Endurheimtir kröfuhafa föllnu bankanna, þegar þeir eru búnir að greiða umsamið stöðugleikaframlag til ríkissjóðs, verða betri en þeir hafa reiknað með að þær yrðu á undanförnum árum. Kröfuhafar Glitnis munu til að mynda fá allt að 33 prósent af nafnvirði krafna sinna miðað við núverandi eignarstöðu búsins og áætlað stöðugleikaframlag. Miðað við verð á markaði með skuldabréf Glitnis hafa áætlaðar endurheimtir oftast nær verið á bilinu 25-30 prósent, eða lægri en það sem kröfuhafarnir reikna nú með að fá. Endurheimtir kröfuhafa Kaupþings og Landsbankans verða einnig við efri mörk þess sem þeir hafa talið að þær yrðu á undanförnum tæpu sjö árum.
Miðað við það verð sem hefur verið á kröfum á föllnu bankana virðast kröfuhafar þeirra því hafa áætlað nokkuð vel fyrir mörgum árum síðan hver niðurstaðan yrði þegar greitt yrði úr búunum. Veðmálið á íslenska efnahagshrunið gekk upp og ljóst er að stór hópur kröfuhafa, sem keyptu kröfur á bankanna á hrakvirði síðla árs 2008 og á fyrri hluta ársins 2009, mun margfalda fjárfestingu sína.
Virðast vera að fá góðan "díl"
Stjórnvöld kynntu áætlun sína um losun hafta í byrjun júní síðastliðinn. Kynningin snérist að mestu um 39 prósent stöðugleikaskatt sem myndi skila íslenska ríkinu rúmlega 800 milljörðum króna. Til að forðast álagningu skattsins gátu kröfuhafar föllnu bankanna samþykkt að greiða svokallað stöðugleikaframlag fyrir næstu áramót. Greiðslu sem gerði þeim kleift að fá undanþágu frá gjaldeyrishöftum og greiða út kröfuhöfum sínum. Áður en að kynning stjórnvalda, sem haldin var í Hörpu og var sjónvarpað beint, fór fram höfðu stærstu kröfuhafar allra bankanna samþykkt að greiða þetta stöðugleikaframlag og útfært það að mestu hvernig þau ætluðu að gera það.
Tilkynnt var um aðgerðaráætlun stjórnvalda við losun hafta í byrjun júní síðastliðinn. Kynning á aðgerðunum for fram í Hörpu og var sýnd i beinni útsendingu. Skömmu áður höfðu stærstu kröfuhafar föllnu bankanna lagt fram tilboð um að mæta stöðugleikaskilyrðum stjórnvalda til að sleppa við stöðugleikaskatt.
Síðan þá hafa margir rýnt í hvort kröfuhafarnir hafi gert góðan „díl“. Erlendir greiningaraðilar virðast, að minnsta kosti sumir hverjir, vera á þeirri skoðun og Indefence-hópurinn, sem barðist meðal annars gegn samþykkt Icesave-samninganna, hefur gagnrýnt samkomulag við bankana og þann afslátt sem hann telur kröfuhafa fá vegna þeirra.
Samkvæmt greiningu Kjarnans virðast kröfuhafar vera að fá góðan „díl“. Þeir fjármunir sem renna til þeirra vegna samkomulagsins eru meiri en kröfuhafarnir hafa verið að reikna með á undanförnum árum.
Glitnir "sparar" allt að 174 milljarða
Slitastjórn Glitnis greindi frá því í hálfsársuppgjöri sínu, sem birt var í lok ágúst, að hún áætlaði að búið greiði 205,4 til 254,4 milljarða króna í stöðugleikaframlag til ríkissjóðs. Sú upphæð er í fullu samræmi við útreikninga sem Kjarninn gerði á væntanlegu framlagi Glitnis í kjölfar þess að ríkisstjórnin kynnti áætlun sína um losun hafta í byrjun juní síðastliðinn.
Það er mun lægri upphæð en ef stöðugleikaskattur yrði lagt á búið. Þá myndi það þurfa að greiða ríkissjóði 329,3 til 379,3 milljarða króna. Kröfuhafar Glitnis „spara“ sér því allt að 173,9 milljarða króna með því að greiða stöðugleikaframlagið til að sleppa við skattinn, sem yrði 39 prósent á allar eignir þess.
Samkomulagið,sem var gert af stærstu kröfuhöfum Glitnis, var samþykkt af öðrum kröfuhöfum Glitnis á kröfuhafafundi 8. september síðastliðinn.
Meira en kröfuhafar reiknuðu með
Glitnir er það slitabú sem mun greiða langhæstu upphæðina í stöðugleikaframlag. Athygli vekur að engar fréttir hafa borist af andstöðu við samkomulagið á meðal kröfuhafa Glitnis. Það virðist fara afar vel ofan í þá. Ástæðan er einföld: sú lausn sem nú er verið að landa gerir það að verkum að endurheimtir kröfuhafa verða meiri en þeir hafa átt von á undanfarin ár.
Kröfur á slitabú föllnu bankanna eru að uppistöðu skuldabréf sem ganga kaupum og sölum á skipulögðum markaði. Í viðskiptum með þær kröfur endurspeglast það sem kröfuhafarnir telja virði krafnanna verði þegar þær verða greiddar út. Væntar endurheimtur á skuldabréf Glitnis frá síðla árs 2009 og fram á þetta ár hafa verið á bilinu 20 prósent af nafnvirði krafna og upp í um 30 prósent. Í vor voru endurheimtirnar áætlaðar á bilinu 27 til 29 prósent samkvæmt gerðum viðskiptum. Það þýðir að kröfuhafar reiknuðu með að 27 til 29 krónur af hverjum 100 nafnvirðiskrónum myndi skila sér í vasa þeirra við uppgjör búsins.
Samþykktar almennar kröfur í bú Glitnis eru 2.372 milljarðar króna og eignir þess 981,1 milljarður króna. Miðað við áætlað stöðugleikaframlag munu kröfuhafar Glitnis fá 726,7 til 775,7 milljarða króna til skiptanna. Það eru 30,6 til 32,6 prósent af nafnvirði krafna í búið, sem eru töluvert hærri endurheimtir en kröfuhafar hafa búist við undanfarin ár.
Steinunn Guðbjartsdóttir, formaður slitastjórnar Glitnis.
Við efri mörk væntra endurheimta Kaupþings
Miðað við útreikninga Kjarnans mun slitabú Kaupþings þurfa að greiða um 100 milljarða króna í stöðugleikaframlag til að losna við stöðugleikaskattinn. Ef hann myndi verða lagður á eignir Kaupþings myndi hann skila um 327,2 milljörðum króna.
Samþykktar almennar kröfur í bú bankans eru 2.806 milljarðar króna og eignir hans eru metnar á um 838 milljarða króna.
Væntar endurheimtir kröfuhafa Kaupþings, miðað við það stöðugleikaframlag sem búið mun að öllum líkindum greiða, verða því 26,3 prósent af kröfum. Það er í takti við það sem kröfuhafar hafa metið virði krafna á Kaupþing á undanfarin ár. Á tímabilinu október 2009 til mars 2013 voru áætlaðar endurheimtir lægstar 20,5 prósent en mestar 29 prósent. Oftast voru þær á bilinu 24 til 26 prósent og því eru endurheimtir kröfuhafa Kaupþings eftir greiðslu stöðugleikaframlags örlítið hærri en þær voru oftast á þessu árabili.
Líkt og hjá Glitni, og Landsbankanum líka, voru það stærstu kröfuhafar Kaupþings sem gerðu samkomulag um greiðslu stöðugleikaframlags við stjórnvöld. Aðrir kröfuhafar fá tækifæri til að taka afstöðu til þess samkomulags á kröfuhafafundi 30. september næstkomandi.
Landsbankinn greiðir minnst
Slitabú Landsbankans mun greiða stjórnvöldum um 30 milljarða króna í stöðugleikaframlag. Ástæða þess að greiðslurnar eru mun lægri en hjá hinum tveimur eru tvíþættar: annars vegar vegna þess að þorri eigna Landsbankans fóru í að greiða upp forgangskröfur vegna innstæðna, aðallega Icesave. Slíkar kröfur í búið eru alls 1.328 milljarðar króna. Hins vegar hélt slitabú Landsbankans ekki eftir nýja bankanum sem búinn var til um innlendar eignir og skuldir hans heldur fékk ríkið hann. Nýi Landsbankinn hefur greitt íslenska ríkinu mikinn arð á undanförnum árum og nú stendur til að selja allt að 30 prósent hlut í honum, sem mun skila ríkinu miklum fjármunum.
Þorri eigna slitabús Landsbankans fór í að greiða forgangskröfur vegna Icesave.
Samþykktar kröfur í bú Landsbankans voru 3.051 milljarður króna. Þegar búið er að gera ráð fyrir greiðslu forgangskrafna, sem eru þegar að langmestu greiddar, standa eftir kröfur upp á 1.612 milljarða króna og eignir upp á um 251 milljarð króna. Því fá almennir kröfuhafar um 8,2 prósent endurheimtir á öllum samþykktum kröfum. Það er í takti við virði krafna á bankann á árunum 2010 og framan af árinu 2011. Síðari hluta þess árs og næstu árin á eftir féll hins vegar verð á skuldabréfum Landsbankans og í lok árs 2012 voru væntar endurheimtur komnar niður í um fimm prósent af nafnvirði krafna. Þegar einungis almennar kröfur á Landsbankans eru taldar með, ekki forgangskröfur, eykst endurheimtarhlutfallið enn frekar og verður 15,6 prósent.
Almennir kröfuhafar gamla Landsbankans fá tækifæri til að kjósa um stöðugleikaframlagið á kröfuhafarfundi sem fram fer 2. október næstkomandi.
Þeir sem komu fyrstir inn mokgræða
Þótt að samsetning kröfuhafahópa bankanna sé vel þekkt, en uppistaðan í þeim eru bandarískir fjárfestinga- og vogunarsjóðir, þá er ógjörningur að sjá hvað hver þeirra mun "græða" á því að fjárfesta í efnahagslegu hruni Íslands. Engar upplýsingar eru aðgengilegar um á hvaða gengi stærstu kröfuhafarnir keyptu sig inn.
Það er þó hægt að draga þá ályktun að þeir sem komu snemma inn, keyptu skuldabréf á íslensku bankanna síðla árs 2008 og á árinu 2009, muni margfalda fjárfestingu sína.
Skuldabréf á Glitni, Kaupþing og Landsbankans voru til að mynda boðin upp í þremur uppboðum alþjóðlegra tryggingafélaga, sem höfðu selt skuldabréfatryggingar á þá, í nóvember 2008. Fyrsta uppboðið var haldið 4. nóvember með skuldatryggingar á Landsbankann. Samkvæmt niðurstöðu þess voru áætlaðar endurheimtur bréfa á bankann 1,25 prósent. Daginn eftir var haldið uppboð á tryggingum á Glitni sem skilaði því að væntar endurheimtur voru þrjú prósent af upphaflegu virði skuldabréfa. Síðasta daginn, fimmtudaginn 6. nóvember, voru skuldatryggingar Kaupþings boðnar upp. Á þeim tíma var greinilegt að reiknað var með að endurheimtur úr búi þess banka yrðu mestar, eða 6,625 prósent. Þessi uppboð lögðu síðan línuna fyrir lágmarksverð á kröfum á íslensku bankanna sem skiptu ótt og títt um eigendur mánuðina eftir.
Tímabilið frá því að þessi uppboð fóru fram og þangað til hægt var að lýsa kröfum í bú bankanna í apríl 2009 er í raun algjört svarthol. Á þessu hálfa ári áttu sér stað mikil viðskipti með kröfur á íslensku bankanna en þau eru þess eðlis að ómögulegt er að rekja þau. Því er hvorki hægt að sjá hverjir voru stórtækastir í uppkaupum á þessum tíma né á hvaða verði þeir keyptu. Viðskiptin með kröfurnar fóru fram á hrakvirði miðað við upphaflegt mat.
Sá hópur sem keypti kröfur á þessum tíma mun mokgræða á fjárfestingu sinni.
Það var á þessu tímabili sem vogunarsjóðirnir, sem eiga stærstan hluta krafna á Glitni og Kaupþing, eignuðust stóran hluta af kröfum sínum. Ástæður áhuga þeirra eru engin geimvísindi. Eignir búanna voru einfaldlega miklu meira virði en upphaflega var talið. Sá hópur sem keypti kröfur á þessum tíma mun mokgræða á fjárfestingu sinni.
Uppgjör hrunsins skilar ríkinu líka ábata
Þótt kröfuhafar fái greitt út rúmlega það sem þeir hafa reiknað með þegar íslenska efnahagshrunið verður gert upp þá fær íslenska ríkið líka ýmislegt. Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, reiknar til dæmis með því að stöðugleikaframlagið og ávinningur af fyrirhuguðum gjaldeyrisútboðum fyrir aflandskrónueigendur muni skila ríkissjóði um 500 milljörðum króna. Sú upphæð mun, að minnsta kosti að hluta, fara í að greiða niður skuldir og lækkað vaxtagjöld ríkissjóðs mikið á næstu árum.
Auk þess mun uppgjör slitabúanna gera það að verkum að hægt verður að losa um fjármagnshöft, sem hafa verið hér við lýði frá því síðla árs 2008, án þess að efnahagslegum stöðugleika verði ógnað. Með því mun uppgjör hrunsins ljúka að mestu á Íslandi.