Þegar rúm klukkustund var liðin af 19. júní tilkynnti Helle Thorning-Schmidt formaður danskra jafnaðarmanna, og forsætisráðherra Danmerkur frá 2011, afsögn sína. Rúmlega tíu ára flokksformennska og tæplega fjögurra ára seta sem forsætisráðherra var á enda. Hún hefur lengst af mátt sæta mikilli gagnrýni, ekki síður innan raða eigin flokksmanna en andstæðinganna. Kannski ekki síst vegna þess að hún er kona, fyrsta konan sem gegnt hefur embætti forsætisráðherra Danmerkur.
Helle Thorning-Schmidt er fædd 14. desember 1966 í Ishøj, vestan við Kaupmannahöfn. Ishöj hefur á síðari árum orðið eins konar samnefnari eins helsta deiluefnis Dana. Þess sem nefnt er innflytjendavandinn. Þegar Helle Thorning var að alast upp var Ishøj lítið og fámennt samfélag sem fáir þekktu. Skólaganga hennar var með hefðbundum hætti og hún varð stúdent frá menntaskólanum í Íshöj árið 1985. Þaðan lá leiðin í Hafnarháskóla. Stjórnmálafræði varð fyrir valinu. Krókurinn hafði snemma beygst í þá átt og á menntaskólaárunum tók Helle Thorning virkan þátt í stúdentapólitíkinni en ekki í flokki jafnaðarmanna. Frá Hafnarháskóla útskrifaðist hún 1994 en hafði í millitíðinni (1992 -1993) verið í námi við Evrópuháskólann í Bruges (Brugge) í Belgíu. Dvölin reyndist afdrifarík því þar kynntist hún ungum manni frá Wales, Stephen Kinnock. Stephen þessi er sonur Neil Kinnock fyrrverandi formanns breska Verkamannaflokksins og Glenys Kinnock, fyrrverandi þingmanns á Evrópuþinginu. Helle Thorning og Stepen gengu í hjónaband árið 1996 og eiga tvær dætur. Árið 1993 gekk Helle Thorning í Danska jafnaðarmannaflokkinn og ári síðar varð hún yfirmaður skrifstofu jafnaðarmanna hjá Evrópuþinginu og gegndi því starfi um þriggja ára skeið. Á tímabilinu1997 -1999 var hún ráðgjafi hjá Danska Alþýðusambandinu (LO).
Evrópuþingið og „Gucci Helle“
Árið 1999 bauð Helle Thorning-Schmidt sig fram til Evrópuþingsins. Hún hafnaði í þriðja sæti á lista jafnaðarmanna en það dugði til að ná kjöri. Aðalstarf hennar tengdist stjórnarskrá Evrópusambandsins. Kjörtímabil Evrópuþingsins er fimm ár og Helle Thorning bauð sig ekki fram árið 2004.
Það var á meðan hún sat á Evrópuþinginu sem Freddy Blak Evrópuþingmaður danskra jafnaðarmanna og samstarfsmaður Helle Thorning kallaði hana Gucci Helle. Taska sem Helle Thorning notaði gjarna á þessum árum var frá þessu þekkta ítalska tískufyrirtæki. Freddy Blak (lærður skipasmiður) sagði síðar að þetta hefði einungis verið sagt í gríni en ekki voru allir jafn vissir um það. Freddy Blak sagði í viðtali fyrir nokkru að hann hefði betur sleppt því að láta þessi orð falla, sér hefði aldrei dottið í hug að þau myndu festast við Helle Thorning. Fremur stirt var milli þeirra tveggja á þessum árum í Brussel en Freddy Blak hefur oft sagt frá því að Helle Thorning hafi þrátt fyrir það reynst sér mjög vel.
Viðurnefnið Gucci Helle festist hinsvegar við Helle Thorning og þótt fæstir Danir taki sér það í munn núorðið mátti víða sjá það í erlendum fjölmiðlum þegar hún varð forsætisráðherra eftir kosningarnar árið 2011.
Þingmennska og formennska
Hugur Helle Thorning beindist að þingmennsku í heimalandinu. Undirbúning að framboði sínu hóf hún í Brussel og var kjörin á þing í kosningum sem fram fóru í febrúar 2005. Jafnaðarmönnum tókst ekki að velta stjórn Anders Fogh Rasmussen úr sessi og nokkrum dögum eftir kosningarnar tilkynnti Mogens Lykketoft formaður flokks jafnaðarmanna afsögn sína. Innan flokksins börðust þrjár fylkingar um formennskuna og á endanum urðu formannsframbjóðendurnir tveir, Helle Thorning-Schmidt og Frank Jensen. Hún naut stuðnings Nyrups armsins svonefnda í flokknum (kenndur við Poul Nyrup Rasmussen, miðjufólk) en Frank Jensen, fyrrverandi þingmaður og ráðherra, naut stuðnings þeirra sem stóðu lengra til vinstri í flokknum. Formannskjörið fór fram 12. apríl 2005 og Helle Thorning hlaut 53,2 % atkvæða en Frank Jensen 46,8 %. Frank Jensen sem er yfirborgarstjóri Kaupmannahafnar var kjörinn varaformaður flokksins árið 2010 og gegnir því embætti enn í dag. Helle Thorning-Schmidt var sem sé orðinn formaður jafnaðarmanna en jafnframt nýliði á þingi.
Ég get sigrað Anders Fogh
Einkunnarorð hennar í formannsbaráttunni 2005 voru „ég get sigrað Anders Fogh“. Það tókst hinsvegar ekki í kosningunum 2007 en 15. september 2011 féll stjórnin sem setið hafði frá 2001 undir forystu Venstre. Lars Løkke Rasmussen hafði tekið við forsætisráðherrembættinu af Anders Fogh árið 2009, á miðju kjörtímabili.
Stjórnarforystan ekki dans á rósum
Ríkisstjórn Helle Thorning-Schmidt átti ekki náðuga daga. Meirihlutinn var afar naumur og stjórnin sem samanstóð af Radikale Venstre og Sósíalíska Þjóðarflokknum (SF) var ekki ætíð samstíga. Margrethe Vestager formaður Radikale Venstre naut mikillar hylli meðal kjósenda og fjölmiðlar töluðu stundum um að Helle Thorning væri forsætisráðherra í stjórn Margrethe Vestager. Breytingar á stjórninni voru tíðar og það var næsta kunnugleg sjón í sjónvarpsfréttum að forsætisráðherrann kynnti breytingar á ríkisstjórninni fyrir framan Kristjánsborgarhöll.
Stærsta breytingin varð í janúar þegar Sósíalíski Þjóðarflokkurinn dró sig út úr stjórninni í mótmælaskyni við sölu á hluta DONG orkufyrirtækisins til bandaríska fjárfestingabankans Goldman Sachs. Flokkurinn studdi þó áfram stjórnina. Margrethe Vestager hætti þátttöku í dönskum stjórnmálum í ágúst á síðasta ári. Brotthvarf hennar styrkti Helle Thorning sem nú var óumdeildur leiðtogi stjórnarinnar.
Helle þótti vaxa í starfi sem forsætisráðherra. Mynd: EPA.
Skattamálið
Það sem nefnt hefur verið Skattamálið hófst 23. júní árið 2010. Þá birti dagblaðið BT grein þar sem fram kom að Stepen Kinnock greiddi ekki skatt í Danmörku, þar sem hann var skráður til heimilis, heldur í Sviss þar sem hann starfaði. Í greininni er ýjað að því að Kinnock eigi að borga skatt í Danmörku, hann dvelji lengri tíma árlega í Danmörku en í Sviss og þess vegna beri honum að borga skatt í Danmörku. Skattar í Sviss eru lægri en í Danmörku og þarna sé einfaldlega ekki fylgt lögum. Blaðið fjallaði um þetta mál dögum saman og stuðningsmenn Helle Thorning héldu því fram að tímasetningin á þessari umfjöllun væri ekki tilviljun. Kosningar nálguðust og umfjöllun BT væri ætlað að koma höggi á Helle Thorning og flokk hennar, sem var á þessum tíma í stjórnarandstöðu.
Hinn 16. september 2010 tilkynnti Skatturinn að Stephen Kinnock hefði ekki óhreint mjöl í pokahorninu, skattskyldan væri í Sviss.
Hinn 8. september 2011, viku fyrir þingkosningar birti dagblaðið BT niðurstöðu Skattsins. Nú hófst mikil leit að „uppljóstraranum“ sem sé þeim sem lekið hafði gögnum Skattsins til BT. Rannsóknarnefnd var skipuð, fjöldi fólks var yfirheyrður, þar meðal ráðuneytisstjórar, þingmenn, ráðherrar og yfirmenn hjá Skattinum, en aldrei tókst að finna út hver „uppljóstrarinn“ var. Á þessu gekk allt þangað til í nóvember á síðasta ári en þá lagði Mette Frederiksen dómsmálaráðherra fram niðurstöður rannsóknarnefndarinnar sem ekki hafði tekist að upplýsa málið. Ráðuneytisstjórinn í Skattaráðuneytinu var látinn taka pokann sinn og einn af yfirmönnum Skattsins fór sömu leið. Troels Lund Poulsen sem var skattamálaráðherra þegar málið kom upp, fékk áminningu (svokallað næse) í þinginu þótt ekki tækist beinlínis að bendla hann við lekann. Hann hafði við yfirheyrslur játað að hafa borið kviksögur um að Stephen Kinnock væri samkynhneigður. Helle Thorning hefur aldrei tjáð sig um skattamálið.
Blómstraði of seint
Undanfarna daga hafa danskir fjölmiðlar fjallað ítarlega um Helle Thorning- Schmidt, sem varð fyrst danskra kvenna til að gegna embætti forsætisráðherra. Álit þeirra er að hún hafi að undanförnu vaxið mjög í starfi. Framkoma hennar einkennist af öryggi og hún sé full sjálfstrausts. Hún þótti ekki síst sýna það og sanna þegar hryðjuverkin voru framin í Kaupmannahöfn í febrúar sl. Þrátt fyrir erfið ár á Kristjánsborg hafi henni tekist að halda bæði stjórninni og flokknum saman. Það hafi ekki verið auðvelt verk. Einróma niðurstaða stjórnmálaskýrenda stærstu dagblaðanna er að Helle Thorning-Schmidt hafi blómstrað að undanförnu en það blómaskeið hafi einfaldlega komið of seint til að skila sér að fullu í nýafstöðnum kosningum.
Enginn veit hvað Helle Thorning-Schmidt ætlast fyrir. Hún ætlar að vera þingmaður, að minnsta kosti fyrst um sinn sagði hún fréttamönnum í dag. Hún var í einu blaðanna spurð hvort hún hyggðist flytja til Bretlands en eiginmaður hennar var nýlega kjörinn þingmaður fyrir Wales. Hún svaraði ekki spurningunni en sagði að þótt það væri kannski náðugra líf að vera þingmannsfrú í Bretlandi væri hún ekki viss um að það hentaði sér.