Mynd: Kjarninn

Ríkisendurskoðun segir fjölþætta annmarka hafa verið á sölu á hlut ríkisins í Íslandsbanka

Í skýrslu Ríkisendurskoðunar er söluferlið á Íslandsbanka gagnrýnt harkalega. Standa hefði betur að sölunni og hægt hefði verið að fá hærra verð fyrir hlutinn. Ákveðið var að selja á undirverði til að ná fram öðrum markmiðum en lögbundnum. Huglægt mat réð því hvernig fjárfestar voru flokkaðir og orðsporsáhætta var vanmetin.

„Ann­markar sölu­ferl­is­ins sem Rík­is­end­ur­skoðun fjallar um í þess­ari úttekt eru fjöl­þættir og lúta bæði að und­ir­bún­ingi og fram­kvæmd söl­unn­ar. Ljóst má vera að orð­sporðs­á­hætta við sölu opin­berra eigna var van­metin fyrir sölu­ferlið 22. mars af Banka­sýslu rík­is­ins, fjár­mála- og efna­hags­ráðu­neyti og þing­nefndum sem um málið fjöll­uðu í aðdrag­anda söl­unn­ar.“

Þetta er meðal þess sem kemur fram í skýrslu Rík­is­end­ur­skoð­unar um sölu á hlut rík­is­ins í Íslands­banka sem nú liggur fyr­ir, og Kjarn­inn hefur undir hönd­um. Beiðni um skýrsl­una var sett fram af Bjarna Bene­dikts­syni, fjár­mála- og efna­hags­ráð­herra, 7. apríl í síð­ast­lið­inn og upp­haf­lega átti að skila henni til Alþingis fyrir lok júní. Nú liggur fyrir að skýrslan verður gerð opin­ber á morg­un, eftir að Rík­is­end­ur­skoðun hefur kynnt hana fyrir stjórn­skip­un­ar- og eft­ir­lits­nefnd á fundi hennar síð­degis á morg­un. 

Þar segir ein­fald­lega að standa hefði þurft betur að und­ir­bún­ingi og sölu á 22,5 pró­sent hlut íslenska rík­is­ins í Íslands­banka, sem fór fram þann 22. mars 2022. Hægt hefði verið að fá hærra verð fyrir bank­ann en það sem selt var á, kynn­ingar fjár­mála- og efna­hags­ráðu­neyt­is­ins og Banka­sýslu rík­is­ins á því fyr­ir­komu­lagi sem beitt var við söl­una fyrir Alþingi og almenn­ingi eru gagn­rýndar sem og það að Banka­sýslan sinnti ekki með full­nægj­andi hætti lög­bundnu hlut­verki sínu um að tryggja gagn­sæi í allri ákvarð­ana­töku varð­andi þátt­töku rík­is­ins í fjár­mála­starf­semi og tryggja virka upp­lýs­inga­miðlun til almenn­ings. „Stofn­un­inni tókst ekki að miðla upp­lýs­ingum um fyr­ir­hug­aða sölu með skýrum og árang­urs­ríkum hætti. Sama má segja um upp­lýs­inga­gjöf fjár­mála- og efna­hags­ráðu­neyt­is­ins við birt­ingu grein­ar­gerðar ráð­herra vegna fram­halds á sölu á hlut­um, rík­is­ins í Íslands­banka.“

Verð­inu haldið niðri fyrir erlenda fjár­festa

Í skýrsl­unni segir að íslenska ríkið hafi ein­fald­lega ekki þurft að gefa 2,25 millj­arða króna afslátt af hluta­bréfum í Íslands­banka þegar það seldi 22,5 pró­sent hlut í honum með rúm­lega fjög­urra pró­senta afslætti þann 22. mars síð­ast­lið­inn. Til­boð bár­ust í allan eign­ar­hlut­inn á dagsloka­gengi Íslands­banka þann dag, 122 krónur á hlut, eða á hærra verð­i. 

Sam­kvæmt skýrslu Rík­is­end­ur­skoð­unar voru skýr merki um að end­an­legt sölu­verð hafi „fyrst og síð­ast ráð­ist af eft­ir­spurn erlendra fjár­festa“ og að frek­ari hækkun gæti haft nei­kvæð áhrif á þróun hluta­bréfa­verðs bank­ans að sölu lok­inni. „Stofn­unin [Banka­sýsla rík­is­ins] tók þá ákvörð­un, að ráði ráð­gjafa sinna, að leggja til við ráð­herra að eign­ar­hlut­ur­inn skyldi seldur á lægra verði að því er virð­ist til að ná fram öðrum mark­miðum en for­gangs­mark­miði sínu og meg­in­reglu laga nr. 155/2012 um hag­kvæmni eða hæsta verð.“

Þeir erlendu sjóðir sem tóku þátt í útboð­inu stöldr­uðu ekki lengi við. Sam­­kvæmt hlut­haf­a­lista Íslands­­­banka þann 11. apríl höfðu Sil­ver Point, Fiera Capi­tal og KeySqu­are Partners þegar selt allan þann hlut sem þeim var úthlutað í lok­aða útboð­inu í mar­s. Hluta­bréfa­verð í Íslands­banka hækk­aði dag­anna á eftir útboðið og 5. apríl hafði það hækkað um 6,5 pró­sent. 

Lárus Blöndal er stjórnarformaður Bankasýslu ríkisins og Jón Gunnar Jónsson er forstjóri hennar.
Mynd: Skjáskot

Þrátt fyrir þessa, og aðra, ann­marka á sölu­ferl­inu dregur Rík­is­end­ur­skoðun ekki í efa að fjár­hags­leg nið­ur­staða sölu­ferlis á hlut rík­is­sjóðs í Íslands­banka hafi á end­anum verið rík­is­sjóði almennt hag­felld, enda fékk rík­is­sjóður 52,65 millj­arða króna fyrir hlut­inn. Það á einnig við um þróun á gengi bréfa í bank­anum á eft­ir­mark­aði í kjöl­far söl­unn­ar. „Þó er ekki hægt að full­yrða að salan hafi verið rík­is­sjóði eins hag­kvæm og verða mátt­i.“

Eft­ir­spurn reiknuð með vill­andi hætti

Athuga­semdir Rík­is­end­ur­skoð­unar eru fjöl­margar og alvar­leg­ar. Í skýrsl­unni segir til að mynda að í til­boðs­bók sem Banka­sýslan sendi Rík­is­end­ur­skoðun í maí 2022 hafi eft­ir­spurn og umfram­eft­ir­spurn verið reiknum með röngum og vill­andi hætti. Þá segir í nið­ur­stöðukafla skýrsl­unnar að Rík­is­end­ur­skoðun vilji vekja athygli á „að fram að umsagn­ar­ferli þess­arar úttektar í októ­ber 2022 hafði emb­ættið ekki fengið neinar upp­lýs­ingar frá Banka­sýsl­unni þess efnis að fundur þar sem ákvörðun um leið­bein­andi loka­verð var tekin hafi staðið yfir lengur en til kl. 20:30. Í umsagn­ar­ferl­inu kom fram hjá Íslands­banka og síðar Banka­sýsl­unni að verð­á­kvörð­unin hafi byggð á upp­færðu skjali kl. 20:36 og að fund­inum hafi lokið kl. 20:38.“ Þegar upp­færða skjalið sem var vistað kl. 20:36 á sölu­deg­in­um, og barst Rík­is­end­ur­skoðun frá Íslands­banka 31. októ­ber, er skoðað kom í ljós að „á þeim tíma­punkti var komin fram mun meiri eft­ir­spurn en ætla mátti af fyrri svörum Banka­sýsl­unn­ar. Það skýrist af því að villur í skrán­ingu til­boða höfðu á umræddum tíma­punkti verið lag­færðar og ný til­boð borist.“

Svör Banka­sýslu rík­is­ins til Rík­is­end­ur­skoð­unar og Fjár­mála­eft­ir­lits Seðla­banka Íslands í maí 2022 stað­festu, að mati Rík­is­end­ur­skoð­un­ar, að stofn­unin var ekki með­vituð um hver heild­ar­eft­ir­spurn fjár­festa var þegar ákvörðun um leið­bein­andi loka­verð var tek­in. „Vegna þessa hafði stofn­unin ekki full­nægj­andi upp­lýs­ingar um raun­veru­legt umfang eft­ir­spurnar fjár­festa við þá ákvörð­un. Rík­is­end­ur­skoðun telur að ítar­legri grein­ing gagna, t.d. með notkun sér­hann­aðra upp­lýs­inga­kerfa við utan­um­hald til­boða, hefði getað veitt betri yfir­sýn um raun­veru­lega eft­ir­spurn og lagt grunn að nákvæmara mati á verð­mynd­un.“

Þegar Banka­sýslan sendi til­lögu á fjár­mála- og efna­hags­ráð­herra klukkan 21:40 þetta kvöld, ein­ungis tíu mín­útum eftir að söl­unni lauk, kom fram að á bil­inu 150 til 200 fjár­festar hefðu skráð sig fyrir meira en 100 millj­örðum króna. „Í ljósi þess að tekið var við til­boðum til klukkan 21:30 bjó stjórn Banka­sýsl­unnar ekki yfir end­an­legum upp­lýs­ingum um eft­ir­spurn fjár­festa þegar hún sam­þykkti umrætt orða­lag. Heild­ar­eft­ir­spurn fjár­festa miðað við gengið 117 kr. á hlut var í reynd 148,4 ma. kr. við lok sölu­ferl­is­ins.“ Það er því nið­ur­staða Rík­is­end­ur­skoð­unar að „upp­lýs­ingar til ráð­herra í rök­studda mat­inu voru óná­kvæmar bæði hvað varðar fjölda þeirra fjár­festa sem skráðu sig fyrir hlutum og heild­ar­fjár­hæð til­boða. Ákvörðun ráð­herra byggði því á óná­kvæmum upp­lýs­ing­um.“

Reyndu „sam­kvæmt bestu getu“ að flokka fjár­festa

Þá er óljóst hvernig til­boð voru met­in. Í svörum Banka­sýsl­unnar til Rík­is­end­ur­skoð­unar kom fram að hún og ráð­gjafar hennar hefðu reynt „sam­kvæmt bestu getu“ að ákveða hvaða fjár­festa mætti ann­ars vegar flokka sem lang­tíma­fjár­festa og hins vegar sem skamm­tíma­fjár­festa. Fyrir ligg­ur, sam­kvæmt sam­an­tekt Banka­sýsl­unn­ar, að 34 þeirra 207 fjár­­­festa sem fengu að kaupa hlut í Íslands­­­banka höfðu minnkað eign­­ar­hlut sinn í bank­an­um þann 11. apr­íl. Þessi hópur hafði saman losað um 1,1 pró­­sent­u­­stig af heild­­ar­hlutafé Íslands­­­banka. Auk þess birt­ust 60 fjár­­­festar ekki á hlut­hafa­­skrá á þeim tíma. 

Banka­sýslan hefði þurft að ákveða áður en sölu­ferlið hófst með hvaða hætti skyldi leggja mat á til­boð ef önnur atriði en hæsta verð áttu að ráða. „Æski­legt hefði verið að slík við­mið væru skráð og að fyrir lægi hvernig ætti að beita þeim. Und­ir­bún­ingur af því tagi var nauð­syn­legur í ljósi fjöl­breyti­leika þeirra við­miða sem stofn­un­inni var falið að taka til­lit til, fjölda til­boðs­gjafa í sölu­ferl­inu og þess skamma tíma sem gafst við úthlutun hluta­bréf­anna eftir að söfnun til­boða lauk. Slíkur und­ir­bún­ingur hefði verið í sam­ræmi við góða stjórn­sýslu­hætti og til þess fall­inn að skapa traust á fram­kvæmd söl­unn­ar.“

List frekar en vís­indi

Í úttekt­ar­vinnu Rík­is­end­ur­skoð­unar kom ítrekað fram af hálfu full­trúa Banka­sýslu rík­is­ins og fjár­mála­ráð­gjafa stofn­un­ar­innar að úrvinnsla sölu­ferlis eftir til­boðs­fyr­ir­komu­lagi væri frekar í ætt við list en vís­indi. „Í því sam­bandi er þá m.a. horft til þess með hvaða hætti selj­andi vinnur úr og metur hinar ýmsu upp­lýs­ingar sem fram koma í sölu­ferl­inu, mögu­lega út frá ólíkum mark­miðum sem þurfi að sætta þannig að við­un­andi heild­ar­nið­ur­stöðu verði náð. Þá geta vænt­ingar um þróun verðs á eft­ir­mark­aði haft áhrif á þetta mat, rétt eins og þær upp­lýs­ingar sem verða til í sölu­ferl­inu um mögu­lega fjár­festa og verð­myndun út frá til­boðum þeirra.“

Til­boðs­fyr­ir­komu­lagið ber rík ein­kenni starfs­hátta sem tíðkast á fjár­mála­mark­aði en sam­rým­ist að mati Rík­is­end­ur­skoð­unar illa starfs­háttum opin­berrar stjórn­sýslu. „Sölu­ferli eftir til­boðs­fyr­ir­komu­lagi er um margt óform­legt og háð, undir miklu tíma­á­lagi, hug­lægu mati margra aðila sem að söl­unni koma, m.a. aðila sem starfa á mark­aði. Eins og því var beitt 22. mars 2022, gefur til­boðs­fyr­ir­komu­lagið sig ekki vel að end­ur­skoðun og prófun líkt og ákvarð­anir stjórn­valda þurfa jafnan að ger­a.“

Bjarni Benediktsson er fjármála- og efnahagsráðherra og fer með eignarhluti ríkisins í bönkum.
Mynd: Bára Huld Beck

Rík­is­end­ur­skoðun telur jafn­framt að upp­lýsa hefði þurft með afdrátt­ar­lausum hætti í minn­is­blaði Banka­sýsl­unn­ar, grein­ar­gerð fjár­mála- og efna­hags­ráð­herra og í kynn­ingum fyrir þing­nefndum Alþing­is, hvað fólst í settum skil­yrðum um hæfa fjár­festa. Það er hvers eðlis vænt­an­legur kaup­enda­hópur á eign­ar­hlut rík­is­ins yrði. „Með því að not­ast við hug­tökin „hæfir fjár­fest­ar“ eða „hæfir fag­fjár­fest­ar“ varð hætta á að nefnd­ar­menn sem fjöll­uðu um mál­ið, og aðrir sem vildu kynna sér áform um sölu­ferlið, stæðu í þeirri trú að þar væri ein­göngu um að ræða fjár­festa sem hafa að aðal­starfi að fjár­festa í fjár­mála­gern­ing­um. Sú upp­lýs­inga­gjöf hefði þó verið þeim tak­mörk­unum háð að þátt­taka lít­illa einka­fjár­festa í sölu­ferl­inu kom Banka­sýsl­unni á óvart.“

Fimm ábend­ingar

Alls eru gerðar fimm ábend­ingar í skýrsl­unni. Að mati Rík­is­end­ur­skoð­unar þarf öfl­ugan rík­is­að­ila til að fylgja eftir eig­enda­stefnu rík­is­ins fyrir fjár­mála­fyr­ir­tæki. Ljóst má vera að Rík­is­end­ur­skoðun telur Banka­sýsl­una, í þeirri mynd sem hún hefur ver­ið, ekki vera þann aðila. „Tryggja verður að sá rík­is­að­ili sem lögum sam­kvæmt fer með sölu á eign­ar­hlut rík­is­ins í fjár­mála­fyr­ir­tækjum búi yfir nauð­syn­legum mannauði til að rækja hlut­verk sitt, sem og grunn­þekk­ingu á þeirri sölu­að­ferð sem ákveðið er að beita hverju sinni. Þá er brýnt að hann gefi þeim sem ráðnir eru til að ann­ast sölu­ferlið skýr fyr­ir­mæli og leið­bein­ingar um fram­kvæmd þess.“

Í öðru lagi þarf að tryggja full­nægj­andi upp­lýs­inga­gjöf þegar rík­is­eign í fjár­mála­fyr­ir­tæki eru seld. Í þriðja langi þar að setja skýr við­mið um mats­kennda þætti þannig að mat á úrlausn sölu­ferla hvíli sem minnst á hug­lægum for­send­um. 

Í fjórða lagi þarf að passa upp á að ákvarð­anir séu skjal­festar og gagn­sæi sé tryggt. Í fimmta lagi að fyr­ir­byggja hags­muna­á­rekstra og orð­spors­á­hættu þar sem að við sölu á eign­ar­hlut rík­is­ins í fjár­mála­fyr­ir­tæki geti sú til­högun að við­kom­andi fyr­ir­tæki komi með beinum hætti að söl­unni (sem umsjón­ar­að­ili, sölu­ráð­gjafi eða sölu­að­ili) verið til þess fallin að grafa undan vægi lög­bund­inna sjón­ar­miða um jafn­ræði og hlut­lægni. „Áhætta vegna hags­muna­á­rekstra eykst sem og orð­spors­á­hætta rík­is­ins.“

Ekki tæm­andi rann­sókn á sölu­ferl­inu

Í skýrsl­unni kemur fram að stjórn­sýslu­út­tektin sé ekki tæm­andi rann­sókn á söl­unni á Íslands­banka. Þar er ekki tekin afstaða til þess hvort rétt­mætt hafi verið að selja hlut rík­is­ins í bank­anum á þeim tíma sem það var gert eða til þeirra 207 aðila sem fengu að kaupa.

Þá er ekki tekin afstaða til þess hvort beita hafi átt annarri sölu­að­ferð né lagt mat á hvort vinnu­brögð umsjón­ar­að­ila sölu­ferl­is­ins, sölu­ráð­gjafa og sölu­að­ila, hafi verið í sam­ræmi við lög og gild­andi regl­ur. Þar með talið er hvort söl­unni hafi verið beint að öðrum en hæfum fjár­fest­um, en fyrir liggur að alls 59 aðilar fengu að kaupa fyrir minna 30 millj­­ónir króna í útboð­inu. „Það síð­ast­nefnda sætir eft­ir­liti Fjár­mála­eft­ir­lits Seðla­banka Íslands,“ segir í skýrsl­unni en það hefur verið með ákveðna anga söl­unnar til rann­sókn­ar. Sam­kvæmt heim­ildum Kjarn­ans er meðal ann­ars verið að skoða hluta­bréfa­við­skipti í aðdrag­anda útboðs­ins á tíma þar sem fjár­festar áttu ekki að vita að sala á hlut í Íslands­banka væri yfir­vof­and­i. 

Fjöl­margir stjórn­ar­and­stöðu­þing­menn köll­uðu eftir því að skipuð yrði rann­sókn­ar­nefnd Alþingis til að fara yfir sölu­ferlið, en slík nefnd hefur víð­tæk­ari heim­ild­ir. Því var hafnað af stjórn­ar­flokk­unum en margir þing­menn þeirra sögðu að þeir myndu styðja skipun rann­sókn­ar­nefndar ef spurn­ingum væri ósvarað eftir að Rík­is­end­ur­skoðun lyki sinni vinnu.

Við þurfum á þínu framlagi að halda

Þú getur tekið beinan þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Við sem vinnum á ritstjórn Kjarnans viljum hvetja þig til að vera með okkur í liði og leggja okkar góða fjölmiðli til mánaðarlegt framlag svo við getum haldið áfram að vinna fyrir lesendur, fyrir fólkið í landinu.

Kjarninn varð níu ára í sumar. Þegar hann hóf að taka við frjálsum framlögum þá varð slagorðið „Frjáls fjölmiðill fyrir andvirði kaffibolla“ til og lesendur voru hvattir til að leggja fram í það minnsta upphæð eins kaffibolla á mánuði.

Mikið vatn hefur runnið til sjávar á þeim níu árum sem Kjarninn hefur lifað. Í huga okkar á Kjarnanum hefur þörfin fyrir fjölmiðla sem veita raunverulegt aðhald og taka hlutverk sitt alvarlega aukist til muna.

Við trúum því að Kjarninn skipti máli fyrir samfélagið.

Við trúum því að sjálfstæð og vönduð blaðamennska skipti máli.

Ef þú trúir því sama þá endilega hugsaðu hvort Kjarninn er ekki allavega nokkurra kaffibolla virði á mánuði.

Vertu með okkur í liði. Þitt framlag skiptir máli.

Ritstjórn Kjarnans: Sunna Ósk Logadóttir, Þórður Snær Júlíusson, Erla María Markúsdóttir, Arnar Þór Ingólfsson, Eyrún Magnúsdóttir og Grétar Þór Sigurðsson.


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnÞórður Snær Júlíusson
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar