Íslendingar hafa nú fengið tollfrjálsan aðgang að risavöxnum kínverskum markaði og geta verslað að vild tollfrjálst hinar ýmsu vörur, þar á meðal raftæki, fatnað og ýmislegt fleira. Þetta er ekki síst hægt í gegnum stórar vefverslanir, eins og Alibaba.com, sem hafa margvíslegar alþjóðlegar vörur til sölu á góðu verði. Fríverslunarsamningurinn tók gildi 1. júlí síðastliðinn en hann kveður á um niðurfellingu tolla á öllum helstu útflutningsafurðum Íslendinga, í flestum tilvikum frá upphafsdegi gildistöku samningsins. Það er að meðaltali um 10 til 20 prósenta lækkun á vörum frá því sem var fyrir gildistöku samningins á öllum vörum sem koma frá Kína og voru áður tollskyldar.
Allar sjávarafurðir verða tollfrjálsar, en algengir tollar á þeim eru á bilinu 10-12%. Tollar á fáeinum vörum falla niður í áföngum, á fimm eða tíu árum. Um 90% útflutnings til Kína eru sjávarafurðir. Líkt og í öðrum fríverslunarsamningum fellir Ísland niður tolla á öllum vörum, að undanskildum ákveðnum landbúnaðarafurðum. Um 70% af tollalínum í íslensku tollskránni bera nú þegar engan toll, samkvæmt upplýsingum frá tollstjóra.
Mikil tækifæri
Áhrif samningsins á neytendamarkað og hefðbundin dagleg viðskipti einstaklinga og minni fyrirtæki gætu orðið mikil ef Íslendingar nýta sér þau tækifæri sem í samningnum felast. Tollar falla niður á öllum helstu raftækjum, fatnaði og ýmsum öðrum vörum sem fólk kaupir dags daglega í búðum hér á landi. Í ljósi þess hvernig vefverslun hefur verið að þróast í Kína þá felur samningurinn í sér mikla opnun í vefverslun, ekki síst í gegnum vefverslanirnar á vefslóðunum Alibaba.com og Aliexpress.com, báðar undir sama hatti, en eitt mesta úrval sem fyrirfinnst á vefnum. Andrés Magnússon, framkvæmdastjóri Samtaka verslunar og þjónustu, segir samninginn vissulega opna stórar dyr fyrir einstaklinga og fyrirtæki hér á landi og að hann eigi, ef allt er eðlilegt, að leiða til þess að vöruverð lækki. „Við höfum verið að berjast fyrir því að vörugjöld séu einnig skoðuð sérstaklega, lækkuð og endurskoðuð. Efnahags- og fjármálaráðherra hefur sýnt áhuga á þessum málum og vonandi líður ekki langur tími þar til vörugjöldin hafa einnig verið lækkuð, til hagsbóta fyrir neytendur,“ segir Andrés.
Hann segir að erfitt sé að greina nákvæmlega hver áhrifin af samningnum við Kína verða, en óumdeilt sé að mikil tækifæri geti falist í honum fyrir íslenska neytendur. „Vonandi styrkir þessi samningur íslenskt atvinnulíf til framtíðar litið,“ segir Andrés. Dæmi um mikil áhrif samningins er að tollur á fatnað frá Kína, um 15 prósent, fellur niður. Þannig ætti verð á fatnaði að lækka hratt, með tilheyrandi áhrifum á vísitölu neysluverðs og þar með verðtryggðar skuldbindingar.
[embed]http://issuu.com/kjarninn/docs/2014_07_10/18[/embed]
Þetta er örstutt brot úr umfjöllun Kjarnans um breytingarnar á neytendamarkaði vegna fríverslunar við Kína. Lestu hana í heild sinni hér.