Núna í september verða haldnar þingkosningar í Svíþjóð þar sem rúmlega 7,5 milljónir Svía geta nýtt kosningarétt sinn en einnig er kosið í sveitarstjórnir. Helstu átakalínur kosninganna hafa verið að myndast undanfarið og virðast þrenn málefni ætla að verða þau helstu sem tekist verður á um: staða heilbrigðis- og menntakerfis, hækkandi glæpatíðni og síðast en ekki síst þjóðaröryggismál í ljósi hegðunar Rússa í Evrópu.
Í þessari fyrstu grein af þremur er farið yfir sögu sænskra stjórnmála á seinni hluta síðustu aldar með áherslu á breytingar í rekstri á velferðarkerfinu.
Sögulegar kosningar
Það eru einna helst þrír þættir sem gera komandi kosningar einstakar í sænskri stjórnmálasögu: í fyrsta lagi er það vilji næst stærsta flokks Svíþjóðar, Hægriflokksins (s. Moderaterna), að vinna með Svíþjóðardemókrötum (s. Sverigedemokraterna) sem hafa hingað til verið úti í kuldanum þegar kemur að samstarfi við aðra flokka. Svíþjóð gæti þess vegna fengið sína fyrstu hægriþjóðernissinnuðu ríkisstjórn, eða allavega ríkisstjórn sem studd er með beinum hætti af hægriþjóðernispopúlistaflokki. Núna stýrir Magdalena Andersson landinu og fer fyrir hönd eins flokks minnihluta Sósíaldemókrata.
Í öðru lagi eru Svíar, sem hafa verið hlutlausir í vopnuðum átökum í nærri 200 ár, að ganga í Norður-Atlantshafsbandalagið (NATO), nú á meðan kosningar verða haldnar.
Í þriðja lagi hefur glæpatíðni í Svíþjóð aldrei verið hærri en hún er í dag (næst hæst innan Evrópusambandsins) og keppast nú flokkar, aðallega hægra megin við miðju, um það hver muni taka harðar á þessu nýja vandamáli, með til dæmis auknum lagaheimildum til handa lögreglu.
Það er erfitt að halda því fram að sænsk stjórnmál hafi í gegnum tíðina verið tíðindalaus, sérstaklega þar sem forsætisráðherra landsins var ráðinn af dögum á seinni hluta níunda áratugarins og ýmsar fleiri krísur hafa dunið á landsmönnum. Þó höfðu sænsk stjórnmál lengi ráðist innan ákveðins ramma og ákveðinna forsenda sem stóðust lengi vel. Sósíaldemókratar (s. Socialdemokraterna) voru stærsti flokkurinn og hægra megin við þá voru einna helst Hægriflokkurinn, Frjálslyndi flokkurinn (s. Liberalerna) og Miðflokkurinn (s. Centerpartiet). Þessum flokkum tókst þá annað hvort tímabundið að ná völdum af Sósíaldemókrötum eða veitti ríkisstjórnum þeirra annars aðhald.
Innan þessa pólitíska ramma byggðist upp stórt og örlátt velferðarkerfi á seinni helmingi tuttugustu aldar byggt á þverpólitískum vilja og sameignarstefnu. Í dag eru töluvert breyttar horfur í sænskum stjórnmálum þegar kemur að þessum málum en líka þegar að kemur að landamæra og innflytjendastefnu landsins. En þó svo að fyrst núna sé mögulega þjóðernispopúlistaflokkur að komast til valda í fyrsta skipti eru þeir pólitísku straumar sem hann byggir á ekki nýir – þeir hafa bara fyrst núna að verið að verða hluti af meginstraumnum. Til að skilja betur hvers vegna svo er – og hvers vegna Svíþjóð er á sínum tiltekna stað í dag – er viðeigandi að líta aðeins til baka.
Heljartak Sósíaldemókrata og hin breiða pólitíska sátt
Það má segja að frá upphafi tuttugustu aldar hafi Svíþjóð tekist að sameina bæði mikla velferð og töluverða hagsæld. Þegar líða fór að seinni hluta tuttugustu aldar fór þó róðurinn að verða þyngri og deilumálin stærri. Fjármálakreppa í upphafi tíunda áratugarins hafði töluverð áhrif á undirstöður sænska velferðarríkisins sem hafði jafnframt náð hátindi sínum á sjöunda áratugnum. Stöðnun og hækkandi verðbólga höfðu orðið áberandi á áttunda og níunda áratugnum og um leið fór að fjara undan hinni breiðu þverpólitísku sátt sem hafði einkennt stjórnmál landsins, einkum Sósíaldemókrataflokkinn.
Nýfrjálshyggjan hafði verið að ryðja sér til rúms á níunda áratugnum á Vesturlöndum og sótti hún einnig í sig veðrið í sænskum stjórnmálum, þá einna helst undir flaggi Hægriflokksins. Síðan þá er óhætt að segja að áhrif nýfrjálshyggjunnar í formi aukins einkareksturs og niðurskurðar innan velferðarkerfisins hafi verið talsvert áberandi.
Velferðarríkið Svíþjóð verður til
Það var ekki bara sænska velferðarríkið sem varð fyrir áhrifum af nýfrjálshyggjunni undir lok tuttugustu aldar. Það má segja að nýfrjálshyggjan hafi á ákveðinn hátt verið svar við efnahagslegum erfiðleikum áttunda áratugarins þar sem hið langa hagvaxtarskeið Vesturlanda leið undir lok með heljarinnar olíukrísu. Gagnrýnisraddir varðandi velferðarkerfið höfðu þó farið að heyrast strax á seinni hluta sjöunda áratugarins úr hægriátt varðandi ofsköttun en einnig úr vinstriátt vegna skrifræðis, svo dæmi má nefna. Að auki var augljóst að kostnaður velferðarkerfisins hafði orðið æ meri með árunum.
Á öldum áður hafði velferð einkum verið í formi ölmusu fátæktarhjálpar stjórnvalda og kirkjunnar. Þá var fjölskyldan oft á tíðum eina öryggisnet fólks þegar kom að velferð. Með aukinni þéttbýlismyndun og fólksfjölgun á nítjándu öld sköpuðust breyttar forsendur fyrir betra lífi meðal verkalýðs í Vestur-Evrópu. Í Skandinavíu urðu til sérstaklega sterkar verkalýðshreyfingar sem náðu smámsaman að færa baráttumál sín á borð pólitískra ákvaðanna. Í Svíþjóð voru það Sósíaldemókratar sem helst börðust fyrir réttindum verkalýðsins.
Eftir síðari heimsstyrjöld byggðist hugmyndafræði sænskra stjórnvalda –með Sósíaldemókrata í fararbroddi– einkum á þeirri hugsjón að ef að ríkið tryggði öllum þegnum sínum hágæða velferðarþjónustu myndi eftirspurnin eftir einhvers konar betri þjónustu á vegum einkaaðila hverfa. Kerfið, byggt á almennum gildum um jafnrétti, átti þannig að vernda þegna sína fyrir skertum lífskjörum, til dæmis vegna slæmrar heilsu, elli og óhöppum. Þetta yrði svo öllum þegnum ríkisins, sama hvernig þeir stæðu, til góðs.
Hið sænska velferðarríki byggðist í grunninn á ákveðinni þversögn ef svo má að orði komast. Velferðarríkið varð til vegna mikillar samstöðu innan verkalýðsbaráttunnar en átti jafnframt að skapa kerfi sem byggist á mikilli einstaklingshyggju. Það er að segja, hver einasti einstaklingur innan samfélagsins átti að geta reitt sig á ríkið og þurfti þess vegna ekki að reiða sig á geðþóttaákvarðanir annarra einstaklinga til að lifa af.
Einnig er vert að taka fram að hugmyndin og mótun þessa velferðarríkis var ekki einungis hugarfóstur ábyrgra vinstri manna, heldur var hún byggð á breiðri sátt um þörf þess. Bæði hægriöfl og bændaforystan voru mótandi í innleiðingu þess. Það má þess vegna segja að grunnhugmyndin um velferðarríkið hafi í gegnum tíðina verið talsvert bundin við þjóðarsjálfsmynd landsins sem var þegar leið á seinni hluta tuttugustu aldar lengi vel talsvert einsleit.
Hnignun sænska velferðarríkisins undir lok tuttugustu aldar
Uppúr 1970 skall á efnahagsleg lægð í Svíþjóð sem hafði einnig látið til sín taka á öðrum Vesturlöndum sem fól meðal annars í sér að útflutningsmarkaðir erlendis hurfu og hagvöxtur drógst saman. Gríðarlegur halli á ríkissjóði hafði síðan myndast við lok áratugarins og fór að bera á efasemdum um velferðarríkið, kostnað þess og skrifræði þegar leið á níunda áratuginn. Einnig fór að bera á heldur frjálslegri tón þegar kom að vali fólks á þjónustu, einkum þar sem sveitarfélög voru þarna í basli við að fjármagna örláta heilbrigðisþjónustu sína. Allan áttunda áratuginn hafði verðbólga verið hærri en í nágrannalöndum (rúmlega 9%) og voru gengisfellingar tíðar.
Velferðarríkið og form þess var mikið rætt um miðjan níunda áratuginn en gagnrýnisraddir hægrisins – þá með liðsstyrk hugmyndafræði nýfrjálshyggjunnar – höfðu verið að stigmagnast. Það hélt þó enn velli í sínu formi þegar Sósíaldemókratar unnu kosningarnar 1985 með Olof Palme í fararbroddi sem hafði þá varið það af miklum krafti. Þó hafði heyrst í gagnrýnisröddum innan sjálfs Sósíaldemókrataflokksins og þótti augljóst að mati margra að kerfið þyrfi að minnsta kosti á endurbótum að halda í takt við breytta tíma.
Efnahagskreppa í upphafi tíunda áratugar
Í upphafi tíunda áratugarins urðu síðan efasemdir enn háværari um það hvort velferðarríki heimsins gætu í raun staðið undir sinni örlátu velferð og átti þetta þá sérstaklega við um sænska velferðarríkið. Svíþjóð hafði farið úr því að vera fjórða ríkasta land í heimi árið 1970 í að verma fjórtánda sætið árið 1993. Það sem setti strik í reikninginn heima fyrir var mikið atvinnuleysi (13%) og halli á ríkisrekstri en fólksfjöldi var að sama skapi farinn að eldast. Útgjöld til velferðarmála voru 34% af landsframleiðslu sem var vel yfir meðaltalinu í Evrópu (rúmlega 26%) og gerðu róðurinn jafnframt enn þyngri. Enn stórtækari endurbætur á velferðarríkinu lágu á borði stjórnvalda og svarið var einkavæðing og niðurskurður, og það í stórum stíl.
Ákveðnar breytingar höfðu einnig verið að eiga sér stað í fjármálakerfi landsins á níunda áratugnum. Fjöldi reglugerða sænskra stjórnvalda eftir síðari heimsstyrjöld gerði það að verkum að bankakerfi landsins á níunda áratugnum einkenndist af miklum stöðugleika en var þar á móti verulega kyrrstætt og kom í veg fyrir að bankar gætu stundað áhættufjárfestingar til að skapa gróða. Eftir margar gengisfellingar vegna mikillar verðbólgu í upphafi níunda áratugarins voru flestar þessara reglugerða á endanum afnumdar á seinni hluta áratugarins. Bankar, tryggingafélög og fjármálafyrirtæki urðu frjálsari, gátu fundið nýja markaði til að fjárfesta í og urðu um leið samkeppnishæfari þegar kom að lánveitingu.
Skellirnir sem á endanum sköpuðu sína fjármálakreppuna í upphafi tíunda áratugarinsvoru helst fall Sovétríkjanna og sameining Þýskalands sem leiddi til þess að alþjóðlegir vextir hækkuðu og óstöðuleiki myndaðist í gjaldmiðlamálum. Óstöðugleiki innan ríkisstjórnarinnar varðandi efnahagsmál leiddi að lokum til þess að seðlabankinn hækkaði stýrivexti skyndilega 1991. Þannig drógust hagvöxtur og fjárfestingar saman sama ár, atvinnuleysi óx og bankar fóru að draga úr lánum sem orsakaði mikið tap á endanum. Að lokum varð það ljóst að bankarnir stóðu frammi fyrir gríðarlegum fjármagnsvandamálum, greiðsluþroti og lánsfjárkreppu. Ný ríkisstjórn landsins þurfti að grípa inn í.
Einkavæðing ríkisstjórnar Carl Bildts
Hægri samsteypustjórn Carl Bildts tók svo við völdum í október 1991 eftir kosningarnar sama ár og hóf aðgerðir til að bjarga bönkunum frá gjaldþroti. Þær aðgerðir fólust meðal annars í því að ábyrgjast lán bankanna en þessar aðgerðir hlutu yfirgnæfandi stuðning þingsins, þar á meðal Sósíaldemókrata. Í takt við þetta vildi stjórnin einnig binda enda á sænska velferðarmódelið og örlæti þess með miklum niðurskurði.
Jafnframt hafði ríkisstjórn Sósíaldemókrata undir lok níunda áratugarins hafist handa við að dreifa miðstjórnarvaldi er kom að reglugerðum og afskiptum af menntamálum, heilbrigðismálum og félagsþjónustu. Aukið frjálsræði og valddreifing fór að einkenna þjónustu sveitarfélaga og bæjarstjórna. Hin nýja ríkisstjórn Bildts tók síðan við keflinu og gaf í. Þessi valddreifing hélt áfram og fóru nú einkaaðilar innan heilbrigðiskerfisins að fá fjármögnun frá ríkinu að sama skapi og opinber þjónusta fékk. Þannig gat fólk farið að geta valið hvar það leitaði sér ,,opinberrar“ þjónustu.
Aukin stéttaskipting í skólakerfinu
Þegar kom að menntamálum voru nú ríkisreknir grunnskólar komnir í samkeppni við einkavædda skóla um nemendur og fjármagn. Nú hafði (ákveðið) fólk val um annars vegar í hvaða ríkisrekna skóla barnið færi í og hins vegar hvort að ríkisrekinn eða einkarekinn skóli yrði almennt fyrir valinu.
Eins og gefur að skilja fór hægt og rólega að bera á aukinni stéttaskiptingu innan sænska skólakerfisins þar sem til urðu „betri skólar“ sem jafnframt voru í „betri hverfum“. Þar voru bæði umsóknir og nemendur fleiri sem leiddi til aukins ríkisfjármagns sem þýddi um leið að „verri skólarnir“, þar sem nemendur voru (og eru) oft í miklum meirihluta innflytjendur, fengu minna ríkisfjármagn þar sem aðsókn var minni.
Leitað til efnahagslegs stöðugleika innan ESB
Í miðjum nýfrjálshyggjugleðskapnum tóku síðan Sósíaldemókratar aftur við stjórnartaumum árið 1994, þá undir forystu Ingvars Carlssonar. Um haustið sama ár gekk svo Sænska þjóðin aftur til kosninga þar sem hún var spurð hvort hún vildi ganga í Evrópusambandið (ESB). 52,3% af þjóðinni svaraði játandi og í janúar 1995 gekk svo landið formlega í ESB. Það var hægri samsteypustjórn Bildts sem hóf aðildarviðræður meðal annars til að koma á meiri stöðugleika í efnahagsmálum landsins sem til dæmis aðild að innri markaði ESB myndi leysa að einhverju leyti.
Innganga Svía í ESB markaði tímamót og átti eftir að breyta talsvert miklu í efnahagshorfum landsins. Einkavæðing hélt síðan áfram hjá Sósíaldemókrötum þó svo að hin sterka trú á lögmál markaðarins hafi kannski ekki verið eins áberandi og hjá ríkisstjórn Carl Bildts. Tókst Svíum jafnframt að jafna sig merkilega vel á efnahagslegu þrautagöngu sinni og hafði til dæmis alþjóðlega fjármálakreppan 2008 í raun fremur lítil áhrif á efnahag landsins.
Paula Blomqvist, aðstoðarprófessor við Uppsalaháskóla, talar um að þær breytingar sem urðu á tíunda áratugnum í velferðarríkinu þegar kom að einkavæðingu hafi kristallast í þeirri skoðun stjórnvalda að velferð væri ákveðin þjónusta sem ætti að veita á eins ódýran hátt og mögulegt er. Sem er töluvert langt frá grunngildum velferðarríkis Sósíaldemókrata sem varð til með þeirri hugsjón að veita öllum þegnum velferðarþjónustu, óháð markaðslögmálum kapítalismans.
Vaxandi einkavæðing á kostnað sameignarstefnu
Á þessum tíma virðast flestir innan þingsins, ríkisstjórnarinnar og almennings hafa viljað halda í velferðarríkið en á sama tíma varð að gera það ódýrara miðað við slæmar efnahagshorfur í landinu. Hér má ef til vill sjá að sú sameignarstefna (e. collectivism) sem hafði verið ein af lykilundirstöðum velferðarríkisins var að verða undir í uppgangi nýfrjálshyggju og aukins neytendavals. Eignarhald varð óljósara og gróðinn rann til ólíkra átta. Í dag er þetta spurning sem brennur á vörum margra Svía, en svo virðist sem gríðarlegir fjármunir renni úr menntakerfi og heilbrigðiskerfi til erlendra einkaaðila.
Við lok tuttugustu aldar var Svíþjóð síðan orðið leiðandi innan Evrópusambandsins í almennri einkavæðingu. Strax árið 1988 voru járnbrautarfyrirtækin einkavædd. Símafyrirtæki landsins voru þar næst einkavædd árið 1992 og raforku fyrirtækin árið 1996. Hefur framkvæmdarstjórn ESB notað Svíþjóð sem fyrirmynd fyrir önnur ríki þegar kemur að einkavæðingu. Einnig fór að bera á einkavæðingu í varnarmálum landsins uppúr 2000 og hefur sú einkavæðing jafnframt verið viðkvæmt pólitískt efni síðan þá, sérstaklega þegar innganga í hernaðarbandalag er á næsta leiti.
Ríkisstjórn Frederik Reinfeldts og frekari einkavæðing
Í október 2006 tók ríkisstjórn Frederik Reinfeldts við eftir að flokkur hans, Hægriflokkurinn, hafði unnið sögulegan kosningasigur þar sem Sósíaldemókratar fengu sömuleiðis sína verstu kosningu síðan 1921. Þessi úrslit voru kannski á ákveðinn hátt hápunktur nýfrjálshyggjuþróunar undanfarinna ára. Ríkisstjórn Reinfeldts, sem var við völd alveg til ársins 2014, hóf um leið enn stærri aðgerðir í einkavæðingu innan velferðarkerfisins. Á síðustu áratugum hafa síðan stór einkafyrirtæki grætt talsvert á velferðarríkinu og einnig komist undan skatti. Árið 2013 voru jafnframt heildarútgjöld stjórnvalda til velferðarmála komin niður í 28,6% af landsframleiðslu og voru þá til dæmis orðin lægri en í Frakklandi (33,3%) og í Danmörku (30,8%).
Aukin fátækt og ójöfnuður
Á sama tíma og þessar breytingar hafa átt sér stað hefur sænskt samfélag jafnframt orðið meira fjölmenningarsamfélag. Miðað við hin Norðurlöndin er í dag talsvert stór hluti af fólksfjölda Svíþjóðar af erlendu bergi brotinn, eða rúmlega 20%. Ljóst er að ákveðnir hópar innan sænsks samfélags telja þó ákveðna hópa innflytjenda ekki eiga rétt á sömu velferð og „Svíar“.
Árið 2015 voru almannatryggingabætur í Svíþjóð orðnar á pari við eða jafnvel neðar en OECD meðaltalið. Þær bætur og einnig í félagsaðstoð höfðu þá ekki hækkað samhliða verðlagi og launum í landinu. Innkoma þeirra er starfa hafa hækkað gríðarlega í samanburði við mun lægri hækkun hjá þeim er ekki starfa. Að sama skapi jókst fjöldinn í áhættuhóp fyrir fátækt úr 8% 1999 yfir í 14% árið 2011. Hjá einstæðum foreldrum jókst talan úr 11% yfir í heil 30%. Í annarri rannsókn sem var gerð á langveikum einstaklingum utan vinnumarkaðs í Svíþjóð, Danmörku og Bretlandi jókst talan í Svíþjóð úr 12,1% árið 2005 í heil 23,3% árið 2010.
Þessi þróun er nátengd vaxandi tekjuójöfnuði í landinu en frá níunda áratugnum til dagsins í dag hefur ríkasta 1% landsins aðeins orðið ríkara. Um aldamótin 2000 var tekjuójöfnuður í Svíþjóð næst lægstur meðal Norðurlandanna en árið 2020 var hann orðinn hæstur.
Einnig voru framkvæmdar talsverðar skerðingar á sjúkratryggingum árið 2008 í þeim tilgangi að örva vinnumarkaðinn sem bar ekki árangur. Í ársbyrjun 2017 hafði manneskjum með einkasjúkratrygginu fjölgað um 5,2% síðan 2016 og voru í kringum 643 þúsund, eða 13% af þjóðinni. Þetta er kannski ekki há tala í alþjóðlegum samanburði en samt sem áður há miðað við hversu fjarlægar einkasjúkratryggingar voru í Svíþjóð fyrir ekki svo löngu síðan. Í lok ársins 2021 voru einstaklingar með einkasjúkratryggingu orðnir 720 þúsund, en þeim hafði fjölgað um ríflega 5% á rúmu ári.
Markaðslögmálum hampað á kostnað jafnréttislögmála
Í dag er Svíþjóð enn velferðarríki þar sem stór prósenta af þjóðarframleiðslu fer í velferðarmál og stuðningur við það meðal almennings er enn almennt hár. Einnig yrði erfitt að halda því fram að ekki sé gott búa þar of lifa. Þó er það nú almennt aðeins á pari við önnur vestræn ríki í þessum málum samkvæmt tölum OECD. Málefni velferðarkerfisins hafa þó verið áberandi í kringum síðustu tvennar kosningar þar sem meiri meðvitund hefur skapast í kringum augljósan gæðamun í menntakerfinu og gífurlegan gróða stórfyrirtækja á velferðarmálum.
Velferðarríkið var reist á því grunnmarkmiði að gera einkaframtakið tilgangslaust í velferðarmálum. Það varð til í efnahagslegri velsæld eftirstríðsáranna og passaði vel inn í samfélag þar sem hagvöxtur var mikill og full atvinna var ráðandi. Eftir að róðurinn þyngdist fyrst á áttunda áratugnum og enn meira á tíunda áratugnum breyttist það með nýju efnahagslegu landslagi. Það landslag varð þó einkum fyrir breytingum frá hægrinu, eða réttara sagt, nýfrjálshyggjunni.
Gildin fóru úr því að vera á samfélagslegum jafnréttisgrundvelli yfir í ákveðin markaðssjónarmið, að veita þjónustu á eins ódýran máta og hægt er – sama hver í raun græðir á endanum. Lögmál markaðarins tóku yfir af lögmálum jafnréttis sem hornsteinn kerfisins. Mögulega felst sænsk sérstöðuhyggja í þessu ríkjandi jafnvægi (eða ójafnvægi) einkaframtaks og ríkis, frelsis og jafnréttis. Mögulega felst sænsk sérstöðuhyggja þó í því sem liðið er – hinu sænska velferðarríki eins og það var á hátindi sínum á sjötta áratugnum.