Himinn og haf ber á milli aðila vinnumarkaðarins, það er forystu verkalýðshreyfingarinnar og Samtaka atvinnulífsins, fyrir komandi kjarasamningsviðræður en 45 kjarasamningar launþega renna út um næstu mánaðarmót. Eins og greint hefur verið frá í fréttum Kjarnans undanfarnar vikur, er meiningarmunur þeirra sem aðild eiga að samningaviðræðunum, til þess hve mikið er hægt að hækka laun, eins og svart og hvítt. Samningar virðast víðsfjarri.
Verkalýðshreyfingin telur svigrúm vera fyrir 20 til 30 prósent hækkun launa, og þar einkum hjá þeim sem lægstu launin hafa, á meðan Samtök atvinnulífsins (SA) horfa til þess að hámarkslaunahækkun, að meðaltali, sé um 3,5 prósent. Hagkerfið ráði ekki við meiri hækkun en það, segja samtökin, og umfram hækkanir geti runnið beint út í verðlag og brennt upp kaupmátt allra. Hafa samtökin unnið sjálfstæðar úttektir og greiningar á stöðunni, meðal annars sviðsmyndagreiningar, þar sem rök eru færð fyrir því að lítið meira svigrúm en 3,5 prósent hækkun launa sé til hækkunar.
Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ, er einn þeirra sem áherslu hefur lagt á að lægstu laun verði lækkuð myndarlega í komandi kjarasamningum.
Hjá Starfsgreinasambandinu (SGS), sem fer með samningsumboð sextán aðildafélaga og ríflega tólf þúsund félagsmanna, horfir þetta þveröfugt við. Í kröfugerð sambandsins kemur fram að lægstu laun skuli hækkuð í 300 þúsund á þremur árum, en þau eru 214 þúsund nú. Þá þurfi enn fremur að ná fram verulegum launahækkunum hjá fólki í gjaldeyrisskapandi greinum. Samkvæmt heimildum Kjarnans, hefur mikil samstaða náðst meðal allra aðildarfélaga, um að knýja fram tugprósenta launahækkun lægstu launa.
Verkalýðshreyfingin horfir meðal annars til samnings íslenska ríkisins við lækna, en launa þeirra voru hækkuð með samningi við ríkið í janúar um rúmlega tuttugu prósent. Það sama má segja um Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga, en þar á bæ eru uppi kröfur um svipaðar hækkanir og læknar fengu í sínum samningi, eða 20 til 25 prósent. Ólafur G. Skúlason, formaður Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga, segir að stétt hjúkrunarfræðinga verði að fá „leiðréttingu“ á launum sínum til jafns við aðrar háskólamenntaðar stéttir hjá hinu opinbera, og þá sé samningurinn við lækna einnig eðlilegt viðmið í viðræðum við hjúkrunarfræðinga.
Þorsteinn Víglundsson, framkvæmdastjóri SA, segir ekki vera svigrúm til meiri launahækkana en hagkerfið ráði við, sem sé í kringum 3,5 prósent hækkun. Annars geri verðbólgudraugurinn vart við sig og éti upp kaupmátt allra.
Nú þegar hefur verið horft til þess að ríkissáttasemjari komi að málum og aðstoði við að leysa úr ágreiningi og ná fram samningi, en samninganefnd SGS veitti samningaráði SGS umboð til þess að vísa deilunni við SA til ríkissáttasemja 29. janúar síðastliðinn. Fátt bendir til annars en að víðtækt samráð stjórnvalda og aðila vinnumarkaðarins, í anda Þjóðarsáttarsamningana svokölluðu árið 1990, muni þurfa til þess að leysa úr þeirri stöðu sem upp er komin.