Grefur Bitcoin undan loftslagsávinningi?
Bitcoin rafmyntin hefur verið að ryðja sér til rúms á undanförnum árum. Virði rafmyntarinnar hefur rokið upp og hafa margir trú á tækninni á bak við dreifðstýrðan rafrænan gjaldmiðil. Gagnrýnendur hafa hins vegar lengi bent á gríðarlega orkunotkun rafmyntarinnar og efast um að hún geti orðið „græn“.
Bitcoin er rafrænn gjaldmiðill sem er dreifstýrður og þarf því ekki milligöngu þriðja aðila eins og banka eða stjórnvalda. Gjaldmiðillinn kom fyrst fram árið 2009 en í lok árs 2014 var virði hverrar Bitcoin um 300 bandaríkjadollarar. Í dag er virði hverrar Bitcoin orðið um 40 þúsund bandaríkjadollarar eða rúmar 5 milljónir íslenskra króna. Samkvæmt nýlegri könnun Gallup hefur nærri tíundi hver Íslendingur keypt rafmynt og hafa flestir af þeim fjárfest í rafmyntinni Bitcoin.
Bitcoin er í einföldu máli búin til með eins konar rafrænum námugrefti. Stór tölvukerfi hamast við að leysa stærðfræðilegan útreikning til að staðfesta og bæta við viðskiptum í svokallaða bálkakeðju (e. blockchain). Til þess að leysa útreikninginn nota „grafarar“ tölvubúnað sem er sérhannaður fyrir rafmynta námugröft. Á tíundu hverri mínútu fær einn grafari rétt á að bæta við nýjum bálk í bálkakeðjuna. Þetta ferli er þekkt sem „proof-of-work”.
Í samtali við Kjarnann segir Erik Agrell, prófessor við rafmagnsverkfræðideild Chalmers-tækniháskóla í Gautaborg, að Bitcoin námugrefti sé oft líkt við ákveðinn leik eða lottó. Grafararnir keppa við hvern annað til að öðlast rétt á að bæta við nýjum bálk í bálkakeðjuna. Sá sem vinnur lottóið, sem á sér stað á tíu mínútna fresti, fær þar með umbun í formi Bitcoin.
Gagnrýnendur hafa lengi bent á þá gríðarlegu orkunotkun sem þarf til að viðhalda netverki Bitcoin og umhverfisáhrifum þessa orkufreka kerfis.
Orkunotkun Bitcoin helst í hendur við verð
Samkvæmt greiningu Cambridge háskóla nemur orkuþörf Bitcoin rúmlega 140 teravattstundum (TWst) á ársgrundvelli. Digiconomist, sem vekur athygli á umhverfisáhrifum rafmynta, áætlar að orkunotkunin nemi um 204 TWst og Bitcoin Mining Council, vettvangur fyrirtækja sem sinna Bitcoin námugrefti, telur orkunotkunina nema um 220 TWst.
Ljóst er að orkunotkun Bitcoin er mjög mikil og miðað við ofangreindar heimildir má ætla að hún sé í kringum 200 TWst á ársgrundvelli.
Til að setja 200 TWst í samhengi þá nam öll raforkunotkun Svíþjóðar 136 TWst árið 2020 og raforkunotkun Íslands nam um 19 TWst sama ár. Orkunotkun Bitcoin er margfalt meiri en orkunotkun helstu tæknirisa í heimi en Google, Facebook, Microsoft, Amazon og Apple nota samanlagt um 45 TWst af raforku á ári. Öll gagnaver, að frátöldum þeim sem grafa eftir rafmyntum, notuðu um 200-250 TWst af raforku árið 2020.
Í samtali við The Independent segir Charles Hoskinson, framkvæmdastjóri dulritunarfyrirtækisins (e. cryptography firm) IOHK, að orkunotkun Bitcoin muni einungis aukast á komandi árum þar sem „slæm orkunýtni (e. energy inefficiency) er innbyggð í hönnun Bitcoin”.
Erik Agrell segir að sterk fylgni sé milli virði Bitcoin og orkunotkunar. Þegar verð Bitcoin eykst um 1% eykst orkunotkunin um 0,9% að meðaltali, samkvæmt útreikningum Cambridge háskóla. Þetta þýðir einfaldlega að hækkandi verð Bitcoin leiðir til þess að hvatinn til að grafa eftir rafmyntinni eykst og þar með orkunotkunin. „Ég sé ekki fyrir endann á þessari þróun. Ef verð Bitcoin heldur áfram að hækka hraðar en raforkuverð, þá mun orkunotkun aukast um ókomna tíð,“ segir Erik.
Flestar Bitcoin námur knúnar jarðefnaeldsneyti
Dreifstýring (e. decentralization) og ákveðin leynd einkennir Bitcoin. Því er erfitt vita nákvæmlega hvar námugröftur Bitcoin fer fram og þar af leiðandi hvernig orka er notuð til að knýja tölvurnar sem sinna námugrefti á rafmyntinni. Samkvæmt Digiconomist eru flestar námur Bitcoin enn knúnar jarðefnaeldsneyti.
Vísindamenn við Cambridge háskóla hafa útbúið kort af staðsetningu Bitcoin náma. Í fræðigrein sem birtist í vísindatímaritinu Joule fyrr á þessu ári er kortið nýtt til að áætla orkublöndu og kolefnisfótspor Bitcoin netverksins.
Í greininni kemur fram að hlutfall endurnýjanlegrar orku til að knýja Bitcoin netverkið hefur - ólíkt því sem margir myndu halda - dregist saman úr 41% í 25% í kjölfar þess að Kína bannaði Bitcoin árið 2021.
Lengi vel átti stærsti parturinn af Bitcoin grefti sér stað í Kína en árið 2021 lýstu stjórnvöld þar í landi öll viðskipti með rafmyntir ólögleg og bönnuðu gröft eftir rafmyntum. Því hafa þeir sem stunduðum gröft þar í landi þurft að færa sig um set.
De Vries, einn af höfundum greinarinnar, sagði í samtali við CNN að eftir að Kína bannaði Bitcoin bjuggust margir við því að rafmyntin yrði „grænni”. Hið gagnstæða virðist hins vegar hafa gerst. Möguleg ástæða fyrir því er sú að grafarar í Kína höfðu, á ákveðnum tíma árs, aðgang að endurnýjanlegri orku þar í landi. Eftir lögbann Kína hefur námuvinnsla hins vegar færst meðal annars til Bandaríkjanna og Kasakstan þar sem kol og gas er að mestu leyti notað sem orkugjafi.
Þá eru dæmi um að gömlum kolaorkuverum sem hafði verið lokað, meðal annars í New York og Montana, hafi verið opnuð á ný til þess eins að grafa eftir Bitcoin.
Losun Bitcoin netverksins er í dag um 100 milljón tonn CO2. Til að setja það í samhengi er kolefnislosun Bitcoin tvöfalt meiri en sá losunarsamdráttur sem náðist með rafbílavæðingu heims árið 2020. Samkvæmt útreikningum Digiconomist samræmist kolefnisfótspor einnar Bitcoin færslu kolefnisfótspori rúmlega tveimur milljónum VISA færslna. Það jafngildir flugferð frá Amsterdam til New York, eða því að horfa á Youtube-myndbönd í um tvö þúsund klukkustundir.
Raftækjasóun
Áætlað er að um 2,9 milljón tölvur séu í notkun til þess eins að grafa eftir Bitcoin sem veldur meðal annars gríðarmikilli raftækjasóun. Ferlið við að framleiða tækin sem grafa eftir Bitcoin - allt frá framleiðslu til förgunar - hefur sitt kolefnisfótspor. Ennfremur er líftími tölvubúnaðs sem notaður er í rafmyntavinnslu tiltölulega stuttur. Rannsókn de Vries og Stoll (2021) sýndi fram á að líftími námutækja er um 1,3 ár og er raftækjasóun frá Bitcoin um 30,7 tonn árlega.
Einungis um 17% af öllum raftækjum í heiminum voru endurunnin árið 2019 og enda flest raftæki því í urðun. Raftæki eru mörg hver búin til úr efnum sem eru skaðleg umhverfinu og heilsu manna og eru raftæki sá úrgangsstraumur sem vex hvað hraðast í heiminum. Þar að auki er óskráð raftækjasóun sífellt að aukast.
Í samtali við The New York Times sagði De Vries að vandamál raftækjasóunar sé alfarið hunsað af Bitcoin gröfurum þar sem „þeir hafa einfaldlega enga lausn á vandanum”.
Getur Bitcoin orðið grænt?
Spurningin sem situr eftir er hvort Bitcoin geti, á einhvern hátt, orðið umhverfisvænna.
Undanfarið hafa fyrirtæki í rafmyntavinnslu fært sig í ríkara mæli til staða þar sem endurnýjanleg orka er notuð, til dæmis til Íslands. Útreikningar vísindamanna Cambridge háskóla benda til þess að um 0,40% af heildarnetverki Bitcoin fari fram á Íslandi.
Jafnvel þótt Bitcoin færi sig yfir í endurnýjanlega orku, hafa sérfræðingar einnig bent á vankanta þess að nota endurnýjanlega orku til að grafa eftir Bitcoin. Árið 2021 kölluðu bæði Umhverfisstofnun og Fjármálaeftirlitið í Svíþjóð eftir banni á grefti rafmynta þar í landi. Ástæðan var sú að ef endurnýjanleg orka er notuð til að grafa eftir Bitcoin verði hún ekki notuð í önnur og mikilvægari verkefni, svo sem orkuskiptum á nauðsynlegri þjónustu.
Erik bendir á að alþjóðleg samstaða ríki um nauðsyn orkusparnaðar. Endurnýjanleg orka er takmörkuð auðlind og því sé mikilvægt að nýta hana skynsamlega. Hann segir nauðsynlegt að setja samfélagslegan ávinning Bitcoin í samhengi. „Við þurfum að spyrja okkur hvort orkunni sé vel varið í Bitcoin námugröft“.
Erik segist ekki hafa skoðun á því hvort að rafmyntir séu til góðs fyrir samfélagið eða ekki. „Ég er einfaldlega að benda á að ef við sem samfélag ætlum að samþykkja notkun rafmynta ætti það að vera gert á sjálfbæran hátt“. Orkufreki partur Bitcoin er ferlið sem nefnist „proof of work”, eins og nefnt var hér í upphafi. Erik bendir á að nú þegar séu til aðrar rafmyntir sem noti margfalt minni raforku. Þessar rafmyntir byggja á öðru kerfi sem kallast „proof of stake“. Hins vegar séu margir, sem til dæmis hafa fjárfest í Bitcoin, sem hafi fjárhagslega hagsmuni af því að kerfið breytist ekki.