Sunnudagurinn 3. júlí 2022 líður Dönum líklega seint úr minni. Ekkert benti til að þessi sólardagur þar sem Danir á öllum aldri nutu veðurblíðunnar yrði öðruvísi en margir aðrir góðviðrisdagar. Eins og ævinlega um helgar voru mörg þúsund manns í vöruhúsinu Field´s á Amager í Kaupmannahöfn.
Field´s er eitt stærsta vöruhús á Norðurlöndum, þar eru um það bil 140 verslanir, 22 veitinga- og kaffistaðir, ballettskóli, nuddstofur, jógaskóli, snyrtistofur, apótek og fleira mætti telja. Field´s var opnað árið 2004 og fyrirfram spáðu margir vöruhúsinu ekki bjartri framtíð, ef svo mætti segja. Svartsýnisspár rættust ekki, og strax fyrstu vikuna komu um það bil 250 þúsund manns í Field´s.
Á þeim 18 árum sem liðin eru frá opnun Field´s hefur ýmislegt breyst, verslanir hafa komið og farið. Í ágúst 2015 opnaði Nordisk Film kvikmyndahús í Fields, þar eru níu salir með sætum fyrir 1.400 manns. Í viðtali fyrir nokkrum árum var framkvæmdastjóri Field´s spurður hver væri galdurinn bakvið starfsemina. Hann sagði að til að fólk vildi koma í vöruhús eins og Field´s þyrfti fjölbreytni. Nokkrar lykilverslanir væru nauðsyn og nefndi í því sambandi stórverslunina Bilka, Magasin, H&M, Zara og Elgiganten. Ætíð hefði verið lögð áhersla á að í Field´s væri fjölbreytt úrval verslana, eitthvað fyrir alla, og það hefði að sínu mati tekist sagði framkvæmdastjórinn.
Klukkan 17.35 var hringt
Þótt veðrið væri gott þennan sunnudag hafði danska lögreglan víða um land í nógu að snúast. Ekki síst varðandi umferðina, þriðji áfangi hjólreiðakeppninnar Tour de France var farinn þennan dag og sömuleiðis voru margir, sem sótt höfðu Hróarskelduhátíðina, á heimleið. Þetta var til viðbótar „hefðbundinni“ sunnudagsumferð, eins og varðstjóri í dönsku lögreglunni komst að orði.
Klukkan 17.35 barst lögreglu tilkynning um skothríð í Field´s. Þar gengi vopnaður maður um og skyti á fólk. Lögregla brást skjótt við og fjölmennt lið fór þegar á staðinn. Þrettán mínútum síðar hafði lögreglan handtekið 22 ára karlmann, sem sat á hækjum sér skammt frá Field´s og talaði í síma þegar lögreglan kom að honum, með riffil sér við hlið. Maðurinn situr nú í gæsluvarðhaldi, á lokaðri réttargeðdeild.
Þrír létust og tíu særðir
Ekki liggur ljóst fyrir, hve lengi maðurinn var inni í Field´s. Húsið, sem er vel á annað hundrað þúsund fermetra á stærð, er á þremur hæðum. Á efstu hæð eru veitingastaðir, á annarri hæð verslanir og kvikmyndahús og á jarðhæðinni verslanir. Á upptökum og samkvæmt framburði vitna fór maðurinn nokkuð víða á tveim efstu hæðunum. Þegar hann fór úr húsinu hafði hann orðið þremur að bana og sært tíu til viðbótar, þrjá þeirra alvarlega. Nokkrir hlutu skrámur þegar þeir forðuðu sér úr húsinu. Lögregla hóf strax rannsókn á því sem gerðist og hefur þegar talað við fjölda fólks sem var í húsinu. Sú vinna tekur langan tíma að sögn talsmanns lögreglunnar.
Athyglin beinist að geðheilbrigðisþjónustunni
Danska lögreglan hefur verið spör á upplýsingar þótt ýmislegt hafi komið fram. Á fréttamannafundi upplýsti talsmaður lögreglunnar að dönsku geðheilbrigðisþjónustunni hefði verið kunnugt um manninn sem nú er í haldi, en vildi ekki útskýra það nánar.
Danskir fjölmiðlar greindu frá því að skömmu áður en maðurinn lét til skarar skríða hafi hann símleiðis reynt að ná sambandi við neyðarlínu geðheilbrigðismála en þar hefði enginn svarað. Þessar fréttir hafa vakið mikla athygli og beint sjónum að stöðu geðheilbrigðismála í Danmörku.
Rétt meðferð og viðbrögð breyta miklu
Gitte Ahle, réttarsálfræðingur og fyrrverandi formaður dönsku geðhjálparsamtakanna, Dansk Psykiatrisk Selskab, skipulagði árið 2019 rannsókn á afbrotum geðsjúkra. Árið 2016 frömdu geðsjúkir einstaklingar í Danmörku samtals 218 afbrot, þar af voru 13 manndráp eða tilraunir til manndráps. Niðurstaða rannsóknarinnar var að unnt hefði verið að koma í veg fyrir 11 tilvik af þessum 13 ef sá sem brotið framdi hefði fengið viðeigandi hjálp. „Þetta eru sláandi tölur,“ sagði Gitte Ahle.
Í viðtali við danska útvarpið, DR, sagðist Gitte Ahle telja að ástandið í dag væri óbreytt á þeim sex árum sem liðin eru frá rannsókninni. „Umbætur ganga alltof hægt, það er ekki nóg að gera áætlanir, þær hafa verið gerðar. En þær hafa ekki komist í framkvæmd.“
Poul Videbech, prófessor í sálfræði við Hafnarháskóla sagði í viðtali við danska útvarpið að geðheilbrigðisþjónustan í Danmörku ætti í vök að verjast. Hann tók fram að hann væri ekki að vísa til þess sem gerðist í Field´s. „Við vitum að það eru alltof fá pláss á geðhjúkrunarheimilum og alltof oft eru sjúklingar útskrifaðir allt of fljótt, til að rýma fyrir öðrum.“
Símaþjónustan takmörkuð vegna fjárskorts
Eins og nefnt var hér að framan hafa fjölmiðlar greint frá því að maðurinn sem lögreglan handtók eftir ódæðin í Field´s hafi skömmu áður reynt að hringja í neyðarlínu geðheilbrigðismála en enginn hafi svarað í símann. Fram hefur komið að vegna fjárskorts geti símaþjónusta neyðarlínunnar ekki verið opin allan sólarhringinn og um helgar sé sömuleiðis lokað. Þetta hefur verið harðlega gagnrýnt.
Kosningaloforð orðin tóm enn sem komið er
Úrbætur í geðheilbrigðismálum var meðal kosningaloforða jafnaðarmanna fyrir þingkosningarnar árið 2019. Nú eru þrjú ár liðin af kjörtímabilinu en ekkert bólar á úrbótunum. Í janúar á þessu ári lagði Sundhedsstyrelsen (hliðstætt Landlæknisembættinu) fram áætlun um úrbætur og aðgerðir í geðheilbrigðismálum en hún hefur ekki enn komið til kasta þingsins. Þegar heilbrigðisráðherrann var spurður út í þetta á fréttamannafundi sagði hann að þetta væri á dagskrá þingsins í september.
Margir þingmenn hafa krafist þess að málið verið tekið fyrir strax í næsta mánuði þegar sumarleyfi þingmanna lýkur. Ráðherrann hefur lýst yfir að hann sé því samþykkur. Margir þingmenn hafa í viðtölum við fjölmiðla sagt að brýnt sé að koma upp sólarhrings símaþjónustu sem þeir sem eigi við geðrænan vanda að stríða geti haft samband við.
Fram hefur komið að vel á annað þúsund manns hafa haft samband við neyðarþjónustu Rauða krossins eftir skotárásina í Field´s. Svæðisráð Kaupmannahafnar hefur haft tæplega 70 sérfræðinga til að svara í síma og veita aðstoð þeim sem á þurfa að halda eftir atburðina á sunnudag. Þeir hafa svarað um það bil eitt þúsund símtölum síðan á mánudagsmorgun.