Ríkisstjórn Bretlands hefur verið harðlega gagnrýnd fyrir skort á gagnsæi í tengslum við sektir vegna „Partygate“. Boris Johnson forsætisráðherra er ekki meðal þeirra 20 sem fengu sekt en lofar að upplýsa um það, verði hann sektaður síðar meir.
Í upphafi árs kom Johnson fyrir breska þingið og baðst afsökunar á að hafa verið viðstaddur veislu í Downingstræti 10, 20 maí 2020, þegar útgöngubann vegna útbreiðslu COVID-19 var í gildi.
Breska lögreglan hefur rannsakað tólf samkvæmi á vegum breskra yfirvalda á þeim tíma sem strangar sóttvarnareglur voru í gildi vegna heimsfaraldurs kórónuveirunnar. Nú hefur lögregla sektað nokkra sem sóttu samkvæmi í Downingstræti 10 að kvöldi 16. apríl 2021, kvöldið áður en útför Filippusar prins fór fram. Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands, var ekki sektaður. Samkvæmið var kveðjuhóf fyrir samskiptastjóra forsætisráðherra, James Slack, og hefur hann beðist afsökunar á að það hafi verið haldið og að hann hafi verið viðstaddur.
Skortur á leiðtogahæfni og skaðleg drykkjumenning
Lítið var fjallað um samkvæmin tólf í bráðabirgðaskýrslu Sue Gray, sérstaks saksóknara, um partýstandið í Downingstræti og öðrum húsakynnum ríkisstjórnarinnar, sem birt var í lok janúar þar sem lögregla hóf sjálfstæða rannsókn á þeim og bað Gray því um að vísa sem minnst í þau sökum rannsóknarhagsmuna.
Greina má þrjú megin þemu í niðurstöðum Gray. Í fyrsta lagi nefnir hún heimsfaraldurinn og að erfitt hafi verið að réttlæta samkomur á sama tíma og almenningur bjó við harðar samkomutakmarkanir. Í öðru lagi segir hún greinilegan skort hafa verið á forystuhæfileikum sem leiddi meðal annars til þess að gleðskapurinn gekk of langt í sumum tilvikum. Í þriðja lagi gagnrýnir hún drykkjumenningu á vinnustöðum ríkisstjórnarinnar. „Óhófleg neysla áfengis er óviðeigandi á vinnustöðum öllum stundum,“ segir m.a. í skýrslu Gray. Lokaskýrslu sérstaks saksóknara er enn beðið.
Lögregla birtir ekki nöfn þeirra sem fá sekt
Alls er um 20 sektir að ræða og samkvæmt heimildum BBC er um fyrsta skammtinn að ræða. Í bréfum þar sem sektirnar eru birtar segir að niðurstaða lögreglurannsóknar sýni að rökstuddur grunur sé fyrir því að brot gegn gildandi sóttvarnareglum hafi verið framin á umræddu tímabili. Lögreglan mun ekki birta nöfn þeirra sem hafa verið sektaðir nema viðkomandi reyni að fá sektinni hnekkt fyrir dómstólum.
Starfsfólk Downingstrætis 10 stóð fyrir tveimur samkvæmum kvöldið áður en jarðarför Filippusar prins fór fram. Tveggja vikna þjóðarsorg hafði verið lýst yfir í Bretlandi vegna fráfalls drottningarmannsins.
Boris Johnson forsætisráðherra var í hvorugu samkvæminu en hefur beðist afsökunar á að þau hafi farið fram. Hann var hins vegar staddur í um þrjátíu manna veislu í Downingstræti rúmum mánuði síðar þegar útgöngubann vegna útbreiðslu COVID-19 var í gildi. Veisluhöldin fóru fram í garði Downingstræti og var hundrað boðsgestum meðal annars bent á að „hafa eigið áfengi meðferðis til að njóta góða veðursins eins best væri á kosið“. Um 30 manns þekktust boðið, þar á meðal Johnson sjálfur og Carrie Johnson, eiginkona hans. Á því hefur hann einnig beðist afsökunar, sem og eigin afmælisveislu sem kona hans skipulagði í íbúð þeirra í Downingstræti 19. júní 2020 og kveðjuhófi í nóvember sama ár þegar sérstakur ráðgjafi forsætisráðherra lét af störfum.
Lítið hefur verið gefið upp um þau sem hafa verið sektuð en Daily Telegraph segir Helen MacNamara, fyrrverandi yfirmann siðareglna hjá ríkisstjórninni, vera á meðal þeirra sem voru sektuð. Hún hefur ekki viljað tjá sig um málið. Keir Starmer, leiðtogi Verkamannaflokksins, krefst þess að háttsettir ráðamenn sem hafi verið sektaðir verði nafngreindir.
Tólf samkomur eru til rannsóknar hjá lögreglu en í skýrslu Gray er fjallað um að minnsta kosti 16. Gray segir að henni hafi verið settar miklar skorður vegna lögreglurannsóknarinnar og því er enn nokkuð í að endanleg og „þýðingarmikil“ skýrsla verði gefin út. Johnson fullyrðir að endanleg skýrsla Gray um „Partygate“ verði gerð opinber.
Neita að afhenda myndir sem ljósmyndari ríkisstjórnarinnar tók í samkvæmunum
Skortur á gagnsæi í öllu sem tengist „Partygate“ hefur verið gagnrýnt. Ráðherrar hafa til að mynda verið gagnrýndir fyrir að neita að birta myndir sem ljósmyndari ríkisstjórnarinnar tók í samkvæmum sem hafa verið til rannsóknar.
Skrifstofa ríkisstjórnarinnar vildi hvorki staðfesta né hafna að myndir frá samkvæmunum séu til þegar óskað var eftir þeim á grundvelli upplýsingalaga. Það liggur hins vegar fyrir að myndir frá ljósmyndaranum eru meðal gagna í rannsókn Gray. Leiðtogar Verkamannaflokksins hafa skorað á ríkisstjórnina að birta myndirnar, ekki síst þar sem laun ljósmyndara ríkisstjórnarinnar eru greidd af skattgreiðendum.
„Ljósmyndari Downingstrætis er fjármagnaður af skattgreiðendum. Almenningur á allan rétt á því að sjá þessar myndir sem þau hafa unnið baki brotnu fyrir,“ segir Angela Rayner, varaformaður Verkamannaflokksin, sem telur Johnson vera að hylma yfir eigin brotum á reglum með að hindra birtingu myndanna. „Boris Johnson verður að koma hreint fram pog birta þessar myndir.“
Það er undir Gray sjálfri komið hvort hún nefni þau á nafn sem hún telur hafa gerst brotleg gegn þágildandi sóttvarnareglum. Í bráðabirgðaskýrslu sinni nefndi hún engin nöfn.
Aðeins Johnson og Simon Case, ráðherra í ríkisstjórn Johnson, hafa gefið út að þeir muni upplýsa um það verði þeir sektaðir. Rannsókn lögreglu á samkvæmunum er ekki lokið og þykir líklegt að sektirnar tuttugu séu aðeins á byrjunin á því sem koma skal.