Claus Hjort Frederiksen, sem er 75 ára og lögfræðingur að mennt, var fyrst kjörinn á þing árið 2001. Hann hafði þá um árabil verið í forystusveit Venstre og meðal annars verið ritari flokksins. Hann var ráðherra atvinnumála frá 2001 til 2009 í stjórn Anders Fogh Rasmussen en þegar Lars Løkke Rasmussen tók við embætti forsætisráðherra settist Claus Hjort Frederiksen í fjármálaráðuneytið og gegndi embætti fjármálaráðherra til ársins 2011. Þegar Venstre komst aftur í stjórn árið 2015 tók Claus Hjort aftur við sem fjármálaráðherra. Ári síðar, eftir uppstokkun í stjórninni varð Claus Hjort varnarmálaráðherra og gegndi því embætti fram að stjórnarskiptum árið 2019. Hann var einn nánasti samstarfsmaður Lars Løkke Rasmussen og hefur verið lýst sem „þungavigtarmanni“ í Venstre flokknum. Claus Hjort hefur lýst yfir að yfirstandandi kjörtímabil sem lýkur á næst ári sé hans síðasta.
Grunaður um landráð
1.janúar síðastliðinn var Claus Hjort Frederiksen tilkynnt að hann væri grunaður um landráð, nánar tiltekið brot á grein 109 í hegningarlögunum. Hann hafi opinberlega greint frá upplýsingum sem teljist varða þjóðaröryggi og slíkum upplýsingum sé algjörlega óheimilt að greina frá. Ekki var greint frá hverjar þessar upplýsingar, sem flokkast undir ríkisleyndarmál, voru. Fréttaskýrendur töldu sig hins vegar vita að brotið fælist í því að Claus Hjort hefði í sjónvarpsviðtölum staðfest, án þess þó að segja berum orðum, að fréttir af hlerunum sem fjölmiðlar hefðu greint frá, væru réttar. Rétt er að geta þess að fréttir af þessari „hleranasamvinnu“ kom fyrst fram árið 2013 og svo aftur 2014 í gögnum sem uppljóstrarinn Edward Snowden lak til fjölmiðla.
Hleranamálið
24. ágúst í fyrra greindi danska útvarpið, DR, frá náinni samvinnu Leyniþjónustu danska hersins, FE, og Þjóðaröryggisstofnun Bandaríkjanna (NSA). Þetta var ekki í fyrsta sinn sem greint var frá þessari samvinnu, en þennan dag, 24. ágúst, var birt skýrsla eftirlitsnefndar sem skipuð hafði verið eftir að fréttir um nána samvinnu FE og NSA höfðu birst í dönskum fjölmiðlum. Í stuttu máli fólst samvinnan í því að FE hafði heimilað NSA aðgang að flutningslínum tölvugagna í Danmörku. Sá aðgangur gerði NSA heimilt að fylgjast með símtölum, sms skilaboðum og tölvpósti. Með öðrum orðum: öllum rafrænum samskiptum dönsku þjóðarinnar. Hleranirnar voru ekki einskorðaðar við Danmörku, því NSA hafði líka hlerað stjórnmálamenn í mörgum Evrópulöndum. Fjölmargar gagnalínur milli Bandaríkjanna og Evrópu, og sömuleiðis milli margra landa í Evrópu, fara um Danmörku. Þetta var sem sé allt galopið fyrir NSA með leyfi Dana. Þótt FE hafi heimild til samvinnu við erlendar leyniþjónustur náði þessi galopni aðgangur NSA langt út fyrir þau mörk.
Viðtöl í sjónvarpi
Í janúar á þessu ári, nokkrum dögum eftir að Claus Hjort Frederiksen var tilkynnt að hann væri grunaður um landráð kom hann fram í tveimur viðtalsþáttum, hjá Danska sjónvarpinu, DR og hjá sjónvarpsstöðinni TV2. Þar greindi hann frá því að hann væri grunaður um að hafa greint frá verst varðveitta leyndarmáli síðari tíma, leyndarmáli sem allir Danir vissu um. Hann sagði að þetta væri pólitískt mál, nú væri hann í stjórnarandstöðu og ríkisstjórnin sæi þarna leið til að koma á sig höggi. Viðtölin vöktu mikla athygli og strax vöknuðu spurningar um hvort Claus Hjort hefði sagt of mikið. Dómsmálaráðherrann Nick Hækkerup (sem síðar sagði af sér þingmennsku) sagði að það væri ákæruvaldsins að ákveða hvort, og þá hvert, framhaldið yrði. Ef niðurstaða ákæruvaldsins yrði að rétt væri að ákæra Claus Hjort væri framhaldið í höndum dómsmálaráðherrans.
Mælt með ákæru
Fyrir rúmum tveim vikum, 12. maí sl. tilkynnti dómsmálaráðherrann Mattias Tesfaye að ríkislögmaður (rigsadvokaten) mælti með því að gefin yrði út ákæra á hendur Claus Hjort Frederiksen. En þar er ljón í veginum: Þingmenn og ráðherrar njóta svonefndrar þinghelgi, sem þýðir að þá er ekki hægt að ákæra nema meirihluti þingsins samþykki að svipta viðkomandi þinghelginni. Dómsmálaráðherra sagðist fylgja ráðleggingum ríkislögmanns og lagði til að Claus Hjort yrði sviptur þinghelgi. Þingmenn vildu fá að vita allt um málavöxtu, hvað það væri sem til stæði að ákæra fyrir. Það vildi ráðherrann ekki upplýsa, rökstuddi það með því að um væri að ræða atriði sem varði hagsmuni ríkisins, ríkisleyndarmál. Margir þingmenn sögðu útilokað að samþykkja að svipta Claus Hjort þinghelgi án þess að vita málavöxtu. Eftir mikið japl jaml og fuður fengu formenn þingflokka að vita sakargiftir en máttu ekki greina flokkssystkinum sínum frá því um hvað málið snerist.
Ráðherra bakkar
Þegar ráðherra varð ljóst að ekki væri þingmeirihluti fyrir að svipta Claus Hjort þinghelgi tilkynnti hann að ekki yrðu greidd atkvæði um málið í þinginu og málinu þar með lokið. Í bili að minnsta kosti. Lögum samkvæmt fellur þinghelgin niður þegar þingmaður hættir þingmennsku og þá mætti ákæra viðkomandi. Danskir stjórnmálaskýrendur segja ólíklegt að slíkt gerist, sérfræðingur dagblaðsins Politiken sagðist telja að allir væru búnir að fá nóg af þessu máli.
Claus Hjort Frederiksen sagði, eftir að ráðherrann tilkynnti að ekki kæmi til atkvæðagreiðslu um þinghelgina, að tilfinningar sínar væru blendnar „ég hef ekki verið hreinsaður af þessum áburði þótt ég gleðjist jafnframt yfir niðurstöðunni“.
Eftirmáli
Var ríkislögmaður að þóknast ráðherranum?
Það vakti athygli Þegar Claus hjort Frederikssen sagði, eins og nefnt var fyrr í þessum pistli, að málið gegn sér væri pólitískt. Í þessu sambandi var rifjað upp viðtal blaðamanns Politiken við Jan Reckendorff í ágúst 2018. Þar sagði hann að hann tæki vel eftir því sem sitjandi ríkisstjórn segir og það væri sitt verk að framkvæma það sem ríkisstjórnin hefði ákveðið:
»hvis der er nogle politiske ønsker om noget bestemt, skal rigsadvokaten spille ind med juridiske løsninger«.
Og han tilføjede blandt andet, at han har en »meget stor lydhørhed over for den siddende regering«, og at det er hans opgave at udføre det, som »regeringen har besluttet«.
Þessi ummæli vöktu mikla athygli og margir virtir lögmenn og sérfræðingar lýstu undrun sinni á orðum Jan Reckendorff. Eva Smith, fyrrverandi prófessor við Hafnarháskóla sagði í viðtali að ríkislögmaður ætti að fara að lögum en ekki eftir því hvað ríkisstjórnin vildi. „Ég trúði varla mínum eigin augum þegar ég las þetta. Hélt hreinlega að mér hefði missýnst og skipti meira að segja um gleraugu áður en ég las þetta aftur. Það breytti engu, þetta stóð þarna, svart á hvítu”.