt er að týna til sem gefa vís­bend­ingar um hvert flokk­arnir sækja fylgi sitt, en fylgið er hjá báðum flokkum innan við fjögur pró­sent á lands­vísu, Mið­flokkur mælist með 3,9 pró­sent og Sós­í­alista­flokkur 3,5 pró­sent.

Karlar virð­ast lík­legri til að kjósa Mið­flokk­inn en kon­ur, en flokk­ur­inn nýtur 5,4 pró­senta stuðn­ings meðal karla en ein­ungis 2,5 pró­senta fylgis meðal kvenna. Þá er Mið­flokk­ur­inn sam­kvæmt könn­un­inni sterkastur á Aust­ur­landi, með 7,8 pró­senta fylgi, en vert er að taka fram að þær fylgis­tölur byggja ein­ungis á tíu svörum Aust­lend­inga. Flokk­ur­inn sækir síður fylgi sitt til höf­uð­borg­ar­svæð­is­ins. Mið­flokk­ur­inn nýtur svo meiri stuðn­ings þeirra sem eru yfir sex­tugu en ann­arra ald­urs­hópa.

Sós­í­alista­flokk­ur­inn mælist með mest fylgi í hópi þeirra tekju­lægstu, en 7 pró­sent þeirra sem sögð­ust vera með undir 400 þús­und króna heim­il­is­tekjur sögð­ust ætla að kjósa Sós­í­alista, en ein­ungis 1,8 pró­sent þeirra sem eru með yfir 1,2 millj­ónir í heim­il­is­tekj­ur. Þá mælist stuðn­ingur við Sós­í­alista meiri hjá þeim sem eru lítið mennt­aðir en hjá þeim sem eru lang­skóla­gengn­ir.

Flokk­ur­inn sækir nokkuð jafnt á eftir aldri og kyni, en þegar búseta er skoðuð kemur upp úr krafs­inu að fylgi mælist mest aust­an­lands og norð­an­lands. Þar byggja nið­ur­stöður Mask­ínu þó á fremur fáum svör­um.

Við þurfum á þínu framlagi að halda

Þú getur tekið beinan þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Við sem vinnum á ritstjórn Kjarnans viljum hvetja þig til að vera með okkur í liði og leggja okkar góða fjölmiðli til mánaðarlegt framlag svo við getum haldið áfram að vinna fyrir lesendur, fyrir fólkið í landinu.

Kjarninn varð níu ára í sumar. Þegar hann hóf að taka við frjálsum framlögum þá varð slagorðið „Frjáls fjölmiðill fyrir andvirði kaffibolla“ til og lesendur voru hvattir til að leggja fram í það minnsta upphæð eins kaffibolla á mánuði.

Mikið vatn hefur runnið til sjávar á þeim níu árum sem Kjarninn hefur lifað. Í huga okkar á Kjarnanum hefur þörfin fyrir fjölmiðla sem veita raunverulegt aðhald og taka hlutverk sitt alvarlega aukist til muna.

Við trúum því að Kjarninn skipti máli fyrir samfélagið.

Við trúum því að sjálfstæð og vönduð blaðamennska skipti máli.

Ef þú trúir því sama þá endilega hugsaðu hvort Kjarninn er ekki allavega nokkurra kaffibolla virði á mánuði.

Vertu með okkur í liði. Þitt framlag skiptir máli.

Ritstjórn Kjarnans: Sunna Ósk Logadóttir, Þórður Snær Júlíusson, Erla María Markúsdóttir, Arnar Þór Ingólfsson, Eyrún Magnúsdóttir og Grétar Þór Sigurðsson.


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Efnisflokkar:
Meira eftir höfundinnArnar Þór Ingólfsson
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar