Bandaríkin, Bretland og Evrópusambandsríkin hafa beitt Rússland fordæmalausum refsiaðgerðum og efnahagsþvingunum vegna stríðsins í Úkraínu. Auk þess hafa hundruð alþjóðlegra fyrirtækja dregið úr eða alfarið hætt starfsemi sinni í Rússlandi.
Um þremur vikum eftir að innrás Rússlands í Úkraínu hófst eru áhrif aðgerðanna farin að segja til sín með hækkandi vöruverði, yfirvofandi atvinnuleysi og, hjá sumum hópum, frekari einangrun. Vísitala neysluverðs hækkaði um 2,2 prósent fyrstu vikuna eftir að innrás Rússa í Úkraínu hófst. Mestu verðhækkunina er að finna á matvöru. Þá eru dæmi um að verslanir hafi skammtað nauðsynjavörur til að koma í veg fyrir að viðskiptavinir hamstri.
Maturinn enn í hillunum en mun dýrari
Í umfjöllun BBC um áhrif refsiaðgerðanna á daglegt líf í Rússlandi má sjá að íbúar eru farnir að finna fyrir áhrifunum og töluverð óvissa ríkir um framhaldið.
Virði rússnesku rúblunnar hefur verið í frjálsu falli frá því að innrás Rússa í Úkraínu hófst fyrir tæpum þremur vikum. Daria (nöfnum þeirra sem blaðamenn BBC ræddu við hefur verið breytt), sem er búsett í miðborg Moskvu, segist ekki enn hafa séð tómar hillur í matvöruverslunum. „Maturinn hverfur ekki en hann verður dýrari. Hversu mikið dýrari get ég ekki ímyndað mér en ég hræðist tilhugsunina,“ segir hún.
Jan, sem er frá Evrópusambandsríki en er býr og starfar í Moskvu, finnur vel fyrir hækkun á matvöru. Hefðbundin matarinnkaup sem kostuðu hann 5.500 rúblur, eða um 50 dollara, nokkrum dögum áður en innrásin hófst kostar nú um 8.000 rúblur, eða sem nemur um 70 dollurum. Í íslenskum krónum nemur hækkunin tæpum 3.000 krónum. Jan segist meðal annars finna fyrir hækkun á mjólkurlítranum, sem hefur tvöfaldast.
Sykur og morgunkorn hefur einnig hækkað og er um 20 prósent dýrari en í febrúar í fyrra. Rússneski ríkisfjölmiðillinn Tass greinir frá því að sumar verslanir hafi sammælst um að takmarka verðhækkun á nauðsynjavöru um fimm prósent.
Daria hefur brugðið á það ráð að birgja sig upp af vissum vörum. „Við keyptum fjögur kíló af kaffi, fjóra lítra af sólblómaolíu, fjóra lítra af ólífuolíu og fjórar flöskur af viskíi.“ Hún hefur einnig tryggt sér þriggja mánaða skammt af blóðþrýstingslyfi. Þrátt fyrir að refsiaðgerðir og efnahagsþvinganir nái ekki til lyfja hafa mörg vöruflutningafyrirtæki dregið úr starfsemi sinni í Rússlandi sem hefur meðal orðið til þess að erfiðara að nálgast sum lyf.
Síðasti iPhone-inn og síðasti séns á vestrænni hamingju?
Aðgerðirnar hafa einnig skilað sér í verðhækkun á raftækjum, svo sem símum og sjónvörpum sem hafa hækkað um tíu prósent í verði. Þá hafa mörg stór alþjóðleg fyrirtæki hætt sölu á vörum sínum í Rússlandi, svo sem Apple, Ikea og Nike.
Daria segir að margir hafi keypt hleðslutæki hjá Apple áður en skellt var í lás. Hún gerði það hins vegar ekki. „Það er brandari sem gengur núna að við séum öll með síðasta iPhone-inn,“ segir hún.
Skyndabitakeðjan McDonalds hefur lokað öllum 850 veitingastöðum sínum í Rússlandi, að minnsta kosti tímabundið, og létu viðbrögðin ekki á sér standa. Einungis nokkrum klukkustundum eftir að tilkynnt var um lokanirnar spruttu upp auglýsingar, meðal annars á samfélagsmiðlum, þar sem McDonalds-máltíðir voru boðnar til sölu á tíföldu verði.
„Naggar og bökur keypt rétt áður en skyndibitakeðjan lokaði. Síðasti séns til að gæða sér á vestrænni hamingju,“ segir í einni auglýsingunni.
Vladimír, íbúi í Saratov í suðvesturhluta Rússlands, segir að áhrif efnahagsþvingana og refsiaðgerða Vesturveldanna á Rússlands eigi enn eftir að koma almennilega í ljós, þrátt fyrir lokun McDonalds. „Vatniki [þau sem styðja rússnesk yfirvöld] verða ekki fyrir áhrifum af falli rúblunnar af því að þau kaupa ekki dýrar erlendar vörur,“ segir hann.
Annar viðmælandi BBC segist finna fyrir áhrifunum nú þegar og að erfitt sé að sætta sig við þau. „Þetta er algjörlega ný tegund af kreppu. Við erum týnd og ráðalaus, ekki bara þegar kemur að viðskiptum, líka í einkalífinu. Tekjutap, að segja skilið við ákveðinn lífsstíl, minna tengslanet, þar á meðal á samfélagsmiðlum, auk þess að geta ekki ferðast til að hitta ættingja og vini erlendis. Svo er margt sem við höfum þegar misst en höfum ekki enn meðtekið almennilega.“
Daria kennir Vladimír Pútín Rússlandsforseta alfarið um refsiaðgerðirnar og efnahagsþvinganirnar, ólíkt þeim sem styðja rússnesk yfirvöld og fá flestar upplýsingar um stríðið frá ríkisfjölmiðlum. Svo eru það þau sem eru á móti stríðsrekstrinum en kjósa þögnina af ótta við að gagnrýna rússnesk stjórnvöld. Og ekki af ástæðulausu. 13 þúsund manns hafa verið handtekin fyrir að mótmæla stríðinu og ný lög voru samþykkt nýverið sem kveða á um fangelsisvist fyrir að „birta vísvitandi falskar upplýsingar“ um rússneska herinn.
Lífið virðist ganga sinn vanagang
Daria segir að á yfirborðinu virðist lífið ganga sinn vanagang í Moskvu. Kaffihús og veitingastaðir borgarinnar eru fullsetin, neðanjarðarlestakerfið gengur og umferðarteppan í miðborginni er á sínum stað, „Þannig er það ef þú hunsar mótmælin, þegar leitað er á fólki af ástæðulausu og fólkið sem er í raun og veru að yfirgefa borgina en lætur lítið fyrir sér fara. Það gefur til kynna, að mínu mati, að við séum að renna út á tíma.“
Raunveruleg áhrif refsiaðgerðanna eru enn óljós. Enn sem komið er virðast vel stæðir Rússar verða fyrir mestum áhrifum en það er ekki upphaflegur tilgangur aðgerðanna. Með aðgerðunum vilja Vesturlönd fyrst og fremst að áhrifin á efnahag Rússlands verði mikil og langvarandi og neyði þannig stjórnvöld í Rússlandi til að láta af stríðsrekstrinum.
Seðlabanki Rússlands viðurkennir að aðgerðirnar hafi þegar haft harkalegar afleiðingar en Pútín virðist ætla að halda ótrauður áfram. Daglegar friðarviðræður Rússa og Úkraínumanna hafa engu skilað og átökin í Kænugarði, höfuðborg Úkraínu, fara stigmagnandi.