Síðastliðinn fimmtudag, 25. ágúst, var haldin hin árlega haustmóttaka hjá bókaforlaginu Gyldendal í húsakynnum forlagsins í miðborg Kaupmannahafnar. Löng hefð er fyrir þessum viðburði hjá forlaginu og þangað er boðið, auk starfsfólks forlagsins, höfundum, gagnrýnendum og ýmsum öðrum sem tengjast útgáfunni með einum eða öðrum hætti.
Skömmu áður en móttakan hófst hafði dönsku kauphöllinni, Børsen, verið tilkynnt að framkvæmdastjóri forlagsins, Morten Hesseldahl myndi hætta störfum 1. september. Gestirnir sem mættir voru í teitið höfðu því nóg um að tala. Morten Hesseldahl tók við framkvæmdastjórastarfinu árið 2018.
Elsta starfandi bókaforlag Danmerkur
Gyldendal á sér langa sögu, stofnað árið 1770. Stofnandinn Søren Gyldendal leitaði ekki langt yfir skammt eftir nafninu á fyrirtækinu, en á þessum tíma var algengt að fyrirtæki bæru nafn stofnandans. Søren Gyldendal var fæddur á Jótlandi árið 1742, skírnarnafnið var Søren Jensen. Faðir hans hafði tekið sér nafnið Gyldendal og þegar Søren stofnaði útgáfufyrirtæki sitt ákvað hann að það skyldi heita Gyldendalske Boghandel. Það nafn bar fyrirtækið allt til ársins 2010, en var þá breytt í Gyldendal, enda hafði fyrirtækið alla tíð gengið undir því nafni.
Að loknu prófi frá Latínuskólanum í Álaborg flutti Søren til Kaupmannahafnar og lauk prófi í sálfræði frá Hafnarháskóla árið 1767. Hann fékk ungur áhuga fyrir bókum og viðskiptum og fæstum sem til þekktu kom á óvart að hann skyldi hasla sér völl sem bókaútgefandi. Árið 1787 keypti Søren Gyldendal hús við Klareboderne í Kaupmannahöfn og þar er forlagið Gyldendal enn til húsa. Søren Gyldendal lést árið 1802 en þá hafði hann gert Gyldendal að stórveldi í danskri bókaútgáfu. Þann sess hefur fyrirtækið lengst af skipað.
Hver var galdurinn?
Þessa spurningu lagði danskur blaðamaður fyrir rithöfundinn Klaus Rifbjerg sem um sjö ára skeið var útgáfustjóri Gyldendal. Klaus Rifbjerg svaraði því til að að Gyldendal forlagið hefði lagt áherslu á fjölbreytta útgáfu: skáldsögur, ævisögur, fræðirit, orðabækur, kennslubækur og fleira og fleira. „Eitthvað fyrir alla“ sagði Klaus Rifbjerg. Hann nefndi einnig að Gyldendal hefði tekist að skapa sér sess sem útgefandinn sem allir höfundar sóttust eftir að fá útgáfusamning við. „Gyldendal var gæðastimpill“ sagði Klaus Rifbjerg. Dönsk bókaútgáfa hefur ætíð verið áhættusöm, margir hafa fetað þann veg, í upphafi með bjartsýnina að leiðarljósi. Gyldendal, í krafti sterkrar stöðu sinnar, keypti mörg slík fyrirtæki og rak þau ýmist áfram undir upprunalegu heiti sem dótturfélög, eða sameinaði þau Gyldendal.
Vinsælir höfundar hafa leitað annað
Á allra síðustu árum hefur hallað undan fæti hjá Gyldendal. Margir þekktir höfundar hafa leitað til annarra útgefenda, það á einkum við hina svonefndu glæpasagnahöfunda, krimiforfattere. Á sama tíma hafa mörg önnur bókaforlög sótt mjög í sig veðrið á þessum markaði, þar má til dæmis nefna Lindhardt & Ringhof og Politikens forlag. Glæpasögur njóta mikilla vinsælda meðal danskra lesenda, og nær alltaf efstar á svokölluðum bestseller listum. Sú staðreynd að Gyldendal hefur mátt sjá á bak mörgum vinsælum höfundum kemur fram í sölu- og afkomutölum útgáfunnar. Í áðurnefndri tilkynningu Gyldendal til kauphallarinnar kom fram að fyrri áætlanir um hagnað og veltu myndu ekki standast. Í ávarpi sínu við upphaf haustfagnaðarins sl. fimmtudag sagði Poul Erik Tøjner stjórnarformaður nauðsynlegt að bregðast við og uppsögn Morten Hesseldahl væri liður í því að skipta um kúrs, eins og stjórnarformaðurinn komst að orði.
Bakari fyrir smið
Ekki eru allir jafn vissir um að Morten Hesseldahl sé um að kenna hvernig staðan hjá Gyldendal er. Lars Ole Kornum, sem er einn stærsti einstaki hluthafi í fyrirtækinu segir það mikla einföldun að skella skuldinni á Morten Hesseldahl. Lars Ole Kornum, sem er umsvifamikill í dönsku viðskiptalífi sagði nýlega í viðtali við dagblaðið Berlingske að frá því að Poul Erik Tøjner (sem er framkvæmdastjóri listasafnsins Louisiana) tók við stjórnarformennskunni árið 2011 hefði leiðin því miður legið niður á við. Lars Ole Kornum sagði nauðsynlegt að skipta um stjórnarformann hjá Gyldendal, en tók fram að hann sæktist ekki eftir starfinu. Gagnrýni Lars Ole Kornum á stjórnarformanninn er ekki ný af nálinni. Hann hefur áður margoft gagnrýnt stefnu Poul Erik Tøjner og stjórnarinnar. Á síðustu árum, áður en Morten Hesseldahl varð framkvæmdastjóri, hafi áhersla stjórnar Gyldendal verið á svokallaðar fínni bókmenntir (orðalag Lars Ole Kornum) en minni á afþreyingarbókmenntir, sem gefa mestu tekjurnar. Á síðasta ári sendi Gyldendal frá sér 350 bækur en fyrir nokkrum árum voru bækurnar um það bil 750 sem út komu á ári hverju. Morten Hesseldahl vildi leggja aukna áherslu á útgáfu afþreyingarbókmennta en svo virðist sem margir danskir rithöfundar sem skrifa slíkar bækur hafi ekki haft trú á að það gengi eftir og hafa þess vegna leitað til annarra útgefenda.
Of seinir að mæta breyttum aðstæðum
Þegar Morten Hesseldahl hóf störf hjá Gyldendal lýsti hann því yfir að undir sinni stjórn yrði áhersla lögð á að mæta nýjum veruleika, eins og hann komst að orði. Gyldendal hefði verið alltof lengi að bregðast við breytingum á markaðnum, hljóðbókum og netútgáfu. Árið 2020 stofnaði Gyldendal, ásamt fleiri útgefendum, net- og hljóðbókafyrirtækið Chapter. Þegar fyrirtækið hafði starfað í eitt ár drógu samstarfsfyrirtæki Gyldendal sig út úr rekstrinum. Það kostar mikið fé að koma net- og hljóðbókafyrirtæki á laggirnar og Chapter hefur enn sem komið er verið rekið með tapi. Chapter var hugarfóstur Morten Hesseldahl en stjórnin deildi ekki skoðunum hans varðandi fyrirtækið. Í áðurnefndri tilkynningu til kauphallarinnar kom fram að Gyldendal myndi nú leggja megináherslu á kjarnastarfsemi, án þess að það væri útskýrt nánar. Í áðurnefndu viðtali við Berlingske sagði Lars Ole Kornum að Morten Hesseldahl hefði ætlað sér of mikið, hann hefði haft ákveðnar skoðanir á hvað þyrfti að gera en „haft fleiri bolta á lofti en fyrirtækið réði við“.
Gyldendal ekki á leið í gröfina
Danskir fjölmiðlar hafa fjallað talsvert um Gylendal og stöðu fyrirtækisins síðan fréttirnar af uppsögn Morten Hesseldahl bárust. Allir virðast á einu máli um að Gyldendal sé ekki að komast í þrot. Fyrirtækið sé mjög stórt og öflugt og geti staðið af sér tímabundna erfiðleika. Það sem við blasi sé að rétta kúrsinn og það sé ærið verkefni. Hanne Salomonsen tekur tímabundið við sem framkvæmdastjóri Gyldendal. Hún hefur um árabil verið yfirmaður þeirrar deildar Gyldendal sem annast útgáfu námsefnis