Hið sænska velferðarríki í faðmi nýfrjálshyggju

Á síðustu þrjátíu árum hafa átt sér stað talsverðar breytingar í bæði heilbrigðis- og menntakerfi Svíþjóðar. Ef til vill má rekja þau samfélagsvandamál sem nú tekist er á um í aðdraganda þingkosninga til þessara breytinga.

pexels-karolina-grabowska-4047011.jpg
Auglýsing

Núna í sept­em­ber verða haldnar þing­kosn­ingar í Sví­þjóð þar sem rúm­lega 7,5 millj­ónir Svía geta nýtt kosn­inga­rétt sinn en einnig er kosið í sveit­ar­stjórn­ir. Helstu átaka­línur kosn­ing­anna hafa verið að mynd­ast und­an­farið og virð­ast þrenn mál­efni ætla að verða þau helstu sem tek­ist verður á um: staða heil­brigð­is- og mennta­kerf­is, hækk­andi glæpa­tíðni og síð­ast en ekki síst þjóðar­ör­ygg­is­mál í ljósi hegð­unar Rússa í Evr­ópu.

Í þess­ari fyrstu grein af þremur er farið yfir sögu sænskra stjórn­mála á seinni hluta síð­ustu aldar með áherslu á breyt­ingar í rekstri á vel­ferð­ar­kerf­inu.

Sögu­legar kosn­ingar

Það eru einna helst þrír þættir sem gera kom­andi kosn­ingar ein­stakar í sænskri stjórn­mála­sögu: í fyrsta lagi er það vilji næst stærsta flokks Sví­þjóð­ar, Hægri­flokks­ins (s. Modera­terna), að vinna með Sví­þjóð­ar­demókrötum (s. Sverig­edemokra­terna) sem hafa hingað til verið úti í kuld­anum þegar kemur að sam­starfi við aðra flokka. Sví­þjóð gæti þess vegna fengið sína fyrstu hægri­þjóð­ern­issinn­uðu rík­is­stjórn, eða alla­vega rík­is­stjórn sem studd er með beinum hætti af hægri­þjóð­ern­ispopúlista­flokki. Núna stýrir Magda­lena And­ers­son land­inu og fer fyrir hönd eins flokks minni­hluta Sós­í­alde­mókrata.

Magdalena Andersson, forsætisráðherra Svíþjóðar. Mynd: EPA

Í öðru lagi eru Sví­ar, sem hafa verið hlut­lausir í vopn­uðum átökum í nærri 200 ár, að ganga í Norð­ur­-Atl­ants­hafs­banda­lagið (NATO), nú á meðan kosn­ingar verða haldn­ar. 

Í þriðja lagi hefur glæpa­tíðni í Sví­þjóð aldrei verið hærri en hún er í dag (næst hæst innan Evr­ópu­sam­bands­ins) og kepp­ast nú flokk­ar, aðal­lega hægra megin við miðju, um það hver muni taka harðar á þessu nýja vanda­máli, með til dæmis auknum laga­heim­ildum til handa lög­reglu. 

Það er erfitt að halda því fram að sænsk stjórn­mál hafi í gegnum tíð­ina verið tíð­inda­laus, sér­stak­lega þar sem for­sæt­is­ráð­herra lands­ins var ráð­inn af dögum á seinni hluta níunda ára­tug­ar­ins og ýmsar fleiri krísur hafa dunið á lands­mönn­um. Þó höfðu sænsk stjórn­mál lengi ráð­ist innan ákveð­ins ramma og ákveð­inna for­senda sem stóð­ust lengi vel. Sós­í­alde­mókratar (s. Soci­alde­mokra­terna) voru stærsti flokk­ur­inn og hægra megin við þá voru einna helst Hægri­flokk­ur­inn, Frjáls­lyndi flokk­ur­inn (s. Liberal­erna) og Mið­flokk­ur­inn (s. Center­parti­et). Þessum flokkum tókst þá annað hvort tíma­bundið að ná völdum af Sós­í­alde­mókrötum eða veitti rík­is­stjórnum þeirra ann­ars aðhald. 

Innan þessa póli­tíska ramma byggð­ist upp stórt og örlátt vel­ferð­ar­kerfi á seinni helm­ingi tutt­ug­ustu aldar byggt á þverpóli­tískum vilja og sam­eign­ar­stefnu. Í dag eru tölu­vert breyttar horfur í sænskum stjórn­málum þegar kemur að þessum málum en líka þegar að kemur að landamæra og inn­flytj­enda­stefnu lands­ins. En þó svo að fyrst núna sé mögu­lega þjóð­ern­ispopúlista­flokkur að kom­ast til valda í fyrsta skipti eru þeir póli­tísku straumar sem hann byggir á ekki nýir – þeir hafa bara fyrst núna að verið að verða hluti af meg­in­straumn­um. Til að skilja betur hvers vegna svo er – og hvers vegna Sví­þjóð er á sínum til­tekna stað í dag – er við­eig­andi að líta aðeins til baka.

Helj­ar­tak Sós­í­alde­mókrata og hin breiða póli­tíska sátt

Það má segja að frá upp­hafi tutt­ug­ustu aldar hafi Sví­þjóð tek­ist að sam­eina bæði mikla vel­ferð og tölu­verða hag­sæld. Þegar líða fór að seinni hluta tutt­ug­ustu aldar fór þó róð­ur­inn að verða þyngri og deilu­málin stærri. Fjár­málakreppa í upp­hafi tíunda ára­tug­ar­ins hafði tölu­verð áhrif á und­ir­stöður sænska vel­ferð­ar­rík­is­ins sem hafði jafn­framt náð hátindi sínum á sjö­unda ára­tugn­um. Stöðnun og hækk­andi verð­bólga höfðu orðið áber­andi á átt­unda og níunda ára­tugnum og um leið fór að fjara undan hinni breiðu þverpóli­tísku sátt sem hafði ein­kennt stjórn­mál lands­ins, einkum Sós­í­alde­mókra­ta­flokk­inn. 

Nýfrjáls­hyggjan hafði verið að ryðja sér til rúms á níunda ára­tugnum á Vest­ur­löndum og sótti hún einnig í sig veðrið í sænskum stjórn­mál­um, þá einna helst undir flaggi Hægri­flokks­ins. Síðan þá er óhætt að segja að áhrif nýfrjáls­hyggj­unnar í formi auk­ins einka­rekst­urs og nið­ur­skurðar innan vel­ferð­ar­kerf­is­ins hafi verið tals­vert áber­andi.

Vel­ferð­ar­ríkið Sví­þjóð verður til

Það var ekki bara sænska vel­ferð­ar­ríkið sem varð fyrir áhrifum af nýfrjáls­hyggj­unni undir lok tutt­ug­ustu ald­ar. Það má segja að nýfrjáls­hyggjan hafi á ákveð­inn hátt verið svar við efna­hags­legum erf­ið­leikum átt­unda ára­tug­ar­ins þar sem hið langa hag­vaxt­ar­skeið Vest­ur­landa leið undir lok með helj­ar­innar olíu­krísu. Gagn­rýn­is­raddir varð­andi vel­ferð­ar­kerfið höfðu þó farið að heyr­ast strax á seinni hluta sjö­unda ára­tug­ar­ins úr hægri­átt varð­andi ofsköttun en einnig úr vinstri­átt vegna skrifræð­is, svo dæmi má nefna. Að auki var aug­ljóst að kostn­aður vel­ferð­ar­kerf­is­ins hafði orðið æ meri með árun­um. 

Auglýsing
En hvað átt við þegar talað er um að lönd séu vel­ferð­ar­ríki (e. welfare state) og starf­ræki vel­ferð­ar­kerfi (e. welfare system)? Fyrra hug­takið merkir almennt ákveðna teg­und af stjórn­ar­fari sem í grunn­inn veitir þegnum sínum fría heil­brigð­is­þjón­ustu, almanna­trygg­ing­ar, menntun og bæt­ur. Jafn­framt á það að stuðla að félags­legu jafn­rétti en sér­stak­lega var lögð áhersla á jafn­rétti kynj­anna í til­felli Svía. Þannig er við­haldið eins konar örygg­is­neti sem tryggir þegnum sínum ákveðin lífs­gæði. Þó geta öll ríki rekið vel­ferð­ar­kerfi í ein­hvers konar mynd, og flest gera þau það, en það sem skiptir máli er þá hversu örlát svo­leiðis kerfi eru. Jafn­framt hefur lengi sú staðalí­mynd loðað við Sví­þjóð að það sé eitt mesta vel­ferð­ar­ríki í heimi og sé jafn­framt tölu­vert vinstri­s­innað þegar kemur að opin­berri þjón­ustu og almennri vel­ferð. Á einum tíma­punkti stóðst það en á síð­ustu þrjá­tíu árum hefur ýmis­legt breyst.

Á öldum áður hafði vel­ferð einkum verið í formi ölm­usu fátækt­ar­hjálpar stjórn­valda og kirkj­unn­ar. Þá var fjöl­skyldan oft á tíðum eina örygg­is­net fólks þegar kom að vel­ferð. Með auk­inni þétt­býl­is­myndun og fólks­fjölgun á nítj­ándu öld sköp­uð­ust breyttar for­sendur fyrir betra lífi meðal verka­lýðs í Vest­ur­-­Evr­ópu. Í Skand­in­avíu urðu til sér­stak­lega sterkar verka­lýðs­hreyf­ingar sem náðu smámsaman að færa bar­áttu­mál sín á borð póli­tískra ákvað­anna. Í Sví­þjóð voru það Sós­í­alde­mókratar sem helst börð­ust fyrir rétt­indum verka­lýðs­ins. 

Eftir síð­ari heims­styrj­öld byggð­ist hug­mynda­fræði sænskra stjórn­valda –með Sós­í­alde­mókrata í far­ar­broddi– einkum á þeirri hug­sjón að ef að ríkið tryggði öllum þegnum sínum hágæða vel­ferð­ar­þjón­ustu myndi eft­ir­spurnin eftir ein­hvers konar betri þjón­ustu á vegum einka­að­ila hverfa. Kerf­ið, byggt á almennum gildum um jafn­rétti, átti þannig að vernda þegna sína fyrir skertum lífs­kjörum, til dæmis vegna slæmrar heilsu, elli og óhöpp­um. Þetta yrði svo öllum þegnum rík­is­ins, sama hvernig þeir stæðu, til góðs.

Hið sænska vel­ferð­ar­ríki byggð­ist í grunn­inn á ákveð­inni þver­sögn ef svo má að orði kom­ast. Vel­ferð­ar­ríkið varð til vegna mik­illar sam­stöðu innan verka­lýðs­bar­átt­unnar en átti jafn­framt að skapa kerfi sem bygg­ist á mik­illi ein­stak­lings­hyggju. Það er að segja, hver ein­asti ein­stak­lingur innan sam­fé­lags­ins átti að geta reitt sig á ríkið og þurfti þess vegna ekki að reiða sig á geð­þótta­á­kvarð­anir ann­arra ein­stak­linga til að lifa af.

Einnig er vert að taka fram að hug­myndin og mótun þessa vel­ferð­ar­ríkis var ekki ein­ungis hug­ar­fóstur ábyrgra vinstri manna, heldur var hún byggð á breiðri sátt um þörf þess. Bæði hægriöfl og bænda­for­ystan voru mót­andi í inn­leið­ingu þess. Það má þess vegna segja að grunn­hug­myndin um vel­ferð­ar­ríkið hafi í gegnum tíð­ina verið tals­vert bundin við þjóð­ar­sjálfs­mynd lands­ins sem var þegar leið á seinni hluta tutt­ug­ustu aldar lengi vel tals­vert eins­leit.

Hnignun sænska vel­ferð­ar­rík­is­ins undir lok tutt­ug­ustu aldar

Uppúr 1970 skall á efna­hags­leg lægð í Sví­þjóð sem hafði einnig látið til sín taka á öðrum Vest­ur­löndum sem fól meðal ann­ars í sér að útflutn­ings­mark­aðir erlendis hurfu og hag­vöxtur drógst sam­an. Gríð­ar­legur halli á rík­is­sjóði hafði síðan mynd­ast við lok ára­tug­ar­ins og fór að bera á efa­semdum um vel­ferð­ar­rík­ið, kostnað þess og skrifræði þegar leið á níunda ára­tug­inn. Einnig fór að bera á heldur frjáls­legri tón þegar kom að vali fólks á þjón­ustu, einkum þar sem sveit­ar­fé­lög voru þarna í basli við að fjár­magna örláta heil­brigð­is­þjón­ustu sína. Allan átt­unda ára­tug­inn hafði verð­bólga verið hærri en í nágranna­löndum (rúm­lega 9%) og voru geng­is­fell­ingar tíð­ar.

Olof Palme, fyrrverandi forsætisráðherra Svíþjóðar.

Vel­ferð­ar­ríkið og form þess var mikið rætt um miðjan níunda ára­tug­inn en gagn­rýn­is­raddir hægr­is­ins – þá með liðs­styrk hug­mynda­fræði nýfrjáls­hyggj­unnar – höfðu verið að stig­magn­ast. Það hélt þó enn velli í sínu formi þegar Sós­í­alde­mókratar unnu kosn­ing­arnar 1985 með Olof Palme í far­ar­broddi sem hafði þá varið það af miklum krafti. Þó hafði heyrst í gagn­rýn­is­röddum innan sjálfs Sós­í­alde­mókra­ta­flokks­ins og þótti aug­ljóst að mati margra að kerfið þyrfi að minnsta kosti á end­ur­bótum að halda í takt við breytta tíma. 

Efna­hag­skreppa í upp­hafi tíunda ára­tugar

Í upp­hafi tíunda ára­tug­ar­ins urðu síðan efa­semdir enn hávær­ari um það hvort vel­ferð­ar­ríki heims­ins gætu í raun staðið undir sinni örlátu vel­ferð og átti þetta þá sér­stak­lega við um sænska vel­ferð­ar­rík­ið. Sví­þjóð hafði farið úr því að vera fjórða rík­asta land í heimi árið 1970 í að verma fjórt­ánda sætið árið 1993. Það sem setti strik í reikn­ing­inn heima fyrir var mikið atvinnu­leysi (13%) og halli á rík­is­rekstri en fólks­fjöldi var að sama skapi far­inn að eld­ast. Útgjöld til vel­ferð­ar­mála voru 34% af lands­fram­leiðslu sem var vel yfir með­al­tal­inu í Evr­ópu (rúm­lega 26%) og gerðu róð­ur­inn jafn­framt enn þyngri. Enn stór­tæk­ari end­ur­bætur á vel­ferð­ar­rík­inu lágu á borði stjórn­valda og svarið var einka­væð­ing og nið­ur­skurð­ur, og það í stórum stíl. 

Ákveðnar breyt­ingar höfðu einnig verið að eiga sér stað í fjár­mála­kerfi lands­ins á níunda ára­tugn­um. Fjöldi reglu­gerða sænskra stjórn­valda eftir síð­ari heims­styrj­öld gerði það að verkum að banka­kerfi lands­ins á níunda ára­tugnum ein­kennd­ist af miklum stöð­ug­leika en var þar á móti veru­lega kyrr­stætt og kom í veg fyrir að bankar gætu stundað áhættu­fjár­fest­ingar til að skapa gróða. Eftir margar geng­is­fell­ingar vegna mik­illar verð­bólgu í upp­hafi níunda ára­tug­ar­ins voru flestar þess­ara reglu­gerða á end­anum afnumdar á seinni hluta ára­tug­ar­ins. Bankar, trygg­inga­fé­lög og fjár­mála­fyr­ir­tæki urðu frjáls­ari, gátu fundið nýja mark­aði til að fjár­festa í og urðu um leið sam­keppn­is­hæf­ari þegar kom að lán­veit­ing­u. 

Auglýsing
Bankar urðu þarna leið­andi í lán­veit­ingum og leiddi þetta til þess að fjár­mála­fyr­ir­tæki sem voru að missa hlut­deild sína á hinum almenna lán­veit­ing­ar­mark­aði fóru í áhættu­sam­ari lán. Bera fór svo á áfram­hald­andi verð­bólgu á seinni hluta níunda ára­tug­ar­ins þar sem lán þessi voru með tals­vert hærri vexti en ann­ars­stað­ar. Hér var að mynd­ast ákveðin bóla og var sænska efna­hags­kerfið illa í stakk búið fyrir bæði utan­að­kom­andi og inn­lenda skelli, og þeir komu svo á end­an­um.

Skell­irnir sem á end­anum sköp­uðu sína fjár­málakrepp­una í upp­hafi tíunda ára­tug­ar­ins­voru helst fall Sov­ét­ríkj­anna og sam­ein­ing Þýska­lands sem leiddi til þess að alþjóð­legir vextir hækk­uðu og óstöðu­leiki mynd­að­ist í gjald­miðla­mál­um. Óstöð­ug­leiki innan rík­is­stjórn­ar­innar varð­andi efna­hags­mál leiddi að lokum til þess að seðla­bank­inn hækk­aði stýri­vexti skyndi­lega 1991. Þannig dróg­ust hag­vöxtur og fjár­fest­ingar saman sama ár, atvinnu­leysi óx og bankar fóru að draga úr lánum sem orsak­aði mikið tap á end­an­um. Að lokum varð það ljóst að bank­arnir stóðu frammi fyrir gríð­ar­legum fjár­magns­vanda­mál­um, greiðslu­þroti og láns­fjár­kreppu. Ný rík­is­stjórn lands­ins þurfti að grípa inn í. 

Einka­væð­ing rík­is­stjórnar Carl Bildts

Hægri sam­steypu­stjórn Carl Bildts tók svo við völdum í októ­ber 1991 eftir kosn­ing­arnar sama ár og hóf aðgerðir til að bjarga bönk­unum frá gjald­þroti. Þær aðgerðir fólust meðal ann­ars í því að ábyrgj­ast lán bank­anna en þessar aðgerðir hlutu yfir­gnæf­andi stuðn­ing þings­ins, þar á meðal Sós­í­alde­mókrata. Í takt við þetta vildi stjórnin einnig binda enda á sænska vel­ferð­ar­mód­elið og örlæti þess með miklum nið­ur­skurði.

Carl Bildt. Mynd: EPA

Jafn­framt hafði rík­is­stjórn Sós­í­alde­mókrata undir lok níunda ára­tug­ar­ins haf­ist handa við að dreifa mið­stjórn­ar­valdi er kom að reglu­gerðum og afskiptum af mennta­mál­um, heil­brigð­is­málum og félags­þjón­ustu. Aukið frjáls­ræði og vald­dreif­ing fór að ein­kenna þjón­ustu sveit­ar­fé­laga og bæj­ar­stjórna. Hin nýja rík­is­stjórn Bildts tók síðan við kefl­inu og gaf í. Þessi vald­dreif­ing hélt áfram og fóru nú einka­að­ilar innan heil­brigð­is­kerf­is­ins að fá fjár­mögnun frá rík­inu að sama skapi og opin­ber þjón­usta fékk. Þannig gat fólk farið að geta valið hvar það leit­aði sér ,,op­in­berr­ar“ þjón­ustu.

Aukin stétta­skipt­ing í skóla­kerf­inu

Þegar kom að mennta­málum voru nú rík­is­reknir grunn­skólar komnir í sam­keppni við einka­vædda skóla um nem­endur og fjár­magn. Nú hafði (ákveð­ið) fólk val um ann­ars vegar í hvaða rík­is­rekna skóla barnið færi í og hins vegar hvort að rík­is­rek­inn eða einka­rek­inn skóli yrði almennt fyrir val­inu.

Eins og gefur að skilja fór hægt og rólega að bera á auk­inni stétta­skipt­ingu innan sænska skóla­kerf­is­ins þar sem til urðu „betri skól­ar“ sem jafn­framt voru í „betri hverf­um“. Þar voru bæði umsóknir og nem­endur fleiri sem leiddi til auk­ins rík­is­fjár­magns sem þýddi um leið að „verri skól­arn­ir“, þar sem nem­endur voru (og eru) oft í miklum meiri­hluta inn­flytj­end­ur, fengu minna rík­is­fjár­magn þar sem aðsókn var minn­i. 

Leitað til efna­hags­legs stöð­ug­leika innan ESB

Í miðjum nýfrjáls­hyggjugleð­skapnum tóku síðan Sós­í­alde­mókratar aftur við stjórn­ar­taumum árið 1994, þá undir for­ystu Ingv­ars Carls­son­ar. Um haustið sama ár gekk svo Sænska þjóðin aftur til kosn­inga þar sem hún var spurð hvort hún vildi ganga í Evr­ópu­sam­bandið (ES­B). 52,3% af þjóð­inni svar­aði ját­andi og í jan­úar 1995 gekk svo landið form­lega í ESB. Það var hægri sam­steypu­stjórn Bildts sem hóf aðild­ar­við­ræður meðal ann­ars til að koma á meiri stöð­ug­leika í efna­hags­málum lands­ins sem til dæmis aðild að innri mark­aði ESB myndi leysa að ein­hverju leyti.

Inn­ganga Svía í ESB mark­aði tíma­mót og átti eftir að breyta tals­vert miklu í efna­hags­horfum lands­ins. Einka­væð­ing hélt síðan áfram hjá Sós­í­alde­mókrötum þó svo að hin sterka trú á lög­mál mark­að­ar­ins hafi kannski ekki verið eins áber­andi og hjá rík­is­stjórn Carl Bildts. Tókst Svíum jafn­framt að jafna sig merki­lega vel á efna­hags­legu þrauta­göngu sinni og hafði til dæmis alþjóð­lega fjár­málakreppan 2008 í raun fremur lítil áhrif á efna­hag lands­ins.

Paula Blomqvist, aðstoð­ar­pró­fess­or  við Upp­sala­há­skóla, talar um að þær breyt­ingar sem urðu á tíunda ára­tugnum í vel­ferð­ar­rík­inu þegar kom að einka­væð­ingu hafi krist­all­ast í þeirri skoðun stjórn­valda að vel­ferð væri ákveðin þjón­usta sem ætti að veita á eins ódýran hátt og mögu­legt er. Sem er tölu­vert langt frá grunn­gildum vel­ferð­ar­ríkis Sós­í­alde­mókrata sem varð til með þeirri hug­sjón að veita öllum þegnum vel­ferð­ar­þjón­ustu, óháð mark­aðslög­málum kap­ít­al­ism­ans.

Vax­andi einka­væð­ing á kostnað sam­eign­ar­stefnu

Á þessum tíma virð­ast flestir innan þings­ins, rík­is­stjórn­ar­innar og almenn­ings hafa viljað halda í vel­ferð­ar­ríkið en á sama tíma varð að gera það ódýr­ara miðað við slæmar efna­hags­horfur í land­inu. Hér má ef til vill sjá að sú sam­eign­ar­stefna (e. collect­i­vism) sem hafði verið ein af lyki­lund­ir­stöðum vel­ferð­ar­rík­is­ins var að verða undir í upp­gangi nýfrjáls­hyggju og auk­ins neyt­enda­vals. Eign­ar­hald varð óljós­ara og gróð­inn rann til ólíkra átta. Í dag er þetta spurn­ing sem brennur á vörum margra Svía, en svo virð­ist sem gríð­ar­legir fjár­munir renni úr mennta­kerfi og heil­brigð­is­kerfi til erlendra einka­að­ila. 

Auglýsing
Á tíunda ára­tug sótti enn meiri­hluti Svía rík­is­rekna vel­ferð­ar­þjón­ustu en þó hafði mann­eskjum með einka­sjúkra­trygg­ingu (s. sju­kvårds­för­säkring) fjölgað úr 23.000 árið 1990 í 115.000 árið 2000. Að sama skapi hafði fjár­mögnun rík­is­ins á heil­brigð­is­kerf­inu farið úr yfir 90% við upp­haf ára­tug­ar­ins niður í 80% við lok hans. Einnig voru aðeins um 60 einka­skólar í land­inu árið 1990 en árið 2000 voru þeir orðnir fleiri en 475. Nið­ur­skurð­ur­inn í heil­brigð­is-, félags-, og mennta­málum fólst þess vegna bæði í minni fjár­veit­ingum ríkis og sveit­ar­fé­laga og einnig inn­komu einka­að­ila í stórum stíl. Það neyt­enda­val sem fylgdi þessu skap­aði síðan aukna stétta­skipt­ingu í mála­flokk­unum eftir hag hvers heim­ilis fyrir sig.

Við lok tutt­ug­ustu aldar var Sví­þjóð síðan orðið leið­andi innan Evr­ópu­sam­bands­ins í almennri einka­væð­ingu. Strax árið 1988 voru járn­braut­ar­fyr­ir­tækin einka­vædd. Síma­fyr­ir­tæki lands­ins voru þar næst einka­vædd árið 1992 og raf­orku fyr­ir­tækin árið 1996. Hefur fram­kvæmd­ar­stjórn ESB notað Sví­þjóð sem fyr­ir­mynd fyrir önnur ríki þegar kemur að einka­væð­ingu. Einnig fór að bera á einka­væð­ingu í varn­ar­málum lands­ins uppúr 2000 og hefur sú einka­væð­ing jafn­framt verið við­kvæmt póli­tískt efni síðan þá, sér­stak­lega þegar inn­ganga í hern­að­ar­banda­lag er á næsta leiti.

Rík­is­stjórn Frederik Rein­feldts og frek­ari einka­væð­ing

Í októ­ber 2006 tók rík­is­stjórn Frederik Rein­feldts við eftir að flokkur hans, Hægri­flokk­ur­inn, hafði unnið sögu­legan kosn­inga­sigur þar sem Sós­í­alde­mókratar fengu sömu­leiðis sína verstu kosn­ingu síðan 1921. Þessi úrslit voru kannski á ákveð­inn hátt hápunktur nýfrjáls­hyggju­þró­unar und­an­far­inna ára. Rík­is­stjórn Rein­feldts, sem var við völd alveg til árs­ins 2014, hóf um leið enn stærri aðgerðir í einka­væð­ingu innan vel­ferð­ar­kerf­is­ins. Á síð­ustu ára­tugum hafa síðan stór einka­fyr­ir­tæki grætt tals­vert á vel­ferð­ar­rík­inu og einnig kom­ist undan skatti. Árið 2013 voru jafn­framt heild­ar­út­gjöld stjórn­valda til vel­ferð­ar­mála komin niður í 28,6% af lands­fram­leiðslu og voru þá til dæmis orðin lægri en í Frakk­landi (33,3%) og í Dan­mörku (30,8%).

Aukin fátækt og ójöfn­uður

Á sama tíma og þessar breyt­ingar hafa átt sér stað hefur sænskt sam­fé­lag jafn­framt orðið meira fjöl­menn­ing­ar­sam­fé­lag. Miðað við hin Norð­ur­löndin er í dag tals­vert stór hluti af fólks­fjölda Sví­þjóðar af erlendu bergi brot­inn, eða rúm­lega 20%. Ljóst er að ákveðnir hópar innan sænsks sam­fé­lags telja þó ákveðna hópa inn­flytj­enda ekki eiga rétt á sömu vel­ferð og „Sví­ar“.

Árið 2015 voru almanna­trygg­inga­bætur í Sví­þjóð orðnar á pari við eða jafn­vel neðar en OECD með­al­talið. Þær bætur og einnig í félags­að­stoð höfðu þá ekki hækkað sam­hliða verð­lagi og launum í land­inu. Inn­koma þeirra er starfa hafa hækkað gríð­ar­lega í sam­an­burði við mun lægri hækkun hjá þeim er ekki starfa. Að sama skapi jókst fjöld­inn í áhættu­hóp fyrir fátækt úr 8% 1999 yfir í 14% árið 2011. Hjá ein­stæðum for­eldrum jókst talan úr 11% yfir í heil 30%. Í annarri rann­sókn sem var gerð á lang­veikum ein­stak­lingum utan vinnu­mark­aðs í Sví­þjóð, Dan­mörku og Bret­landi jókst talan í Sví­þjóð úr 12,1% árið 2005 í heil 23,3% árið 2010.

Þessi þróun er nátengd vax­andi tekju­ó­jöfn­uði í land­inu en frá níunda ára­tugnum til dags­ins í dag hefur rík­asta 1% lands­ins aðeins orðið rík­ara. Um alda­mótin 2000 var tekju­ó­jöfn­uður í Sví­þjóð næst lægstur meðal Norð­ur­land­anna en árið 2020 var hann orð­inn hæst­ur.

Einnig voru fram­kvæmdar tals­verðar skerð­ingar á sjúkra­trygg­ingum árið 2008 í þeim til­gangi að örva vinnu­mark­að­inn sem bar ekki árang­ur. Í árs­byrjun 2017 hafði mann­eskjum með einka­sjúkra­trygg­inu fjölgað um 5,2% síðan 2016 og voru í kringum 643 þús­und, eða 13% af þjóð­inni. Þetta er kannski ekki há tala í alþjóð­legum sam­an­burði en samt sem áður há miðað við hversu fjar­lægar einka­sjúkra­trygg­ingar voru í Sví­þjóð fyrir ekki svo löngu síð­an. Í lok árs­ins 2021 voru ein­stak­lingar með einka­sjúkra­trygg­ingu orðnir 720 þús­und, en þeim hafði fjölgað um ríf­lega 5% á rúmu ári.

Mark­aðslög­málum hampað á kostnað jafn­rétt­islög­mála

Í dag er Sví­þjóð enn vel­ferð­ar­ríki þar sem stór pró­senta af þjóð­ar­fram­leiðslu fer í vel­ferð­ar­mál og stuðn­ingur við það meðal almenn­ings er enn almennt hár. Einnig yrði erfitt að halda því fram að ekki sé gott búa þar of lifa. Þó er það nú almennt aðeins á pari við önnur vest­ræn ríki í þessum málum sam­kvæmt tölum OECD. Mál­efni vel­ferð­ar­kerf­is­ins hafa þó verið áber­andi í kringum síð­ustu tvennar kosn­ingar þar sem meiri með­vit­und hefur skap­ast í kringum aug­ljósan gæða­mun í mennta­kerf­inu og gíf­ur­legan gróða stór­fyr­ir­tækja á vel­ferð­ar­mál­um.

Vel­ferð­ar­ríkið var reist á því grunn­mark­miði að gera einka­fram­takið til­gangs­laust í vel­ferð­ar­mál­um. Það varð til í efna­hags­legri vel­sæld eft­ir­stríðs­ár­anna og pass­aði vel inn í sam­fé­lag þar sem hag­vöxtur var mik­ill og full atvinna var ráð­andi. Eftir að róð­ur­inn þyngd­ist fyrst á átt­unda ára­tugnum og enn meira á tíunda ára­tugnum breytt­ist það með nýju efna­hags­legu lands­lagi. Það lands­lag varð þó einkum fyrir breyt­ingum frá hægrinu, eða rétt­ara sagt, nýfrjáls­hyggj­unn­i. 

Gildin fóru úr því að vera á sam­fé­lags­legum jafn­rétt­is­grund­velli yfir í ákveðin mark­aðs­sjón­ar­mið, að veita þjón­ustu á eins ódýran máta og hægt er – sama hver í raun græðir á end­an­um. Lög­mál mark­að­ar­ins tóku yfir af lög­málum jafn­réttis sem horn­steinn kerf­is­ins. Mögu­lega felst sænsk sér­stöðu­hyggja í þessu ríkj­andi jafn­vægi (eða ójafn­vægi) einka­fram­taks og rík­is, frelsis og jafn­rétt­is. Mögu­lega felst sænsk sér­stöðu­hyggja þó í því sem liðið er – hinu sænska vel­ferð­ar­ríki eins og það var á hátindi sínum á sjötta ára­tugn­um. 

Við þurfum á þínu framlagi að halda

Þú getur tekið beinan þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Við sem vinnum á ritstjórn Kjarnans viljum hvetja þig til að vera með okkur í liði og leggja okkar góða fjölmiðli til mánaðarlegt framlag svo við getum haldið áfram að vinna fyrir lesendur, fyrir fólkið í landinu.

Kjarninn varð níu ára í sumar. Þegar hann hóf að taka við frjálsum framlögum þá varð slagorðið „Frjáls fjölmiðill fyrir andvirði kaffibolla“ til og lesendur voru hvattir til að leggja fram í það minnsta upphæð eins kaffibolla á mánuði.

Mikið vatn hefur runnið til sjávar á þeim níu árum sem Kjarninn hefur lifað. Í huga okkar á Kjarnanum hefur þörfin fyrir fjölmiðla sem veita raunverulegt aðhald og taka hlutverk sitt alvarlega aukist til muna.

Við trúum því að Kjarninn skipti máli fyrir samfélagið.

Við trúum því að sjálfstæð og vönduð blaðamennska skipti máli.

Ef þú trúir því sama þá endilega hugsaðu hvort Kjarninn er ekki allavega nokkurra kaffibolla virði á mánuði.

Vertu með okkur í liði. Þitt framlag skiptir máli.

Ritstjórn Kjarnans: Sunna Ósk Logadóttir, Þórður Snær Júlíusson, Erla María Markúsdóttir, Arnar Þór Ingólfsson, Eyrún Magnúsdóttir og Grétar Þór Sigurðsson.


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Þorbjörn Guðmundsson
Er íslenska velferðarkerfið ekki lengur griðarstaður þeirra sem minnst hafa?
Kjarninn 11. janúar 2023
Takk fyrir og sjáumst á nýjum miðli á föstudag
Bréf frá ritstjóra Kjarnans vegna sameiningar við Stundina og þess að nýr framsækinn fréttamiðill verður til í lok viku.
Kjarninn 11. janúar 2023
Sverrir Albertsson
Vatn á myllu kölska
Kjarninn 11. janúar 2023
Lögreglumenn standa vörð um gröfurnar í námunni.
Berjast fyrir þorpi á barmi hengiflugs
Lítið þorp í Rínarlöndum Þýskalands er allt komið í eigu kolarisa. Fyrirtækið ætlar sér að mylja niður húsin og stækka kolanámu sína sem þegar þekur um 80 ferkílómetra. Þetta þykir mörgum skjóta skökku við í heimi sem berst við loftslagsbreytingar.
Kjarninn 10. janúar 2023
Arnþrúður Karlsdóttir, útvarpsstjóri Útvarps Sögu.
Útvarp Saga telur fjölmiðlastyrki skapa tortryggni og bjóða upp á frændhygli
Fjögur fjölmiðlafyrirtæki hafa til þessa skilað inn umsögnum um frumvarp Lilju Alfreðsdóttur menningar- og viðskiptaráðherra, sem mun að óbreyttu framlengja núverandi styrkjakerfi til fjölmiðla.
Kjarninn 10. janúar 2023
Sólveig Anna Jónsdóttir formaður Eflingar.
Viðræðum slitið og Efling undirbýr verkfallsaðgerðir
Samtök atvinnulífsins hafa hafnað gagntilboði Eflingar um skammtímakjarasamning, sem kvað á um meiri launahækkanir en SA hefur samið um við aðra hópa á almennum vinnumarkaði til þessa. Efling undirbýr nú verkfallsaðgerðir.
Kjarninn 10. janúar 2023
Palestínski fáninn á lofti í mótmælum í Reykjavík. Ísraelskri lögreglu hefur nú verið fyrirskipað að rífa fánann niður á almannafæri.
Fánabann og refsiaðgerðir í Palestínu í kjölfar niðurstöðu Sameinuðu þjóðanna
Degi eftir að ný ríkisstjórn tók við völdum í Ísrael samþykkti allsherjarþing Sþ að fela Alþjóðadómstólnum í Haag að meta lögmæti hernáms Ísraelsríkis á Vesturbakkanum. Síðan þá hefur stjórnin gripið til refsiaðgerða og nú síðast fánabanns.
Kjarninn 10. janúar 2023
Gríðarlega mikil dæling á sandi á sér stað í Landeyjahöfn á hverju ári. Markarfljótið ber hundruð þúsunda tonna af jarðefnum út í sjó og það á til að safnast upp í mynni hafnarinnar.
Vilja sjúga sand af hafsbotni í stórum stíl og flytja út
Eftirspurn eftir íslenskum jarðefnum er gríðarleg ef marka má framkomin áform erlendra stórfyrirtækja um nýtingu þeirra. Vinsældir hafnarinnar í Þorlákshöfn eru samhliða mjög miklar.
Kjarninn 10. janúar 2023
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar