Smásölurisinn Hagar, sem rekur meðal annars verslanir undir merkjum Bónuss og Hagkaup, hefur átt góðu gengi að fagna síðan fyrirtækið var skráð á markað í lok árs 2011. Skráningin markaði upphafið á endurreisn hlutabréfamarkaðarins eftir hrunið, en hann hrundi nær alveg til grunna með falli bankanna haustið 2008. Frá skráningu fyrirtækisins á markað hefur fyrirtækið greitt hluthöfum, að stórum hluta íslenskum lífeyrissjóðum, 2,4 milljarða króna í arð.
Mikil ávöxtun hlutafjár
Óhætt er að segja að fjárfestar hafi fengið góða ávöxtun á féð sem fór í hlutabréf í Högum við upphafi skráningar, en skráningargengi félagsins var 13,5 en gengi bréfa félagsins í lok dags á föstudag, ríflega þremur árum eftir skráninguna er 42,3. Fyrirtækið hefur lítið breyst á þessum tíma en Finnur Árnason forstjóri hefur sagt, að meginmarkmiðið hjá fyrirtækinu sé að viðhalda góðri afkomu af kjarnastarfsemi. Fá fyrirtæki á Ísland, ef þá nokkur, eru í jafn miklum viðskiptum við almenning og Hagar þegar kemur að nauðsynjavörum ýmis konar, og gefur rekstur þess ákveðna mynd af því hvernig neysla Íslendinga er að þróast.
Í fréttatilkynningu frá félaginu, samhliða uppgjöri fyrir þriðja ársfjórðung rekstrarársins 2014 til 2015, má greina stefnubreytingu einkum þegar kemur að arðgreiðslustefnu. Greining Arion banka fer í gegnum þessar upplýsingar í nýrri greiningu til viðskiptavina sinna, í tilefni af fyrrnefndu uppgjöri, sem Kjarninn hefur undir höndum. Fyrirtækið er upp við vegg þegar kemur að vaxtarmöguleikum á markaði, svo að segja, þar sem vaxtamöguleikar eru takmarkaðir. Erfitt að sjá að hvernig fyrirtækið á að geta vaxið meira, og raunar frekar spurning hvernig fyrirtækinu á eftir að takast að halda markaðshlutdeild í vaxandi samkeppni, ekki síst ef alþjóðlegi verslunarrisinn Costco opnar verslun hér á landi síðar á árinu, eins og fram hefur komið stefnt sé að. Þá er samkeppni við erlenda verslun sífellt að harðna, ekki síst með aukinni vefverslun landsmanna.
Tekjur aukast lítið eitt
Tekjur félagsins á síðasta ársfjórðungi námu 18,4 milljörðum króna, en á sama tímabili ári fyrr námu þær tæplega átján milljörðum. Það er meiri vöxtur en spár höfðu gert ráð fyrir, en nemur þó ekki nema 0,6 prósentum að teknu tilliti til verðbólgu á tímabilinu. Heildartekjur Haga á rekstrarárinu 2014 til 2015 eru áætlaðar 77,3 milljarðar króna, samkvæmt spá Arion banka, en þær námu 76,1 milljarði á síðasta rekstrarári. Rekstur Haga hefur verið stöðugur eftir að félagið var skráð á markað, og skilaði tæplega fjögurra milljarða króna hagnaði á síðasta heila rekstrarári, en spá gerir ráð fyrir lítið eitt meiri hagnaði á yfirstandandi ári, eða ríflega fjögurra milljarða króna hagnaði.
Stefnubreyting í arðgreiðslum
Í greiningu Arion banka á stöðu Haga kemur fram að stjórn félagsins muni fyrir næsta aðalfund kynna breyttar áherslur til að koma fjármagni til hluthafa í ljósi þess að núverandi skuldastaða félagsins (NIBD/T12M EBITDA er 0,25) gefi tilefni til áherslubreytinga.
„Upphafleg arðgreiðslustefnu mun þó áfram vera óbreytt og mun taka til sömu fjögurra meginþátta. Áherslan hefur einna helst verið á niðurgreiðslu skulda ásamt fasteignakaupum að einhverju leyti, því má velta fyrir sér að með áherslubreytingunni verði í auknum mæli horft til hinna tveggja þátta arðgreiðslustefnu félagsins, þ.e. arðgreiðslna og eða kaupa á eigin bréfum,“ segir í greiningu Arion banka.
Þrír stærstu hluthafar Haga eru Gildi lífeyrissjóður, með tæplega 11 prósent hlut, Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins með 8,75 prósent hlut og Lífeyrissjóður verzlunarmanna með 8,18 prósent hlut. Lífeyrissjóðir landsmanna eiga samanlagt meira en helming alls hlutafjár í smásölurisanum.