Fjármála- og efnahagsráðuneytið segir, í viðbrögðum sínum við fjölþættum athugasemdum Ríkisendurskoðunar við söluferlið á 22,5 prósent hlut Íslandsbanka í mars að ekki verði annað séð en af umfjöllun skýrslunnar en að „sá þáttur sölumeðferðarinnar sem var á ábyrgð ráðherra hafi samræmst lögum og meginreglum stjórnsýsluréttar.“
Að mati ráðuneytisins varði þeir misbrestir á undirbúningi og framkvæmd sem Ríkisendurskoðun bendir á „einkum afmörkuð atriði við framkvæmd sölunnar sem meðal annars voru í verkahring eftirlitsskyldra aðila.“
Þá ítrekar ráðuneytið þau sjónarmið sem áður hafi komið fram að betur hefði þurft að standa að kynningu á sölumeðferðinni gagnvart almenningi. „Líkt og fram hefur komið hafa forsvarsmenn ríkisstjórnarinnar ákveðið að leggja til við Alþingi að Bankasýsla ríkisins verði lögð niður og innleitt verði nýtt fyrirkomulag til að halda utan um eignarhluta ríkisins í fjármálafyrirtækjum. Horft verður til niðurstaða skýrslunnar og ábendinga sem í henni koma fram við þá vinnu.“
Kjarninn greindi frá því fyrr í kvöld að samkvæmt niðurstöðu Ríkisendurskoðunar vor annmarkar söluferlisins fjölþættir og lúta bæði að undirbúningi og framkvæmd sölunnar. Þar segir meðal annars að ljóst megi vera að „orðsporðsáhætta við sölu opinberra eigna var vanmetin fyrir söluferlið 22. mars af Bankasýslu ríkisins, fjármála- og efnahagsráðuneyti og þingnefndum sem um málið fjölluðu í aðdraganda sölunnar.“
Hægt er að lesa fréttaskýringu um helstu niðurstöður Ríkisendurskoðunar hér. Skýrslan, sem Kjarninn hefur undir höndum, verður gerð opinber á morgun eftir að Ríkisendurskoðun hefur kynnt hana fyrir stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd.
Skoða megi hvort frekari aðkoma ráðuneytisins að sölu sé til bóta
Ríkisendurskoðun setur fram alls fimm ábendingar í skýrslu sinni. Sú fyrsta snýr að því að öflugan ríkisaðila þurfi til að fylgja eftir eigendastefnu ríkisins á fjármálafyrirtækjum. Fjármála- og efnahagsráðuneytið ítrekað að búið sé að boða að Bankasýsla ríkisins, sem hefur það hlutverk í dag, verði lögð niður og að ráðuneytið sé með í smíðum frumvarp sem feli í sér sameiningu á umsýslu eignarhalds allra ríkisfyrirtækja á eina hendi í samræmi við leiðbeiningar OECD. „Ljóst er að jafnvel þó að öll umsýsla eignarhalds ríkisfyrirtækja færi fram í sérstakri stofnun þá myndi sú eining verða tiltölulega fámenn. Varðandi framkvæmd við frekari sölu eignarhluta má skoða, ásamt öðrum kostum, hvort aukin aðkoma fjármála- og efnahagsráðuneytis og/eða Ríkiskaupa geti orðið til þess að styrkja þann þátt.“
Telja mikið gert úr huglægum forsendum
Þriðja ábending Ríkisendurskoðunar snýst um þörf á því að setja skýr viðmið um matskennda þætti í sölunni. Ráðuneytið telur á köflum nokkuð mikið gert úr meintum huglægum forsendum í skýrslu Ríkisendurskoðunar. „Að því marki sem hlutlægum viðmiðum var ekki fyrir að fara virðist í úrlausn söluferla hafa verið byggt á þekkingu reynslumikilla og sérfróðra erlendra sem innlendra aðila sem komu að vinnunni. Enn fremur telur ráðuneytið að öll viðmið sem stuðst var við í ferlinu hafi átt sér viðhlítandi stoð í lögum nr. 155/2012. Af hálfu ráðherra voru viðmið sett í þeim markmiðum sem fram koma í greinargerð og ákvörðun hans.“
Fjórða ábendingin snerist um ábendingar um að ákvarðanir yrðu skjalfestar og að gagnsæi yrði tryggt við söluna. Fjármála- og efnahagsráðuneytið tekur undir þessi sjónarmið um að æskilegt sé að viðmið sem framkvæmdaaðili sölumeðferðar hyggst beita við mat á tilboðum séu fyrirfram skilgreind og skráð „eftir því sem raunhæfur kostur er þannig að hægt verði að meta niðurstöðuna með hliðsjón af þeim.“
Skoðað að setja skorður við að fyrirtæki sem er til sölu sé söluráðgjafi
Í fimmta lagi benti Ríkisendurskoðun á að fyrirbyggja yrði hagsmunaárekstra og orðsporsáhættu við sölu á banka. Líkt og með aðrar ábendingar tekur ráðuneytið undir þetta sjónarmið og segir raunar að slíkum hafi verið velt upp bæði fyrir frumútboðið á hlutum í Íslandsbanka sumarið 2021 og í lokaða útboðinu sem fram fór í mars. „Almennt hefur verið lögð á það rík áhersla af hálfu ráðuneytisins við undirbúning á lagabreytingum sem varða meðferð, ráðstöfun og sölu eigna ríkisins að vandlega sé gætt að meginreglum um hlutlægni, gagnsæi, jafnræði og hagkvæmni. Við undirbúning lagabreytinga verður sá möguleiki skoðaður að settar verði skorður við því að það fyrirtæki sem til sölu er gegni hlutverki söluráðgjafa. Verkaskipting laga nr. 155/2012 kveður á um að það sé hlutverk Bankasýslu ríkisins að gera samninga við utanaðkomandi ráðgjafa.“
Starfsmenn með haldgóða menntun
Í skýrslunni er einnig að finna viðbrögð Bankasýslu ríkisins við ábendingum Ríkisendurskoðunar.
Sú fyrsta felur í sér að stofnunin telji Bankasýslu ríkisins ekki vera öflugan ríkisaðili sem geti fylgt eftir eigendastefnu ríkisins fyrir fjármálafyrirtæki. Því er Bankasýslan ósammála. Í viðbrögðum hennar segir að hún hafi sinnt þessu hlutverki frá árinu 2009. „Starfsmenn stofnunarinnar hafa í senn haldgóða háskólamenntun á sínum sérfræðisviðum sem og mikla reynslu af umsýslu og sölu á eignarhlutum ríkisins í fjármálafyrirtækjum og af störfum á fjármálamarkaði, hérlendis og erlendis. Benda má á að stofnunin hefur þrisvar sinnum selt eignarhluti í fjármálafyrirtækjum með þremur mismunandi aðferðum og aflað þannig ríkissjóði rúmlega 130 ma.kr. Þá hefur stofnunin leitt sameiningar fjögurra sparisjóða inn í Landsbankann hf.“
Í skýrsludrögunum komi ekki fram hvaða atriði eða ákvarðanir í ferlinu hafi ekki verið í samræmi við eigendastefnu ríkisins fyrir fjármálafyrirtæki, að mati Bankasýslunnar. „Skortir því á tengsl á milli efnislegrar umfjöllunar um hlutverk og ákvarðanir stjórnvalda og hvað hafi farið úrskeiðis í ferlinu að þessu leyti.“
Varðandi aðra ábendingu Ríkisendurskoðunar, að tryggja þurfi fullnægjandi upplýsingagjöf og gagnsæi, þá segist Bankasýslan sig hafa upplýst þingnefndir með fullnægjandi hætti. „Stofnunin áréttar að framkvæmd sölunnar 21.–23. mars sl. var með nákvæmlega sama hætti og henni var lýst í minnisblaði stofnunarinnar þann 20. janúar sl. og í kynningum fyrir þingnefndir þann 21. og 24. febrúar.“
„Lengra verður vart gengið í kröfum um ex post facto prófun“
Þriðja ábending Ríkisendurskoðunar snýr að því að setja þurfi skýr viðmið um matskennda þætti í bankasölunni. Áfram sem áður telur Bankasýslan sig hafa gert þetta og að ákvarðanir hennar hafi verið vel rökstuddar með vísun í lög. „Aftur á móti verður jafnframt að hafa í huga, eins og ítarlega hefur verið rakið í athugasemdum stofnunarinnar, að þegar ráðist er í sölu á hlutum í skráðu félagi, og þá sérstaklega þegar óvissa ríkir á fjármálamörkuðum, er eðli þeirra verkefna sem um ræðir þannig að ógerlegt er að vita það fyrir fram hvaða þættir verði veigameiri en aðrir í endanlegri ákvörðun um útboðsverð, útboðsmagn og úthlutun til fjárfesta. Að því leyti er verkefnið frábrugðið mörgum öðrum verkefnum hins opinbera, m.a. þar sem um er að ræða hefðbundna sölu á eignum ríkisins.“
Þá hafi endanlegt söluverð og stærð eignarhlutarins ákveðin af Bjarna Benediktssyni, fjármála- og efnahagsráðherra, að undangengnu rökstuddu mati Bankasýslu ríkisins.
„Staðreynd málsins er sú að Bankasýsla ríkisins hefur með málefnalegum rökum og vísan til gagna rökstutt sérhverja ákvörðun sem tekin var í söluferlinu. Lengra verður vart gengið í kröfum um ex post facto prófun og gagnsæi.“
Segist hafa lagt „sérstaka áherslu á orðspor íslenska ríkisins“
Í fimmta og síðasta lagi benti Ríkisendurskoðun á að fyrirbyggja yrði hagsmunaárekstra og orðsporsáhættu þegar verið er að selja hluti ríkisins í bönkum.
Bankasýslan segir í viðbrögðum sínum að hún hafi í allri sinni framkvæmd lagt sérstaka áherslu á orðspor íslenska ríkisins sem eiganda og seljanda í þeim útboðum sem stofnunin hefur séð um fyrir hönd ráðherra. „Bankasýsla ríkisins tekur einnig undir að fyrirbyggja þurfi hagsmunaárekstra og má til viðbótar við þær röksemdir sem hér hafa verið raktar benda á að hún fékk til starfa sjálfstæðan fjármálaráðgjafa við úrlausn verkefnisins.“