Síldarvinnslan, Samherji Íslands og Útgerðarfélag Akureyrar högnuðust samtals um 16,5 milljarða króna í fyrra. Þá er búið að taka tillit til þess að útgerðarfélögin þrjú greiddu samtals um 4,4 milljarða króna í veiðigjöld og skatta. Því fór um fimmtungur þess sem var til skiptanna hjá félögunum þremur eftir greiddan kostnað til ríkisins en afgangurinn, tæp 80 prósent, rann til hluthafa.
Þetta má lesa út úr ársreikningum þeirra þriggja vegna ársins 2021.
Samherji hf. á tvö síðarnefndu félögin að öllu leyti og rekur botnfisksveiðar og -vinnslu sína í gegnum þau. Samherji hf. er auk þess stærsti eigandi Síldarvinnslunnar sem er en stærsta uppsjávarveiðaútgerð landsins. Móðurfélagið á um þriðjung í Síldarvinnslunni sem er skráð á hlutabréfamarkað, en talið sem hlutdeildarfélag í ársreikningi Samherja hf.
Samherji Ísland
Samherji Ísland, útgerðar- og fiskvinnslufyrirtæki að öllu leyti í eigu Samherjasamstæðunnar, hagnaðist um næstum fjóra milljarða króna á árinu 2021, ef miðað er við meðalgengi evru á síðasta ári, en útgerðin gerir upp í þeirri mynt.
Útgerðin er með fjórðu mestu aflahlutdeild í íslenskri efnahagslögsögu allra sjávarútvegsfyrirtækja á Íslandi, eða 8,09 prósent, samkvæmt síðustu birtu tölum.
Stjórn Samherja Ísland ákvað að greiða út 40 prósent af hagnaði ársins í arð til móðurfélagsins Samherja hf. vegna síðasta árs, sem eru þá um 1,6 milljarðar króna. Greidd veiðigjöld voru því undir 30 prósent af arðgreiðslunni sem greidd var upp í móðurfélagið Samherja hf.
Útgerðarfélag Akureyringa
Hitt útgerðarfélagið sem Samherji hf. á að öllu leyti er Útgerðarfélag Akureyringa, sem heldur á 1,1 prósent af öllum úthlutuðum kvóta. Samanlagt halda Samherji Ísland og Útgerðarfélag Akureyringa því á 9,2 prósent af öllum kvóta á Íslandi. Samanlagt gera félögin tvö út átta skip og reka landvinnslu á Dalvík, Akureyri og á Laugum í Reykjadal.
Samkvæmt tilkynningu sem birt var á vef Samherja í gær samnýtir það félag veiðiheimildir sínar með Samherja Íslandi. Vegna þessa bókfærði Samherji Ísland um einn milljarð króna í kvótaleigutekjur á síðasta ári en Útgerðarfélag Akureyrar leigði allan þann kvóta af systurfélaginu fyrir sömu upphæð.
Vergur hagnaður Útgerðarfélags Akureyringa, eftir greiðslu 240 milljón króna veiðigjalds, á síðasta ári var 4,2 milljarðar króna. Kvótaleiga, afskriftir og fjármagnsgjöld, ásamt umtalsverðum neikvæðum gengismun, gerði það að verkum að endanlegur hagnaður Útgerðarfélags Akureyrar eftir greiðslu 127 milljón króna í skatta, var 1,4 milljarðar króna. Stjórn félagsins ákvað að greiða helminginn af þeirri upphæð til móðurfélagsins Samherja hf. í arð, eða um 700 milljónir króna.
Samtals greiddi Útgerðarfélag Akureyringa því um 367 milljónir króna, miðað við meðalgengi evru, í ríkissjóð á síðasta ári eða rúmlega helming þess sem félagið greiddi í arð til móðurfélagsins Samherja hf.
Síldarvinnslan
Samherji er líka stærsti einstaki eigandi útgerðarrisans Síldarvinnslunnar, sem skráð er á markað, með 32,6 prósent hlut. Síldarvinnslan hélt á 9,41 prósent af úthlutuðum kvóta samkvæmt síðustu birtu upplýsingum Fiskistofu og félagið tilkynnti nýlega um kaup á Vísi í Grindavík fyrir á fjórða tug milljarða króna, en Vísir heldur á 2,16 prósent af öllum úthlutuðum kvóta. Að óbreyttu fer Síldarvinnslan ein og sér því yfir það tólf prósent hámark sem hver útgerð má samkvæmt lögum halda á af úthlutuðum kvóta.
Síldarvinnslan hagnaðist um 11,1 milljarð króna í fyrra. Af þeirri upphæð féllu um þrír milljarðar króna til vegna söluhagnaðar sem myndaðist þegar SVN eignafélag, stærsti eigandi tryggingafélagsins Sjóvár, var afhentur fyrri hluthöfum Síldarvinnslunnar áður en félagið var skráð á markað í maí í fyrra.
Síldarvinnslan greiddi hluthöfum sínum 3,4 milljarða króna í arð, miðað við meðalgengi Bandaríkjadals á árinu 2021 en félagið gerir upp í þeirri mynt.
Þegar horft er á rekstrarhagnað félagsins fyrir afskriftir, fjármagnskostnað og skatta (EBITDA), þar sem búið er að gera ráð fyrir greiðslu veiðigjalda en söluhagnaður vegn a SVN eignafélags er ekki tekinn með, nam hann 10,7 milljörðum króna á síðasta ári.
Félagið greiddi 531 milljónir króna í veiðigjöld í fyrra og tæplega 2,1 milljarð króna í tekjuskatt. Því námu samanlagðar greiðslur vegna veiðigjalds og tekjuskatts í ríkissjóð um 2,6 milljörðum króna,
Af þeim arðgreiðslum sem Síldarvinnslan greiddi fóru um 1,1 milljarður króna til stærsta eigandans, Samherja hf.
Móðurfélagið
Vert er að taka fram að Samherji hf., félagsins sem heldur utan um innlendan rekstur Samherja, starfsemi í Færeyjum auk eignarhluta í nokkrum skráðum félögum, greiddi hluthöfum sínum ekki út arð vegna síðasta árs og hefur raunar ekki gert það síðustu þrjú rekstrarár. Hagnaður samstæðunnar í fyrra var 17,1 milljarður króna og eigið fé þess var orðið 89 milljarðar króna um síðustu áramót. Eiginfjárhlutfallið var 72 prósent í lok árs 2021.
Samherji á líka fjárfestingafélagið Kaldbak, sem heldur utan um ýmsar fjárfestingaeignir samstæðunnar. Þar ber helst að nefna 4,5 prósent hlut í smásölurisanum Högum, sem færður var inn í Kaldbak fyrr á þessu ári og er metinn á um 3,7 milljarða króna í dag.
Eigendur
Tilkynnt var opinberlega um eigendaskipti á Samherja hf. 15. maí 2020. Þá birtist tilkynning á heimasíðu Samherjasamstæðunnar um að Þorsteinn Már Baldvinsson, Helga S. Guðmundsdóttir og Kristján Vilhelmsson væru að færa næstum allt eignarhald á Samherja hf., sem er eignarhaldsfélag utan um þorra starfsemi samstæðunnar á Íslandi og í Færeyjum, til barna sinna. Sú tilfærsla átti sér þó stað á árinu 2019.
Þau halda hins vegar áfram að vera eigendur að erlendu starfseminni, og halda á stórum hlut í Eimskip, sem hefur frá 2018 verið vistað inni í öðru eignarhaldsfélagi. Ársreikningur Samherja Holding vegna ársins 2021 liggur ekki fyrir.
Stærsti eigandi Samherja hf. í dag er félagið K&B ehf., sem er í 2,1 prósent eigu Þorsteins Más, forstjóra Samherja, 49 prósent eigu Baldvins Þorsteinssonar, sonar hans, og 48,9 prósent eigu Kötlu Þorsteinsdóttur, dóttur Þorsteins Más. Það á 44,1 prósent í félaginu. Félagið Bliki ehf., sem Samherji á sjálfur 32,1 prósent í og flokkast þar með sem dótturfélag samstæðunnar, er næst stærsti einstaki eigandinn með 11,9 prósent hlut. Samherji keypti 10,3 prósent hlut í Blika í fyrra auk þess sem dótturfélagið Framinvest Sp/f á 28,2 prósent eignarhlut í Blika. Krosseignatengsl félaganna eru færð út til lækkunar á eigin fé í reikningum Samherja. Þorsteinn Már er helsti skráði stjórnandi Framinvest sp/f, sem er með heimilisfesti í Færeyjum.
Halldór Örn, Kristján Bjarni og Katrín, börn útgerðarstjórans Kristjáns Vilhelmssonar, eiga samanlagt með um 41,5 prósent hlutafjár en ekkert þeirra meira en 8,5 prósent hlut hvert.