„Karlmenn eru sekir um það að þeim líður voða vel að hringja í einhvern Sigga vin sinn, því að þeir treysta honum og þeir skilja hvernig hann hugsar og finnst hann svo voða útreiknanlegur og svo fá þeir klapp á bakið frá hinum félögunum … þú veist svona við Pallarnir stöndum saman … því fleiri skipti sem þú getur greitt götu vina þinna, því stærri karl ertu.“
Þetta er á meðal þess sem stjórnarkona í skráðu félagi á Íslandi sagði í viðtali við rannsakendur sem vildu kanna reynslu 22 slikra kvenna af forystuhæfni, tengslaneti og stuðningi við konur til að gegna forstjórastöðu. Niðurstaða rannsóknarinnar, sem kynnt var í grein í nýjasta hefti Tímarits um viðskipti og efnahagsmál, var að konur séu hæfar til að gegna forstjórastöðum í skráðum fyrirtækjum, en þegar kemur til ráðninga forstjóra skráðra félaga eru þær þó ekki ráðnar til starfanna þar sem áhrif karla, tengslanet og íhaldssamar staðalímyndir af forystuhæfni kvenna og árangursríkri forystu virðast ráða ákvörðunum. Þar með aukast líkur á því að horft sé fram hjá hæfum konum við forstjóraval.
Greinina skrifuðu Ásta Dís Óladóttir, dósent við Viðskiptafræðideild Háskóla Íslands, Sigrún Gunnarsdóttir, prófessor við Viðskiptafræðideild Háskóla Íslands, Þóra H. Christiansen, aðjúnkt við Viðskiptafræðideild Háskóla Íslands, og Erla S. Kristjánsdóttir, prófessor við Viðskiptafræðideild Háskóla Íslands.
Kjarninn greindi fyrst frá helstu niðurstöðum á mánudag.
„Ég þekki hann og hann er rosa fínn“
Rannsóknin fór þannig fram að notast var við ítarspurningar til að fá greinargóðar lýsingar og reynslusögur um upplifun og reynslu kvennanna 22. Viðtölin fóru fram 15. júní til 6. júlí 2020, í gegnum Microsoft Teams, tóku 60 til 130 mínútur, voru hljóðrituð, rituð frá orði til orðs, geymd í læstum tölvum rannsakenda og eytt að úrvinnslu lokinni. Viðmælendum voru gefin gervinöfn til að tryggja nafnleynd þeirra.
Í svörum kvennanna er meðal annars tala um persónuleg tengsl milli karla, sem virðast hafa meiri áhrif en fagleg umræða: Ein þeirra sagði: „Ég átti von á miklu faglegri umræðu og svoleiðis en þetta er svolítið svona íslenska leiðin, þú vilt kunna vel við fólk, helst þekkja það eða þekkja vel til þess áður en þú tekur svona ákvarðanir. … þá eiga karlarnir, virðist vera, meiri sjéns því að þeir eru oftast í meirihluta í stjórnunum og þeir eru með reynslu sem að konurnar eru ekki með og þeir eru með tengsl við hina karlana. ... þá ertu svolítið búin að taka þetta úr svona einhverju faglegu ferli yfir í bara, ég þekki hann og hann er rosa fínn.“
Konurnar tala um það í viðtölunum að það sé mikilvægt að konur nýti stuðning í gegnum tengslanet sín til að ná framgangi. Karlarnir hafi þó einfaldlega nýtt sín net miklu lengur. Ein konan lýsti þessu svona: „Maður er með svona sitt network, jafningja network sem maður reynir bara að styðja við svona faglega, kannski hvor aðra og þetta er eitthvað sem að karlarnir hafa áttað sig á í gegnum tíðina.“
Konurnar töluðu líka um mun á áherslum karla og kvenna í sambandi við tengslamyndun og ein þeirra sagði að áherslur karla henti ekki alltaf konum: „Strákarnir eru rosa öflugir í því en við erum ekki, við nennum ekkert að fara alltaf í bjór eftir vinnu … við viljum bara frekar fara heim til barnanna okkar”. Dröfn talar líka um þennan mun á áherslum sem hún telur að gæti tengst gildismati: Ég held að konur til dæmis eru ekki stundum nógu duglegar að … búa til tengslanetin … við erum að nýta bara tímann í annað. Og svo má má líka alveg velta fyrir sér … er ekki bara hins vegar kominn tími á að annað gildismat yfirhöfuð? Þarna erum við að reyna að aðlaga konur að gildismati karla. Er það endilega svo frábært að við þurfum að aðlaga okkur að því?“
„Því fleiri skipti sem þú getur greitt götu vina þinna, því stærri karl ertu“
Í greininni er líka greint frá því að tengsl milli kvenna geti skipt miklu máli fyrir framgang í æðstu stjórnunarstöðu. Einn viðmælandinn sagði að konur tali vel um hvora aðra, hrósi og sé til staðar. „Þetta „women‘s network“ er að byrja, þær eru að hjálpa hvor annarri orðið”.
Önnur tók í sama streng og sagði að tengslanet kvenna væri orðið virkara og að konur væri líka virkari í tengslanetum karla. „Maður sér núna, bæði eru konur að standa mikið betur, þéttar saman, það eru fleiri netverk fyrir konur og konur eru meira inn í netverkum karla”.
Níu af hverjum tíu forstjórum karlar
Kjarninn hefur árum saman fjallað ítarlega um stöðu kvenna í þeim geirum sem stýra fjármagni á Íslandi. í þau níu ár sem hann hefur framkvæmt úttekt á kynjahlutföllum þeirra sem stýra þúsundum milljarða króna í ýmis fjárfestingaverkefni hérlendis hefur niðurstaðan verið svipuð, karlar eru allt um lykjandi. Í úttektinni í ár, sem birt var seint í maí, kom fram að karlarnir væru 91 en konurnar 13.
Í september 2022 gerðist það svo að fyrsta konan var ráðin forstjóri í þegar skráðu félagi frá því að íslenskur hlutabréfamarkaður var endurreistur eftir bankahrunið. Þá var greint frá því að Ásta Sigríður Fjeldsted var ráðin forstjóri Festi. Á tveimur og hálfum mánuði fjölgaði konunum sem gegna forstjórastöðu í Kauphöll Íslands því úr einni í þrjár. Hinum 27 félögunum sem skráð eru á Aðalmarkað og First North markaðinn er þó stýrt af körlum. Því eru 90 prósent allra forstjóra í skráðum félögum karlar.
Markmið kynjakvótalaga aldrei náðst
Lög um kynjakvóta í stjórnum fyrirtækja á Íslandi voru samþykkt árið 2010. Þau tóku að fullu gildi í september 2013. Lögin segja að fyrirtækjum sem eru með 50 eða fleiri starfsmenn þurfi að tryggja að hlutfall hvors kyns sé ekki undir 40 prósentum. Markmiðið með lagasetningunni var að „stuðla að jafnari hlutföllum kvenna og karla í áhrifastöðum í hlutafélögum og einkahlutafélögum með auknu gagnsæi og greiðari aðgangi að upplýsingum.“
Von þeirra sem samþykktu frumvarpið – 32 þingmenn úr öllum flokkum nema Sjálfstæðisflokknum sem áttu þá sæti á þingi – var að fleiri konur í stjórnum myndi leiða til þess að fleiri konur yrðu ráðnar í stjórnunarstöður og það myndi fjölga tækifærum kvenna.
Hagstofa Íslands tekur árlega saman tölur um hversu margar konur sitji í stjórnum fyrirtækja. Stofnunin birti nýjustu tölur sínar, sem sýna stöðuna í lok 2021, á þriðjudag í síðustu viku. Þar kom fram að rúmlega fjórðungur, 27 prósent, allra stjórnarmanna í íslenskum fyrirtækjum væru konur. Það hlutfall var 24 prósent árið 2010.
Í fyrirtækjum með fleiri en 50 launþega var hlutfall kvenna í stjórnum 19,5 prósent árið 2010. Árið sem lögin tóku gildi var hlutfallið orðið 30,2 prósent. Frá þeim tíma hefur lítið gerst. Hlutfallið var 34,7 prósent í fyrra.
Hlutfall kvenna í stöðu framkvæmdastjóra hækkaði lítillega á milli ára og var 23,9 prósent en hlutfall kvenna í stöðu stjórnarformanna var 24,7 prósent í lok árs 2021.