Á undanförnum vikum og mánuðum hafa konur í stjórnendastöðum komist til nýrra metorða á mikilvægustu stöðu mannlífsins, og sýnt að allt er fólki fært sem hefur þekkingu og hæfileika fram að færa. Fjölmiðlar víða um heim hafa sérstaklega fjallað um framgang þessara kvenna, og hafa sumar þeirra, eins og Janet Yellen, fyrsta konan til að verða seðlabankastjóri Bandaríkjanna, verið sagðar vera að brjóta ísinn fyrir komandi kynslóðir kvenna.
Kjarninn tók saman lista yfir fimm konur sem hafa að undanförnu verið að koma að eða verið hluti af merkilegum ákvörðunum í efnahagsmálum heimsins og stjórnmálalífinu.
1. Janet Yellen. Samkvæmt frásögnum fjölmiðla, meðal annars Forbes, er Yellen með talnaglöggari manneskjum sem unnið hafa við Seðlabanka Bandaríkjanna, og er sú stofnun þó vafalítið með marga talnaglögga starfsmenn
Janet Yellen. Mynd: EPA.
innan sinna vébanda. Yellen þykir afburða snjöll, og afkastamikil, en umfram allt nákvæmur greinandi. Þessi 68 ára gamla kona, sem er með doktorspróf frá Yale, er nú farin að láta til sín taka með stefnumarkandi ákvörðunum hjá Seðlabanka Bandaríkjanna. Hún skrifaði undir greiningu, fyrir rúmum tveimur vikum, þar sem boðaðar voru hugsanlegar hækkanir á vöxtum frá núlli, en þar hefur vaxtastigið verið í næstum sjö ár. Yellen er í 6. sæti á lista Forbes, á lista yfir valdamesta fólk heims.
Ruth Porat. Mynd: EPA.
2. Ruth Porat. Hún var í gær ráðin fjármálastjóri Google og hefur þar meðal annars það verkefni að ávaxta sjóði Google upp á 38 milljarða Bandaríkjadala, eða sem nemur um 5.100 milljörðum króna. Porat var áður fjármálastjóri Morgan Stanley, og var einn áhrifamesta konan sem starfar á fjármálamarkaði í heiminum, en fjármálageirinn er þekktur fyrir að vera heimur karla, einkum og sér í lagi þegar kemur að stjórnarformönnum og forstjórum.
Katharine Viner. Mynd: EPA.
3. Katharine Viner. Hún er nýr ritstjóri The Guardian, breska blaðsins og vefmiðilsins, en hann nýtur mikillar virðingar um allan heim, fyrir vönduð fréttaskrif og framúrskarandi veffjölmiðlun. Viner hefur mikla reynslu af blaðamennsku og fjölmiðlastarfi, en hún er fyrsta konan í sögu Guardian sem gegnir stöðu ritstjóra. Ráðningin kom ekki mikið á óvart, þar sem Viner þótti líklegur kandídat í starfið eftir að ljóst varð, í desember í fyrra, að Alan Rusbridger myndi hætta sem ritstjóri.
Elizabeth Holmes. Mynd: Wikipedia.
4. Elizabeth Holmes. Frumkvöðullinn sem hætti í Stanford 19 ára gömul, til þess að stofna fyrirtæki, hefur náð ótrúlegum árangri á skömmum tíma. Holmes, sem er 31 árs gömul í dag, á helmingshlut í fyrirtækinu Theranos, sem sérhæfir sig í blóðprufum. Eignir Holmes eru metnar á 4,7 milljarða Bandaríkjadala, eða sem nemur meira en 600 milljörðum króna. Í síðustu viku lauk Holmes síðan við það, að kynna nýjustu vörulínuna, en búist er við því að hún auki verðmæti Theranos enn meira.
Hillary Clinton. Mynd: EPA.
5. Hillary Clinton. Verður Hillary Clinton fyrsti kvennforseti Bandríkjanna á næsta ári? Þó það skýrist ekki fyrr en í haust, hver verði útnefning Demókrata, þá er talið líklegast að hún verði þeirra fulltrúi sem forseti Bandaríkjanna. Eins og er virðist þetta standa og falla með því, hvort hún muni formlega sækjast eftir því að verða forseti. Hinn 23. mars fundaði Clinton með Barack Obama Bandaríkjaforseta með Clinton í Hvíta húsinu. Ætli hún hafi mátað stólinn? Aldrei að vita.