Allt frá því að apabóla fór skyndilega að greinast í auknum mæli utan Afríku í maí fluttu fjölmiðlar, íslenskir sem erlendir, hverja fréttina á fætur annarri um útbreiðsluna. Talað var um faraldur, að sjúkdómurinn væri eitthvað „sem allir ættu að hafa áhyggjur af“ og að heilbrigðisyfirvöld á vesturlöndum væru uggandi.
En svo hefur allt (að mestu) fallið í dúnalogn og lítið bólar orðið á hinu furðulega orði „apabólu“ (sem leitarvélin Google vildi leiðrétta í „aparólu“ í byrjun faraldursins) í fréttum. Það á sér skýringar, sannarlega, og það nokkuð jákvæðar.
Apabóla er veirusýking sem berst frá dýrum til manna, rétt eins og flestir smitsjúkdómar. Einkennin eru svipuð og hjá bólusóttarsjúklingum, en þó ekki eins slæm. Sjúkdómurinn var þar til á þessu ári algengastur í Mið- og Vestur-Afríku, oft í nágrenni regnskóga, en hefur orðið vart í vaxandi mæli í þéttbýli.
Frá því að faraldurinn hóf að breiðast út í Evrópu og Norður-Ameríku í vor hafa rúmlega 68 þúsund tilfelli af sjúkdómnum greinst, segir Guðrún Aspelund sóttvarnalæknir við Kjarnann. Um 20 þúsund tilfelli hafa greinst í 29 löndum Evrópu „en greiningum hefur farið fækkandi síðan í lok júlí í Evrópu og einnig í Bandaríkjunum,“ segir hún.
Fyrsta tilfellið greindist hér á landi í byrjun júní. Samanlagt hafa síðan þá sextán manns greinst. Nýjasta tilfellið greindist fyrir um þremur vikum. „Það er enn hætta á frekari útbreiðslu í áhættuhópum en lítil hætta á almennri útbreiðslu,“ segir sóttvarnalæknir.
Umtalsvert stór hluti tilfella hefur greinst hjá körlum sem stunda kynlíf með körlum og þá þeim sem skipta oft um bólfélaga. Þótt sjúkdómurinn sé alvarlegur er hann hvorki bráðsmitandi né mjög lífshættulegur. Í fréttaskýringu New York Times frá því í byrjun október kom fram að 28 dauðsföll hafi orðið meðal tugþúsunda smitaðra.
Í sömu grein er rakið hvað varð til þess að faraldur sem var á allra vörum fyrir nokkrum vikum hefur dvínað mjög – að nýgreiningum í Bandaríkjunum hafi til að mynda fækkað um 85 prósent frá því að þær voru flestar í byrjun ágúst.
Bólusetningar
Bóluefni er til sem gagnast gegn apabólusmiti og þrátt fyrir brösuga byrjun í bólusetningum, m.a. í Bandaríkjunum, er talið að hún hafi gert sitt til að hægja á útbreiðslunni.
Skilaboðin komust til skila
Fólk í áhættuhópum tók varúðarorð heilbrigðisyfirvalda alvarlega. Það dró úr úr fjölda bólfélaga sinna, dró úr fjölda skyndikynna og kynlífs með ókunnugum. Þannig axlaði fólk sína ábyrgð á því að draga úr hættu á útbreiðslu veirunnar sem veldur apabólu.
Veiran dó út
Veiran sem veldur apabólu smitast fyrst og fremst með líkamsvessum í mjög nánum samskiptum fólks. Hún smitast ekki, eða minnsta kosti mjög sjaldan, með lofti og úða líkt og kórónuveirur til dæmis. Þess vegna á hún erfitt uppdráttar, ef svo má segja. Hún getur ekki stokkið frá einum líkama í annan, líkt og hin bráðsmitandi CoV-SARS-2 veira sem veldur COVID-19 sjúkdómnum. Risavaxin bylgja smita var því alltaf ansi ólíkleg, sérstaklega í ljósi þess sem að framan greinir: Bólusetning virkaði vel og fólk í áhættuhópum greip til sinna ráða til að verjast smiti.
Vísindamenn telja að reynsla okkar af heimsfaraldri COVID-19 hafi líka gert sitt gagn. Fólk er orðið færara í að meðtaka skilaboð um áhættu á ákveðnum sjúkdómum.
Óttuðust smánun áhættuhópa
Það sem hins vegar gerðist var að yfirvöld víða hikuðu við að útskýra nákvæmlega fyrir almenningi hverjir væru í mestri hættu á að fá apabólu. Það er að segja að greina frá því að flestir þeir sem smituðust í upphafi voru karlmenn sem áttu kynmök við karla, og þá eðli málsins samkvæmt voru þeir sem skiptu oft um bólfélaga mest útsettir fyrir veirunni.
Það er skiljanlegt að yfirvöld hafi á stundum hikað við að setja slíkar upplýsingar fram. Reynslan í HIV-faraldrinum á áttunda og níunda áratug síðustu aldar var sú að slíkt varð til þess að fordómar í garð samkynhneigðra og tvíkynhneigðra karlmanna stigmögnuðust. Á þessu vildu yfirvöld nú vara sig og stigu því varlega til jarðar. Þau og stjórnvöld almennt báru líka að mörgu leyti ábyrgð á þeim fordómum sem spruttu upp í faraldri HIV. Fordæmingin var oft augljós eða sett fram undir rós og við þekkjum öll afleiðingarnar.
Og eins og heilbrigðisyfirvöld í New York-borg sögðu í upphafi apabólufaraldursins þá hafa samkynhneigðir fengið alltof stóran skammt af því að kynlíf þeirra sé sett undir smásjána. Þess vegna vildu þau ekki fyrst í stað gefa út skilaboð um að það myndi gagnast að þessir hópar takmörkuðu fjölda bólfélaga sinna.
Heilbrigðisyfirvöld á landsvísu og á alþjóðavettvangi sáu þó er líða tók á faraldurinn að skilaboðin þyrftu að vera alveg skýr. Að þeir sem væru í mestri áhættu á að smitast þyrftu að fá að vita það. Það væri þeirra réttur.
Alþjóða heilbrigðismálastofnunin reið á vaðið og gaf það út er langt var liðið á júlímánuð að karlmenn sem hefðu kynmök við karla ættu að taka það til skoðunar að fækka bólfélögum sínum. Bandaríska smitsjúkdómastofnunin, CDC, tók í kjölfarið undir þessi varúðarorð og það gerðu heilbrigðisyfirvöld í New York-borg að endingu líka. Áhættuhópar voru svo einnig hvattir sérstaklega til að láta bólusetja sig.
Og þá fóru hlutirnir að gerast. Faraldurinn náði hámarki í byrjun ágúst en hefur síðan þá verið á hröðu undanhaldi.
En ábyrgð okkar, allra þegna samfélaga heimsins, er mikil. Heilbrigðisyfirvöld verða að geta sent út skýr skilaboð um áhættuhópa án þess að fordómar og smánun þeirra sem þeim tilheyra fari að grassera. Fræðsla og stuðningur eru þar lykilatriði.
UNAIDS, Alnæmisstofnun Sameinuðu þjóðanna, sagði í yfirlýsingu í sumar að mikilvægt væri að læra af reynslu baráttunnar gegn alnæmi. Þar hafi smánun og ásakanir gegn ákveðnum hópum grafið undan viðbrögðum á sviði lýðheilsu.
„Að leita blóraböggla og smána grefur undan trausti og getunni til að bregðast við farsótt af þessu tagi “ sagði Matthew Kavanagh, starfandi varaforstjóri UNAIDS. „Reynslan sýnir okkur að smánunarorðræða getur ótrúlega hratt hindrað viðbrögð, sem byggjast á staðreyndum. Slíkt vekur ótta, fælir fólk frá heilsugæslu, og kemur í veg fyrir að tilfelli séu greind, auk þess að ýta undir tilgangslausar refsingar.“
Hegðun okkar
Apabólufaraldurinn hefur sýnt okkur rétt eins og faraldur COVID að mannleg hegðun er stærsta breytan þegar kemur að útbreiðslu. Við sáum það bersýnilega í kórónuveirufaraldrinum að hverskyns samkomur og mannfagnaðir, hópamyndun eins og það var stundum kallað, eru óskastaða veira sem smitast í nánum samskiptum fólks.
Þannig gæti apabólan aftur náð vopnum sínum ef ekki er gætt að viðeigandi smitvörnum. Bólusetning er mjög áhrifarík, sögð veita 85 prósent vörn. Henni þarf að beita af krafti gegn apabólunni en ekki má þá gleyma að þótt hún hafi fyrst komið af alvöru til tals á Vesturlöndum í maí hefur hún verið landlæg í sumum Afríkuríkjum í áratugi og valdið þar manntjóni. Bólusetningar á þeim svæðum eru því enn einn lykillinn að því að halda veirunni í skefjum.