„Það liðu 232 ár og tók 115 aðrar tilnefningar áður en kom að því að svört kona væri valin til að sitja í Hæstarétti Bandaríkjanna. En við höfum náð hingað. Við höfum gert það. Við öll.“
Þetta sagði Ketanji Brown Jackson í apríl er öldungadeild bandaríska þingsins hafði samþykkt tilnefningu hennar í embætti hæstaréttardómara. Á fimmtudag sór hún embættiseið sinn. Hún er sjötta konan sem tekur sæti í dómnum, tekur við af Stephen Breyer sem orðinn er 83 ára og sest nú í helgan stein eftir tæpa þrjá áratugi við dómstólinn.
Joe Biden forseti tilnefndi Jackson í embættið í vetur er ljóst var að Breyer myndi senn láta að störfum. Tilnefningin var tekin til atkvæðagreiðslu í öldungadeildinni í byrjun apríl og var samþykkt með 53 atkvæðum þingmannanna gegn 47.
Embættistaka Jackson er söguleg í ýmsum skilningi. Hún er ekki aðeins aðeins sjötta konan sem tekur sæti í Hæstarétti Bandaríkjanna heldur fyrsta svarta konan. 116 dómarar hafa setið í réttinum frá stofnun hans.
Jackson tók við embættinu við látlausa og fámenna athöfn. Hún sór embættiseið sinn á biblíu í eigu fjölskyldu sinnar og aðra sem er í eigu dómstólsins. Eiginmaður hennar, læknirinn Patrick, hélt á bókunum er hún lagði hönd sína á þær og sór að sinna störfum sínum af heilindum án þess að fara í manngreiningarálit. Við dómstól sem hefur svo sannarlega verið umdeildur – ekki síst síðustu vikur eftir að meirihluti hans sneri við ríflega hálfrar aldar niðurstöðu í máli Roe gegn Wade er tryggt hafði stjórnarskrárbundinn rétt til þungunarrofs.
Seta Jackson í hæstarétti mun ekki breyta því valdahlutfalli milli þeirra tveggja blokka sem þykja einkenna hann; íhaldssamra dómara annars vegar og frjálslyndari hins vegar. Sex dómarar falla í fyrri flokkinn og þrír áfram í þann seinni.
„Á tímum þar sem hægri öfgastefna eitrar hæsta dómstól landsins okkar mun hún hafa rödd – og atkvæði – samkenndar, virðingar fyrir mannréttindum, lögum og reglum,“ sagði Derrick Johnson, forseti N.A.A.C.P., samtaka sem berjast réttindum fólks sem er dökkt á hörund. „Þetta eru stærstu fréttir fyrir svart fólk í Bandaríkjunum í langan, langan tíma.“
Öldungardeildarþingmenn úr röðum repúblikana sóttu hart að Jackson er hún kom fyrir þingnefnd eftir tilnefningu sína til að svara spurningum. Þeir reyndu að gera hana tortryggilega með ásökunum um að hún tæki af linkind á kynferðisbrotum gegn börnum og reyndu að kveikja elda með því að spyrja hvernig hún skilgreindi orðið „kona“, svo dæmi séu tekin.
Þrír þingmenn Repúblikanaflokksins greiddu hins vegar að lokum með tilnefningu hennar, þau Mitt Romney, Lisa Murkowski og Susan Collins.
Jackson fæddist í höfuðborginni Washington árið 1970 en ólst upp í Miami. Hún útskrifaðist úr Harvard-háskóla. Hún starfaði næstu árin m.a. sem aðstoðarmaður Breyers hæstaréttardómara, saksóknari og síðar dómari við áfrýjunar- og umdæmisdómstóla í Washington. Faðir hennar, Johnny Brown, er lögfræðingur og var saksóknari í Miami-Dade sýslu og móðir hennar, Ellery, var skólastjóri í listaskóla. Jackson-hjónin eiga tvær dætur; Leilu og Taliu.
Eftir að Jackson sór sinn embættiseið viðurkenndi hún að tilhugsunin um að vera fyrirmynd svo margra væri nokkuð yfirþyrmandi en að hún væri tilbúin í að taka þá ábyrgð. Hún gerði orð úr ljóði Mayu Angelou að sínu og sagði: „Ég tekst á við þetta með gjöfum forfeðra minna. Ég er draumur og von þrælanna.“