Hvaða áhrif hefur stríðið á íslenska hagkerfið?
Hærra verð, minni kaupmáttur og minni tekjur úr ferðaþjónustu, en stóriðjan gæti hagnast. Kjarninn tók saman nokkrar hugsanlegar afleiðingar innrásar Rússa í Úkraínu á íslenskt efnahagslíf og ástæður þeirra.
Innrás Rússa í Úkraínu mun hafa slæm áhrif á efnahagslífið hérlendis og auka óvissuna um þróun hagkerfisins til framtíðar. Frá þessu greindi Seðlabankinn í nýjasta ritinu sínu, Fjármálastöðugleika, sem var gefið út á miðvikudaginn í síðustu viku.
Lítill hluti þessara áhrifa verður þó vegna viðskiptatengsla Íslands við Úkraínu eða Rússland, enda eru þau takmörkuð. Áhrifin verða fyrst og fremst óbein, en gætu þó verið veruleg í flestöllum öngum hagkerfisins. Hér fyrir neðan má sjá hugsanlegar afleiðingar stríðsins á nokkra þeirra.
Innfluttar vörur verða dýrari
Bæði Rússland og Úkraína eru mikilvægir hráefnisframleiðendur. Líkt og myndin hér að neðan sýnir komu 24 prósent af öllum hveitiútflutningi frá löndunum tveimur árið 2020, auk þess sem þau áttu tólf prósenta hlutdeild í öllum útflutningi á nikkel, tíu prósent af útflutningi olíu og þrjú prósent af öllum álútflutningi.
Þessar hækkanir hafa svo að miklu leyti gengið til baka á síðustu dögum, en samkvæmt frétt New York Times má rekja þær lækkanir til þess að fjárfestar búast nú við minni eftirspurn frá Kína. Þó eru sérfræðingar sammála um að mikil óvissa ríki enn um hrávöruverð, það geti enn hækkað verulega vegna stríðsins.
Hér á landi má því búast við því að innfluttar matvörur og olía verða dýrari, en báðar vörutegundir er verulega stór hluti af neyslu landsmanna. Með miklum olíuverðshækkunum munu aðrar innfluttar vörur svo einnig hækka í verði, þar sem þær koma flestar til landsins á skipum eða flugvélum sem ganga fyrir olíu. Sömuleiðis gætu vörur sem innihalda nikkel, líkt og rafbílar, hækkað töluvert í verði.
Færri túristar en stóriðjan gæti grætt
Ferðaþjónustugeirinn er einnig viðkvæmur fyrir hækkunum á olíuverði, þar sem þær munu leiða til dýrari flugmiða. Með því verður kostnaðarsamara að koma til landsins og mætti því búast við að fleiri slái Íslandsför sinni á frest.
Einnig er líklegt að ferðamenn vilji síður ferðast á milli landa á meðan stríð geisar í álfunni. Líkt og Kjarninn hefur áður fjallað um gera evrópsk ferðaþjónustufyrirtæki ráð fyrir færri bandarískum ferðamönnum vegna stríðsins, en verulega dró úr bókunum þeirra í flestum löndum Evrópu eftir að stríðið byrjaði. Því mætti búast við hægari viðspyrnu ferðaþjónustunnar og mögulega veikara gengi krónunnar, haldi stríðið áfram í langan tíma.
Áhrifin gætu hins vegar verið þveröfug fyrir stóriðjuna, sem myndi græða á hærra hrávöruverði og veikari krónu. Hið opinbera myndi einnig græða á hærra heimsmarkaðsverði á áli, þar sem slík verðhækkun leiðir til þess að álverin þurfa að greiða hærra verð fyrir orkuna sína. Álverðshækkun síðasta árs var meginástæða þess að Landsvirkjun skilaði 19 milljarða króna hagnaði í fyrra og hyggst greiða ríkissjóð 15 milljarða króna í arðgreiðslu í ár vegna þess.
Meiri verðbólga, minni kaupmáttur og meira atvinnuleysi
Þar sem hrávöruverðshækkanir, og þá sér í lagi olíuverðshækkanir, munu hafa áhrif á verð flestra innfluttra neysluvara má búast við auknum verðbólguþrýstingi vegna stríðsins. Slíkur þrýstingur hefur neikvæð áhrif á kaupmátt fólks, þar sem minna fæst upp úr veskinu ef ráðstöfunartekjur haldast óbreyttar.
Samkvæmt Gylfa Zoega, sem er hagfræðiprófessor í HÍ og situr í peningastefnunefnd Seðlabankans, væri varhugavert að hækka laun í samræmi við verðhækkanir á innfluttum vörum, þar sem slíkt myndi aðeins leiða til víxlhækkunar launa og verðlags. Gerist það eykst verðbólgan enn meira, sem leiðir líka til minni kaupmáttar almennings.
Sömuleiðis gæti atvinnuleysi aukist hérlendis vegna stríðsins. Fyrirtæki gætu orðið fyrir tekjumissi og þurft að segja upp starfsfólk ef eftirspurn eftir vöru og þjónustu dregst mikið saman vegna minni kaupmáttar almennings. Einnig gæti störfum í ferðaþjónustunni fækkað ef ferðavilji minnkar um allan heim.
Húsnæði gæti orðið enn dýrara
Þar sem innfluttar vörur gætu hækkað í verði vegna stríðsins er líklegt að húsnæðisverð hækki vegna aukins byggingarkostnaðar. Hér gætu einnig bein áhrif vegið þungt, en líkt og Viðskiptablaðið greindi frá nýlega eru um 90 prósent alls steypustyrktarjárns sem flutt er inn fyrir Íslandsmarkað frá Hvíta-Rússlandi, sem hefur tekið þátt í hernaðaraðgerðum Rússa.
Sigurður Brynjar Pálsson, forstjóri Byko, segir einnig í viðtali við blaðið að 40 prósent af öllu timbri sem fyrirtækið flytji inn komi frá Rússlandi.
Með meiri byggingarkostnaði mætti búast við að nýbyggingar sem koma inn á markaðinn verði dýrari. Einnig gæti hvatinn til húsnæðisuppbyggingar dregist saman, þar sem verktakar þurfa að leggja út meiri pening til að byggja hús. Hvort tveggja mun þrýsta upp húsnæðisverð, sem hefur nú þegar hækkað hratt vegna mikils eftirspurnarþrýstings og lítils framboðs af eignum á sölu.
Hins vegar gæti verið að eftirspurnin eftir húsnæðiskaupum muni dragast saman á næstunni, þar sem kaupmáttur mun minnka vegna verðbólgu á innfluttum vörum. Slíkt gæti dempað þær verðhækkanir sem yrðu á húsnæðismarkaðnum vegna meiri byggingarkostnaðar.
Fleiri netárásir og hærra skuldabréfaálag
Samkvæmt Fjármálastöðugleika Seðlabankans gæti stríðið einnig haft neikvæð áhrif, bæði bein og óbein, á fjármálakerfið. Bein áhrif væru að öllum líkindum fleiri netárásir og hærri fjármagnskostnaður á erlendum mörkuðum.
Bankinn segir að fjármálafyrirtæki hér á landi gætu þurft að efla viðbúnað sinn gegn netárásum, en þeim hafi fjölgað eftir að innrásin í Úkraínu hófst. Einnig hefur vaxtaálag á erlendar skuldabréfaútgáfur bankanna aukist, vegna aukinnar óvissu á fjármálamörkuðum. Ef ástandið varir lengi gæti hærri fjármögnunarkostnaður haft áhrif á vaxtakjör bankanna á lánveitingum í erlendum gjaldmiðlum.
Óbeinu áhrifin væru svo tengd hugsanlegum samdrætti í efnahagskerfinu hér, en með því gæti virði útlánasafns bankanna rýrnað nokkuð, auk þess sem vanskil gætu aukist. Þó segir Seðlabankinn að viðnámsþróttur bankanna sé mikill þessa stundina, svo kerfisleg áhætta fyrir fjármálakerfið er takmörkuð.