Árið 1941, ári eftir hernám Þjóðverja á Danmörku, undirritaði Henrik Kauffmann sendifulltrúi Dana Í Washington (hafði verið sendiherra fyrir hernámið) samkomulag við Bandaríkjamenn, kallað Kaufmanntraktaten. Í samkomulaginu fólust yfirráð Bandaríkjamanna í varnarmálum Grænlands. Danska ríkisstjórnin, sem var undir hæl Þjóðverja, andmælti samkomulaginu og Kaufmann var rekinn úr starfi. Danski aðalræðismaðurinn í Bandaríkjunum lýsti sig sammála Kaufmann og fékk sömuleiðis reisupassann. Kauffmann átti þó afturkvæmt í þjónustuna og varð sendiherra í Bandaríkjunum eftir að stríðinu lauk. Hann sat um tíma í stríðslok sem utanþingsráðherra í dönsku ríkisstjórninni (Befrielsesregeringen) og var einn fulltrúa Dana við stofnun Sameinuðu þjóðanna.
Samkvæmt áðurnefndu samkomulagi fengu Bandaríkjamenn rétt til að koma upp herstöðvum á Grænlandi, bæði á austur og vesturströndinni, samtals 14 stöðvum. Veðurathuganir voru stór þáttur í starfseminni en sömuleiðis voru allsstaðar öflugar loftskeyta- og endurvarpsstöðvar. Flugvellir, misstórir, voru ennfremur við allar stöðvarnar.
Nýr samningur og nauðungarflutningur
Árið 1951 undirrituðu Danir og Bandaríkjamenn nýjan samning sem var að flestu leyti á sömu nótum og samkomulagið frá 1941. Skömmu eftir undirritun samkomulagsins hófu Bandaríkjamenn framkvæmdir á herstöðinni sem gekk undir heitinu Bluie West-6, en fékk síðar nafnið Thule. Áðurnefndar framkvæmdir við stækkun herstöðvarinnar, sem er á Norður- Grænlandi, nefndust Operation Blue Jay og áttu að vera leynilegar en fréttir af þeim spurðust strax út. Þessum framkvæmdum lauk árið 1953. Í tengslum við stækkunina voru allir íbúar þorpsins Uummannaq, sem var í næsta nágrenni við herstöðina, 116 talsins, fluttir nauðugir til þorpsins Qaanaaq 150 kílómetrum fyrir norðan Thule. Þar höfðu Danir byggt ný íbúðarhús og veittu ýmiskonar aðra aðstoð. Tilkynningu um flutninginn fékk fólkið með þriggja vikna fyrirvara.
Málið tekið upp aftur
Árið 1985 sendu tveir danskir blaðamenn, Jens Brøsted og Mads Fægteborg frá sér bókina „Thule – fangerfolk og Militæranlæg“.
Í bókinni sem byggði á mikilli heimildavinnu kom fram að íbúarnir í Uummannaq höfðu ekki flutt sjálfviljugir. Tveimur árum síðar settu íbúarnir kröfðust íbúarnir sem höfðu flutt þess að ríkið greiddi þeim bætur. Í kjölfarið var sett á laggirnar rannsóknarnefnd. Hún starfaði í sjö ár, án þess að komast að niðurstöðu. Árið 1996 stefndi Thule fólkið (eins og það er iðulega kallað) danska forsætisráðuneytinu þar sem farið var fram á bætur og leyfi til að flytja til baka. Eystri-Landsréttur féllst ekki á að fólkið gæti snúið til baka en úrskurðaði bætur sem voru langt frá þeirri upphæð sem krafist hafði verið. Thule fólkið leitaði þá til Mannréttindadómstóls Evrópu. Dómstóllinn vísaði málinu frá á þeirri forsendu að Mannréttindasáttmáli Evrópu hefði ekki verið í gildi í Danmörku þegar flutningur fólksins frá Thule svæðinu fór fram.
Kaldastríðstitringur og þíða
Á fyrstu árum sjöunda áratugarins var mikið um að vera í Thule herstöðinni. 1961 voru settar upp í nágrenni stöðvarinnar ratsjár sem tengdust loftvarnakerfi Bandaríkjahers. Loftvarnakerfið, sem tengdist meðal annars Íslandi, átti að geta varað við flugskeytum sem skotið væri frá Sovétríkjunum eða kafbátum á Norður- Atlantshafi. Um tíu þúsund hermenn voru á þessum árum í Thule herstöðinni. Smám saman minnkuðu umsvif Bandaríkjamanna í takt við að dró úr kaldastríðstitringnum.
Bandarísku herstöðvunum á Grænlandi var lokað einni af annarri og hermennirnir hurfu á braut, en geysilegt magn af alls kyns rusli, sem enginn taldi sig bera ábyrgð á, varð eftir. Undanfarið hafa um 300 bandarískir hermenn verið í Thule, einu herstöðinni sem ekki hafði verið lokað. Viðhald tækja og búnaðar í lágmarki og mannvirkin hafa drabbast niður.
Kínverjar vildu kaupa herstöð en Trump vildi kaupa allt landið
Ein þeirra herstöðva sem Bandaríkjamenn höfðu komið upp í byrjun fimmta áratugar síðustu aldar var í Kangilinnguit, Grønnedal. Danir tóku síðar við herstöðinni, sem var var lokað árið 2014. Danski flotinn auglýsti stöðina til sölu og hafi danski flotinn haft áhyggjur yfir að kaupendur yrðu ekki á hverju strái, reyndust þær ástæðulausar. Nokkur fyrirtæki sýndu stöðinni áhuga og þar fór fremst kínverskt fyrirtæki. Þegar fréttir af miklum áhuga Kínverja bárust til eyrna Lars Løkke Rasmussen þáverandi forsætisráðherra brást hann strax við og ekkert varð af sölunni. Ákveðið var að hefja að nýju fasta viðveru danska hersins í Kangilinnguit og nota aðstöðuna til geymslu á eldsneyti og ýmsu fleiru, eins og það var orðað.
En það voru fleiri en danski forsætisráðherrann sem hrukku við þegar fréttir af síauknum áhuga Kínverja á Grænlandi bárust. Kínverskir bankar höfðu boðist til að lána Grænlendingum fé til byggingar þriggja flugvalla og tilheyrandi mannvirkja. Ráðamenn í bandaríska varnarmálaráðuneytinu höfðu, þegar fréttir af flugvallaáformunum bárust, samband við danska varnarmálaráðherrann í því skyni að koma í veg fyrir að lánið yrði þegið. Í ágúst 2019 lýsti Donald Trump, þáverandi forseti, því yfir að hann vildi að Bandaríkin keyptu Grænland eins og það legði sig. Slíkt væri einfaldlega eins og hver önnur fasteignaviðskipti. Þegar forsetinn lét þessi orð falla var heimsókn hans til Danmerkur í undirbúningi. Hugmyndir forsetans mættu litlum skilningi í Danmörku og Mette Frederiksen forsætisráðherra sagði að Grænland væri ekki til sölu. Trump hætti svo við Danmerkurferðina. Þótt flestum hafi þótt hugmynd forsetans þáverandi um fasteignaviðskiptin fráleit sýndi hún að Bandaríkjamönnum væri æ betur ljóst mikilvægi Grænlands. Ekki hvað ekki síst í hernaðarlegu tilliti sem jafnframt skýrði stóraukinn áhuga Kínverja og Rússa á að komast til áhrifa í landinu. Hér má geta þess að Bandaríkin opnuðu ræðisskrifstofu í Nuuk árið 2020.
Milljarðasamningur tekur gildi í ársbyrjun 2023
Eins og fyrr var getið hafa Bandaríkjamenn sýnt Grænlandi aukinn áhuga á síðustu árum. Í skýrslu bandaríska varnarmálaráðuneytisins frá árinu 2018 er mikil áhersla lögð á nauðsyn þess að Bandaríkin semji við Dani um stóraukna uppbyggingu herstöðvarinnar í Thule. Í því sambandi voru háar fjárhæðir nefndar. Í byrjun þessa árs var tilkynnt að á næstu 12 árum væri fyrirhugað að nota jafngildi 570 milljarða íslenskra króna til uppbyggingar og endurbóta á herstöðinni og flugvellinum í Thule.
Hlýnun jarðar hefur komið illa við flugvöll og byggingar
Þótt einhverjum kunni að koma það á óvart hefur hlýnun jarðar haft mikil áhrif í Thule. Flugvöllurinn og allar byggingar á svæðinu voru á sínum tíma, á sjötta áratug síðustu aldar, einfaldlega lagðar á gaddfreðna jörðina, ef svo mætti að orði komast. Á síðustu árum hefur jarðvegurinn undir þessum mannvirkjum frosið og þiðnað á víxl. Það hefur orðið til þess að húsin á svæðinu hafa skemmst og stórar sprungur myndast á flugbrautunum, sem á köflum hafa líka sigið.
Peningarnir merki um áherslur Bandaríkjamanna
Uppbyggingin í Thule er skýrt merki um vilja Bandaríkjamanna til samvinnu við Grænlendinga, og áherslubreytingar. Bandaríski herinn hefur um árabil lagt mikla áherslu á baráttu gegn hryðjuverkum en mun minni á starfsemi og uppbyggingu á norðurslóðum. Í viðtali í ágúst síðastliðnum sagði Jens Stoltenberg framkvæmdastjóri NATO að Norðurskautssvæðið væri akkillesarhæll, veikur hlekkur, í varnarkeðju bandalagsins. Sérstaklega með tilliti til ágengni og ögrunar Rússa. En nú verði breyting á, í stað þess að Thule sé eingöngu einskonar varðstöð, eins og verið hefur um langt skeið, verði stöðin framvegis mikilvægur hlekkur í varnarkeðju NATO.