Alls voru 59,9 prósent landsmanna skráðir í þjóðkirkjuna 1. júlí síðastliðinn. Það er í fyrsta sinn sem hlutfall þeirra sem skráðir eru í hana fer undir 60 prósent. Þetta má lesa úr nýjum tölum Þjóðskrár um skráningu í trú- og lífsskoðunarfélög.
Árið 1992 voru 92,2 prósent landsmanna skráðir í þjóðkirkjuna. Síðastliðna áratugi hefur hlutfall þeirra sem tilheyra henni dregist saman og frá árinu 2009 hefur meðlimum þjóðkirkjunnar fækkað á hverju ári.
Trú- og lífsskoðunarfélög hér á landi fá sóknargjöld greidd fyrir hvern skráðan einstakling, 16 ára og eldri. Á árinu 2022 greiðir ríkið 1.107 krónur á mánuði á hvern einstakling í hverju félagi fyrir sig. Alls fara um átta milljarðar króna í málaflokkinn trúmál á næsta ári samkvæmt fjárlögum þessa árs. Í samræmi við nýjan viðbótarsamning um endurskoðun á kirkjujarðarsamkomulaginu frá 1997 og samningi um rekstrarkostnað kirkjunnar frá 1998 sem var undirritaður fyrir tæpum þremur árum fær þjóðkirkjan þorra þessarar upphæðar. Árlega fær hún framlög frá ríkinu á grundvelli kirkjujarðasamkomulagsins sem og framlög sem renna til Kirkjumálasjóðs og Jöfnunarsjóðs sókna, auk meginþorra sóknargjalda. Í kirkjujarðasamkomulaginu fólst að ríkið yfirtók hundruð jarða sem kirkjan átti upphaflega, gegn því að greiða laun presta.
Næstum 150 þúsund manns standa utan þjóðkirkju
Í byrjun þessa mánaðar voru 228.298 manns skráðir í þjóðkirkjuna, sem er enn langfjölmennasta trúfélag landsins þrátt fyrir mikla fækkun innan þess á undanförnum árum og áratugum. Alls hefur þeim sem skráðir eru í þjóðkirkjuna fækkað um 968 frá því í desember 2021. Skráningar í þjóðkirkjuna náðu hámarki í byrjun árs 2009, þegar 253.069 voru skráðir í hana. Síðan þá hefur þeim fækkað um næstum 25 þúsund auk þess sem kirkjunni hefur ekki tekið að laða til sín hlutdeild í þeirri fjölgun sem orðið hefur á íbúum á Íslandi á tímabilinu, en íbúum hér hefur fjölgað um næstum 60 þúsund frá 2009.
Um síðustu aldamót stóðu alls tæplega 31 þúsund manns utan þjóðkirkjunnar. Það hefur því fjölgað í þeim hópi um meira en 105 þúsund manns á rúmum tveimur áratugum.
Sá söfnuður sem hefur vaxið hvað hraðast síðastliðinn ár er kaþólska kirkjan. Skráningar í hana fjórfölduðust á 20 ára tímabili og í dag eru skráðir meðlimir 14.709 talsins.
Í umfjöllun Kjarnans um þessa aukningu frá árinu 2019 kom fram að hún sé fyrst og síðast vegna þess að hingað til lands eru að flytja hópar erlendra ríkisborgara frá löndum þar sem kaþólska kirkjan er sterk. Þar munar mest um Pólverja, sem eru fjölmennasti hópur erlendra ríkisborgara hér á landi.
Lítið traust og meirihluti vill aðskilnað
Þeim Íslendingum sem treysta þjóðkirkjunni hefur fækkað um helming frá aldamótum, en í könnun sem var birt snemma á þessu ári sögðust 29 prósent landsmanna bera mikið traust til hennar. Af þeim stofnunum samfélagsins sem spurt var um traust til mældust einungis tvær með minna traust en þjóðkirkjan: bankakerfið (23 prósent) og borgarstjórn Reykjavíkur (21 prósent).
Önnur ástæða fyrir fækkun í þjóðkirkjunni sem blasir við er sú að áratugum saman var skipulag mála hérlendis þannig að nýfædd börn voru ætið skráð í trúfélag móður. Það þurfti því sérstaklega að skrá sig úr trúfélagi í stað þess að skrá sig inn í það.
Þessu var breytt árið 2013 og nú þurfa báðir foreldrar að tilheyra sama trú- og lífsskoðunarfélagi til að barnið sé skráð í félag, annars skráist barnið utan trúfélaga. Á sama tíma var ramminn utan um hvers kyns félög mættu skrá sig sem trú- og lífskoðunarfélög og þiggja sóknargjöld rýmkaður.
Kjarninn greindi frá því í nóvember í fyrra að einungis 15 prósent landsmanna eru ánægð með störf Agnesar M. Sigurðardóttur, biskups Íslands, samkvæmt þjóðarpúlsi Gallup.
Alls sögðust 51 prósent landsmanna að þeir vildu aðskilnað ríkis og kirkju. Hlutfallið hefur verið yfir 50 prósent í næstum árlegum könnunum Gallup frá árinu 2007.
Í þjóðarpúlsinum sást að fólk undir fertugu er helst hlynnt aðskilnaði.