Árið 1995 héldu átta menn fund í Kaupmannahöfn. Í fundarboðinu stóð að ræða ætti þá hugmynd að koma á í Danmörku samræmdu fargjaldakerfi fyrir lestir, strætisvagna og ferjur. Fundarboðandi kallaði hugmyndina Rejsekort, Farkort. Fundarmönnum leist vel á hugmyndina og nafnið. Líklega hefur það ekki hvarflað að áttmenningunum að tuttugu árum síðar yrði þessi, að þeim fannst, bráðsnjalla hugmynd kölluð heimsmet í klúðri í dönskum fjölmiðlum.
Áðurnefndan fund sátu stjórnendur dönsku járnbrautanna og annarra stærstu samgöngufyrirtækja landsins, auk fulltrúa danska samgönguráðuneytisins. Á þessum tíma voru í gangi tuttugu og sex mismunandi fargjaldakerfi í landinu og lítil sem engin samræming og takmörkuð samvinna. Fram kom á þessum fundi að maður sem ætlaði sér að ferðast frá Kaupmannahöfn til Álaborgar þyrfti að kaupa að minnsta kosti fimm, jafnvel sex, mismunandi miða til að komast á leiðarenda. Þar að auki þyrfti þessi sami maður að hafa mikið fyrir að finna út hvað ferðalagið myndi kosta, hvort væri hagstæðara að leggja í hann að morgni eða síðdegis, um helgi eða á virkum degi og svo framvegis. Fargjaldakerfið væri sem sé algjör frumskógur þar sem erfitt var að rata. Farkort væri lausnin.
Fundir og kaffi
Þótt áttmenningarnir á fundinum 1995 hafi verið sammála um að Farkortið væri ákjósanleg leið út úr fargjaldafrumskóginum gerðist fátt. Stjórnendur samgöngufyrirtækjanna ræddu málið og fóru sér að engu óðslega, málið var rætt innan ráðuneyta samgöngu, viðskipta og fjármála. Formlega og óformlega „hundruð funda, þúsundir kaffibolla,“ sagði yfirmaður hjá Dönsku járnbrautunum.
Járnbrautalest í Danmörku. Mynd: Wikipedia
Svo var tekin ákvörðun
Eftir átta ár, árið 2003, var loks tekin ákvörðun um að láta til skarar skríða, breyta orðum í athafnir, eins og þáverandi samgönguráðherra orðaði það. Sérstakt fyrirtæki, Rejsekort A/S var stofnað, að því stóðu sjö stærstu samgöngufyrirtæki landsins. Tvö ár liðu hinsvegar þangað til málið var afgreitt í þinginu.
Þegar samþykki þingsins var í höfn var efnt til samkeppni um að hrinda verkinu í framkvæmd. Ýmsir gagnrýndu að fyrirtækið sem varð fyrir valinu, East-West Danmark (EWD) væri í eigu vopnaframleiðanda, en fyrirtækið samdi síðan við IBM um hina tæknilegu útfærslu varðandi ferða- og greiðsluskráningu og fleira þess háttar. Sá samningur var undirritaður haustið 2005 og samkvæmt honum átti Farkortið að komast í gagnið árið 2009.
Ekki einfalt mál
Róm var ekki byggð á einum degi segir máltækið. Líkt reyndist það með danska Farkortið, það var svo sannarlega ekki hrist fram úr erminni. Það varð semsé fljótt ljóst að áætlunin um að kortið yrði komið í notkun árið 2009 var algjörlega óraunhæf. Forsvarsmenn EWD tilkynntu strax árið 2006 að verkefnið væri bæði mun tímafrekara og flóknara en þeir, og allir aðrir, hefðu gert sér grein fyrir. „Það er ekki bara ljón á veginum heldur heil ljónahjörð,“ sagði fjölmiðlafulltrúi fyrirtækisins.
Öllum var líka ljóst að tæplega yrði aftur snúið og gerðir voru viðbótarsamningar, bæði um tímamörk og fjárveitingar til verksins. Árið 2007 byrjaði hópur lestafarþega, sjálfboðaliðar, að „prufukeyra“ kerfið á leiðinni frá Hróarskeldu til Tølløse á Sjálandi, um 30 kílómetra leið. Ári seinna var forstjóri Farkortsfélagsins rekinn og einn af stjórnendum Dönsku járnbrautanna tók við. Það breytti litlu.
Stjórnmálamenn ókyrrast
Þegar kom fram á árið 2009 var deginum ljósara að Farkortið yrði ekki komið í gagnið áður en árið yrði á enda runnið. Nú fóru stjórnmálamenn að ókyrrast, kosningar nálguðust og ekki beinlínis heppilegt að „vera með þetta Farkortslík í lestinni,“ eins og einn ráðherra orðaði það.
Ríkisstjórn Venstre og Íhaldsflokksins hafði setið að völdum frá árinu 2001 og hafði tekið ákvörðun um að gera Farkortið að veruleika. Um mitt ár 2010 tilkynnti EWD að setja yrði meira fé í verkið og Farkortið yrði ekki komið í gagnið fyrr en 2013. Samgönguráðherrann trompaðist og 1. desember veitti hann fyrirtækinu hálfs mánaðar frest til að gera grein fyrir því hvort þetta Farkort yrði yfirleitt að veruleika. Svör EWD voru loðin.
Þann 17. desember sama ár krafðist stjórn Rejsekort A/S þess að EWD ábyrgðist að Farkortið yrði komið í notkun um allt land árið 2012. Annars yrði einfaldlega hætt við allt saman. Þegar þarna var komið var kostnaðurinn orðin rúmur milljarður danskra króna (tæpir tuttugu milljarðar íslenskir) og augljóst að hann ætti eftir að aukast umtalsvert ef takast ætti að gera Farkortsdrauminn að veruleika.
Hætt við að hætta en loks hætt
Tilgangurinn með Farkortinu átti að vera sá að kerfið yrði einfalt, notandinn þyrfti ekki að vera að stússast í miðakaupum sí og æ, kaupa marga miða til að ferðast innanlands og svo framvegis. Farkortið er hægt að hafa í síma eða hafa kort (eins og greiðslukort) sem svo er borið upp að sérstökum skynjara í upphafi og lok ferðar. Notandinn verður sér úti um kortið í upphafi og kaupir tiltekna inneign. Þegar komið er á áfangastað og „stimplað út“ sést hvað fargjaldið kostar og jafnframt sést inneignin. Boðið er uppá „sjálfvirka áfyllingu,“ þegar inneignin er komin í lágmark, þá færir bankinn umsamda upphæð inn á kortið.
Hið sögufræga danska klippikort sem brátt verður aflagt með öllu. Mynd: Borgþór Arngrímsson.
Þetta hljómar allt mjög vel, og einfalt, en ljónin á veginum hafa verið fleiri og stærri en nokkurn grunaði. Meðal þess sem Farkortið átti að leysa af hólmi var hið svokallaða klippikort sem margir nota. Klippikortið var selt í sjoppum og verslunum, mjög einfalt og vinsælt, ekki síst meðal ferðamanna. Tilkynnt var að sölu klippikortsins yrði hætt 1. apríl 2011. Þegar ljóst var að Farkortið yrði ekki komið í gagnið, og ekkert kæmi í stað klippikortsins, kröfðust stjórnmálamenn þess að það yrði áfram í boði. Til að gera langa sögu stutta var sölu klippikortsins endanlega hætt 8. febrúar í ár, tæpum fjórum árum seinna en til stóð. Hægt verður að nota kortin til 30. júní næstkomandi. Fólk kvartar hástöfum en það breytir engu, dagar klippikortsins eru taldir.
Notendur Farkortsins eru nú um það bil milljón. Það eru langtum færri en gert var ráð fyrir og færri notendur þýðir minni tekjur. Nýlega kom fram í fjölmiðlum að kostnaðurinn vegna kortsins væri kominn í rúma tvo milljarða danskra króna (tæpa fjörutíu íslenska). Og á eftir að aukast er fullyrt.
Annríki í kvörtunardeildinni
Það er mikið annríki í kvörtunardeild Farkortsins. Um þessar mundir berast um það bil 18 þúsund kvartanir á mánuði. Þær eru margs konar: fólk skilur ekki hvernig kortið virkar, þarf að stimpla sig út og aftur inn ef farið er úr lest yfir í strætó og svo framvegis og svo framvegis.
Í upphafi var mikið kvartað yfir háum sektum ef fólk gleymdi að stimpla sig út í lok ferðar (slík tilfelli voru 800 þúsund í fyrra). Ráðherra greip þá í taumana og nú telst sektin mjög hófleg. Í upphafi átti einnig að tryggja að fargjald keypt með Farkorti yrði aldrei dýrara en hefðbundnir miðar eða mánaðakort. Þetta hefur ekki staðist í öllum tilvikum.
Framtíðin
Danski samgönguráðherrann sagði fyrir nokkru í viðtali að fæðingarhríðir Farkortsins hefðu bæði verið langar og strangar. Engan hefði grunað hversu flókið þetta verkefni væri þegar upp var lagt og að augljóst væri að tíminn sem áætlaður var til að koma þessu kerfi á hefði verið allt of skammur. En það væri auðvelt að vera vitur eftir á. Ráðherrann sagði sömuleiðis að þetta verkefni (sem ekki væri lokið) væri mjög metnaðarfullt og ætti sér vart eða ekki hliðstæðu í veröldinni.
Hér gefur að líta Magnus Heunicke, samgöngumálaráðherra Danmerkur (fyrir miðju), á blaðamannafundi fyrir skemmstu. Mynd: EPA
Heimsmet sem enginn kærir sig um að eiga
Agnúum Farkortsins fækkar eftir því sem meiri reynsla kemur á notkun þess, notendunum fjölgar og draumurinn um einfalt fargjaldakerfi er í dag miklu nær því að rætast en hann var fyrir einungis tveimur árum síðan. Flestir eru sammála um þetta. Fjölmiðlarnir, sem taka ekki á stjórnmálamönnum með silkihönskum heldur draga þá óhikað yfir naglabrettið, segja að Farkortsævintýrið endi örugglega vel en það breyti ekki því að það hafi einkennst af vandræðagangi, óheyrilegum kostnaði og alls kyns veseni. Málið sé ótvírætt heimsmet í klúðri.