Hvað ætlar Samfylkingin að verða þegar hún er orðin stór?
Nýr formaður mun taka við Samfylkingunni í haust. Langlíklegast er að sá verði Kristrún Frostadóttir, ákveði hún að bjóða sig fram. Dagur B. Eggertsson virðist ekki sýna formennskunni neinn áhuga og aðrir frambjóðendur eru ekki á fleti. Samfylkingin þarf þó að gera meira en að skipta um fólk í brúnni. Hún þarf að finna kjarnann í jafnaðarmennsku sinni að ný og svara heiðarlega hvað veldur því að flokkurinn nær ekki til fleiri kjósenda.
Það kom fáum á óvart þegar Logi Einarsson tilkynnti að hann ætlaði að stíga til hliðar sem formaður Samfylkingarinnar á komandi landsfundi flokksins, sem fram fer í október. Það hafði verið á margra vitorði að hann hafi ætlað að hætta strax eftir síðustu þingkosningar, þegar flokkur hans fékk 9,9 prósent atkvæða og tapaði fylgi milli kosninga, en hafi verið talinn af því. Var beðinn um að bíða aðeins.
Ástæðan var sú að lykilfólk sá sem var að hraðsoðin breyting í forystunni vegna lélegs árangurs í kosningum væri ekki það sem til þyrfti. Vandinn væri ekki bara nafnið fyrir framan formannstitillinn. Hann væri djúpstæðari.
Samfylkingin er jafnaðarmannaflokkur. Á hinum Norðurlöndunum hafa slíkir flokkar, sem starfa eftir rótgróinni kjarnastefnu sósíaldemókrata um blandað hagkerfi með áherslu á sterk velferðarkerfi, verið í lykilhlutverki við mótum samfélaga áratugum saman. Hérlendis hefur Samfylkingin náð að sitja í ríkisstjórn í tæp sex ár samtals í 23 ára sögu sinni og hefur fengið undir tíu prósent atkvæða í tveimur af þremur síðustu þingkosningum.
Af hverju vilja svona fáir kjósa jafnaðarmannaflokkinn, og það sem meira er, af hverju er fullt af venjulegu fólki, sem ætti að hafa hag af stjórnmálum jafnaðarmannastefnunnar, beinlínis illa við flokkinn?
Stærri naflaskoðun þurfti að eiga sér stað.
Á flokksstjórnarfundi sem fór fram í mars flutti Logi ræðu þar sem hann gerði upp vonbrigðin í síðustu kosningum og sagði: „Ef við horfum gagnrýnum augum inn á við er vafalaust hægt að leita skýringa víða; aðferðir við val á lista, mótun skilaboða, samskiptaháttum, mannauð og forystu flokksins. Og þar ber ég að sjálfsögðu ábyrgð.“
Á landsfundi í október 2022 yrðu teknar „stórar ákvarðanir um framtíð flokksins.“ Þær stóru ákvarðanir snúa annars vegar að persónum og leikendum og hins vegar að málefnaáherslum.
Kristrún augljósi kosturinn
Byrjum á persónum. Logi staðfesti loks það sem blasað hafði við í viðtali við Fréttablaðið 18. júní síðastliðinn. „Ég er að hætta sem formaður af því að ég er sannfærður um að aðrir geti gert betur en ég.“
Þetta er óvenjulega heiðarlegt uppgjör formanns við stöðu eigin flokks. Formanns sem varð óvart formaður án þess að vera kjörinn slíkur eftir afhroð í kosningunum 2016 og hefur verið formaður í næstum sex ár. Formanns sem hefur setið lengur en nokkur annar frá því að Samfylkingin varð til.
Það lá fyrir áður en Logi tilkynnti formlega um ákvörðun sína að það koma einungis tveir einstaklingar til greina sem næsti formaður.
Annar þeirra, Kristrún Frostadóttir, hefur þegar tilkynnt að hún sé að íhuga formannsframboð og að hún muni tilkynna um ákvörðun sína eftir verslunarmannahelgi. Sumt lykilfólk innan flokksins telur hana þegar vera búna að gera upp hug sinn og að hún fari fram, en annað segir að hún geri það ekki nema að hún viti að hún finni mjög breiðan stuðning við þær málefnaáherslur sem hún hefur. Samtöl við fólk innan Samfylkingarinnar og viðar um það standa nú yfir, og munu gera fram yfir komandi mánaðamót.
Raunar var byrjað að tala Kristrúnu upp sem næsta formann Samfylkingarinnar nánast samstundis og hún gekk í flokkinn til að bjóða fram fyrir hann í Reykjavík í aðdraganda kosninganna í fyrra. Meðal annars vegna þessa þrýstings fór Kristrún ein í hringferð um landið fyrr á þessu ári og hélt opna fundi með fólki í þeirra heimabyggð, á sama tíma og aðrir þingmenn nýttu kjördæmadaga til að ferðast saman um landið til að hitta kjósendur.
Hún vildi kanna hvort fólk, venjulegt fólk, tengdi raunverulega við hana. Og hún við það.
Ungt fólk getur náð árangri sem formenn
Kristrún er einungis 34 ára gömul með unga fjölskyldu. Hún kemur úr fjármálageiranum, ekki ungliðahreyfingum stjórnmálanna, og það er stór ákvörðun fyrir hana að ákveða að sækjast eftir formennsku. Hún hefur kallað þingstörf sín, og þátttöku í stjórnmálum, samfélagsþjónustu og fátt bendir til þess að hún hafi gengið með formannsdrauma í maganum frá unga aldri. Sú staða sem er að teiknast upp, þar sem Kristrún er augljósasti kosturinn í formannsstólinn, er eitthvað sem einfaldlega gerðist vegna þess hvernig fólk brást við henni þegar hún steig inn á stjórnmálasviðið.
Verði Kristrún næsti formaður Samfylkingarinnar verður hún lang yngst til að gegna því embætti. Það met átti Árni Páll Árnason áður, en hann var 46 ára við embættistöku (Margrét Frímannsdóttir, sem var talsmaður flokksins í árdaga hans var reyndar yngri, 44 ára).
Það eru þó ekki mörg ár síðan að formaður var kjörinn í rótgrónum íslenskum stjórnmálaflokki sem vantaði nokkra mánuði uppi í að vera 34 ára. Þar var um að ræða Sigmund Davíð Gunnlaugsson, sem tók við formennsku í Framsóknarflokknum í janúar 2009 skömmu eftir að hafa gengið í flokkinn. Fjórum árum síðar fékk sá flokkur sína bestu kosninga frá árinu 1979, þegar 24,4 prósent kjósenda kusu hann.
Ef horft er til nágrannalanda okkar má svo benda á að Sanna Marin tók við sem forsætisráðherra Finnlands 34 ára gömul árið 2019 og var ári síðar kjörin formaður sósíaldemókrata þar í landi.
Dagur ólíklegur
Hinn augljósi kosturinn í formannsstólinn er Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri í Reykjavík. Lengi hefur verið legið í Degi að stíga inn í landsmálin og árum saman þá hefur formannsstólinn í raun staðið honum til boða, ef hann vildi hann. Síðast í aðdraganda kosninganna 2021. Hingað til hefur hann hafnað þeim valkosti. Kostirnir við Dag eru þeir að hann hefur ítrekað leitt flokkinn í Reykjavík til valda, og fengið mun meira fylgi en hann fær að jafnaði í þingkosningum. Hann vinnur, á meðan að Samfylkingin heilt yfir tapar.
Dagur hefur enn ekkert gefið út um hvort hann ætli að láta slag standa í haust, hvorki innan flokks né opinberlega. Hann myndaði nýverið nýjan meirihluta í Reykjavík og mun sitja áfram sem borgarstjóri út næsta ár.
Eins og staðan er nú er ekki búist við því að Dagur sækist eftir formennsku. Flestir viðmælendur Kjarnans innan Samfylkingarinnar eru að minnsta kosti á þeirri skoðun. Hann og Kristrún ná vel saman og nær útilokað er að þau muni keppa við hvort annað um formennskuna. Draumur einhverra jafnaðarmanna um að þau myndi sameiginlegt forystuteymi virðist byggður á sandi.
Fyrir liggur að vilji er til þess í ýmsum kreðsum innan flokksins að glæný forysta taki við í haust. Að flokkurinn fái nýja ásýnd og að sagt verði skilið við gamla flokkadrætti klíkna innan Samfylkingarinnar sem beri umtalsverða ábyrgð á stöðu flokksins eins og hún er.
Heiða Björg Hilmarsdóttir borgarfulltrúi hefur hins vegar gefið það út að hún hafi ekki tekið aðra ákvörðun en að vera áfram í forystu flokksins.
Enginn augljós áskorandi hefur stigið fram til að skora hana á hólm.
Hvað ætlar Samfylkingin að verða?
Samfylkingin hefur ekki setið í ríkisstjórn síðan 2013. Á áðurnefndum flokksstjórnarfundi fyrr á þessu ári reyndi Logi Einarsson að greina ástæður þess að Samfylkingunni gengi ekki betur en raun ber vitni. Ástæður þess að jafnaðarmenn leiða ríkisstjórn á öllum Norðurlöndunum nema einu, Íslandi.
Stutta skýring Loga var að flokkurinn hefði þrengt skírskotun sína of mikið. Hlustað of mikið á bergmálshella samfélagsmiðla í stað þess að reyna að sameina kjósendur um breiðar línur, og umbera að það þurfi ekki allir að vera sammála um allt. „Við ættum ef til vill að fara sjaldnar inn á FaceBook, Twitter, Tik Tok og hvað þetta nú allt heitir – þar hittum við fyrst og fremst fyrir viðhorf sem okkur þykja þægileg og speglum okkur í fólki sem er sammála okkur. Fáum einfaldlega skakka mynd af veruleika stórs hluta landsmanna,“ sagði Logi og bætti við að þessir bergmálshellar blindi flokknum stundum sýn og gefi afmörkuðum málum vigt, langt umfram tilefni eða áhuga þorra almennings.
„Við þykjumst höndla einhvern heilagan sannleik, í samræðum mjög lítils hóps með svipaðar skoðanir og leggjum fram mjög afdráttarlausa stefnu eða útfærslu í einstaka málum. Jafnvel þótt ólík afstaða til þeirra skilgreini á engan hátt hvort fólk sé trútt jafnaðarstefnunni eða ekki – hefur jafnvel alls ekkert með jafnaðarstefnuna að gera.“
Þarf Akureyri að verða borg?
Vitað er að Kristrún talar fyrir að einfalda ásýnd Samfylkingarinnar. Að áhersla verði á efnahags- og skattamál á breiðum grunni jafnaðarstefnunnar, húsnæðismál, heilbrigðismál, loftslagsmál og almannatryggingakerfið.
Auk ofangreinds blasir við að aukinn kraftur verður settur á að haldin verði þjóðaratkvæðagreiðsla um áframhaldandi viðræður um aðild Íslands að Evrópusambandinu, sérstaklega í ljósi þess að síðustu kannanir sýna algjöran viðsnúning á afstöðu þjóðarinnar til aðildar.
Í tveimur könnunum sem gerðar hafa verið í ár er næstum helmingur landsmanna fylgjandi aðild en um þriðjungur á móti henni. Það er í fyrsta sinn síðan 2009 sem meirihluti mælist fyrir aðild hérlendis í könnunum. Þá sýndu niðurstöðu íslensku kosningarannsóknarinnar, sem framkvæmd var í kringum síðustu þingkosningar, að viðsnúningur sé orðin á afstöðu þjóðarinnar gagnvart annars vegar markaðshyggju og hins vegar auknu alþjóðasamstarfi. Þar eru því atkvæði að sækja.
Samandregið þá þurfi Samfylkingin að tala fyrir stefnumálum sem snerta daglegt líf venjulegs fólks á breiðum grundvelli. Að málefnaáherslur flokksins ættu að komast fyrir á einni blaðsíðu.
Til samanburðar má nefna að Samfylkingin gaf út sína eigin aðgerðaráætlun um hvernig ætti að takast á við efnahagslegar afleiðingar kórónuveirufaraldursins í október 2020. Hún var 24 blaðsíður. Þar voru allskyns tillögur sem snúast ekkert um efnahagslegt viðbragð við kreppu, eins og sú að skilgreina eigi Akureyri sem borg. Slíkar tillögur hafa tilhneigingu til að rata inn í stefnuplögg flokksins til að allir áhugasamir innan flokksins fái sitt. Úr verður moðsuða sem fáir nenna að lesa og enn færri sjá mikinn þráð í.
Þannig hafa of mörg stefnuplögg Samfylkingarinnar verið á undanförnum árum. Löng málamiðlun þar sem reynt er um of að þóknast öllum, með þeim afleiðingum að of fáir bíta á agnið.
Þörf á að byggja brýr og auka samvinnu
Frá því að Samfylkingin varð til hafa kratar landsins oft birst fremur sem borgaraleg menntastétt sem hefur fjarlægst verkalýðinn, fremur en einhverskonar stjórnmálaarmur hans líkt og Alþýðuflokkurinn var áratugum saman. Vegna þessa skapaðist stjórnmálalegt tómarúm fyrir þá sem voru tilbúnir að vera málsvarar litla mannsins í samfélaginu. Inn í það tómarúm hefur hin nýja verkalýðsforysta, og óopinber stjórnmálaarmur hennar Sósíalistaflokkurinn, stigið.
Á sama tíma hefur flokkurinn, í viðleitni sinni við að elta vinda umræðunnar á hverjum tíma fyrir sig, misst tengsl við atvinnulífið. Hann, og þingmenn hans, hafa verið mun duglegri við að gagnrýna það sem á sér þar stað en að finna jákvæða fleti til að styðja við.
Í báðum tilvikum þarf að byggja brýr og móta skýrari stefnu.
Með hverjum vill Samfylkingin vinna?
Vatnaskil hafa orðið í afstöðu Samfylkingarinnar gagnvart Vinstri grænum. Samstarf við flokkinn verður sannarlega ekki útilokað en það verður ekki horft jafn stíft á myndun ríkisstjórnar undir forystu Katrínar Jakobsdóttur líkt og var gert í síðustu tveimur kosningum.
Raunar sagði Logi í áðurnefndri ræðu frá því í mars að stærstu mistök Samfylkingarinnar fyrir síðustu kosningar hafa verið barnaleg tiltrú á að Vinstri græn hefðu áhuga á ríkisstjórnarsamstarfi með félagshyggjuflokkum. Þegar öllu væri á botninn hvolft þá mætti þó draga dýrmætan lærdóm af þeirri reynslu. „Hann er er sá að umbótaflokkar frá miðju til vinstri verða að koma sér upp nýju leikskipulagi – verða valkostur. Það er stórt verkefni sem okkur ber að taka alvarlega.“
Logi sagði umbótaflokka í stjórnarandstöðu – Samfylkingu, Pírata og Viðreisn – hafa ítrekað staðið saman að þingmálum, nefndarálitum og breytingartillögum. „Bætt samvinna þessara flokka um sameiginlegar hugsjónir er fyrsta skrefið í átt að nýju leikskipulagi og skýrum valkosti fyrir næstu kosningar. Á sama tíma og við nýtum sameiginlegan slagkraft okkar til að vinna að mikilvægum málum í þágu almennings. [...] Allir þessir flokkar aðhyllast blandað hagkerfi, með áherslu á sterkt norrænt velferðarkerfi, þar sem mannréttindi eru í hávegum höfð og allir fá jöfn tækifæri til að dafna. Og þótt okkur greini kannski á um leiðir, eru markmiðin sameiginleg og okkur ber að vinna að þeim þvert á flokka.“
Nýlegt meirihlutasamstarf ofangreindra þriggja flokka við Framsóknarflokkinn í Reykjavík er talið vera skref í átt að þeim veruleika sem margir innan miðjuflokkanna vonast að sé að teiknast upp.
Nýir möguleikar að teiknast upp
Að óbreyttu er langt í kosningar og margt á án efa eftir að breytast áður en ný stjórn tekur við. Viðmælendur Kjarnans eru þó sammála um að ef vel takist til við formannskiptin í haust, og við að endurskilgreina hvernig samtal flokksins við kjósendur fer fram, þá sé Samfylkingin í góðum færum við að komast í ríkisstjórn sem mynduð yrði á málefnagrunni sem hún gæti vel sætt sig við.
Hríðfallandi fylgi Vinstri grænna, sem mælast nú með minnsta fylgið sem flokkurinn hefur nokkru sinni mælst með í könnunum Gallup, og sýnileg átök milli Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks við ríkisstjórnarborðið gefur til kynna að litlar líkur séu á að núverandi ríkisstjórnarsamstarf lifi lengur en þetta kjörtímabil. Þá dylst enda fáum að Framsóknarflokkurinn er farinn að máta sig við stærra hlutverk í ríkisstjórn, með allt aðrar áherslur en sú sem flokkurinn situr í nú. Varaformaður flokksins, Lilja Alfreðsdóttir, rekur til að mynda einskonar eins manns stjórnarandstöðu innan ríkisstjórnar þar sem hún gagnrýnir bankasölu, litla skattlagningu á fjármálafyrirtæki og sjávarútveg og hefur sett neytenda- og samkeppnismál á oddinn. Þær áherslur tala sem stendur mun betur við áherslur miðjuflokkanna þriggja í stjórnarandstöðu en það sem samstarfsflokkarnir í ríkisstjórn standa helst fyrir.
Það andar raunar oft ísköldu milli Lilju og helstu ráðamanna Sjálfstæðisflokksins við ríkisstjórnarborðið. Sá kuldi hefur ítrekað opinberast í hnútaköstum milli hennar og Bjarna Benediktssonar, formanns Sjálfstæðisflokksins, í fjölmiðlum á undanförnum mánuðum. En Lilja starfar ekki í tómarúmi. Framganga hennar nýtur stuðnings annarra í forystu Framsóknarflokksins, þar með talið formannsins Sigurðar Inga Jóhannssonar.
Sem stendur mælist fylgi Samfylkingarinnar 13,7 prósent. Píratar, flokkur sem stendur flokknum mjög nærri í öllum lykilmálum, mælast með 16,1 prósent fylgi. Samanlagt hafa þessir tveir flokkar bætt við sig 11,3 prósentustigum af fylgi á kjörtímabilinu. Ásamt Framsóknarflokknum eru þeir ekki langt frá því að geta myndað þriggja flokka meirihluta samkvæmt núverandi stöðu. Ef fjórða flokkinn þarf til er hægt að horfa bæði til vinstri, til Vinstri grænna, eða hægri, til Viðreisnar, til að mynda ríkisstjórn með rúman meirihluta.
En vika er langur tími í pólitík og staðan gæti verið gjörbreytt innan skamms tíma. Hver hún verður þegar næst verður kosið, hvenær sem það verður, er ómögulegt að spá fyrir.
Margt mun velta á því hvernig nýjum formanni Samfylkingarinnar mun ganga að endurnýja erindi flokksins við kjósendur.
Lestu meira:
-
11. janúar 2023Er íslenska velferðarkerfið ekki lengur griðarstaður þeirra sem minnst hafa?
-
10. janúar 2023Útvarp Saga telur fjölmiðlastyrki skapa tortryggni og bjóða upp á frændhygli
-
10. janúar 2023Fánabann og refsiaðgerðir í Palestínu í kjölfar niðurstöðu Sameinuðu þjóðanna
-
8. janúar 2023Lífeyrissjóðir hafa ekki lánað meira verðtryggt á einum mánuði frá því fyrir faraldur
-
8. janúar 2023Sögulegur en dýrkeyptur kosningasigur þingforsetans
-
7. janúar 2023BDSM-félagið fagnar því að loksins eigi að afnema klámbann
-
7. janúar 2023Litlu fjölmiðlarnir með eldspýturnar
-
7. janúar 2023Með hverjum stendur þú?
-
6. janúar 2023Tíu stærstu útgerðirnar halda á 56 prósent af öllum kvóta
-
6. janúar 2023Guðrún Hafsteinsdóttir segist taka við dómsmálaráðuneytinu í mars