EPA

Grefur Bitcoin undan loftslagsávinningi?

Bitcoin rafmyntin hefur verið að ryðja sér til rúms á undanförnum árum. Virði rafmyntarinnar hefur rokið upp og hafa margir trú á tækninni á bak við dreifðstýrðan rafrænan gjaldmiðil. Gagnrýnendur hafa hins vegar lengi bent á gríðarlega orkunotkun rafmyntarinnar og efast um að hún geti orðið „græn“.

Bitcoin er raf­rænn gjald­mið­ill sem er dreif­stýrður og þarf því ekki milli­göngu þriðja aðila eins og banka eða stjórn­valda. Gjald­mið­ill­inn kom fyrst fram árið 2009 en í lok árs 2014 var virði hverrar Bitcoin um 300 banda­ríkja­doll­ar­ar. Í dag er virði hverrar Bitcoin orðið um 40 þús­und banda­ríkja­doll­arar eða rúmar 5 millj­ónir íslenskra króna. Sam­kvæmt nýlegri könnun Gallup hefur nærri tíundi hver Íslend­ingur keypt raf­mynt og hafa flestir af þeim fjár­fest í raf­mynt­inni Bitcoin.

Bitcoin er í ein­földu máli búin til með eins konar raf­rænum námu­grefti. Stór tölvu­kerfi ham­ast við að leysa stærð­fræði­legan útreikn­ing til að stað­festa og bæta við við­skiptum í svo­kall­aða bálka­keðju (e. blockchain). Til þess að leysa útreikn­ing­inn nota „graf­ar­ar“ tölvu­búnað sem er sér­hann­aður fyrir raf­mynta námu­gröft. Á tíundu hverri mín­útu fær einn graf­ari rétt á að bæta við nýjum bálk í bálka­keðj­una. Þetta ferli er þekkt sem „proof-of-work”.

Í sam­tali við Kjarn­ann segir Erik Agrell, pró­fessor við raf­magns­verk­fræði­deild Chal­mer­s-­tækni­há­skóla í Gauta­borg, að Bitcoin námu­grefti sé oft líkt við ákveð­inn leik eða lottó. Graf­ar­arnir keppa við hvern annað til að öðl­ast rétt á að bæta við nýjum bálk í bálka­keðj­una. Sá sem vinnur lottó­ið, sem á sér stað á tíu mín­útna fresti, fær þar með umbun í formi Bitcoin.

Gagn­rýnendur hafa lengi bent á þá gríð­ar­legu orku­notkun sem þarf til að við­halda net­verki Bitcoin og umhverf­is­á­hrifum þessa orku­freka kerf­is.

Orku­notkun Bitcoin helst í hendur við verð

Sam­kvæmt grein­ingu Cambridge háskóla nemur orku­þörf Bitcoin rúm­lega 140 tera­vatt­stundum (TWst) á árs­grund­velli. Dig­iconomist, sem vekur athygli á umhverf­is­á­hrifum raf­mynta, áætlar að orku­notk­unin nemi um 204 TWst og Bitcoin Mining Council, vett­vangur fyr­ir­tækja sem sinna Bitcoin námu­grefti, telur orku­notk­un­ina nema um 220 TWst.

Ljóst er að orku­notkun Bitcoin er mjög mikil og miðað við ofan­greindar heim­ildir má ætla að hún sé í kringum 200 TWst á árs­grund­velli.

Til að setja 200 TWst í sam­hengi þá nam öll raf­orku­notkun Sví­þjóðar 136 TWst árið 2020 og raf­orku­notkun Íslands nam um 19 TWst sama ár. Orku­notkun Bitcoin er marg­falt meiri en orku­notkun helstu tæknirisa í heimi en Goog­le, Face­book, Microsoft, Amazon og Apple nota sam­an­lagt um 45 TWst af raf­orku á ári. Öll gagna­ver, að frá­töldum þeim sem grafa eftir raf­mynt­um, not­uðu um 200-250 TWst af raf­orku árið 2020.

Í sam­tali við The Independent segir Charles Hoskin­son, fram­kvæmda­stjóri dul­rit­un­ar­fyr­ir­tæk­is­ins (e. cryp­tography firm) IOHK, að orku­notkun Bitcoin muni ein­ungis aukast á kom­andi árum þar sem „slæm orku­nýtni (e. energy ineffici­ency) er inn­byggð í hönnun Bitcoin”.

Erik Agrell segir að sterk fylgni sé milli virði Bitcoin og orku­notk­un­ar. Þegar verð Bitcoin eykst um 1% eykst orku­notk­unin um 0,9% að með­al­tali, sam­kvæmt útreikn­ingum Cambridge háskóla. Þetta þýðir ein­fald­lega að hækk­andi verð Bitcoin leiðir til þess að hvat­inn til að grafa eftir raf­mynt­inni eykst og þar með orku­notk­un­in. „Ég sé ekki fyrir end­ann á þess­ari þró­un. Ef verð Bitcoin heldur áfram að hækka hraðar en raf­orku­verð, þá mun orku­notkun aukast um ókomna tíð,“ segir Erik.

Flestar Bitcoin námur knúnar jarð­efna­elds­neyti

Dreif­stýr­ing (e. decentralization) og ákveðin leynd ein­kennir Bitcoin. Því er erfitt vita nákvæm­lega hvar námu­gröftur Bitcoin fer fram og þar af leið­andi hvernig orka er notuð til að knýja tölv­urnar sem sinna námu­grefti á raf­mynt­inni. Sam­kvæmt Dig­iconomist eru flestar námur Bitcoin enn knúnar jarð­efna­elds­neyti.

Vís­inda­menn við Cambridge háskóla hafa útbúið kort af stað­setn­ingu Bitcoin náma. Í fræði­grein sem birt­ist í vís­inda­tíma­rit­inu Joule fyrr á þessu ári er kortið nýtt til að áætla orku­blöndu og kolefn­is­fót­spor Bitcoin net­verks­ins.

https://ccaf.io/cbeci/mining_map

Í grein­inni kemur fram að hlut­fall end­ur­nýj­an­legrar orku til að knýja Bitcoin net­verkið hefur - ólíkt því sem margir myndu halda - dreg­ist saman úr 41% í 25% í kjöl­far þess að Kína bann­aði Bitcoin árið 2021.

Lengi vel átti stærsti part­ur­inn af Bitcoin grefti sér stað í Kína en árið 2021 lýstu stjórn­völd þar í landi öll við­skipti með raf­myntir ólög­leg og bönn­uðu gröft eftir raf­mynt­um. Því hafa þeir sem stund­uðum gröft þar í landi þurft að færa sig um set.

De Vries, einn af höf­undum grein­ar­inn­ar, sagði í sam­tali við CNN að eftir að Kína bann­aði Bitcoin bjugg­ust margir við því að raf­myntin yrði „grænn­i”. Hið gagn­stæða virð­ist hins vegar hafa gerst. Mögu­leg ástæða fyrir því er sú að graf­arar í Kína höfðu, á ákveðnum tíma árs, aðgang að end­ur­nýj­an­legri orku þar í landi. Eftir lög­bann Kína hefur námu­vinnsla hins vegar færst meðal ann­ars til Banda­ríkj­anna og Kasakstan þar sem kol og gas er að mestu leyti notað sem orku­gjafi.

Þá eru dæmi um að gömlum kola­orku­verum sem hafði verið lok­að, meðal ann­ars í New York og Mont­ana, hafi verið opnuð á ný til þess eins að grafa eftir Bitcoin.

Losun Bitcoin net­verks­ins er í dag um 100 milljón tonn CO2. Til að setja það í sam­hengi er kolefn­islosun Bitcoin tvö­falt meiri en sá los­un­ar­sam­dráttur sem náð­ist með raf­bíla­væð­ingu heims árið 2020. Sam­kvæmt útreikn­ingum Dig­iconomist sam­ræm­ist kolefn­is­fót­spor einnar Bitcoin færslu kolefn­is­fótspori rúm­lega tveimur millj­ónum VISA færslna. Það jafn­gildir flug­ferð frá Amster­dam til New York, eða því að horfa á Youtu­be-­mynd­bönd í um tvö þús­und klukku­stund­ir.

Raf­tækja­sóun

Áætlað er að um 2,9 milljón tölvur séu í notkun til þess eins að grafa eftir Bitcoin sem veldur meðal ann­ars gríð­ar­mik­illi raf­tækja­só­un. Ferlið við að fram­leiða tækin sem grafa eftir Bitcoin - allt frá fram­leiðslu til förg­unar - hefur sitt kolefn­is­fót­spor. Enn­fremur er líf­tími tölvu­bún­aðs sem not­aður er í raf­mynta­vinnslu til­tölu­lega stutt­ur. Rann­sókn de Vries og Stoll (2021) sýndi fram á að líf­tími námu­tækja er um 1,3 ár og er raf­tækja­sóun frá Bitcoin um 30,7 tonn árlega.

Verðsveiflur í rafmyntakauphöllinni í Suður-Kóreu.
EPA

Ein­ungis um 17% af öllum raf­tækjum í heim­inum voru end­urunnin árið 2019 og enda flest raf­tæki því í urð­un. Raf­tæki eru mörg hver búin til úr efnum sem eru skað­leg umhverf­inu og heilsu manna og eru raf­tæki sá úrgangs­straumur sem vex hvað hrað­ast í heim­in­um. Þar að auki er óskráð raf­tækja­sóun sífellt að aukast.

Í sam­tali við The New York Times sagði De Vries að vanda­mál raf­tækja­só­unar sé alfarið hunsað af Bitcoin gröf­urum þar sem „þeir hafa ein­fald­lega enga lausn á vand­an­um”.

Getur Bitcoin orðið grænt?

Spurn­ingin sem situr eftir er hvort Bitcoin geti, á ein­hvern hátt, orðið umhverf­is­vænna.

Und­an­farið hafa fyr­ir­tæki í raf­mynta­vinnslu fært sig í rík­ara mæli til staða þar sem end­ur­nýj­an­leg orka er not­uð, til dæmis til Íslands. Útreikn­ingar vís­inda­manna Cambridge háskóla benda til þess að um 0,40% af heild­ar­net­verki Bitcoin fari fram á Íslandi.

Jafn­vel þótt Bitcoin færi sig yfir í end­ur­nýj­an­lega orku, hafa sér­fræð­ingar einnig bent á van­kanta þess að nota end­ur­nýj­an­lega orku til að grafa eftir Bitcoin. Árið 2021 köll­uðu bæði Umhverf­is­stofnun og Fjár­mála­eft­ir­litið í Sví­þjóð eftir banni á grefti raf­mynta þar í landi. Ástæðan var sú að ef end­ur­nýj­an­leg orka er notuð til að grafa eftir Bitcoin verði hún ekki notuð í önnur og mik­il­væg­ari verk­efni, svo sem orku­skiptum á nauð­syn­legri þjón­ustu.

Erik bendir á að alþjóð­leg sam­staða ríki um nauð­syn orku­sparn­að­ar. End­ur­nýj­an­leg orka er tak­mörkuð auð­lind og því sé mik­il­vægt að nýta hana skyn­sam­lega. Hann segir nauð­syn­legt að setja sam­fé­lags­legan ávinn­ing Bitcoin í sam­hengi. „Við þurfum að spyrja okkur hvort orkunni sé vel varið í Bitcoin námu­gröft“.

Erik seg­ist ekki hafa skoðun á því hvort að raf­myntir séu til góðs fyrir sam­fé­lagið eða ekki. „Ég er ein­fald­lega að benda á að ef við sem sam­fé­lag ætlum að sam­þykkja notkun raf­mynta ætti það að vera gert á sjálf­bæran hátt“. Orku­freki partur Bitcoin er ferlið sem nefn­ist „proof of work”, eins og nefnt var hér í upp­hafi. Erik bendir á að nú þegar séu til aðrar raf­myntir sem noti marg­falt minni raf­orku. Þessar raf­myntir byggja á öðru kerfi sem kall­ast „proof of stake“. Hins vegar séu margir, sem til dæmis hafa fjár­fest í Bitcoin, sem hafi fjár­hags­lega hags­muni af því að kerfið breyt­ist ekki.

Við þurfum á þínu framlagi að halda

Þú getur tekið beinan þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Við sem vinnum á ritstjórn Kjarnans viljum hvetja þig til að vera með okkur í liði og leggja okkar góða fjölmiðli til mánaðarlegt framlag svo við getum haldið áfram að vinna fyrir lesendur, fyrir fólkið í landinu.

Kjarninn varð níu ára í sumar. Þegar hann hóf að taka við frjálsum framlögum þá varð slagorðið „Frjáls fjölmiðill fyrir andvirði kaffibolla“ til og lesendur voru hvattir til að leggja fram í það minnsta upphæð eins kaffibolla á mánuði.

Mikið vatn hefur runnið til sjávar á þeim níu árum sem Kjarninn hefur lifað. Í huga okkar á Kjarnanum hefur þörfin fyrir fjölmiðla sem veita raunverulegt aðhald og taka hlutverk sitt alvarlega aukist til muna.

Við trúum því að Kjarninn skipti máli fyrir samfélagið.

Við trúum því að sjálfstæð og vönduð blaðamennska skipti máli.

Ef þú trúir því sama þá endilega hugsaðu hvort Kjarninn er ekki allavega nokkurra kaffibolla virði á mánuði.

Vertu með okkur í liði. Þitt framlag skiptir máli.

Ritstjórn Kjarnans: Sunna Ósk Logadóttir, Þórður Snær Júlíusson, Erla María Markúsdóttir, Arnar Þór Ingólfsson, Eyrún Magnúsdóttir og Grétar Þór Sigurðsson.


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnRakel Guðmundsdóttir
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar