Lars Løkke er tvímælalaust meðal þekktustu stjórnmálamanna í Danmörku á síðari árum. Hann er 57 ára og hefur setið á þingi í 26 ár. Hann tók við sem forsætisráðherra og formaður í Venstre árið 2009, þá voru tvö ár eftir af kjörtímabilinu en eftir kosningar 2011 tók stjórn undir forystu Helle Thorning- Schmidt við völdum.
Lökke, eins og hann er oftast kallaður til aðgreiningar frá tveimur forverum sínum á stóli forsætisráðherra, settist aftur í forsætisráðuneytið eftir kosningar árið 2015 og sat fram að kosningum 2019. Fylgishrun Danska Þjóðarflokksins, sem stutt hafði stjórn Venstre, olli því að Lars Løkke missti lyklavöldin í forsætisráðuneytinu til Mette Frederiksen og jafnaðarmanna.
Viðraði nýjar hugmyndir
Í aðdraganda kosninganna 2019 nefndi Lars Løkke í viðtölum að kannski væri kominn tími til að hugsa dönsk stjórnmál upp á nýtt. Brjóta upp blokkaskiptinguna svonefndu. Danska þingið, Folketinget skiptist í tvær blokkir, bláa og rauða. Þeirri bláu tilheyra hægri flokkarnir svonefndu en vinstri flokkarnir þeirri rauðu. Utan þessara blokka hefur Danski Þjóðarflokkurinn staðið en hann hafði lengi stutt ríkisstjórnir bláu blokkarinnar.
Hugmyndir Lars Løkke um brjóta upp blokkaskiptinguna, vinna yfir miðjuna eins og hann komst að orði, féllu í grýttan jarðveg hjá mörgum flokksmönnum Venstre. Í viðtali við dagblaðið Berlingske 7. ágúst 2019 vísaði Kristian Jensen varaformaður Venstre hugmyndum Lars Løkke á bug. Danskir stjórnmálaskýrendur sögðu augljóst að einhverskonar uppgjör væri í vændum í Venstre. Þeir reyndust sannspáir.
Átakafundur, afsögn formanns og varaformanns
Á miklum átakafundi Venstre í lok ágúst 2019 var ákveðið að boða til landsfundar þrem vikum síðar, 21. september, og þar yrði eitt mál á dagskrá: kosning formanns og varaformanns. Lars Løkke fór fram á að flytja landsfundinum skýrslu um formannsstörf sín, en þeirri kröfu var hafnað. Lars Løkke fann að allur vindur var úr formannsseglum hans, tilkynnti afsögn sína, gekk á dyr bakdyramegin, og var á bak og burt áður en fundarmenn höfðu áttað sig. Nokkrum mínútum síðar tilkynnti Kristian Jensen varaformaður um afsögn sína, með grátstafinn í kverkunum.
Landsfundur Venstre fór fram 21. september 2019, eins og ákveðið hafði verið, þar var Jakob Ellemann-Jensen kosinn formaður og Inger Støjberg varaformaður. Hún er mjög umdeild og sagði síðar af sér varaformennsku og enn síðar skilið við Venstre. Það gerðist eftir að þingmenn samþykktu að henni skyldi stefnt fyrir Landsdóm vegna ákvarðana og fyrirskipana hennar í málefnum innflytjenda, meðan hún gegndi embætti ráðherra innflytjendamála. Þau málaferli standa nú yfir en ekki verður nánar um þau fjallað hér.
Ætlaði sér greinilega að halda áfram í stjórnmálum
Um mánaðamótin ágúst september 2020 sendi Lars Løkke frá sér bókina „Om de fleste og det meste“. Þar fór hann yfir atburðarásina sem leiddi til afsagnar hans sem formanns Venstre en gagnrýnendur sögðu frásögnina nokkuð einhliða og höfund sleppa mörgu um eigin „kafbátahernað“ eins og einn orðaði það.
Í bókinni gefur Lars Løkke til kynna, án þess þó að segja berum orðum, að hann velti fyrir sér að snúa aftur í framlínu stjórnmálanna. Þegar bókin kom út var Lars Løkke enn þingmaður Venstre en í byrjun þessa árs sagði hann skilið við flokkinn, varð þingmaður utan flokka, løsgænger. Hann tilkynnti við það tækifæri stofnun nýrrar stjórnmálahreyfingar „Det politiske mødested“. Dönsku fjölmiðlarnir kölluðu það biðleik, Lars Løkke væri að kanna jarðveginn fyrir nýjan flokk. Sem reyndist rétt.
Moderaterne
Í apríl tilkynnti Lars Løkke að hann hefði stofnað nýjan flokk, Moderaterne. Tilkynningin um stofnun flokksins birtist fyrst í innsendri grein í dagblaðinu B.T. Í greininni sagði Lars Løkke að nýi flokkurinn myndi staðsetja sig á miðju stjórnmálanna, sama hugmyndin og hann hafði áður lýst. Í greininni nefndi hann nokkur helstu áhersluatriði nýja flokksins þar á meðal lægri skatta á atvinnulífið, breytingar á námsstyrkjakerfinu, aukna styrki til vísindarannsókna. „Skynsemi og kredduleysi mun einkenna okkar störf,“ sagði Lars Løkke.
Stjórnmálaskýrendur dönsku fjölmiðlanna sögðu flokksstofnunina tíðindi í dönskum stjórnmálum og töldu lítinn vafa á að klækjarefurinn Lars Løkke (orðalag Politiken) myndi draga að sér fylgi. Enginn vafi léki á að hann ætti sér fjölmarga fylgismenn. Jafnframt bentu stjórnmálaskýrendur á að Venstre, gamli flokkur Lars Løkke ætti í miklum erfiðleikum, fylgið hafði hrunið og Jakob Ellemann-Jensen ætti erfitt með að finna taktinn, eins og það var orðað.
Margt Venstrefolk undrandi
Árlegur landsfundur Venstre fór fram helgina 9-10. september sl. Formaðurinn Jakob Ellemann-Jensen fór yfir stöðuna í flokknum og sagði brýnt að félagar í flokknum standi saman, erfiðleikatímabil, bæði í flokknum og landsmálunum væri að baki og horfa yrði fram á við. Þótt málefni Lars Løkke og nýja flokksins væru ekki á dagskrá fundarins voru þau mál heilmikið rædd, utan dagskrár. Meðal þeirra sem hafa lýst mikilli undrun og óánægju með þá ákvörðun Lars Løkke að snúa baki við flokknum er Anders Fogh Rasmussen fyrrverandi formaður Venstre og forsætisráðherra. Sagðist hann telja að það hefði þjónað flokknum, og Lars Løkke, best að hann hefði verið áfram í flokknum. Bertel Haarder fyrrverandi ráðherra og áhrifamaður í Venstre í áratugi hefur talað á sömu nótum og ennfremur Claus Hjort Frederiksen, sem var ráðherra í stjórn Lars Løkke og hans helsti ráðgjafi.
Ný skoðanakönnun er byr í seglin hjá Moderaterne
Í nýrri Gallup könnun meðal danskra kjósenda myndu Moderaterne fá 3,5% atkvæða og sex þingmenn ef kosið væri í dag. Það sem vakti sérstaka athygli stjórnmálaskýrenda var sú staðreynd að tæpur helmingur þeirra sem studdu Moderaterne í þessari könnun var fólk sem studdi Venstre í kosningunum 2019. Þetta segja stjórnmálaskýrendur ekki góð skilaboð til forystu Venstre. Kasper Møller Hansen prófessor í stjórnmálafræði við Hafnarháskóla segir könnunina vísbendingu um að það verði atkvæðin á miðjunni sem ráði úrslitum í næstu kosningum. „Klækjarefurinn Lars Løkke gæti því hugsanlega ráðið því hver verði næsti forsætisráðherra Dana. Sú tilhugsun veldur gæsahúð hjá Venstre fólki.“
Rétt er að geta þess varðandi könnun Gallup að samkvæmt henni hefur ríkisstjórn Mette Frederiksen, og stuðningsflokkar hennar, tryggan meirihluta á þinginu. Næstu þingkosningar í Danmörku fara fram árið 2023.