Hugmyndir Happdrættis Háskóla Íslands (HHÍ) um rekstur spilavítis eru þvert á niðurstöðu starfshóps Háskóla Íslands um álitaefni tengd tekjuöflun HHÍ.
Þetta er mat Henrys Alexanders Henryssonar, doktors í heimspeki, sem átti frumkvæði að stofnun starfshópsins í febrúar 2021.
Rektor skipaði starfshóp um álitaefni tengd tekjuöflun HHÍ í mars 2021 og skilaði hann tillögum í júní sama ár. Niðurstaða hópsins var að Háskóla Íslands beri að leggja áherslu á skaðaminnkandi aðgerðir í tengslum við rekstur spilakassa. Meðal tillagna var að hvetja HHÍ til að taka sem fyrst nauðsynleg skref til innleiðingar spilakorta í þeim tilgangi að takmarka spilagetu einstakra spilara.
„Það var mikill þrýstingur að það yrði fundin leið til að skrúfa þetta niður. Það var niðurstaða starfshópsins að það yrði að gera eitthvað fljótt. Það var pínu óánægja, ég held að það sé ekkert leyndarmál, hvað gengur hægt að bregðast við niðurstöðum starfshópsins,“ segir Henry í samtali við Kjarnann.
Skömmu eftir að starfshópur háskólans hóf störf skipaði Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, þáverandi dómsmálaráðherra, starfshóp um happdrætti og fjárhættuspil. Starfshópurinn skilaði tillögum til Jóns Gunnarssonar dómsmálaráðherra í lok nóvember, nærri einu og hálfu ári eftir að hópurinn átti fyrst að skila tillögum.
Tillögur HHÍ þvert á niðurstöður starfshóps háskólans
Í minnisblaði sem Bryndís Hrafnkelsdóttir, forstjóri HHÍ, sendi formanni starfshópsins í maí síðastliðnum er lögð fram tillaga um að núverandi sérleyfishöfum á happdrættismarkaði verði heimilt að opna spilavíti.
„Þetta er þvert á niðurstöðu starfshóps háskólans, þetta er bara alveg út í hött, þetta er bara einhver vitleysa,“ segir Henry.
Tillögur starfshóps ráðuneytisins hafa ekki verið gerðar opinberar en samkvæmt heimildum Kjarnans er ekkert þar að finna um tillögur að sérleyfishöfum verið veitt leyfi til að reka spilavíti.
Hugmyndir um spilavíti hafi ítrekað komið fram
Bryndís segir í svari við skriflegri fyrirspurn Kjarnans að hugmyndin um spilavíti hafi aldrei verið til umfjöllunar í starfshópnum en að „hugmyndir um að heimila rekstur spilahalla hér á landi hafa ítrekað komið fram“. Vísar hún til að mynda í frumvörp sem lögð voru fram á Alþingi 2014-2016.
„Í umsögnum um þau þingmál lagði HHÍ áherslu á að ef heimila ætti slíka starfsemi ætti að fylgja þeirri stefnu sem gildir um happdrætti hér á landi, þ.e. að allur hagnaður af slíkri starfsemi renni til þjóðþrifamála,“ segir í skriflegu svari Bryndísar.
Ekkert sem ætti að koma í veg fyrir skaðaminnkandi aðgerðir
Henry segir að hugmyndin með skipan starfshóps háskólans hafi verið að samræma viðbrögð háskólans við vaxandi gagnrýnisröddum um að rekstur spilakassa sé snar þáttur í tekjuöflun ýmissa stofnana og félagasamtaka sem þjóna samfélagslega mikilvægu hlutverki.
„Ef einhvers staðar er þekking á þessum málaflokki í íslensku samfélagi þá er það alltaf innan háskólans sjálfs,“ segir Henry. Tillögum starfshópsins hefur hins vegar ekki verið fylgt eftir.
„Afsökunin hefur verið sú, sem ég er reyndar persónulega ósammála, að það þurfi að bíða eftir niðurstöðum starfshópi dómsmálaráðuneytisins,“ segir Henry, en að hans mati er ekkert sem ætti að koma í veg fyrir að háskólinn ráðist í skaðaminnkandi aðgerðir. Í staðinn er Happdrætti Háskóla Íslands að fara í allt aðra átt en starfshópurinn lagði til, til að mynda með hugmyndum um rekstur spilavítis.
„Við vorum að reyna að berjast við að bjarga skólanum og orðspori hans. Við komumst að samhljóða niðurstöðu að það væri ekkert eftir neinu að bíða fyrir háskólann. Allar skaðaminnkandi aðgerðir sem eru mögulegar, það er engin réttlæting á að fara ekki strax í þær. Það er bara þannig.“
Henry segir að happdrættið sjálft, sem HHÍ stendur fyrir, muni líða fyrir áherslur HHÍ á spilavíti og fjárhættuspil á netinu.
„Ég hef haldið því persónulega fram að það séu tækifæri til að sækja fram á þeim markaði sem er allt annars eðlis og ekki skaðavaldandi markaður, að reka happdrættið sjálft,“ segir Henry. Þannig væri hægt að loka spilakössum en hvetja fólk til að kaupa happdrættismiða.
„En ef Happdrætti háskólans ætlar að fara í þessa átt þá finnst mér, markaðslega, verið að missa af tækifærinu.“