"Jafngott að enginn lofaði að éta hattinn sinn." Þessi orð lét Lars Løkke Rasmussen formaður Venstre flokksins í Danmörku falla í viðtali við blaðamann Ekstra Blaðsins í gær. Þar vísaði Lars Løkke til þess að hans eigin flokkur og hinir flokkarnir sem hann hefur rætt við um stjórnarmyndun geti engan veginn staðið við kosningaloforðin ef takast á að mynda samsteypustjórn undir forystu Venstre.
Hún er óneitanlega einkennileg og snúin staðan í dönskum stjórnmálum eftir kosningarnar í síðustu viku. Lars Løkke Rasmussen, formaður flokksins sem tapaði flestum þingmönnum (13) og auk þess óvinsælasti flokksformaður landsins, hefur í tvígang fengið umboð til stjórnarmyndunar. Fyrst fékk hann umboð Margrétar Þórhildar drottningar til myndunar meirihlutastjórnar. Í slíkri meirihlutastjórn bláu blokkarinnar svonefndu hefðu átt sæti Danski Þjóðarflokkurinn (Dansk Folkeparti) Frjálsræðisbandalagið (Liberal Alliance) og Íhaldsflokkurinn (Det Konservative Folkeparti) auk Venstre flokksins sjálfs.
Það tók ekki langan tíma fyrir Lars Løkke að finna út að myndun slíkrar stjórnar tækist ekki. Til þess voru stefnumál og kosningaloforð flokkanna allt of ólík og Íhaldsflokkurinn, sem er minnsti flokkurinn á þinginu (með sex þingmenn, tapaði tveimur) treysti sér ekki til þátttöku í ríkisstjórn.
Opna umboðið
Þegar þetta lá fyrir fékk Lars Løkke nýtt umboð. Það er svokallað opið umboð sem ekki er bundið við myndun meirihlutastjórnar, en í Danmörku er löng hefð fyrir minnihlutastjórnum. Fyrsta verk Lars Løkke í þessari annarri umferð var að ræða við Kristian Thulesen Dahl formann Danska Þjóðarflokksins sem var ótvíræður sigurvegari kosninganna, bætti við sig 15 þingmönnum og er nú næst stærsti flokkurinn á þingi með 37 fulltrúa, þremur fleiri en Venstre. Saman hafa flokkarnir tveir 71 þingmann, vantar því 19 til að ná meirihluta.
Forystumenn Danska Þjóðarflokksins lýstu því reyndar margoft yfir í aðdraganda kosninganna að flokkurinn ætlaði sér ekki í ríkisstjórn. Formennirnir tveir, Lars Løkke og Kristian Thulesen ræddust lengi við í gær, þriðjudag, þótt heita ætti að hlé væri á stjórnarmyndunarviðræðum. Þær viðræður halda áfram í dag en fulltrúar Frjálsræðisbandalagsins og Íhaldsflokksins munu einnig hitta Lars Løkke.
Möguleikarnir
Lars Løkke hefur nokkra möguleika í stöðunni. Í fyrsta lagi stjórn Venstre án beinnar þátttöku annarra flokka. Í ljósi þess að Venstre hefur aðeins 34 þingmenn yrði sú stjórn algjörlega að reiða sig á stuðning annarra flokka til að koma málum í gegnum þingið. Áður en slík stjórn tæki við völdum yrði Lars Løkke að vera búinn að ganga frá ítarlegu samkomulagi við aðra flokka í bláu blokkinni. Vitað er að þeir flokkar selja sig dýrt.
Danski Þjóðarflokkurinn er, sökum þingstyrks síns, í sterkri aðstöðu til að gera kröfur. Stefna hans er um margt mjög ólík stefnu Venstre, það á við um afstöðuna og samstarfið innan Evrópusambandsins, landamæraeftirlit og vöxt í opinbera geiranum. Á þessum þremur sviðum er afstaða flokkanna tveggja mjög ólík og ljóst að mjög erfitt getur orði að ná samkomulagi sem báðir gætu sætt sig við. Þeir þingmenn Ventre sem styðja hugmyndina um eins flokks stjórn flokksins hafa efasemdir um að Danski Þjóðarflokkurinn sé í raun tilbúinn til stjórnarsetu, ekki síst með tilliti til yfirlýsinga Kristian Thulesen Dahl og annarra í flokksforystunni fyrir kosningar.
Formaður Danska þjóðarflokksins, Kristian Thulesen Dahl, nýtur mikilla persónulegra vinsælda og það er talið hafa vegið þungt í útkomu flokksins.
Venstre og Dansk Folkeparti
Slík stjórn hefði 71 þingmann og stæði þannig langtum traustari fótum en hrein Venstre stjórn. Lars Løkke hefur síðustu daga talað mikið um að virða vilja kjósenda. Margir túlka þau orð sem svo að hann sé tilbúinn að semja við Danska Þjóðarflokkinn um mörg mál. En líka hefur verið bent á að með þessum orðum sé hann að viðra möguleika á samstarfi yfir miðjuna eins og það er kallað. það er að segja samstarf um tiltekna málaflokka við Jafnaðarmannaflokkinn (Socialdemokraterne) sem eru stærsti flokkur landsins með 47 þingmenn. Slíkt samstarf væri líklega mun auðveldara með Danska Þjóðarflokkinn innan stjórnar.
Venstre og Frjálsræðisbandalagið
Möguleikarnar á myndun slíkrar stjórnar eru ekki taldir miklir en þó ekki algjörlega útilokaðir. Slík stjórn hefði samtals 47 þingmenn og yrði því að reiða sig á stuðning annarra flokka í hverju máli. Helstu baráttumál Frjálsræðisbandalagsins fyrir kosningar voru minni umsvif hins opinbera og skattalækkanir. Flokksforystan hefur sagt að þetta tvennt sé lykilatriði og ófrávíkjanleg krafa.
Margir tóku hinsvegar eftir því að Anders Samuelsen formaður flokksins sagði í sjónvarpsumræðum eftir kosningar að það væri ekki síður mikilvægt hvað fengist fyrir peningana í opinberum rekstri. "Ef meira fæst fyrir peningana er það auðvitað skattalækkun í sjálfu sér" sagði formaðurinn. Þetta töldu stjórnmálaskýrendur til marks um ákveðinn samningavilja.
Venstre, Danski Þjóðarflokkurinn og Frjálsræðisbandalagið
Stjórn þessara þriggja flokka verður að teljast fremur ólíkleg. Hún hefði 84 þingmenn og væri því á pappírnum sterkari en önnur stjórnarmynstur sem Lars Løkke hefur möguleika á. Stefnumið Danska Þjóðarflokksins og Frjálsræðisbandalagsins eru hinsvegar mjög ólík og því yrðu báðir að slá verulega af ætti slík stjórn að verða að veruleika.
Framhaldið
Ljóst er að Lars Løkke leggur höfuðáherslu á samstarf við Danska Þjóðarflokkinn. Þeir Kristian Thulesen Dahl halda viðræðum síum áfram en sá síðarnefndi er undir miklum þrýstingi frá kjósendum Danska Þjóðarflokksins sem vilja flokkinn í stjórn. Yfirlýsingar flokksforystunnar, fyrir kosningar, um að flokkurinn hafi meiri áhrif utan stjórnar en innan breyta engu þar um. Stjórnmálaskýrendur telja að stjórnarmyndunarviðræður geti tekið marga daga og kannski vikur.