Dan Bilzerian er vinsæll á samfélagsmiðlum og hefur verið kallaður konungur Instagram vegna vinsælda hans þar, en 5,8 milljónir manna eru fylgjendur hans á miðlinum. Í Bandaríkjunum hefur farið fram mikil umræða að undanförnu um ímynd hans og vinsældirnar, hvernig hann birtist milljónum manna um allan heim og hvort framferði hans ýti undir hlutgervingu kvenna og beinlínis ofbeldi. Hann er samanlagt með tæplega fjórtán milljónir manna í samfélagsmiðlaneti sínu og því áhrifamikill, svo ekki sé meira sagt. Sérstaklega er það gjálífislífstíll hans og staðalímyndirnar sem hann gerir í því að ýta undir, einkum með myndum af sér með skotvopn, reiðufé, sportbíla, snekkjur og konur í kringum sig.
Djúpar rannsóknir ekki fyrir hendi
Samfélagsmiðlarnir eru tiltölulega nýtt fyrirbæri, með kostum sínum og göllum. Í reynd er lítið vitað um áhrif þeirra á hegðun fólks, skoðanamyndun og lífsýn. Engar langtímarannsóknir á félagslegum áhrifum samfélagsmiðlana liggja fyrir, enda er það ógjörningur í ljósi þess stutta tíma sem innreið þeirra hefur varað. Aðeins er tæplega áratugur frá því samfélagsmiðlar á borð við Facebook, Instagram og Twitter voru stofnaðir sem fyrirtæki (Facebook elstur, stofnaður 2004), en vöxtur þeirra, útbreiðsla og áhrif hafa margfaldast ár frá ári, einkum frá árinu 2008. Hlutverk þeirra í lífi fólks er fyrir löngu orðið það vegamikið að hefðbundnir fjölmiðlar eru hvergi nærri eins áhrifamiklir, í það minnsta á þann mælikvarða að fólk eyðir mun meiri tíma í að nálgast upplýsingar í gegnum samfélagsmiðla heldur en beint hjá hefðbundnum fjölmiðlum. Þeir leggja til efni, sem samfélagsmiðlarnir grípa, en það er aðeins lítill hluti af öllu því sem berst milli fólks í gegnum samtengingu samfélagsmiðlanna. Í dag eru ríflega tveir milljarðar einstaklinga skráðir sem notendur á samfélagsmiðlum heimsins, þar af flestir á miðlum sem heyra undir Facebook. Um 1,3 milljarða manna eru með Facebook aðgang, og þar af eru 864 milljónir manna með daglega notkun. Á Instagram, sem Facebook á, eru notendurnir um 300 milljónir og flestir mun virkari en notendur Facebook. Ótrúlegt er að hugsa til þess að þessi notendauppbygging hafi átt sér stað á aðeins nokkrum árum en hún nær til 23 prósenta af íbúum jarðar, og hlutfallið hækkar stöðugt.
Tilverugrundvöllur Dan Bilzerian
Það er í þessum veruleika sem Dan Bilzerian hefur orðið að áhrifavaldi um allan heim, hvort sem fólki líkar það betur eða verr. Með grófri framsetningu á myndum, einkum af léttklæddum eða nöktum konum, oft í samhengi við peningabúnt og tryllitæki ýmis konar, fór hann að afla sér vinsælda sem hafa breytt honum í táknmynd velgengni í hugum margra. Alls ekki allra þó, sem telja sig sjá í gegnum falska veröld þessa fyrrverandi hermanns, og hafa fjölmiðlar í Bandaríkjunum meðal annars velt því upp, hvernig hann fari að þessu. Hvaðan koma peningarnir? Að þessu spurði Wall Street Journal, einn útbreiddasti fjölmiðill heimsins, í ítarlegri umfjöllun um Bilzerian í september síðastliðnum. Bilzerian segir í samtali við Wall Street Journal að hann sé með fulla vasa fjár vegna peninga sem hann hafi unnið í póker, en er ekki tilbúinn að tjá sig frekar um auð sinn. Eins og greint var frá í fréttaskýringu um Bilzerian á vef Kjarnans í gær hefur hann viðurkennt að hafa aðgang að sérstökum sjóði (Trust fund) sem faðir hans, Paul Bilzerian, gaf honum. Sá hefur átt skrautlegan feril sem fjárfestir og er nú með bandaríska fjármálaleftirlitið (SEC) á hælunum vegna vafasamra aðferða við að ávaxta fjárfestingar sínar og undanskot frá skatti. Það sem líka fylgdi sögunni er að hann er talinn hafa skotið þessum fjármunum undan kröfuhöfum sínum. Ekki er vitað hversu miklir peningar þetta eru, en miðað við lífstílinn hjá syni hans er ljóst að þetta gætu verið miklir fjármunir.
Fyrst ris og síðan fall?
Eftir ógnarhraðan vöxt á samfélagsmiðla neti sínu á þessu ári eru teikn á lofti um að hin umdeilda ímynd hans sé að falla og það með nokkrum hvelli. Nokkur atvik að undanförnu benda til þess að hann sé ekki með öllum mjalla, sé beinlínis hættulegur umhverfi sínu og beiti konur miskunnarlausu ofbeldi. Hann hefur verið kærður fyrir að sparka í hausinn á fyrirsætunni Vanessu Castano á næturklúbbi í Miami í síðustu viku, en dómsniðurstaða liggur ekki fyrir enn. Þá var Bilzerian handtekinn á flugvellinum í Los Angeles í síðustu viku, grunaður um að hafa brotið lögum um meðferð vopna á opinberu landi, þegar hann var að sprengja upp ýmsa hluti í Kalifornínu. Óljóst er hvort hann mun verða ákærður en yfirgnæfandi líkur eru á því, þar sem myndbönd sem hann tók upp sjálfur þykja sýna glögglega að hann hafi brotið gegn lögum.
Ímyndarstríð Bilzerian gæti því allt eins tapast fyrir hann sjálfan á endanum, þó hann láti eins og hann lifi fullkomnu lífi. Hvort hið áhrifamikla dagskrárvald sem samfélagsmiðlaaðgangar hans hafa í lífi fólks verður tilefni til frekari umræðu um staðalímyndir og hlutgervingu, þegar að fjölmiðlun og samfélagsmiðlunum kemur, skal ósagt látið. En margt bendir til þess að ekki sé vanþörf á að kafa dýpra ofan í þau mál, eins og hið opinbera vafasama glaumgosalíferni Bilzerian er til vitnis um.